04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

33. mál, vegalög

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. 9. landsk. þm. er eðlileg. Því miður vannst okkur flm. ekki tími til að gera skýrslu um þetta. Við höfðum ekki nægileg gögn í höndum, og það var einmitt það, sem ég hafði hugsað mér í upphafi, að reyna að fá þessar vegalengdir nokkurn veginn í tölum. En þar sem ég leit svo á, að þetta væri ekki nauðsynlegt við 1. umr. og þetta mundi verða athugað vandlega í n. og fengin yrði umsögn vegamálastjóra og máske fleiri, t.d. þeirra, sem haft hafa með vegagerðirnar að gera í hinum einstöku byggðarlögum, þá treystum við okkur ekki til að gera þessa skýrslu á þessu stigi málsins það skýra, að hægt væri að leggja hana fram. En ég vænti þess, að málið verði athugað í n. og að þessi skýrsla geti þá komið fram.