07.04.1960
Efri deild: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

45. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Með frv. þessu á þskj. 78 er farið fram á lítils háttar breyt. á 1. mgr. 10. gr. sjúkrahúsalaga, en sú mgr. hljóðar svo: „Ríkissjóður greiðir bæjarfélögum, sem hafa 3000 íbúa eða fleiri, allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði, sem reistir verða samkvæmt ákvæðum laga þessara, enda fallist ráðh. á þörf þeirra framkvæmda og meti þær við hæfi.“ Í frv. er gert ráð fyrir, að við upptalninguna „almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði“ bætist elliheimili, og um aðra breyt. er ekki að ræða.

Elliheimili eru og eiga fyrst og fremst að vera stofnanir handa lasburða gamalmennum, sem eru orðin ósjálfbjarga og eiga ekki lengur athvarf í heimahúsum. Þannig eru elliheimilin í reynd hjúkrunarheimili þeim, sem meira eða minna þjást af ellisjúkdómum og ekki fá samastað annars staðar. Bæði sjúkrahús og elliheimili eru óhjákvæmilegar stofnanir, og það bæri vott um mikla vanhugsun að segja, að önnur tegund þessara stofnana væri nauðsynlegri en hin almennt talað. Ríkissjóður hleypur undir bagga með sveitarfélögunum að byggja sjúkrahús og læknisbústaði. Sé ástæða til þess, og um það mun varla nokkur efast, þá er jafnrík ástæða til að aðstoða sveitarfélögin við byggingu hjúkrunar- og elliheimila, eða sú er mín skoðun a.m.k. Sveitarfélög hafa, eins og kunnugt er, mjög takmarkaða tekjustofna, og því þykir hlýða, að ríkissjóður hjálpi þeim, þegar þau þurfa að koma upp sjúkrahúsum. Sama má og á að gilda um hjúkrunar- og elliheimili, enda sú reyndin á, að elliheimili verða fyrst og fremst dvalarstaður sjúkra gamalmenna.

Síðustu árin hefur þeirrar stefnu líka orðið vart hér á landi að hafa almenn sjúkrahús og elliheimili undir sama þaki. Án þess að dæma um, hversu heppilegt það er, má þó benda á, að rekstrarlega kann sú tilhögun að hafa sína kosti á vissum stöðum, enda margt sameiginlegt í þeim rekstri, svo sem læknisþjónusta og hjúkrun. Hafa þegar ein eða fleiri stofnanir verið reistar í landinu, stofnanir, sem eru í senn almenn sjúkrahús og elliheimili, og ein mun nú vera í smíðum. Þessar byggingar eru reistar með styrk úr ríkissjóði samkv. 10. gr. sjúkrahúsalaganna.

Mér finnst liggja mjög nærri að láta ákvæði þessarar greinar einnig ná til elliheimila almennt, og sýnist mér ekkert mæla því í mót. Ég tel sjúkrahús nauðsynleg, og á sama hátt tel ég elliheimili nauðsynleg. Báðar tegundir stofnana eru ætlaðar fólki, sem misst hefur heilsuna, og ég geri ekki upp á milli þess, hvort það fólk er ungt eða gamalt. Skilningur á veikindum ungs fólks og miðaldra er sem betur fer vakandi hér á landi, og eins á að vera, þótt um gamalt fólk sé að ræða.

Heilbr.- og félmn. sendi landlækni þetta frv. að sjálfsögðu til umsagnar. Umsögn barst frá landlækni, og í henni ræðir hann um þörfina á að vista sjúk gamalmenni í sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum og í öðru lagi um vistun einstæðra og tiltölulega hraustra gamalmenna á elliheimilum. Til þessa hafi hlutverk elliheimila hér á landi ekki verið skýrt markað, segir landlæknir, og flest verið hvort tveggja í senn dvalarstaðir handa sjúklingum og þeim einstæðingum, sem þangað hafa orðið að leita af félagslegum ástæðum. Þróunin sé þó í þá átt að gera hér mun á, vista sjúk gamalmenni á hjúkrunardeildum og hress gamalmenni á elliheimilum. Þá vekur landlæknir athygli á því, að nú séu allmörg sjúkrahús í byggingu og fjárveiting til þeirra sé allt of lág miðað við þörfina, einnig vanti fjárframlag með öllu til hjúkrunarkvennaskólans. Og að lokum segir landlæknir svo orðrétt :

„En svo að horfið sé aftur að frv. því, er hér liggur fyrir, tel ég eðlilegt, að ríkissjóður styrki á sama hátt og sjúkrahús og læknisbústaði hjúkrunarheimili eða deildir, sem vista sjúk og örvasa gamalmenni. En meðan fjárframlög ríkisins ná eigi lengra en raun er á til þess að uppfylla þegar samþykktar og áætlaðar framkvæmdir, sé ég mér eigi fært að mæla með því, að sams konar styrkur sé tekinn upp og veittur til þess að reisa almenn elliheimili, og þó að nefna megi eitthvert dæmi þess, að fá gamalmenni dveljist í einhverri þeirra stofnana, sem á undanförnum árum hafa verið reistar með ríkisstyrk, án þess að vera sjúk eða lasburða, vil ég eindregið vara við því að nota slíkt sem rök fyrir því að taka upp almenna fjárveitingu í þessu skyni og tefja þannig aðrar enn nauðsynlegri framkvæmdir. Af ofangreindum ástæðum sé ég mér eigi fært að mæla með frv. því, sem hér liggur fyrir.“

Samkv. þessu er það ráð landlæknis, að úr ríkissjóði sé veitt fé til þess að reisa sjúkrahús og hjúkrunarheimili handa sjúkum gamalmennum, en ekki handa þeim, sem eingöngu þarf að vista af félagslegum ástæðum. Ég tel ekki fráleitt að gera þennan greinarmun á pappírnum og enda ekki óframkvæmanlegt heldur í stórum sveitarfélögum, eins og t.d. Reykjavík. Annars staðar á þetta langt í land. Þar verða að dveljast undir sama þaki gamalmenni, hvort heldur er vegna krankleika eða einstæðingsskapar. Lítil sveitarfélög hafa ekki tök á að reisa nema eitt elliheimili, og þar verður að vista þá, sem nauðsyn ber til að vista yfirleitt. Hitt er svo annað, að á elliheimili á engan að setja, nema brýn nauðsyn krefji, og gildir þar hið sama um elliheimili og sjúkrahús að þessu leyti. Það er einnig hverju orði sannara hjá landlækni, að fjárveiting til byggingar heilbrigðisstofnana þarf að aukast. En það er mál fyrir sig. Hverja tegund þeirra byggja skuli á hverjum tíma, fer eftir mati heilbrigðisyfirvalda. Samkv. 10. gr. sjúkrahúsalaga er það á valdi ráðh. að ákveða, hverra stofnana sé mest þörf hverju sinni og á hverjum stað, og veita fé í samræmi við þá þörf. Þótt elliheimili nytu sama réttar í þessu efni og sjúkrahús, sjúkraskýli og læknishús, þá fer það eftir mati á þörf, hvenær og hve mikils styrks þau nytu, og þar yrði einmitt landlæknir æðsti ráðunauturinn.

Heilbr.- og félmn. hefur að athuguðu máli talið rétt að mæla með því, að þetta frv. verði samþykkt. Þörf sveitarfélaganna er sú sama, hvort sem reist er sjúkrahús eða elliheimili. Á elliheimilum dvelst að mestu leyti sjúkt fólk og farlama, eða svo er það í reyndinni hér á landi. Loks þarf eitt ekki að verða á annars kostnað hvað byggingu þessara stofnana snertir, heldur verður eftir sem áður af ráðh. metið, hvað fyrir skuli taka hverju sinni.

Með því, sem ég hef sagt nú, hef ég túlkað mína persónulegu skoðun, og ég fullyrði ekki, að ég túlki nákvæmlega skoðanir hv. meðnm. minna, þótt niðurstaðan sé sú, að n. mæli einróma með samþykkt frv. Einn nm., hv. 2. þm. Reykv., var að vísu ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt úr nefndinni.