29.02.1960
Neðri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á 1. um einkasölu ríkisins á tóbaki var lagt fyrir hv. Ed. og hefur verið afgreitt þaðan. Efni frv. er það, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ákveða heildsöluálagningu á tóbak eftir því, sem henta þykir fyrir hverja tegund, í stað þess að nú er í lögum ákveðin hámarkshundraðstala fyrir álagningu. Forstjóri tóbakseinkasölunnar hefur óskað eftir því, að þessi breyting yrði á gerð, og fært fyrir því ýmsar ástæður. Varðandi annað tekjuöflunarfyrirtæki ríkissjóðs, áfengisverzlunina, hefur nú í rúman aldarfjórðung verið sams konar ákvæði í lögum, ekki hámarkshundraðstala, heldur heimild fyrir ríkisstjórnina til að ákveða álagninguna hverju sinni, og fer þetta frv. fram á, að sami háttur sé hafður á um tóbakseinkasöluna. Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.