17.05.1960
Efri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

163. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Flm. (Kjartan J. Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem til máls hafa tekið hér, fyrir það, hvað þeir hafa látið í ljós góðan skilning á þessu máli. Báðir lýstu því yfir, að þeir skildu vel, hver nauðsyn er á því á þessum tveim stöðum, sem ég sérstaklega nefndi hér áðan, að gera jarðgöng til þess að leysa úr samgönguerfiðleikum þar.

Þeir voru með áhyggjur yfir því, að þetta gæti orðið til þess að seinka fyrir brúargerðum, sem nauðsynlegar væru. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á það, að við erum búnir að vera að brúa verstu torfærurnar hér á landi í 50 ár, en það eru ekki nema 10 ár, síðan byrjað var að gera fyrstu jarðgöngin. Og ég vil enn fremur segja í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) sagði, þar sem hann skýrði frá því, að hér væri ætlunin, að jarðgöng undir 35 m að lengd verði byggð fyrir fé vegarins, sem þau eru á, að þetta er alveg rétt. Það er ætlunin. Þetta hefur verið gert um þau einu jarðgöng, sem til þessa hafa verið gerð, fyrir það fé, sem til vegarins var veitt. Það er ekki vafi á því, — ég þekki svo vel til, hvernig þar hagar til, — að sá vegur varð ódýrari og miklu betri fyrir það, að fénu, sem til vegarins var veitt, var eytt í það að gera þarna jarðgöng í gegnum Hamarinn svokallaða á veginum til Súðavíkur, heldur en ef farin hefði verið önnur leið, þ.e. yfir hálsinn, sem annars kom til greina og hefði verið eina leiðin, sem um var að velja, ef ekki hefði verið valin þessi leið að fara með jarðgöng þarna í gegnum Hamarinn. Það er enginn vafi á því, að þetta varð til þess að gera veginn ódýrari, fyrir utan það, að hann er miklu betri og fær miklu lengur árlega en hefði verið með hinu mótinu, svo að ég óttast ekki svo mjög, að það verði til þess að seinka fyrir vegalagningu og brúargerð að samþ. þetta frv., sem ég legg hér til að samþ. verði. Ég hef reynslu fyrir því gagnstæða, eins og ég var að enda við að drepa á.

Um stærri jarðgöng gegnir eiginlega alveg sama máli og brúargerðir. Það eru dýr mannvirki, og þess vegna hafa sjálfsagt verið sett á sínum tíma lögin um brúasjóð, af því að mönnum var ljóst, að það var ekki hægt að byggja brýr af venjulegu vegafé. Og alveg eins er með þetta. Við erum ekki að fara fram á hér, ég og hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), að við fáum nein sérréttindi. Við erum aðeins að fara fram á það, að þeir, sem ráða málum í hverju héraði eða hverjum landshluta, megi meta það hverju sinni, hvort meira liggi á fyrir héraðið eða landshlutann að gera brú eða jarðgöng. Kostnaður við allstóra brú og nokkuð löng jarðgöng er tiltölulega hliðstæður. Það er gömul hjátrú hér á Íslandi, að það sé svo afskaplega dýrt að gera jarðgöng. Það kom í ljós, þegar þessi fyrstu jarðgöng voru gerð í gegnum Hamarinn á veginum til Súðavíkur, að það kostaði ekki nema 80 kr. á hvern m3 að gera þau, og það var fyrsta tilraun, sem gerð var til jarðganga á vegi hér á landi. Vitanlega var þar um ýmsa byrjunarörðugleika að ræða, af því að þeir menn, er að þessari jarðgangagerð störfuðu, voru óvanir henni og höfðu þar að auki ekki eins fullkomin eða góð tæki og æskilegt hefði verið. En jarðlagið, sem í gegnum var að fara þar, var basaltgangur, sem er einhver erfiðasta bergtegund að vinna, sem þekkist hér á landi. Það er miklu erfiðara að bora það og vinna að öllu leyti en annað berg.

Það vill svo til, að það hafa verið gerð á nokkrum undanförnum árum nokkur jarðgöng hér á landi, — þau hafa verið gerð í sambandi við virkjanirnar, sem hér hafa verið gerðar, — allstór jarðgöng, og það hefur komið í ljós öllum til undrunar, að þeir, sem tóku að sér að gera þau, hafa getað gert þau fyrir brot af því fé, sem áætlað var að þau kostuðu. Það var sérstaklega svo um fyrstu jarðgöngin, sem gerð voru við Sogið. Ég held, að þau hafi ekki kostað nema eitthvað 60 kr. m3, ef ég man rétt, en var áætlað, að m3 kostaði 200 kr.

Þessi grýla um það, hvað það sé afskaplega dýrt að gera jarðgöng, hræðir mig ekki, því að auk þess sem ég veit um þessa jarðgangagerð, sem farið hefur fram bæði þarna vestra og eins í sambandi við virkjanirnar, sem hér hafa verið gerðar, þá þekki ég dálítið til hliðstæðra mannvirkja. Það voru gerð göng í fjallið vestur í Botni í Súgandafirði í sambandi við kolavinnslu á síðustu stríðsárum, og ég þekki, hvað það kostaði, og það var miklu ódýrara en nokkurn hafði grunað. Og það er víst það eina félag, sem stofnað hefur verið til brúnkolavinnslu hér á landi, sem ekki tapaði einu sinni neinu af hlutafé sínu, sem greitt var út með nafnverði, er félaginu var slitið.