04.03.1960
Neðri deild: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 150 liggur fyrir nál. um þetta mál frá okkur tveimur nm. í fjhn., hv. 3. þm. Reykv. og mér. Við getum ekki mælt með því, að þetta frv. verði samþykkt, heldur leggjum til, að það verði fellt.

Með þessu frv. vill hæstv. ríkisstj. fá vald til að ákveða álagningu á tóbaksvörur hjá einkasölunni án nokkurrar takmörkunar. Í núgildandi lögum segir, að tóbakseinkasalan megi leggja frá 10–350% á tóbak, eftir því sem henta þykir fyrir hverja tegund. Þessi álagning kemur á kostnaðarverð vörunnar, þegar hún er komin í hús hér í Reykjavík, og er þá tollur talinn með í kostnaðarverðinu. Það verður því ekki sagt, að álagningarheimildin sé skorin við neglur, enda má segja, að hér sé ekki um venjulega verzlunarálagningu að ræða, heldur er þetta skattaálagning.

Það er ekki ljóst og hefur ekki komið fram við meðferð málsins, hverjar fyrirætlanir hæstv. stjórn hefur viðkomandi tóbaksverðinu, hvort hún ætlar að hækka verðið eða ekki. Að vísu bendir fjárlagafrv. til þess, að stjórnin ætli sér ekki að auka tekjur ríkisins af tóbakseinkasölunni. Hagnaður af einkasölunni mun árið sem leið hafa verið um 100 millj. kr. og í fjárlagafrv. eru áætiaðar tekjur af einkasölunni á þessu ári 98 millj. kr. Þetta bendir ekki til þess, að stjórnin hafi áform í huga um verðhækkun á tóbakinu.

Þó má vel vera, að hæstv. stjórn ætli að gera till. nú á þinginu um hækkun á þessum tekjulið á fjárlögum og í því sambandi vilji hún hækka álagninguna á tóbaksvörurnar til þess að ná meiri tekjum með þessum hætti. En stjórnin hefur mjög mikið svigrúm til hækkunar innan þeirra takmarka, sem lögin setja. Á það er að líta í þessu sambandi, að vegna gengisbreytingarinnar, sem nýlega hefur verið ákveðin, verður mikil hækkun á innkaupsverði á tóbaki eins og öðrum vörum í íslenzkum krónum. Mér hefur verið sagt, að sama magn af tóbaksvörum og keypt var á árinu sem leið mundi hækka um a.m.k. 13 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar. Á þessa hækkun kemur svo 10% verðtollur, en hann er talinn með í álagningargrundvellinum. Verði sama vörumagn flutt inn og áður, hækkar það því í innkaupi og að viðbættum verðtolli um 14–15 millj. kr. Af þessu er það ljóst, að ef sömu álagningarprósentur verða notaðar nú og áður, þá hækkar álagningin í heild um tugi milljóna króna. Og það eru engar líkur, sem benda til þess, að stjórnin hafi í hyggju að hækka tóbaksvörur svo gífurlega í verði, að notuð verði að fullu sú álagningarheimild, sem nú er í lögum. Þvert á móti sýnist mér, að álagningarprósentan hljóti að verða eitthvað lægri en áður nú eftir gengisbreytinguna.

Frsm. meiri hl., hv. 6. landsk. þm., minntist á það, að í lögum um Áfengisverzlun ríkisins væri ákveðið, að stjórnin gæti ráðið álagningu á áfengi. Ég hef ekki kynnt mér það, hvenær þau ákvæði voru í lög tekin eða hvaða rök hafa legið til þess, en það eitt er víst, að þá hefur ekki þótt ástæða til að láta það sama gilda um tóbakið.

Hv. 6. landsk. segir einnig, að ef hverju sinni þurfi að bera undir Alþingi hækkun á álagningu á tóbak, þá geti það haft í för með sér óeðlileg uppkaup á þeirri vöru. En ég vil benda á það, að núgildandi lagaákvæði um þetta hafa verið óbreytt s.l. 11 ár, og engar líkur benda til þess, að það sé nokkur þörf að breyta þeim í náinni framtíð.

Í þriðja lagi talaði hann um, að það gæti verið hentugt að koma við verðjöfnun. Slíkri verðjöfnun væri sjálfsagt auðvelt, eins og nú er komið, að koma við, þótt engin breyting væri gerð á l., því að ég get ekki hugsað mér, að hæstv. stjórn hafi í hyggju að hækka eina tóbaks,vörutegund svo mikið í verði, að henni nægi ekki sú heimild, sem nú er í lögum. Það er því alls engin þörf á að gera álagningarheimildina rýmri en hún er nú, enda hefur meiri hl. fjhn. ekki haldið því fram, að stjórnin þyrfti að fá meira svigrúm í þessum efnum til þess að geta komið fram vilja sínum um hækkun á tóbaksverði.

Rekstur tóbakseinkasölunnar er stór þáttur í skattheimtu ríkisins. Það mun láta nærri, að hagnaðurinn af henni sé nú um 10% af öllum ríkistekjunum, og það verður að teljast eðlilegt, að slíkar álögur séu ákveðnar af Alþingi með lögum, eins og aðrir skattar og tollar til ríkisins. Það er ekki skynsamlegt að afsala ótakmörkuðu valdi í þessum efnum til ríkisstjórnarinnar, og það er heldur engin þörf að gera slíkt, ekkert, sem mælir með því.

En af hverju er þetta frv. þá borið fram? E.t.v. er það flutt af misskilningi. Það er hugsanlegt, að hæstv. ríkisstj. hafi haldið, að hún þyrfti að fá breytingar á einkasölulögunum til þess að geta hækkað nokkuð álagningu á einhverjum tóbaksvörum og aukið tekjur af tóbakseinkasölunni. En það hefur verið sýnt fram á og má öllum vera ljóst, að í núgildandi lögum hefur stjórnin meiri heimild til hækkunar en hugsanlegt er að hún noti í náinni framtíð.

Sé þetta þannig, að frv. sé flutt af misskilningi, þá ætti stjórnin að taka það aftur eða láta það daga uppi. Ef málinu er hins vegar þannig varið, að stjórninni sé ljóst, að engin þörf sé fyrir lagabreytinguna, en vilji þó, að því er virðist bara sér til gamans, seilast eftir valdi, sem hefur verið og á að vera hjá Alþingi, þá er skynsamlegast fyrir þm. að neita þátttöku í slíkum leik. Verði málinu áfram haldið og það látið koma undir atkv., er það því till, minni hl, fjhn. til hv. d., að hún greiði atkv. gegn frv.