07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2493)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég tel þingfrestun, eins og nú standa sakir, óvenjulega, óþingræðislega, ólýðræðislega og óskynsamlega. Ég get því ekki á hana fallizt. Þess eru engin dæmi í íslenzkri þingsögu, að Alþ. hafi verið frestað á fyrstu starfsdögum þess, þegar öll þess verkefni eru á byrjunarstigi. Það er einsdæmi, að þingmenn séu sendir heim um nálega tveggja mánaða skeið frá öllum verkefnum óleystum. Alþingi hefur aldrei fyrr verið frestað án þess, að fjárlagaræða hafi áður verið flutt, fjárlagafrv. vísað til n. og athugun þess þar hafin. Það nær engri átt, að Alþ. sé frestað, án þess að það fjalli um vandamál, sem úrlausnar bíður á næsta leiti, það er verðlagsmál landbúnaðarins. Með fyrirhugaðri þingfrestun er gömlum og fastmótuðum venjum varpað fyrir róða, en lagt inn á nýjar brautir í starfsháttum þingsins. Þær leiðir stefna í ógöngur.

Samkv. 42. gr. stjórnarskrárinnar er skýlaust skylt að leggja fjárlagafrv. fyrir hvert reglulegt Alþingi í þingbyrjun. Það stjórnarskrárboð á auðvitað að stuðla að því, að þingið geti strax farið að starfa að fjárlagasetningunni og þurfi eigi hennar vegna að tefjast óeðlilega. En samkv. 22. gr. stjórnarskrárinnar er bannað að slíta Alþ., fyrr en fjárlög hafa verið samþykkt. Að öðrum kosti væri boð stjskr. um framlagningu fjárlagafrv. í upphafi þings út í bláinn. Lögum samkvæmt og venju er fjárlagafrv. fylgt úr hlaði með sérstökum hætti. Samkv. 2. mgr. 51. gr. þingskapalaga flytur fjmrh. framsöguræðu við 1. umr. um fjárlagafrv., svokallaða fjárlagaræðu. Þeirri ræðu skal jafnan útvarpa svo og athugasemdum annarra flokka, eins og menn þekkja. Þegar þessum þætti umr. er lokið, er henni frestað og málinu vísað til fjvn. Jafnframt því, sem eðlilegur grundvöllur er lagður að meðferð málsins með þessum hætti, eru þjóðinni allri veittar mikilsverðar upplýsingar um fjárstjórn ríkisins. Það leiðir af stjórnarskrárákvæðinu um framlagningu fjárlagafrv. í þingbyrjun, að fjárlagaræðuna á að halda svo fljótt eftir þingsetningu sem tök eru á, enda er það föst venja. Fjárlagafrv. hefur að vísu verið útbýtt á fyrstu dögum þessa þings. Því er hins vegar yfir lýst af hæstv. fjmrh., að fjárlagaræðan verði alls ekki flutt fyrir þingfrestun og fjárlagafrv. verði þar af leiðandi ekki vísað til n. fyrr en einhvern tíma eftir að þing kemur aftur saman að nálega tveimur mánuðum liðnum. M.ö.o., Alþ. á raunverulega ekki að fá fjárlagafrv. til meðferðar, fyrr en það kemur saman að nýju. þegar einn mánuður er liðinn af sjálfu fjárlagaárinu.

Er nú stjórnarskrárboðinu um framlagningu fjárlagafrv. í þingbyrjun fullnægt með þvílíkum starfsháttum? Er stjórnarskrárákvæðinu fullnægt með því einu, að frv. sé útbýtt í upphafi þings? Það liggur í augum uppi, að ef þessum spurningum væri svarað játandi, væri tilgangi stjórnarskrár ákvæðisins alls ekki náð. Slíkur skilningur á stjórnarskrárgreininni bryti blátt áfram í bág við heilbrigða skynsemi. Ég held, að hin eina rétta og eðlilega skýring á þessu stjórnarskrárboði sé sú. að fjárlagafrv. eigi raunverulega að flytja í þingbyrjun, þ.e., að þá eigi að leggja það fyrir þingíð með framsöguræðu, fjárlagaræðunni, enda styðst það við langa venju. Það er því að mínum dómi engum efa undirorpið, að með þeim starfsháttum, sem hér eru fyrirhugaðir, er stjórnarskrárfyrirmælið um framlagningu fjárlagafrv. í þingbyrjun algerlega sniðgengið. Er vandséð, til hvers slíkt fordæmi getur leitt. Ef svona er farið að, má alveg eins fresta þingi þrjá eða fjóra mánuði fram á sjálft fjárlagaárið, án þess að fjárlagaræða sé haldin. Hvar eru þá mörkin?

Sjálfsagt eru þeir menn til, sem létu sér stjórnarskrána í léttu rúmi liggja, ef hér væri um haganleg vinnubrögð að öðru leyti að ræða. En það er nú öðru nær en svo sé. Auk þess, sem stjórnarskráin er sniðgengin með fyrirhuguðum starfsháttum, eru þeir óhagkvæmir. Það liggur í augum uppi, að það væru heppilegri vinnubrögð að byrja nú fyrir þingfrestun 1. umr. fjárlaga og vísa frv. til fjvn. Gæti n. síðan unnið að frv. í þinghléinu með venjulegum hætti. Slíkt mundi spara tíma síðar. Sé frv. ekki vísað til fjvn. fyrr en t.d. einhvern tíma í febrúarmánuði, er auðsætt, að annaðhvort verður, að fjvn. fær ónógan tíma til athugunar sinnar á frv. eða afgreiðsla fjárlaga hlýtur að dragast óhæfilega langt fram á fjárlagaárið.

Fyrirhuguð vinnubrögð verða ekki réttlætt með því, að núv. fjmrh. hafi ekki samið fjárlagafrv., að hann sé nýlega setztur í ráðherrasætið og því sé þess ekki að vænta, að hann geti skömmu eftir þingsetningu haldið fjárlagaræðu, því að þannig hefur staðið á áður. En hinn nýi fjmrh. hefur þá auðvitað fullnægt umræddu stjórnarskrárákvæði og haldið fjárlagaræðu á tilsettum tíma, auðvitað með eðlilegum fyrirvara um það, að frv. sé undirbúið af öðrum ráðh. Ég vil t.d. í þessu sambandi sérstaklega minna á haustþingið 1949. Hér er því við skýr fordæmi að styðjast, sem sjálfsagt er að fylgja, enda beinlínis lögskylt, svo sem ég hef sýnt fram á.

Undanbrögð þau um flutning fjárlagaræðu, sem hér eiga sér stað, verða ekki heldur réttlætt með því, að hina nýju ríkisstj, skorti upplýsingar til að byggja á skýrslu til þingsins um afkomu ríkissjóðs og fjárhagsástandið almennt. Þær upplýsingar hlýtur stjórnin að hafa, eftir því sem fram hefur komið utan þings, reyndar með heldur óviðkunnanlegum hætti. Það eru því engar — alls engar — ástæður fyrir hendi, er réttlæti það, að fjárlagaræðu og byrjunarmeðferð fjárlaga sé skotið á frest.

Rök ríkisstj. fyrir þingfrestun eru þau, að hún þurfi að fá starfsfrið til að undirbúa og ganga frá tillögum sínum í efnahagsmálum. Enginn finnur að því, að ríkisstj. gefi sér tóm til undirbúnings þeim till. Það var af hálfu stjórnarandstöðunnar ekkert því til fyrirstöðu, að vinnubrögðum þingsins væri þannig hagað, að ríkisstj. væri tryggður nægur starfsfriður, og það hefði áreiðanlega ekki sætt neinni andspyrnu, að fundum Alþ. hefði verið frestað um sinn í framhaldi af venjulegu hátíðahléi. Því er hins vegar mótmælt, að það þurfi að senda þingið heim um nær tveggja mánaða skeið til þess, að ríkisstj. gefist starfsfriður. Þingið er ekkert fyrir ríkisstjórninni. Það er því firra hjá hæstv. forsrh., þegar hann lét sér þau orð um munn fara, að ríkisstj. hefði ekki starfsfrið, á meðan þingið sæti. Það er hins vegar sjálfsögð skylda ríkisstj. að hafa samráð við Alþingi um úrræði þau í efnahagsmálum, sem hún hugsar sér. En ríkisstj. hefur ekki viljað neitt samkomulag um skynsamleg vinnubrögð. Hún vill aðeins eitt, og það er að losna við þingið. Þegar hún hefur fengið samþykkt tekjuöflunarfrumvörp og bráðabirgðaútgjaldaheimildir, segir hún bara við þingmenn, eins og maðurinn sagði forðum: Nú get ég, nú megið þið fara heim.

Ríkisstj. virðist líta á sig sem húsbónda þingsins. Gamall konungsstjórnarlegur hugsunarháttur skýtur upp hjá henni kollinum. En samkvæmt íslenzkum stjórnarháttum er það ótvírætt Alþ., sem á að segja ríkisstj, fyrir verkum, en ekki öfugt. Og það er ekki ríkisstj. ein, sem þarf á starfsfriði að halda. Alþ. á einnig heimtingu á starfsfriði. Þingmenn eiga vissulega rétt á því að koma á framfæri hér á Alþ. áhugamálum sínum og sinna umbjóðenda. Af eðlilegum ástæðum hefur þingmönnum enn ekki gefizt tóm til að ganga frá flutningi mála sinna nema að litlu leyti. Það lýsir fullkominni lítilsvirðingu, leyfi ég mér að segja, á Alþ, og þingmönnum að ætla að senda þá heim án þess að gefa þeim færi á að rækja þingmannsstörf sín að nokkru ráði. Sú framkoma ríkisstj. og þingmeirihluta er hvort tveggja í senn óþingræðisleg og ólýðræðisleg.

Þó að þingmönnum hafi til þessa gefizt stuttur starfsfriður, þá er það nú svo, að nú þegar hafa mörg og merkileg mál verið lögð fyrir þetta þing. Það þarf því ekki að fresta þingi nú vegna þess, að það hafi ekki nægileg verkefni, en þeim verkefnum hefur þingið alls ekki fengið að sinna.

Eitt er þó það verkefni, sem sjálfsagðast var að Alþ. fjallaði um þegar í stað og áður en því var frestað. Það eru brbl. um bindingu búvöruverðsins. Það er nú augljóst, að þingi á að fresta, án þess að því gefist kostur á að fjalla að ráði um þau brbl. Samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar skal ætíð leggja brbl. fyrir næsta Alþingi. Í því ákvæði segir að vísu ekki beinlínis, hvenær þingtímans það skuli gert. Það eitt er þó í samræmi við réttar þingræðisreglur og lýðræðislegan hugsunarhátt. að brbl. séu jafnan lögð fyrir Alþ. sem fyrst eftir þingbyrjun, og mun svo hafa verið oftast nær. En hvað sem um það er almennt. þá var alveg sérstök ástæða til þess að leggja þessi brbl. fyrir Alþ., svo fljótt sem tök voru á, þar sem þau falla úr gildi 15. des. n.k. Eftir þann tíma er gagnslaust, að þingið taki þau til meðferðar.

Þegar hafðar eru í huga yfirlýsingar sjálfstæðismanna frá því í kosningabaráttunni s.l. haust um fébætur bændum til handa og um það, að þingmenn flokksins mundu greiða atkv. gegn brbl., er þau kæmu til kasta Alþ., hefði mátt ætla, að landbrh. þeirra hefði ekki verið seinn á sér að leggja brbl. fyrir Alþ. og gefa þannig flokksbræðrum sínum kost á því að standa við gefin heit um það mál. En þar hefur raunin orðið önnur á. Þrátt fyrir nær daglega eftirgangsmuni var það ekki fyrr en s.1. föstudag, þegar alveg var komið að þingfrestun, að stjórnin lét útbýta brbl. á Alþingi. Það er alveg ljóst, að stjórnin ætlaði sér alls ekki að leggja brbl. fyrir Alþingi fyrir þingfrestun, en hún guggnaði fyrir gagnrýni og kröfum framsóknarmanna. En þó að hún hafi nú neyðzt til að leggja lögin fram og e.t.v. megi segja, að hún hafi þar með fullnægt bókstaf stjórnarskrárinnar, þá er auðsætt, að framlagning laganna nú er aðeins gerð til málamynda.

Sú framkoma ríkisstj. að senda þingmenn heim, án þess að brbl. séu tekin til afgreiðslu, gefur bendingu um, hverra efnda megi vænta af sjálfstæðismönnum í þessu máli. Þeir hafa raunar þegar sýnt það með öðrum hætti hér á Alþ. Í báðum deildum Alþ. fluttu framsóknarmenn brtt. við frv. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, þar sem ríkisstj. var heimilað að greiða framleiðendum landbúnaðarafurða þá 3.18% verðhækkun, sem þeim bar samkv. útreikningi hagstofunnar. Þessa till. felldi stjórnarliðið. Þessi framkoma sjálfstæðismanna er vissulega lærdómsrík fyrir þá bændur, sem til þessa hafa léð þeim atkvæði. Og hvað tekur við 15. desember? Verði ný brbl. ekki sett, hljóta framleiðsluráðslögin aftur að koma að fullu í gildi. Ætlar ríkisstj. að framlengja gildi verðbindingarlaganna með nýjum brbl.? Hvernig sem menn annars líta á mál þetta, er auðsætt, að sérstaka nauðsyn bar til, að Alþ. fjallaði um það. Auðvitað er æskilegt, að fulltrúar framleiðenda og neytenda ræðist við og reyni að ná samkomulagi, en á það eitt má ekki treysta, úr því sem komið er. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að senda þingið heim að þessu máli óleystu.

Þingfrestun nú þýðir undanbrögð í þessu máli. Hún þýðir það, að sjálfstæðisþingmenn vilja ekki standa við gefin heit í málinu. Það er sá kjarni þessa þingfrestunarmáls, sem allir landsmenn skilja þrátt fyrir allar tylliástæður, sem uppi eru hafðar.

Erfið vandamál bíða úrlausnar. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að þau vandamál verði ekki leyst á viðunandi hátt nema með víðtækri samvinnu og samstöðu stjórnmálamanna. Vitaskuld hlýtur ríkisstj. og þingmeirihluti að ráða því, hverjar leiðir eru valdar. En það er stundum skynsamlegt að fara hófsamlega með valdið. Það er óskynsamlegt af þingmeirihluta að beita minni hlutann ofríki og sýna honum lítilsvirðingu. Með því eru vissulega ekki sköpuð skilyrði fyrir víðtækri samstöðu um lausn aðsteðjandi vanda. Framkoma stjórnarliðsins á þessu nýbyrjaða þingi ber vitni un ofríkishneigð á háu stigi. Tekjuöflunarfrumvörp og útgjaldaheimildir hafa verið drifin í gegn á næturfundum með margföldum afbrigðum. Fellt hefur verið að taka aðkallandi mál á dagskrá. Umr. hafa verið skornar niður. Ráðh. hefur neitað að gefa þinginu lögboðna skýrslu um fjárstjórn ríkisins. Og þinginu á að fresta á fyrstu starfsdögum þess þrátt fyrir eindregin mótmæli stjórnarandstöðunnar. Með þessum hætti sviptir þingmeirihlutinn stjórnarandstöðuna starfsaðstöðu og skýtur ríkisstj. um sinn undan gagnrýni löggjafarsamkomunnar. Þessi vinnubrögð eru óskynsamleg og skapa óheppilegt fordæmi. Og þess ætti meiri hlutinn að minnast, að hjólið snýst, — að sá, sem er í meiri hluta í dag, getur orðið í minni hluta á morgun.