07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2496)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti, háttvirtir áheyrendur. Hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, virtist áðan hafa af því áhyggjur þungar, að Alþfl. hefði nú tekið upp stjórnarsamstarf við Sjálfstfl., en hefði ekki viljað ræða þau mál við Framsfl. eða Alþb. Um þetta vil ég aðeins segja það, að svo varð viðskilnaður Alþfl. við þessa tvo flokka síðast. að hann örvar ekki til áframhaldandi viðtala. Þá sleit hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, stjórnarsamstarfinu án þess meira að segja að hafa um það samráð við Alþfl. og reyndi ekki að leysa þann vanda, sem fyrir hendi var. Alþfl. skrifaði þá forsrh. þáv., Hermanni Jónassyni, bréf og óskaði eftir því, að hann legði málin fyrir Alþ. Þessu neitaði hann og hljóp í staðinn og gafst upp. Þetta örvaði ekki til þess, að umr. um þetta væru teknar upp á ný.

Þessi till. til þál., sem hér liggur fyrir, fer fram á, að fundum Alþingis verði frestað til 28. jan. n.k., til þess að ríkisstj. gefist tóm til að undirbúa tillögur sínar til lausnar þeirra efnahagsvandamála, sem nú kalla mest að. Ríkisstj., sem nú situr, tók við störfum 20. nóv. s.l., sama daginn og þing kom saman, og er því fullkomlega eðlilegt, að henni verði gefið tóm til að átta sig á þeim vandamálum, sem fyrir liggja, og til þess að gera upp við sig, hvaða leiðir hún vill fara til þess að freista að leysa þennan vanda.

Fyrrv. stjórn. minnihlutastjórn Alþfl., hafði lofað því, þegar hún tók við fyrir áramótin síðustu, að reyna að koma í veg fyrir vöxt verðbólgunnar í landinu, en þessi vöxtur verðbólgunnar var þá sú hætta, sem hvað mest ógnaði okkar efnahagskerfi og vinstri stjórn Hermanns Jónassonar gafst upp á að stöðva eða koma í veg fyrir. Stjórn Alþfl. tókst þetta. Henni tókst að gera í þessu efni nákvæmlega það, sem hún hafði lofað að reyna að gera, að koma í veg fyrir víxlhækkun kaupgjalds og verðlags eða að sú víxlhækkun héldi áfram með þeim gífurlega hraða, sem útlit var fyrir að hún mundi gera um og upp úr síðustu áramótum, ef ekki væri að gert. Og henni tókst raunar að gera meira. Henni tókst að færa hvort tveggja, verðlag og kaupgjald, nokkuð niður á við og halda hvoru tveggja stöðugu allan þann tíma, sem hún sat. En hún gerði sér ljóst og marglýsti því yfir, að með þessu væri ekki nema einn þáttur vandamálsins leystur að vísu mjög þýðingarmikill þáttur, en þó ekki nema hluti af vandanum. Hún gerði sér líka ljóst, að hún mundi ekki sitja að völdum nema fram yfir síðari kosningar í haust, þegar kjördæmamálið væri komið heilt í höfn og nýtt Alþingi, kosið samkv. hinni nýju stjórnarskrá, væri tekið til starfa. Minnihlutastjórnir eru samkv. eðli sínu óæskilegar og stundarfyrirbrigði til þess fyrst og fremst að brúa bil, á meðan flokkarnir eru að koma sér saman um meirihlutastjórn, sem getur á eðlilegan hátt haft tryggan meiri hluta að baki á Alþingi til afgreiðslu mála þar í samræmi við sína stefnu. Það var þess vegna eðlilegt, að fyrrv. ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess að undirbúa starf næstu ríkisstj. á þann hátt að fela efnahagsmálaráðunaut ríkisstj. að gera yfirlit um ástandið í efnahagsmálunum, er gæti legið fyrir næstu ríkisstj. þegar hún tæki við, ekki út af fyrir sig till. til lausnar, heldur yfirlit yfir ástandið, til þess að hún hefði þar grundvöll fyrir þær ráðstafanir. sem hún vildi gera. Þetta gerði fyrrv. stjórn, og efnahagsmálaráðunauturinn skilaði sínum skýrslum um þetta efni í s.l. mánuði rétt áður en núv. stjórn tók við.

Það er þess vegna auðskilið mál. að núv. ríkisstj. þurfi nokkurn tíma til þess að gera upp við sig, hvaða leiðir hún telur rétt að fara og hvaða lausnir séu líklegastar til þess að gefa góðan árangur. Þess vegna óskaði hún eftir þingfrestuninni. Þingfrestun er út af fyrir sig engin nýjung. Slíkt hefur oft komið fyrir áður og verið talið eðlilegt og sjálfsagt. Aðalverkefni þingsins verður að taka ákvörðun um þær tillögur í efnahagsmálunum, sem ríkisstj. kemur sér saman um að flytja, og önnur mál, eins og afgreiðsla fjárlaga, verðlagsmál landbúnaðarins, húsnæðismál. tryggingamál, skattamál o.fl., koma til að verða beint og óbeint háð því, hvernig efnahagsmálin verða afgreidd. Það er þess vegna enginn hlutur eðlilegri en að gert verði hlé á störfum Alþingis, á meðan ríkisstj. er að gera upp við sig, hvaða tillögur hún muni gera til lausnar efnahagsvandanum. En viðbrögð stjórnarandstöðunnar, Framsfl. og Alþb., við þessum sjálfsögðu tillögum hafa orðið harla undarleg og ég vil segja með endemum. Þeir hafa snúizt hart gegn því, að þessi frestur yrði veittur, beitt harkalegu málþófi nætur og daga gegn því, að mál, sem þurftu að afgreiðast fyrir áramót, yrðu afgreidd, og það þó að slík mál á undanförnum árum hafi jafnan verið afgreidd svo að segja umræðulaust, og þeir hafa talið það freklegt brot á þingræðinu, að reynt væri á þingræðislegan hátt að koma í veg fyrir slíkt málþóf.

Það þarf að leita áratugi aftur í tímann til þess að finna nokkuð sambærileg vinnubrögð á Alþingi, allt út af því, að fundum Alþingis verður frestað um einn til tvo mánuði. Stjórnarandstaða í þingræðisþjóðfélagi hefur merkilegu og þýðingarmiklu hlutverki að gegna, ef hún rækir það eins og til er ætlazt. En stjórnarandstaða, sem er fyrir fram ákveðin í því að vera á móti öllu, sem gert er, hvernig svo sem það er gert, og reynir að gera þeirri ríkisstj., sem situr, allt til miska, hefur misskilið sitt hlutverk, og hún á engan rétt á sér. Heiðarleg stjórnarandstaða á að gagnrýna með rökum það, sem gert er, ef efni standa þannig til, að það sé réttlætanlegt. En hún á ekki að koma í veg fyrir, að ríkisstj. fái vinnufrið, og hún á ekki að gera tortryggilegar tillögur, sem hún inn á sér finnur að eru réttar, og sízt af öllu á hún að gera ríkisstj. upp sakir, sem hún veit að eru rangar, og hamast svo við að gagnrýna þær þannig. Það er að setja ímynduð flokkssjónarmið ofar þjóðarhagsmunum, og það er ég viss um, að mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar hefur skömm á slíku.

Vandinn, sem nú er við að glíma, er svo mikill að til þess að nokkur von sé um, að hann verði leystur á þann hátt, sem þjóðinni í heild er fyrir beztu, verða umr. um afgreiðsluna að vera málefnalegar og heiðarlegar, en ekki mótaðar af pólitískum hagsmunum einstakra flokka eða flokkssjónarmiða. En má þá spyrja: Hver er þá vandinn, sem við er að glíma nú, og hvaða ástæður liggja til þess, að ríkisstj. getur ekki samstundis tekið afstöðu til þessa vanda og lagt fram tillögur nú þegar? Þessu skal ég nú leitast við að svara í örstuttu máli á grundvelli þeirra skýrslna, sem fyrir liggja um þetta efni.

Það er þá í fyrsta lagi, að lántökur erlendis og til stutts tíma hafa verið meiri en góðu hófi gegnir, að því er talið er, eða um 1000 millj, kr. á s.l. 5 árum samtals. Með þessum lántökum hefur verið gert hvort tveggja í senn, jafnaður gjaldeyrishallinn við útlönd og tekna aflað í útflutningssjóð, sem hafa gert honum kleift að starfa með hærra álagi á keyptan gjaldeyri fyrir útflutningsvörur en fyrir seldan gjaldeyri fyrir innfluttar vörur. Þetta er vitaskuld ekki hægt að gera nema takmarkaðan tíma, og einhvern tíma kemur að skuldadögunum. Greiðslubyrðin vegna þessara lána er nú í hlutfalli við þjóðarframleiðsluna eða þjóðartekjurnar orðin meiri en hjá flestum öðrum þjóðum, ef ekki öllum, og verður að hætta að vaxa, ef þjóðin á að geta staðið í skilum, Í öðru lagi má á það benda, að innflutningur á meira og minna óþörfum hátollavörum er annar hornsteinninn undir útflutningssjóði, þannig að sé dregið úr honum vegna gjaldeyrisskorts eða af öðrum ástæðum, þá bilar hann, svo að útflutningssjóðurinn verður rekinn með halla. Í þriðja lagi: Verðbólguskrúfa kaupgjalds og verðlags er enn til staðar, þar sem bæði kaupgjald. fiskverð og landbúnaðarafurðir er enn háð og bundið verðlagsvísitölunni. Í fjórða lagi, að gjaldeyrisvarasjóður er enginn til og raunar miklu minna en það, þar sem yfirdráttarheimildir gjaldeyrisbankanna og seðlabankans eru allar notaðar upp í topp og lausaskuldir hafa safnazt, og hefur svo staðið lengi, þó að sjaldan eða aldrei hafi verið verra en nú. Ástandið í þessum málum nú er einmitt táknrænt dæmi um það, hversu tæpt við stöndum í þessu efni, og skal ég þess vegna leyfa mér að fara um það nokkrum orðum.

Það tvennt hefur borið að nokkurn veginn samtímis, að gjaldeyrislán, sem tekið hefur verið, hefur ekki komið heim að fullu, eins og ætlað var eða á þeim tíma, sem ætlað var, og svo hitt, að sala á útflutningsvörum okkar hefur gengið tregar en búizt hafði verið við, þannig að birgðasöfnun á útflutningsvarningi hefur orðið óvenjulega mikil eða rétt um 100 millj. kr., miðað við sama tíma í fyrra.

Hvort tveggja þetta er út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Þetta getur alltaf og alls staðar komið fyrir, að dragist að fá lán, sem ákveðið hefur verið að taka og munu koma, og svo hitt, að nokkuð dragist að selja birgðir útflutningsvara, sem til eru í landinu. En afleiðingin hefur hér orðið sú, að miklir yfirfærsluörðugleikar hafa skapazt hjá bönkunum, sem tæpast eru viðráðanlegir, og það þrátt fyrir það, að þegar þessir tímabundnu erfiðleikar eru úr sögunni, sem væntanlega verður fljótlega, þá á gjaldeyrisaðstaðan út á við að vera nokkurn veginn sú sama og var um sama leyti í fyrra. Þetta sýnir aðeins, hve djarft og óvarlega er teflt í þessum efnum. Sölutregðutímabil jafna aðrar þjóðir út með sínum gjaldeyrissjóðum. En þar sem ekkert er til af slíku, eins og hér, liggur við stöðvun, ef nokkuð ber út af.

Þessi mál öll eru ákaflega vandmeðfarin, og vissulega þarf til þess nokkurt tóm að undirbúa vandlega tillögur til úrbóta, og það er aðeins það, sem ríkisstj. hefur óskað eftir.

Í þessu sambandi verður ekki komizt hjá því að minnast á gagnrýni stjórnarandstöðunnar á fyrrv. ríkisstj. Alþfl. fyrir aðgerðir hennar í efnahagsmálunum, en þessa gagnrýni hefur sérstaklega Framsfl., forsvarsmenn hans og blöð, rekið með miklu offorsi, og lét hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, ekki sitt eftir liggja í því efni í máli sínu hér áðan. Því hefur verið haldið fram þar í sveit, að Alþfl. hafi skilið eftir sig flag í þessum málum, þegar hann lét af völdum, en þannig hefur bæði Tíminn og hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, komizt að orði. Því er haldið fram, að með óhóflegum niðurgreiðslum og víxlum, sem dregnir hafa verið á framtíðina, hafi tekizt að kaupa sér stundargrið og nú sé komið að skuldadögum. Raunar hefur mátt skilja það á þessu fólki, að mestallur vandinn, sem þjóðinni er nú á höndum, sé því að kenna, hvernig stjórn Alþfl. hafi staðið að þessum málum. Hið sanna er þó, að hér er hlutunum alveg snúið við. Fyrir aðgerðir Alþfl.-stjórnarinnar er vandi efnahagsmálanna í dag miklu auðleystari en ef sú verðbólguþróun, sem dafnaði vel í tíð vinstri stjórnarinnar, hefði fengið að þróast áfram. Allir muna, hvernig ástandið var 1958 og alveg sérstaklega í lok þess árs, þegar vísitalan hækkaði með risaskrefum, t.d. um 17 stig 1. nóv. það ár. Það var þá þegar ljóst, að ef ekki yrði að gert, mundi verðlag og verðlagsvísitala halda áfram að vaxa með sífellt auknum hraða, og sérfræðingar reiknuðu út, að hún mundi verða komin upp í a.m.k. 270 stig á haustnóttum 1959, ef ekki yrði að gert. Þetta kom stjórn Alþfl. í veg fyrir, þannig að að því leyti er miklu auðveldara við hlutina að fást nú en mundi hafa verið. ef ekki hefði verið að gert. Þessi árangur náðist, eins og menn muna, með niðurgreiðslu vöruverðs og með niðurfærslu launa um 5.4%. Vitanlega þurfti fé til að greiða verðlagið niður, en ekki var þó niðurgreiðslukostnaðurinn á vöruverði aukinn um 250–300 millj. kr., eins og segir í Tímanum 3. þ.m., heldur er þar ýkt um rúman helming, og treysta þó fáir sér til þess að ljúga svo miklu. Fjár til þessara niðurgreiðslna var aflað með því að færa tekjur ríkissjóðs á fjárlagafrv. til rétts vegar, með því að nota tekjuafganginn, sem fyrir hendi var, og með því að hækka tóbak, áfengi og bíla eða álagið á þessar vörur nokkuð. Með þessu náðust greiðsluhallalaus fjárlög án þess að leggja á nýja almenna skatta og tekjur, sem heita mátti að nægðu útflutningssjóði alveg til að standa við sínar skuldbindingar, allt án þess, að nokkrir víxlar væru dregnir á framtíðina. heldur var séð fyrir tekjum á árinu til þess að standa undir gjöldum. Allt tal þeirra framsóknarmanna um, að hér sé byrðum ársins 1959 velt yfir á framtíðina, er því með öllu staðlausir stafir.

Þá hefur því verið haldið fram af framsóknarmönnum, að þessum árangri væri náð með hóflausum innflutningi á hátollavörum og meiri en nokkru sinni áður. Sannleikurinn í því máli er sá, að á innflutningsáætlun fyrir árið 1959 er gengið út frá svipaðri og þó heldur lægri tölu í þessu skyni en gert var ráð fyrir í áætlun ársins 1958. Og fram úr þeirri áætlun verður vissulega ekki farið, og meira að segja verður sá innflutningur þó heldur lægri en þar er gert ráð fyrir, og allar líkur benda til þess, að hann verði lægri en hann var 1958 undir stjórn þessara manna.

Allt ber þess vegna að sama brunni. Sá árangur, sem náðst hefur á árinu 1959, hefur náðst án nokkurrar víxlaútgáfu á framtíðina, og þó að fullkominn jöfnuður náist ekki í útflutningssjóði, þá er það, sem þar kann að vanta á, örlítið brot af umsetningu hans, enda hefur hann á árinu staðið betur í skilum en hann hefur gert nokkru sinni áður að dómi formanns sjóðsstjórnar, og ætti hann þó ekki að vera hlutdrægur fyrrv. ríkisstj. í vil.

En þegar allt um þrýtur fyrir þeim mönnum, sem þá kenningu hafa boðað, að fyrrv. ríkisstj. hafi með óforsjálni farið að hlutunum, er gripið til þess ráðs að rugla saman árum. Vegna þess að komið hefur í ljós, að ríkissjóður og útflutningssjóður munu þurfa allmiklu meira fé 1960 en 1959, er sagt, að þessa sjóði skorti nú þá upphæð, sem talið er að þeir þurfi árið 1960, og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, var einnig inni á þessari hugsun hér áðan. En í gegnum slíkar blekkingar sér vitanlega hver maður. Versnandi afkoma útflutningssjóðs á árinu 1960 miðað við 1959 kemur fyrst og fremst af því, að reiknað hefur verið í áætlunum ársins 1960 með minni innflutningi á hátollavöru, en það er hún, sem hefur gefið útflutningssjóði mestar tekjurnar. Þessi minnkaði innflutningur hefur líka þau áhrif að draga úr tekjum ríkissjóðs, þannig að afkoma hans verður einnig lakari. En að halda áfram innflutningi hátollavöru svipað og gert hefur verið undanfarin ár fyrir útlend lán nær náttúrlega ekki nokkurri átt. — Aukin útgjöld vegna trygginga, menntamála og fleiri atriði á fjárl. verka líka í sömu átt. En þó að þar hafi ekki enn verið séð fyrir, hvernig þessu skuli mætt, nær náttúrlega engri átt að blanda því saman við afkomu ársins 1959.

Með þessum orðum tel ég mig hafa svarað þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram, sérstaklega hjá framsóknarmönnum, á fyrrv. ríkisstj. Alþfl. fyrir það, hvernig hún hafi haldið á þessum málum það tæpa ár, sem hún fór með þau. En tilgangurinn er auðsær. Hann er sá að draga athyglina frá því, hvernig málin stóðu, þegar stjórn Hermanns Jónassonar hljóp frá vandanum í árslok 1958 á hengiflugsbrúninni, þar sem hann sá holskeflu dýrtíðarinnar ríða yfir.

Fyrrv. ríkisstj. tók aðeins að sér að leysa einn þátt þessara vandamála, þann að halda í skefjum víxlhækkun verðlags og launa, og það tókst. Hins vegar gat hún ekki ráðizt að öðrum þáttum þessa vandamáls, einfaldlega vegna þess, að til þess skorti hana þingfylgi á bak við sig. Það hlaut því að verða verkefni þeirrar meirihlutastjórnar, sem mynduð yrði og hefði á bak við sig nægilegan og öruggan þingvilja til að koma málum fram, að gera þetta, enda var það margtekið fram af okkur Alþfl.-mönnum, þegar stjórnin var mynduð um áramótin síðustu. Framsfl. valdi sér í vetur, þegar efnahagsmálin voru þá til umr., ekki stórmannlegt hlutskipti, þegar hann í orði reyndi að gagnrýna aðgerðirnar, en í verki treysti sér ekki til að vera á móti þeim og sat hjá við allar atkvgr. hér á Alþingi. Hann hefur þó nú komið fram sýnu verr, þar sem hann vill ekki gefa ríkisstj. tóm til að ganga frá tillögum sínum og raunar ræðst á þær, áður en þær eru komnar fram.

Það hefur komið fram oftar en einu sinni í umr. þessa daga, sem þingið hefur setið, hvers vegna Framsfl. leggur á það slíkt höfuðkapp, að Alþ. verði ekki frestað nú. Það er vegna þess, að flokkurinn telur sig hafa fundið inn á, að full samstaða væri ekki innan ríkisstj. um afgreiðslu brbl., sem sett voru í haust um verðlag landbúnaðarafurða. Þessi lög falla úr gildi 15. des. n.k. Það er á þeirri fáfengilegu trú, sem neitun á þingfrestun er byggð, að ef það tækist að halda Alþ. hér fram yfir þann tíma, mundi skerast í odda á milli stjórnarflokkanna um lausn málsins og að á þann hátt mætti takast að koma stjórninni fyrir kattarnef. ríkisstj. hefur hins vegar lýst því yfir, þegar hún tók við, að hún muni gera sitt ýtrasta til að fá aðila, framleiðendur og neytendur, til þess að koma sér saman um lausn málsins, og þær tilraunir eru þegar hafnar fyrir nokkru. Þetta virðist vera eitur í beinum Framsfl., sem einblínir á hitt, að leysa málið einhliða og það þrátt fyrir að vitað er, að flestöll launþegasamtök bíða nú með opna samninga tilbúin til þess að gera sínar hækkunarkröfur, ef málið verður leyst á þennan hátt. Hér kemur enn fram það, sem ég hef áður nefnt, að setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum, en það skal Framsfl. vita, að slíkt kann ekki neinni góðri lukku að stýra, ekki heldur fyrir flokkinn sjálfan, því að á slíku hefur þjóðin hina mestu skömm.

Verðlagsmál landbúnaðarins eru vandleyst, svo vandleyst, að það verður að freista þess til hins ýtrasta að ná um þau samkomulagi. Hitt nær engri átt, þó að það kunni að kitla hinar pólitísku taugar framsóknarmanna, að koma á stað sundurlyndi innan stjórnarflokkanna um málið, að láta það verða til þess að hleypa á stað nýrri verðbólguskriðu eins og þeirri, sem Framsfl. og Alþb. hlupu frá fyrir rúmu ári. Frestur til að vinna að lausn þessara mála allra er því nauðsynlegur og skynsamlegur, og ég vænti þess. að hann verði samþykktur.