07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2503)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Þar sem hér er um að ræða ósvífna tilraun af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að reka Alþingi heim, þegar þjóðin þarf að búa sig undir að ráða fram úr erfiðum efnahagsmálum, og þar sem það er auðsjáanlega tilætlun ríkisstj. að losa sig við Alþ. til þess að geta beygt sitt eigið þinglið undir fyrirætlanir, sem hún er að ráðfæra sig um núna við útlenda sérfræðinga, þá álít ég, að það nái ekki nokkurri átt, að Alþ. láti reka sig heim og gefi stjórninni þannig aðstöðu til þess að undirbúa árásir á alþýðu manna um allt land, án þess að nokkur ástæða sé til slíkra aðgerða af hálfu ríkisstj. og meiri hluta Alþingis. Ég álít nauðsynlegt þvert á móti, að tíminn hefði verið undirbúinn hér til þess að skapa öðruvísi efnahagsstefnu og heillavænlega fyrir alla alþýðu, en ekki til að blekkja menn, eins og með þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar nú í kvöld af hálfu hæstv. ríkisstj. Þess vegna segi ég nei.