10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

88. mál, söluskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Með þessu frv., ef að lögum verður, er sýnt, að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar eru að stíga þriðja risaskref sitt til hömlulausrar dýrtíðar í landinu, Fyrsta skrefið í þessa átt var gengisfellingin, sem hækkaði söluverð á öllum erlendum gjaldeyri um a.m.k. 66% til jafnaðar, þegar niðurfelld yfirfærslugjöld eru frá tekin. Annað skrefið hefur svo orðið vaxtahækkunin.

Þetta skref kemur að vísu ekki með öllu á óvart, þar sem þessi löggjöf, sem boðuð er með þessu frv., var tilkynnt um leið og hið síðara fjárlagafrv. var lagt hér fram á hv. Alþingi í endaðan janúar s.l. Þetta kemur sem sagt því ekki með öllu á óvart. En hitt verður vafalaust nokkurt undrunarefni ýmsum, að skattheimtan öll er í þessu frv. gerð stórkostlega miklu stærri í sniðum en boðað hafði verið og miklu lengra gengið í átt til dýrtíðaraukningar en yfirlýst hafði verið og menn hafði grunað.

Sú skefjalausa og ég vil segja ófyrirleitna skattheimta, sem hér er ráðgerð, mun ekki reynast lítilvægasti þátturinn í því að hækka svo almennt verðlag í landinu ofan á það, sem þegar hefur verið að gert í þeim efnum, að launamönnum verði gert óbærilegt við að búa, eftir að þeir hafa verið sviptir með öllu rétti til nokkurra verðlagsbóta á laun sín. Það má segja, að hver nýr þáttur hinnar svonefndu viðreisnarstefnu núv. hæstv. ríkisstj. af öðrum birtist nú þjóðinni með þeim afleiðingum, að almenningur sér hagsmunum sínum og lífsafkomu ógnað því meir sem viðreisnin færist frekar í aukana. En jafnframt verður augljósara falsið og blekkingarnar um, að verið sé að stofna til varanlegs jafnvægis í efnahagsmálunum og skapa atvinnuvegunum heilbrigðan grundvöll, og enn fáránlegri fullyrðingarnar um stöðvun verðbólgunnar, sem átt hefur að vera eitt aðaleinkenni þessara svokölluðu viðreisnarráðstafana.

Við fyrstu athugun þessa frv., en til þess hefur okkur alþm. gefizt minna ráðrúm til athugunar en ýmsum öðrum aðilum í landinu, þar sem vitað er, að frv. hefur verið dreift út um borg og bý dögum eða jafnvel vikum áður en stjórnarandstöðunni hér á Alþingi er sýndur sá trúnaður, að henni sé afhent svo mikið sem eitt eintak til yfirlestrar, en við fljóta athugun málsins er það einkum þrennt, sem sker sérstaklega í augun.

Það er í fyrsta lagi, að gengið er þvert á gefnar yfirlýsingar um skatthæðina sjálfa og hún gerð stórkostlega miklu hærri en boðað hafði verið með því að meira en tvöfalda söluskatt af innfluttum vörum, sem yfirlýst var af hæstv. fjmrh, í grg. með fjárlagafrv., að ekki yrði hróflað við.

Í öðru lagi vekur það mikla athygli, hve illa löggjöfin sjálf er undirbúin og úr garði gerð, sem síðan er reynt að breiða yfir með því að veita fjmrh. nær því ótakmarkað vald á því nær öllum sviðum framkvæmdarinnar og jafnvel gengið svo langt að fá honum dómsvald í hendur, sem að sjálfsögðu er alger óhæfa, sem tæpast á sér nokkra hliðstæðu í íslenzkri löggjöf.

Og svo í þriðja lagi, að frv. hefur í för með sér svo gífurlega skriffinnsku, að um algert met mun vera að ræða, og er þá mikið sagt.

Að sjálfsögðu koma svo til fjölmörg smærri atriði, sem til greina koma og virðast stefna viðskipta- og athafnalifi þjóðarinnar til rangrar áttar, en ég mun ekki ræða á þessu stigi málsins.

Í fjárlagafrv., sem lagt var fram á Alþingi síðustu dagana í janúarmánuði, er gert ráð fyrir því, að á verði lagður almennur söluskattur, að upphæð 280 millj. kr., og jafnframt, að niður verði lagður núgildandi skattur af innlendri framleiðslu og þjónustu, sem eftir fjárlögum s.l. árs var áætlaður 105 millj. kr. Í grg. fjárlagafrv. er hins vegar sagt: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu s.l. árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“ Jafnframt var svo skýrt frá því bæði utan þings og innan, að þessi almenni söluskattur yrði innheimtur með 3% álagi á selda vöru og þjónustu.

Af þessu er auðséð, að gefnar yfirlýsingar um, að söluskattur af innfluttum vörum yrði ekki hækkaður, hafa verið þverbrotnar. Hann hefur til þessa verið 7% miðað við tollverð vöru, að viðbættri 10% áætlaðri álagningu, eða 7.7% miðað við tollverðið eitt. Með bráðabirgðaákvæði frv. er þessi annar þáttur söluskattsins hækkaður um 8.8% eða í 16.5%, miðað við tollverð innfluttrar vöru, eða hækkunin er alls um 114% frá því, sem yfirlýst hafði verið.

Í fjárlagafrv. er þessi hluti söluskattsins nú áætlaður 154 millj. kr., 114% af þeirri upphæð verða 175.5 millj. kr., miðað við heilt ár, og það er þetta lítilræði, sem hæstv. ríkisstj. lætur sig ekki muna um að leggja á ofan á þá hækkun innlenda söluskattsins, sem hún hafði boðað og að fullu er framfylgt með þessu frv. Hæstv. fjmrh. reyndi að afsaka þessa stórkostlegu aukningu álaganna frá því, sem boðað hafði verið, með því, að nú hefði verið horfið frá því að leggja söluskatt á byggingarvörur og mannvirkjagerð, enn fremur að það hefði verið hætt við að leggja hann á rekstrarvörur sjávarútvegs og landbúnaðar, og í þriðja lagi, að nú hefði komið í ljós, að aðeins væri hægt að innheimta þennan skatt 9 mánuði af árinu.

Ég held, að allar þessar staðhæfingar hafi legið fullkomlega fyrir, þegar sú yfirlýsing var gefin, að við söluskattinum í tolli yrði ekki hróflað, svo að þetta geti ekki talizt þar til neinnar afsökunar. Hitt skiptir svo auðvitað ekki neinu meginmáli, hvort þarna er um að ræða misreikning hagfræðinga eða þversnúning í ákvörðunum sjálfrar ríkisstj. En ég minnist þess í þessu sambandi, að í bókinni Viðreisn, sem þm. og aðrir landsmenn hafa fengið í hendur, er því lýst yfir, að öll frv., sem varði aðgerðirnar í efnahagsmálunum, séu að fullu frágengin, þegar sú bók er prentuð. En hæstv. ráðh. má að sjálfsögðu hafa það hvort sem hann heldur vill, að þarna sé um stefnubreytingu að ræða hjá ríkisstj. eða að hagfræðingarnir hafi misreiknað sig. Það skiptir að sjálfsögðu ekki málí, heldur sú staðreynd, að álögurnar hafa verið auknar stórkostlega frá því, sem boðað hafði verið.

Þá kom hæstv. ráðh. með þær furðulegu fullyrðingar, að hér væri yfirleitt ekki um neinar nýjar álögur að ræða. Og hann fann þetta út á þann hátt að leggja saman tekjuskattslækkunina, afnám 9% söluskattsins og 56 millj. króna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Á fjárlögum s.l. árs var hlutur ríkissjóðs af báðum tegundum söluskatts áætlaður 151.4 millj. kr. og útflutningssjóðs 70 millj. kr., eða samtals 221 millj. kr. Miðað við heilt ár getur söluskatturinn nú ekki numið lægri upphæð en 509.5 millj. kr., ef gert er ráð fyrir því, að hagfræðingar ríkisstj. hafi ekki misreiknað sig um 100 millj. kr., en 100 millj. hærri að sjálfsögðu, ef breytingin stafar af því, eða þá yrði hann 609 millj. kr. En við skulum gera ráð fyrir lægstu hugsanlegri upphæð miðað við eitt ár, þ.e.a.s. 509.5 millj. Lágmarkshækkun söluskattsins er því 509.5 millj. mínus það, sem hann var á s.l. ári, 221.4 millj., eða 288.1 millj., miðað við eitt ár, eða nokkru meiri en öll sú upphæð, sem hæstv. forsrh. og fleiri talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa marglýst yfir að allur vandi efnahagsmálanna væri. Þeir hafa margtekið fram, að miðað við óbreytt efnahagskerfi skorti ríkissjóð og útflutningssjóð 250 millj. kr. til þess, að allt gæti gengið á svipaðan hátt og það hefur gert. En því hefur hins vegar verið haldið fram, að horfið hafi verið að öðrum leiðum vegna þess, að þær yrðu miklu léttbærari fyrir almenning. En þetta smáræði, 288.1 millj. kr., miðað við ársveltu þessa skatts, er það smáræði, sem vikið er að almenningi ofan á 66% hækkun á allri gjaldeyrissölunni, sem hefur hækkað allt verðlag í landinu um á annan milljarð króna, og auk vaxtahækkunar upp á 11–12%, að því að sjálfsögðu slepptu, að ýmis og margháttuð önnur gjöld hafa verið stórkostlega hækkuð, en þar er að sjálfsögðu um að ræða hreina smámuni, samanborið við þetta þrennt, sem ég hef nú nefnt. Og allt þetta hefur gerzt og er að gerast undir þeim kringumstæðum, að lögbannað hefur verið, að launamenn hljóti nokkrar bætur fyrir hækkað verðlag.

Það er hægt að sjálfsögðu að skoða þetta á ýmsan hátt. Á s.l. ári nam söluskatturinn t.d. rúmlega 6 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu að meðaltali, en nú nemur hann rúmlega 14 þús. kr. að meðaltali á slíka fjölskyldu, eða hefur verið hækkaður um 8 þús. kr. Það er vissulega ekki að undra, þó að hæstv, ríkisstj. og hæstv. fjmrh. hælist um yfir því, að tekjuskattur af lágtekjum muni verða afnuminn, þegar þetta skattaok kemur í staðinn.

Annars þóttu mér það athyglisverðar tölur, sem hæstv. ráðh. fór með hér í sambandi við tekjuskattinn, þegar hann taldi, að afnám hans af lágtekjum mundi nema 108 millj. kr. Það er nú ekki búið að fleygja öllum frv. frá fyrrv. hæstv. fjmrh. í ruslakörfuna. A.m.k. muna menn enn þá eftir því, að þar er allur tekjuskatturinn áætlaður 130 millj. kr., svo að samkvæmt þessum nýjustu tölum hæstv. fjmrh. virðast eiga að vera eftir af skattinum 22 millj. kr., og ég verð að segja, að ef það er rétt, sem reyndar stangast algerlega á við það fjárlagafrv., sem hann hefur lagt fram, þá verður skatturinn lækkaður á fleiri en þeim, sem hafa almennar launatekjur. En annaðhvort hlýtur þetta að vera rangt eða þá að byggt er á alröngum forsendum, þegar gert er ráð fyrir því, að tekjuskatturinn nemi nú 70 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir í sínu fjárlagafrv., svo að þarna fer eitthvað á milli mála í öðru hvoru tilfellinu.

Ég tel, að ekki fari á milli mála, að slíkur söluskattur sem hér er ráðgerður sé að gengisfellingunni slepptri ein aldrýgsta aðferð til dýrtíðaraukningar á almenna neyzlu og nauðþurftir. 3% kunna kannske í augum sumra að líta sakleysislega út á pappírnum. En þau síga í, þegar fátt er undanskilið skattheimtunni nema neyzluvatn og sem betur fer loftið, sem við öndum að okkur, a.m.k. er það ekki tekið fram, að greiða beri söluskatt af því. En athugandi er líka, að þessi skattur er í mörgum tilfellum ekki bundinn við 3% ein. Það eru miklar líkur til þess, og reyndar eru því gerðir skórnir að sumu leyti í grg. frv., að hann muni kannske ekki alltaf verða aðeins einu sinni lagður á, þó að það eigi að vera að jafnaði, eins og segir, enda sýnast mér nokkrar líkur á því, að hann muni geta verið tvöfaldur í ýmsum tilvikum. Hitt er að sjálfsögðu miklu veigameira, sem reynt er að leyna, að á öllum erlendum neyzluvörum og reyndar langflestum erlendum vörum verður samanlagður söluskattur í tolli og aftur í smásölu ekki 3%, heldur raunverulega 20 og jafnvel upp í 25%. Miðað við tollverð er lagður á 16.5% skattur. Ef gert er ráð fyrir 30% álagningu að meðaltali í smásölu og heildsölu samanlagt, sem er að sjálfsögðu allt of lágt, eða 20% umfram þau 10, sem strax eru lögð á, hækkar grunnurinn, sem 3% koma á, þannig að endanleg skattlagning verður ekki 16.5% plús 3%, sem mundi gera 19.5%, heldur 16.5% plús a.m.k. 4–5%, eða yfir 20% miðað við tollverð, og sennilega mundu 25% vera nær sanni í ýmsum tilfellum. Þetta þýðir, að söluskatturinn einn nemur 1/6–1/5 af öllu verði erlendra vara, þegar neytandinn kaupir þær í smásölu úr verzlun sinni, og er þá miðað við, að skatturinn sé aldrei innheimtur nema einu sinni, sem tæplega mun standast og reyndar er látið liggja að í grg. þessa frv., en áður var skatturinn á slíka vöru, eins og ég hef áður getið, 7.7% miðað við tollverð. Hér er því ekki um neitt smápot til lítilfjörlegs tekjuauka í ríkissjóð að ræða, heldur eitt stærsta skref, sem stigið hefur verið, til óþolandi verðþenslu í landinu. Okkur er að vísu sagt, að hér sé um bráðabirgðaákvæði að ræða, að því er snertir tvöföldun söluskattsins í tolli, en menn hljóta að spyrja, hvenær það hafi komið fyrir, að þvílíkri skattheimtu hafi verið létt af, þegar hún á annað borð hefur verið orðin staðreynd, enda mun það sannast mála, að það þarf meira en viljann til, þegar búið er að vinna slíkan skatt inn í verðlagið í landinu, og í þessu sambandi fer ekki heldur hjá því, að maður veiti því athygli í grg. frv., að það er aðeins heitið endurskoðun á málinu fyrir næsta Alþingi, en hvergi fullyrt, að um niðurfellingu á þessum skatti verði að ræða.

Í grg. frv. kemur fram nokkur afsökunartónn varðandi undirbúning frv. Sagt er, að skammur tími hafi verið til stefnu og því sé hér farin bráðabirgðaleið.

Þegar sjálft frv. er lesið yfir, hvarflar að manni sú spurning, hvort ekki hefði mátt stytta frv. í eina stutta setningu, sem hefði þá orðið eitthvað á þessa leið: Fjmrh. er heimilt að leggja á söluskatt allt að 16.5% á erlenda vöru í tolli og 3% að auki á innlendar vörur og þjónustu. Hann skal ráða, hverjar vörur séu skattskyldar og hverjar undanþegnar skatti. Hann skal og ákveða, hverjir greiði skattinn og hverjir ekki. Honum skal og veitast dómsvald í öllum málum, er skattheimtuna varða.

Þessi háttur hefði a.m.k. sparað það að taka fram tugum sinnum, ítreka og margendurtaka í nálega hverri grein frv. og jafnvel allt að 5 sinnum í sömu gr., að fjmrh. væri heimilt, fjmrh. gæti, að fjmrh. mætti o.s.frv., o.s.frv. breytt í mýmörgum atriðum frá meginefni laganna og lagað þau í hendi sinni eftir eigin geðþótta og síðast, en ekki sízt, haft refsivaldið í hendi sér að verulegu leyti. Hefur maður þó í einfeldni sinni haldið, að hér á landi ætti dómsvald og framkvæmdavald að vera greinilega aðskilið.

Ég fæ ekki betur séð en h-liður 5. gr. tryggi ráðh. vald til þess að veita hvaða tilteknum flokkum aðila sem er skattfrelsi, ef honum býður svo við að horfa. 7. gr. veitir honum enn frekara vald til undanþágu. 18. gr. veitir svipað vald til handa ráðh. um undanþágur á söluskatti í tolli og honum hefur áður verið veitt varðandi söluskattinn af innlendum vörum og þjónustu. 20. gr. ítrekar enn vald ráðh. til að veita undanþágur. Og svo er það loks 25. gr. Þar er hvorki meira né minna en ákveðið, að fjmrh. geti ekki aðeins, heldur sé skylt að taka sér dómsvald og ákveða sektir eftir málavöxtum, sektir allt að tífaldri upphæð við þá, sem tapazt kann að hafa vegna rangra upplýsinga framteljanda. Ráðh. er þarna falið að meta málavexti í brotamálum og ákveða refsinguna, þ.e.a.s., hann er í vissum tilvikum a.m.k. orðinn handhafi dómsvaldsins. Ef fordæmi finnst fyrir þvílíkri lagasetningu, væri vissulega fróðlegt að fá slíkt upplýst.

Í grg. frv. er söluskattinum m.a. fundið það til framdráttar, að hann sé svo auðskilinn og framkvæmd hans auðveld. Sannast held ég þó sagna, að þetta frv. beri þess ljósan vott, að sjálf framkvæmdin er svo flókin, að höfundar frv., hverjir sem þeir kunna að vera, hafa blátt áfram gefizt upp við að festa á blað nokkur fullnægjandi ákvæði um hana, en hafa farið út á þá braut að leysa vandann að verulegu leyti með nær ótakmörkuðu valdi til handa fjmrh., en að hinu leytinu með margföldun skriffinnsku, ekki aðeins er embættisfærslu skattyfirvalda áhrærir, heldur einnig í þeim hundruðum eða jafnvel þúsundum fyrirtækja, sem sjá eiga um greiðslu skattsins. Held ég þó, að víðs fjarri fari, að öll kurl séu í þeim efnum komin til grafar fyrr en allar reglugerðir, sem að þessu lúta, eru fram komnar. Ræði ég það ekki frekar á þessu stigi málsins, en vart hygg ég, að hjá því fari, að ýmsa, sem hér eiga hlut að máli, muni sundla við lestur 11.–16. gr. frv. og við tilhugsunina um allt það pappírs-, eyðublaða-, leyfa- og úrskurðaflóð, sem þar er til stofnað.