06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

85. mál, krabbameinsvarnir

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir um auknar krabbameinsvarnir, felur í sér áskorun á ríkisstj. um að beita sér fyrir því í samráði við Krabbameinsfélag Íslands og heilbrigðisyfirvöld landsins, að krabbameinsvarnir verði efldar, svo sem frekast má verða. Í þeim tilgangi verði m.a. lögð áherzla á: a) að efla allar rannsóknir, sem nauðsynlegar eru við greiningu á krabbameini, b) að auka stuðning við öflun fullkomnustu tækja til rannsókna og lækninga á krabbameini, c) að bæta aðstöðu leitarstöðva Krabbameinsfélags Íslands og athuga, hvort tiltækilegt sé að stofna leitarstöðvar utan Reykjavíkur, d) að aukin verði almenn fræðslustarfsemi um sjúkdóminn.

Um síðustu aldamót voru eftirfarandi sjúkdómar algengastir og skæðastir á Íslandi: Sullaveiki, holdsveiki, barnaveiki, taugaveiki og berklaveiki. Nú hefur þessum sjúkdómum verið útrýmt að undanskilinni berklaveikinni, sem þó hefur minnkað stór kostlega síðustu áratugina. Það er athyglisvert, að tveim fyrstnefndu sjúkdómunum hefur aðallega verið útrýmt með sérstökum varnarráðstöfunum, sem byggzt hafa á heilbrigðislöggjöf.

Árið 1890 voru sett lög um sullaveikivarnir. áður en þau komu til sögunnar, mun hér um bil fimmti hver fullburða Íslendingur hafa smitazt af sullaveiki. Fyrsta áratug þessarar löggjafar mun tólfti hver Íslendingur hafa smitazt, næstu 10–20 árin nálega 1 af hverjum 150 og eftir árið 1920, þ.e.a.s. 30 árum eftir að þessi lög voru sett, er aðeins vitað um örfá tilfelli af sullaveikismitun.

Lög um varnir gegn holdsveiki voru sett árið 1898 eða um svipað leyti og Laugarnesspítalinn tók til starfa, og 20 árum síðar var útrýming þessa sjúkdóms svo vel á veg komin, að Guðmundur heitinn Hannesson spáði því þá, að sjúkdómurinn yrði að mestu horfinn úr landinu um miðja öldina, þ.e. um 1950. Hefur sá spádómur reynzt næsta réttur.

Hér var um að ræða sjúkdóma af þekktum orsökum, en með krabbamein horfir málið öðruvísi við, þar sem orsakir þess eru óþekktar enn. Læknar telja nú fullvíst, að verulegum árangri í baráttunni gegn krabbameini megi ná með vel skipulögðum aðgerðum, og skal hér bent á nokkur atriði því til stuðnings.

Með frumurannsóknum má í mörgum tilfellum greina sjúkdóminn fyrr en með öðrum aðferðum. Með þessari aðferð má að áliti lækna finna krabbamein í legi hjá 4% sjúklinga á aldrinum 30–50 ára, sem hafa svo óljós byrjunareinkenni, að sjúkdómurinn verður ekki greindur með öðrum aðferðum. Með rannsóknum, sem framkvæmdar voru í brezku borginni Birmingham á 2500 sjúklingum með eðlilegum röntgenmyndum af maga, fannst krabbamein hjá 1% með frumurannsóknaaðferðinni. Með þessari aðferð er oft hægt að greina krabbamein, að því er læknar telja, mjög snemma, og því fyrr sem krabbameinið er greint, því betri eru batahorfur. Reynsla í Bandaríkjunum hefur t.d. sýnt, að á krabbaleitarstöðvum er hægt að finna krabbamein hjá 8–10% þeirra sjúklinga, sem telja sig heilbrigða.

Hér á landi þarfnast nálega 500 sjúklingar árlega sjúkrahúsvistar vegna krabbameins, og eru að jafnaði 50 þeirra innan fertugs. Árlega deyja hér úr krabbameini um 200 manns, og er það næstalgengasta dánarorsökin. Krabbamein kostar meiri þjáningu fyrir einstaklinga en flestir aðrir sjúkdómar og ærið fé fyrir þjóðfélagið vegna vinnutaps, sjúkrahúsvistar o.s.frv. Að vísu kostar meira að greina krabbamein á byrjunarstigi en eftir að einkennin eru orðin ljós, en árangur af lækningunni er því betri, því fyrr sem sjúkdómurinn finnst.

Ég skal ekki hætta mér út á þá braut að ræða um þennan sjúkdóm, sem þessi till. fjallar um, frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Til þess mundi mig bresta alla þekkingu. En við flm. till. höfum leyft okkur að leita greinargerðar um þau úrræði, sem tiltækilegust eru til aukinna krabbameinsvarna, hjá samtökum lækna hér í Reykjavík. Áður en ég kem að lokaniðurstöðum þeirrar greinargerðar, vildi ég minna á það, að hér á landi hefur verið unnið mikið og þjóðnýtt starf af hálfu ýmissa ágætra lækna og nýstofnaðra krabbameinsvarnasamtaka í því skyni að efla varnirnar gegn þessum skelfilega sjúkdómi.

Það, sem stjórn Læknafélags Reykjavíkur telur í stuttu máli sagt tiltækast til skjóts árangurs af auknum krabbameinsvörnum, eru eftirfarandi atriði, og stikla ég þá aðeins á nokkrum höfuðatriðum:

1) Að sköpuð verði aðstaða til þess hér á landi að framkvæma frumurannsóknir í stórum stíl.

2) Að bætt verði aðstaða til almennra vefjarannsókna, þannig að þær gangi fljótar en nú getur orðið.

3) Að hraðað verði sjúkrahúsbyggingum, þannig að sjúklingar þurfi ekki að bíða, hvorki eftir rannsókn né meðferð, þegar grunur eða vissa er um sjúkdóminn.

4) Að athugun fari fram á því, hvort hægt sé að auka kennslu við læknadeild háskólans í greiningu krabbameins.

5) Að auknar verði rannsóknir á sviði kjarnorkufræða. Enn fremur aukið eftirlit með notkun röntgentækja og geislavirkra efna.

6) Betri tæki til geislalækninga verði fengin, og einnig verði sköpuð aðstaða til þess að nota geislavirk efni til sjúkdómsgreininga og aðstaða bætt við sjúkdómsgreiningar með röntgengeislum.

7) Handlækningameðferð á vissum tegundum krabbameins verði skipulögð betur en nú er.

8) Að auka afköst krabbaleitarstöðvarinnar og máske að stofna utan Reykjavíkur fleiri slíkar stöðvar.

9) Að komið verði á fastri skipan á skráningu krabbameinssjúklinga.

Ég vil ljúka minni stuttu framsöguræðu fyrir þessu að áliti okkar flm. mikilvæga máli með því að láta þá ósk og von í ljós, að Alþingi taki vel þessari till., að Krabbameinsfélag Íslands og önnur samtök lækna og leikmanna í landi hér, sem vinna að því að útrýma krabbameininu, verði stórlega styrkt og að allsherjar herferð verði hafin gegn þessum sjúkdómi, sem í dag heggur stærst eða næststærst skarð í raðir Íslendinga. Ég benti á það í því stutta sögulega yfirliti, sem ég gaf hér í upphafi ræðu minnar, að einmitt með löggjöf og aðgerð Alþingis hafa stórkostlegir sigrar verið unnir í baráttunni við sjúkdómana hér í þessu landi á undanförnum áratugum. Það er þörf samstilltra átaka og víðtækra ráðstafana til þess að sigrast á krabbameininu, sem margir halda að læknavísindin standi ráðþrota gagnvart í dag, en reynslan er hins vegar smám saman að sýna, að þau geta áreiðanlega sigrazt á, eins og svo fjölmörgum öðrum bölvöldum í hópi sjúkdómanna.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.