04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2554)

85. mál, krabbameinsvarnir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er þess eðlis, að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því að krabbameinsvarnir verði efldar í landinu, í samráði við Krabbameinsfélag Íslands og að sjálfsögðu heilbrigðisyfirvöld landsins. Bent er á þörf á að efla allar rannsóknir við greiningu á krabbameini, að auka stuðning við öflun fullkomnustu tækja til rannsókna og lækninga á krabbameini, að bæta aðstöðu leitarstöðva og athuga möguleika á því, hvort þeim sé hægt að fjölga, og auka almenna fræðslustarfsemi um þennan sjúkdóm.

Allshn. hefur fjallað um þessa till. og leitað eftir umsögnum frá landlækni og Krabbameinsfélagi Íslands. Landlæknir mælir með samþykkt till., en bendir á það í bréfi sínu, sem hann telur vera langmikilsverðasta verkefni þjóðarinnar í heilbrigðismálum nú, að ljúka þeim sjúkrahúsbyggingum, sem eru í byggingu. Sjúkrahúsbyggingar eru einmitt eitt af þeim atriðum, sem talin eru upp í fskj. með grg. með þáltill. Krabbameinsfélagið mælir mjög með þessari till. og bendir á ört vaxandi þörf á því, að auknar verði gagnráðstafanir gegn þessum sjúkdómi. Sem dæmi vil ég benda á, að samkv. upplýsingum Krabbameinsfélagsins hafa nú fyrir skömmu fundizt þrjú lungnakrabbamein á einni viku, en á árunum 1932–50, 18 ára tímabili, fundust aðeins 12 slík mein eða töluvert minna en eitt á ári. Krabbameinsfélagið bendir á, að þetta sé eðlilegt miðað við það, hversu reykingar og annað, sem talið er orsaka lungnakrabbamein, hefur farið vaxandi hér á landi í seinni tíð.

Að fengnum upplýsingum og meðmælum þessara tveggja aðila og eftir athugun á mjög ýtarlegri grg. frá Læknafélagi Reykjavíkur, sem fylgir þáltill., hefur allshn. orðið sammála um að mæla með því, að till. verði samþykkt.