10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

88. mál, söluskattur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) hefur gert sér grein fyrir því, hvað hann sagði frá mikilvægu atriði í ræðu sinni áðan, ef rétt er, að frv. hafi verið dreift út um borg og bý, áður en því er útbýtt hér á Alþingi. Það eru mjög alvarleg tíðindi og ástæða til þess, að rætt sé um það mál frekar, en að þessu sinni skal ég aðeins vekja athygli á þessu án þess að ræða þetta mál nánar að sinni.

Ég mun ekki fara mörgum orðum um þetta frv. við þessa umr. eða í þetta skipti, sem ég tala. Það má með sanni segja, að skattamálastefna núverandi hæstv. ríkisstj. er orðin að eins konar furðufyrirbæri í íslenzkum stjórnmálum. Hún er eins og eins konar öfugmælavísa. Það er næstum því hægt að rekja það, að í aðgerðunum eftir kosningar er farið svo að segja nákvæmlega öfugt að samanborið við það, sem var talað og lofað og lýst yfir fyrir kosningar. Og nú er farið að brydda á þessu, að það, sem sagt er í grg. fjárlagafrv., eins og hefur verið komið hér að og hv. 5. þm. Norðurl. e. vék að, — það er farið að brydda á því, að það fær ekki staðizt heldur og ýmislegt af því, sem sagt er í bókinni Viðreisn, sem er send út um land, er orðið að hreinum ósannindum, þegar borið er saman við þær upplýsingar, sem koma fram núna.

Það er ekkert litið alvörumál, og það er ástæða til að minnast á það og gera það meira að segja að alvarlegu umræðuefni, hvaða líkur eru til þess, að þessari hæstv. ríkisstj. hafi tekizt að velja rétta leið, þegar hún hringlar alltaf frá einu í annað, eins og kemur fram í þessu frv. og hefur komið fram í fleiri frv. hér á Alþingi. Stöðvunarstefnan er náttúrlega í augum þjóðarinnar orðin ekkert annað en skop. Allir sjá, að hér er svo fjarri þeirri stöðvunarstefnu, sem lýst var yfir fyrir kosningarnar, að með þessu frv. er stofnað á ný til enn þá meiri dýrtíðarflóðs en nokkurn tíma hefur verið stofnað til hér á landi.

Það var talað um það fyrir kosningarnar, — það er ekki ósennilegt, að það verði tekið inn í íslenzkt tímatal, því að fyrir kosningarnar og eftir kosningarnar eru tvö alveg ólík tímabil, — það er fyrir kosningarnar básúnað hér út um allt land, hvílík spilling fylgdi því að hafa tekjuskattinn. Í blaði eftir blað eru birtar yfirlýsingar um, hvað þetta bákn kosti allt saman, hvað það séu margar nefndir, hvað það séu margir skattstjórar, hvað það sé mikil spilling. Fólkinu er sagt, að þetta verði allt saman vitanlega að afnema, og það átti að afnema tekjuskattinn, — við skulum ekki gleyma því, það gleymist fljótt í þessu flóði af yfirlýsingum, — það átti að afnema tekjuskattinn, það átti ekki að afnema hann af lægstu tekjum, það átti að afnema hann alveg og allt kerfið. Þetta átti að gera, vegna þess að hann var ranglátur. Svo fer að brydda á því eftir kosningarnar og eftir að stjórnarflokkarnir tala saman um stjórnarmyndun, þá fara menn að taka eftir og stinga saman nefjum á götu og spyrja: Hvað er um afnám tekjuskattsins? Þá er það, að hann skal felldur niður af almennum launatekjum. Hér kemur fyrst yfirlýsing frá forsrh., að það sé í samningunum, að hann sé felldur niður af almennum launatekjum. Menn spyrja: Hvað eru þessar almennu launatekjur? Eiga þá menn, sem stunda atvinnurekstur eins og bændur, sem samkv. málvenju hafa ekki launatekjur, heldur tekjur af sínum rekstri, ekki að komast undir þessi hlunnindi o.s.frv.? Þetta fer að gægjast fram, almennar launatekjur. En svo kemur í ljós, þegar þetta kemur allt saman í dagsljósið, að yfirlýsingarnar um afnám tekjuskattsins eru að engu hafðar. Það er ekki staðið við neitt þar frekar en annars staðar, og þetta er ekkert annað en leiðrétting, þar sem hækkuð er sú upphæð að verulegu leyti, sem er skattfrjáls af tekjum manna, og ekki nema eðlileg leiðrétting, eftir að krónan hefur fallið í verði með ýmsu móti hvað eftir annað, og verður ekki sízt nú við þessar ráðstafanir, eins og kunnugt er. Þá er þetta orðið að leiðréttingu, sem er þakkarverð og nauðsynleg. En menn skulu bara taka vel eftir því, að allt saman um skattsvíkin, allt kerfið, sem líklegast er að innifeli í sér mestu spillinguna, það er allt saman eftir. Launatekjur liggja vanalega á borðinu fyrir framan skattstjórann, alveg upp á eyri, hvað launamenn hafa í tekjur, eða fólk, sem nú á að undanþiggja skatti, — það liggur á borðinu fyrir framan þá og hefur legið alla tíð. Það, sem er eftir af kerfinu, er einmitt það; sem felur í sér mestu líkurnar fyrir spillingu. Það er til eftir sem áður, og allt báknið, sem átti að fella niður, er skilið eftir. En í staðinn fyrir að létta af bákninu, sem kjósendum var sýnt fram á að kostaði þá ofurbyrðar að halda uppi, — því er öllu saman haldið, — þá á að setja á nýjan söluskatt í smásölu. Í stað þess að fella niður innheimtubáknið er búið til nýtt innheimtubákn til að innheimta söluskattinn, því að það skulu menn vita, og við Íslendingar erum því miður ekki svo löghlýðnir, við höfum ekki fengið orð fyrir það að vera sérstaklega löghlýðnir að því er snertir a.m.k. smærri yfirsjónir og smærri brot, og það er reynsla fyrir því, að það er ekkert barnameðfæri að innheimta söluskattinn í smásölu. Og það er reynsla fyrir því, að það verður ekki fámennur sá hópur, sem þarf til þess að passa upp á það allt saman. Þessu er réttilega lýst af hæstv. viðskmrh. fyrir nokkrum árum, þar sem hann sýnir fram á, að söluskattur í smásölu væri langsamlega ósanngjarnasti skattur, sem hægt væri að leggja á, og óeðlilegur á allan hátt, vegna þess að hann væri lagður á neytendurna, án þess að það kæmi nema hluti af honum inn í ríkissjóðinn. Eiginlega er það í samræmi við regluna, að því hefur verið lýst yfir, að þetta væri það, sem ekki mætti gera, og þess vegna á að framkvæma það nú. Víst er, að það næst talsvert af honum, það er mikið af heiðarlegu fólki í þessu landi, sem betur fer, og skatturinn er, fremur en nokkur annar skattur, skattur á heiðarleika. Þeir, sem eru annars sinnis en þess, að þeir kæri sig um að láta taka af sér þennan skatt, munu fara í kringum hann, og ef það er auðvelt að fara kringum skattalögin að því er snertir tekjur og tekjuskatt, verða áreiðanlega þeir menn, sem það hafa gert, ekki í neinum vandræðum með að komast í kringum þessi ákvæði.

Það hefur verið rakið hér af hv. 5. þm. Norðurl. e., hvernig þessi skattur er lagður á. Það er rétt, það er beinlínis tekið fram, að hann er ekki lagður á neyzluvatn og ekki heldur á mjólk, en það er í fyrsta skipti, að ég veit, að lagður er söluskattur á kjöt og fisk.

Það er þess vegna að mínu áliti að fara úr öskunni í eldinn, ef á að miða við það, að skatturinn sé innheimtanlegur, m.a. að leggja á söluskatt í smásölu, því að það mun reynast rétt, sem ýmsir hafa bent á áður og reynslan hefur sýnt og sannað. Þess vegna hefur þessi skattur verið afnuminn, eftir að stjórnir höfðu reynt, að þessi skattur leggst á almenning, lendir í vasa þeirra manna, sem vilja svíkja hann, en kemur ekki nema nokkur hluti af honum inn í ríkissjóðinn. Þetta verður niðurstaðan.

Það var bent á það hér áðan, og ég hafði veitt því eftirtekt, að í grg. fyrir fjárlagafrv. er sagt, að ekki sé áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, og náttúrlega er það í samræmi við annað, að það fær ekki staðizt, það er breytt alveg þveröfugt við það, sem lofað er í grg, fyrir fjárlagafrv. Þetta er að verða, eins og ég gat um áðan, að algildri reglu. Það má benda á fleiri dæmi því til stuðnings. Nú í morgun hitti ég mann, sem er allkunnugur ýmsum málum, m.a. útflutningsverzluninni. Hann fullyrti við mig, að nú væru að koma nýjar tölur að því er snerti útflutningssjóðinn. Hugsið ykkur, að það hefur aldrei verið hægt fyrir þingmenn að fá áreiðanlegar tölur viðkomandi afkomu úflutningssjóðs, sem er þó m.a. grundvöllurinn undir því, að það þarf að gera þessar breytingar. Nú eiga kannske að koma nýjar tölur þar.

Hér segir fjmrh., að tekjuskatturinn, sem ekki er gefinn eftir, lækki um 110 millj. Hvers konar meðferð á tölum er þetta? Áður er sagt, að það séu 75. Í fjárlagafrv., sem fyrrv. fjmrh. lagði fram áður með skattinum, er hann talinn 130 millj., í núverandi frv. er hann talinn 70 millj., mismunurinn 60 millj. Eftir fjárlagafrv. tveimur er reiknað með því af fjmrh., að það séu gefnar þessar 60 millj. Svo kemur fjmrh. og fullyrðir það hér í þessari hv. d., að það séu gefnar eftir 110 millj. Það fær ekki staðizt, að gefnar séu eftir 110 millj., nema með því móti, að það sé farið með vísvitandi rangar tölur í fjárlagafrv. (Gripið fram í: Hvort tveggja er rétt.) Ja, það er svo sem eftir öðru í þessari speki, að það sé líka rétt. En ætli það sé ekki álíka rétt og áætlanirnar, sem voru birtar um söluskattinn? Ég geri ráð fyrir því. Og það yfirklór er aumkunarlegt að hlusta á hér, þar sem stendur, að áætlanirnar um söluskattinn hafi verið rangar af því, að það hafi ekki verið búið að gera það upp í ríkisstj., hvort það yrðu 3 eða 4%. En í grg. fyrir fjárlagafrv. eða dýrtíðarráðstöfununum, — ég man ekki hvort heldur það var, — er beinlínis sagt frá því, að þessi 3% geri þessa upphæð, en nú er verið að klóra yfir það með því að segja, að ekki hafi verið búið að ákveða, hvort það yrðu 3 eða 4%, og eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. benti á, er búið að senda viðreisnargrg. út um allt land og sagt, að öll frv. séu tilbúin. Þetta er í samræmi við annað. Svo kemur fjmrh. hér og segir, að það hafi ekki verið búið að ákveða, hvort það yrðu 3 eða 4%, og það sé m.a. ástæðan fyrir reikningsskekkjunni.

Söluskatturinn, sem lagður er á, er hvorki meira né minna, eins og bent hefur verið á, en um 16.5%, og það, sem náttúrlega skiptir miklu máli í þessu sambandi og er alveg furðulegt að ekki skuli koma fram í grg., er það, sem ég hef nú bent á. Þegar gerð var grein fyrir verðhækkununum vegna gengisbreytingarinnar, var gerð grein fyrir verðhækkun vegna gengisbreytingarinnar einnar. Það mátti að vísu álita, ef grg. var ekki vandlega lesin, að sú hækkun, sem gert var ráð fyrir, væri af völdum ráðstafananna í heild. En það stóð alltaf í grg., og það er þakkarvert, að þær hækkanir, sem þá voru tilteknar, þar sem ég efast mjög mikið um, að farið sé með réttar tölur, þær voru vegna gengisbreytingarinnar, en það var ekki reiknað með hækkun, sem yrði á söluskattinum, og ekki með þeirri hækkun, sem verður á söluskatti af innflutningi.

Í grg. fyrir þessu frv. er hvergi minnzt á það, hvaða hækkun verði af þessu, — hvergi einu orði. En það, sem skiptir meginmáli, eru vitanlega þær verðhækkanir, sem verða í þessu sambandi, og þess vegna vil ég skora á hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir því. Það dylst engum manni, að það er meginatriðið. Meginatriðið er, hvað hækkanirnar eru miklar og hvort almenningur fær risið undir því ægilega dýrtíðarflóði, sem stofnað er til með álögunum í þessu frv., ef að lögum verður. Ég vænti þess að fá greinileg svör við þessu, því að ég endurtek, að þetta er meginatriðið, og ef það koma ekki svör við því núna, vegna þess að þau séu ekki á reiðum höndum, er nauðsynlegt, að þau komi fram og verði gerð grein fyrir þeim af hæstv. fjmrh. í þeirri n., sem hefur þetta mál til meðferðar.

Það eru ýmsir, sem hafa verið þeirrar skoðunar, að þjóðin mundi með naumindum þola þá kjaraskerðingu, sem varð og verður, kemur fram í hækkunum daglega, við gengisbreytinguna, vaxtahækkunina, samdrátt atvinnu í landinu o.s.frv. Það eru ýmsir, sem efast um, að almenningur fái undir því risið án þess að gera sínar ráðstafanir til þess að mæta þeim álögum. En þegar við þetta bætist í ofanálag hækkun söluskattsins á annað hundrað prósent, trúi ég ekki öðru en það hvarfli að hinum hyggnari mönnum í ríkisstj., að hér hafi boginn verið spenntur svo, að ekki sé lítil hætta á, að hann bresti.

Það veltur vitanlega mikið á því að gera allar þær ráðstafanir, sem gera þarf í sambandi við þær fjárhagsráðstafanir, sem nauðsynlegt var að gera, — það veltur mikið á því, að þær séu gerðar þannig, að ekki sé farið lengra ofan í vasa almennings en nauðsyn krefur, áð ekki séu lagðar þyngri byrðar á bak almennings en óhjákvæmilegt er. En það er engu líkara, þegar maður skoðar þessar ráðstafanir í heild, gengisbreytinguna, sem er óhófleg, ráðstafanir, sem eru gerðar í sambandi við hana, og þetta seinasta afrek að hækka söluskattinn á annað hundrað prósent, en þær séu beinlínis gerðar til þess að ögra almenningi í þessu landi. Og þess vegna er það, að ég og við framsóknarmenn munum að sjálfsögðu beita okkur gegn þessu frv. til hins ýtrasta, því að ef það verður að lögum, endurtek ég það, að það er gengið svo langt, að hætt er við því, að boginn bresti.