11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2562)

29. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. á þskj. 39 og leggur til, að hún verði samþ. Nefndin sendi Búnaðarbankanum till. til umsagnar, en ekkert svar barst frá bankanum.

Eins og fram kemur í grg. fyrir till., má gera ráð fyrir því, að öflug og vel starfrækt veðdeild við Búnaðarbankann mundi í flestum tilfellum leysa lánsfjárþörf bænda fram yfir það, sem þeir hafa getað fengið úr ræktunar- og byggingarsjóði til nýrra framkvæmda. Þegar deildin var stofnuð, mun og hafa verið til þess ætlazt. Í reyndinni hefur því miður verið þannig að deildinni búið með fjármagn, að hún hefur sáralítið getað lánað að undanförnu miðað við þörfina. Hefur þetta getuleysi að sjálfsögðu komið bændastéttinni mjög illa og án efa í mörgum tilfellum hindrað það, að dugandi menn réðust í búskap, þar sem þeir hafa hvergi getað fengið hagstæð lán til jarða- og bústofnskaupa. Allir munu vera á einu máli um, að úr þessu þurfi að bæta.

Með till. þessari, sem fjvn. hefur nú fjallað um, er lagt til, að ríkisstj. láti rannsaka fjárþörf veðdeildarinnar og undirbúi að þeirri athugun lokinni till. um það, hvernig tryggja megi deildinni starfsgrundvöll. Má ætla, að ríkisstj. og þeir aðilar, sem hún kemur til með að kveðja til, hafi bezta aðstöðu til þess að finna raunhæfar leiðir til úrlausnar.

Á síðasta búnaðarþingi var samþ. ályktun um eflingu veðdeildar Búnaðarbankans á þá leið, að skorað var á ríkisstj. og Alþ. að stuðla að því, að tekið yrði á þessu ári allt að 50 millj. kr. erlent lán handa veðdeildinni, sem tryggt yrði með ríkisábyrgð. Með þessari till. búnaðarþings er bent á ákveðna leið til fjáröflunar fyrir veðdeildina, sem án efa verður rækilega athuguð, ef hv. Alþ. samþykkir þá till., sem nú er til afgreiðslu.