02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2577)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem ég flyt hér öðru sinni á þskj. 23, fer í þá átt, að rannsókn verði látin fram fara á möguleikum til betri hagnýtingar hins íslenzka farskipaflota. Hinn gífurlegi fjáraustur, sem á undanförnum árum hefur fram farið í hörðum gjaldeyri vegna erlendra leiguskipa og skiptir nú um tugum millj. kr., er orðinn næsta óhugnanlegur. Sjálfur hef ég ekki óyggjandi tölur í þessu efni frá s.l. ári. Hins vegar eru fyrirliggjandi tölur um gjaldeyrisupphæð í þessu skyni frá árinu 1958. Þá voru yfirfærðar af bönkum vegna leigu erlendra farskipa rúmar 28 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri. Í þessari upphæð ársins er þó ekki meðtalin leiga rússnesks olíuskips. sem einnig var í förum á árinu.

Nú á tímum mikilla umr. um gjaldeyrissparnað annars vegar ásamt algerri endurnýjun hins íslenzka farskipaflota og margföldun á rúmlestafjölda hins glæsilega flota kemur mönnum spánskt fyrir sjónir, að íslenzku skipin sigla oft lítt eða ekkert lestuð til erlendra hafna, en svo eru erlend skip höfð til þess að annast stóran hluta inn- og útflutningsins. Að sjálfsögðu hefur útflutningur okkar stóraukizt með tilkomu stærri og afkastameiri fiskiflota og þó sérstaklega hefur söluferðum togara með eigin afla fram undir síðustu mánuði fækkað og innanlandsvinnsla aukizt. Þessar staðreyndir hagga þó ekki þeirri skoðun manna, að óþarft sé að leigja erlend farskip í svo ríkum mæli undir útflutningsvörur okkar, nema síður væri.

Ekki munu mikil brögð að því, að hraðfrystur fiskur sé fluttur út með erlendum leiguskipum, en þegar kemur að saltfiskframleiðslunni. verða uppi ógeðfelldar staðreyndir. Upplýsingar, sem ég hef um þessa hluti frá árinu 1958, eru á þann veg, að þá flytja íslenzk skip 6 millj. og 60 þús. kg af fiski til erlendra hafna, en erlend skip flytja á sama tíma 24 millj. 683 þús. 949 kg, eða rúmi. 4 sinnum meira magn en hin íslenzku skip. Fyrir þessa þjónustu hinna erlendu skipa greiddum við. eins og ég áðan sagði, nálega 30 millj. kr. út úr landinu í hörðum gjaldeyri. Fyrir tilkomu sementsverksmiðjunnar fluttu íslenzk fiskflutningaskip oft heim með sér sement. Nú flytja þau erlent grjót sem kjölfestu.

Ég hef fróðra manna orð fyrir því, að óþarft sé að hafa slíka óreiðu og skipulagsleysi í þessum efnum sem raun er á nú, þjóðarheildinni til fjárhagslegs tjóns og öllum hlutaðeigandi til vansæmdar. Á fyrstu árum hins svonefnda fjárhagsráðs mun einn af starfsmönnum þess hafa annazt skipulagningu á ferðum farskipanna í góðri samvinnu við skipafélögin. Skipulag þetta var að sjálfsögðu gert með það fyrir augum, að lestarrúm skipanna yrði sem bezt nýtt.

Í þáltill. þessari er gert ráð fyrir rannsókn á ástandi þessara mála og leiði sú rannsókn í ljós, að skipulagsleysi á ferðatilhögun skipanna valdi mestu um, þá verði komið á fastri og skipulagðri samvinnu, sem skipafélögin sjálf beri kostnaðinn af. Sá kostnaður, sem af slíkri starfsemi hlytist, virðist munu geta orðið léttbær, miðað við það fjárhagslega tjón, sem skipafélögin ein hljóta. að verða fyrir af ríkjandi ástandi. Eitt af því, sem styður þá skoðun, að hér valdi mestu um skipulagsleysi og skortur á samvinnu, er, að til hinna suðlægari landa virðast íslenzku skipin ekki hafa neina fasta áætlun, sem t.d. útflytjendur gætu byggt á. Sem dæmi er rétt að nefna, að á árinu 1958 eru flutt til Portúgals 11017400 kg af fiski og til Spánar 1476350 kg, og allt þetta magn er flutt með erlendum skipum. Íslenzk skip komu ekki til þessara hafna á árinu. Til Grikklands siglir eitt íslenzkt skip með 363150 kg, en á sama tíma sigla fimm erlend skip þangað með 2431800 kg af fiski. Hér eru aðeins nefnd þrjú dæmi, sem vissulega gefa til kynna, að úrbóta er þörf og að góð samvinna skipafélaganna sjálfra undir forustu einhvers aðila. er þau sjálf kysu, gæti dregið úr notkun erlendra leiguskipa til flutninga að og frá landinu og um leið lækkað hin gífurlegu útgjöld til þessara hluta í erlendum gjaldeyri.

Verði þáltill. þessi samþykkt, verður einnig að telja nauðsynlegt, að jafnframt fari fram athugun á því, hvort ekki sé unnt að hagnýta betur strandferðaflota okkar, án þess að dregið sé úr nauðsynlegri þjónustu við hinar dreifðu byggðir landsins. Allar þær sagnir, sem berast utan af landsbyggðinni um óreglulegar ferðir strandferðaskipanna, gera nauðsynlegt, að slík athugun fari einnig fram á þessari þjónustu með bætta nýtingu farskipaflotans fyrir augum, þó að ekki komi þar til greina neinn gjaldeyrissparnaður í skipaleigu.

Þáltill. þessa lagði ég fram, eins og ég áður sagði, seint á vetrarþingi í fyrravetur, og hlaut hún þá ekki afgreiðslu. Deilur ættu ekki að þurfa að verða um efni till., og treysti ég því nú, að hv. alþm. geti verið mér sammála um, að opinber forusta um rannsókn þessara mála sé nauðsynleg og að till. fái fljóta og góða afgreiðslu. Herra forseti, ég legg til, að umr. verði frestað um till. á þessum fundi og henni vísað til hv. allshn.