10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

88. mál, söluskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram hið boðaða söluskattsfrv. hæstv. ríkisstjórnar, sem nú er hér til 1. umr. Og það er ekkert undarlegt, þó að menn furði nokkuð á því flestu, sem stendur í þessu frv., ef það er borið saman við það, sem hæstv. ríkisstj. hefur sagt í grg. annarra frv., svo sem fjárlagafrv. og efnahagsmálafrv.

Hæstv. ráðh. leitaðist við að gera grein fyrir, hvernig á því stæði, að nú þyrfti að rifta þeim fullyrðingum, sem fólust í fjárlagafrv., að ekki yrði hróflað við innflutningssöluskattinum, þessum 7.7%, sem eru í gildi. En það er það, sem er einna merkilegast við þetta frv., að hér er stofnað til stórkostlegra álaga á þjóðina með nýjum söluskatti, sem búið var af hálfu hæstv. ríkisstj. að fullyrða að yrði ekki lagður á. Skýringar hæstv. fjmrh. á því, vegna hvers hæstv. ríkisstj. hafi nú orðið að bregðast svona við, voru ekki ljósar að mínum dómi. Ég gat ekki fundið nægjanlega skýringu í þeim ummælum hans. Hann nefndi 3 atriði:

Í fyrsta lagi, að rætt hefði verið um að hafa söluskattinn 3–4%, þennan sem áætlaður er með 280 millj. kr. tekjur á fjárlagafrv. Ekki getur þetta valdið miklu, fyrst það var talað um 3 eða 4%. Og allur almenningur hefur reiknað með 3%, enda ekki farið dult með, að það hafi verið ætlunin.

Annað atriðið, sem hæstv. ráðh. nefndi, var, að víðtækari undanþágur væru í þessu frv. en upphaflega hefði verið hugsað sér, og nefndi hann í því sambandi byggingarvinnu. M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. hefur þá hugsað sér fyrr í vetur að leggja söluskatt á byggingarvinnu, en hefur af einhverjum ástæðum séð sig til neydda að hætta nú við það. En hvað gerir hún í staðinn? Er hún ekki að leggja 8.8% á byggingarefni, og er hún ekki að leggja 3% söluskatt á alla þá vinnu við byggingar, sem ekki er unnin á staðnum, þ. á m. ýmsar innréttingar í hús og þess háttar? Og hvort er nú betra? Ég spyr. Ekki held ég, að þetta sé veigamikið atriði.

En ég hygg, að það atriði, sem hæstv, ráðh. hafi viljað leggja mesta áherzluna á og sé aðalröksemdin fyrir því, að þarna hafi hæstv. ríkisstj. orðið að snúa við frá þeirri leið, sem hún ætlaði sér að fara um söluskattinn, sé sú, að það sé liðið nokkuð á árið og ríkisstj. njóti því ekki tekna af þessum söluskatti eins mikinn hluta ársins og ætlað var, enda stendur þessi röksemd í grg. frv. Hitt er óvefengjanlegt, að hæstv. ríkisstjórn var búin að áætla þennan söluskatt 280 millj. Þannig stendur það í fjárlagafrv., sem var lagt fram í byrjun febrúar.

Ég verð því að spyrja hæstv. ráðh.: Var sú upphæð í fjárlagafrv. miðuð við allt árið 1960? Voru þessar 280 millj. miðaðar við allt árið 1960? Hefur þess vegna orðið þessi breyting á, að nú eru senn liðnir 21/2 mánuður af því ári, sem ekki hefur notið þessa söluskatts? Ég verð að segja, að það er með öllu útilokað, að þetta hafi verið svo. Hæstv. ríkisstj. gat ekki reiknað með 12 mánaða notum af þessum söluskatti, þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Í fyrsta lagi vegna þess, að til þess að fá þennan söluskatt þurfti að samþykkja lög á Alþingi. Í öðru lagi vegna þess, að hæstv. ríkisstjórn sá fyrir því í nóvembermánuði, að enginn alþm. væri tiltækur til að samþykkja þessi lög fyrr en eftir janúarlok. Í þriðja lagi er það sýnt, að ekki var farið að semja þetta söluskattsfrv. fyrr en einhvern tíma í febrúar, fyrst það kemur ekki fram fyrr en 9. marz. Þetta færir mér heim sanninn um það, að áætlunin um 280 millj. kr. tekjur af söluskatti getur ekki verið miðuð við lengri tíma en 10 mánuði ársins 1960. Hvernig mætti það líka vera, að hæstv. ríkisstj. hafi farið að áætla sér tekjur af söluskattsfrv., sem var ekki til í janúarlok og ekki til f febrúarlok? Þessar 280 millj., sem standa í fjárlagafrv., hljóta því að mínum dómi að vera áætlaðar tekjur af 10 mánuðum ársins 1960.

Hin atriðin, sem hæstv. ráðherra afsakaði hæstv. ríkisstj. með, voru þau, að talað hefði verið um 3–4% og undanþágurnar. Þau eru það veigalitil, að ég held, að það nægi ekki til að rökstyðja þessar nýju álögur af 8.8% innflutningssöluskatti.

Ég vildi gjarnan biðja hæstv. forseta að hlutast til um, að hæstv. ráðh. gæti verið hér við, ef mögulegt væri, þar sem enginn annar hæstv. ráðh. er viðstaddur. (Forseti: Hæstv. ráðh. hefur líklega farið í símann.) Já, mjög trúlegt. (Forseti: Þarna kemur hann.)

Mér þætti vænt um, að hæstv. fjmrh. leiðrétti það, ef ég fer með rangt mál, að söluskatturinn, er um getur í fjárlagafrv., sé miðaður við 10 mánuði ársins 1960. En ef þetta er aftur á móti rétt hjá mér, að svona sé það, er hæstv. ríkisstj. ekki búin að tapa nema tæpum hálfum mánuði af þeim tíma nú, og ekki á að þurfa stórkostlegar álögur á þjóðina til að bæta upp það tap á söluskattinum. Jafnvel þó að þetta frv. næði ekki því að verða samþ. fyrr en í mánaðarlok, væri það aldrei nema einn mánuður, sem munaði á því, sem hlýtur að hafa verið áætlað með, og því, sem verður í raun og veru, kannske ekki nema 20 dagar. Og samkv. áætlun hæstv. ríkisstj. sjálfrar um það, hvað þessi söluskattur átti að gefa nemur eins mánaðar tímabil ekki nema 28 millj. og enn þá minna fyrir skemmri tíma.

En hvað miklu nemur 8.8% innflutningssöluskattur samkv. þessu frv.? Um það hefur maður nokkurn veginn örugga heimild, því að hæstv. ríkisstj. hefur skýrt frá því í fjárlagafrv., að núv. söluskattur, 7.7%, nemi 154 millj., og þá hlýtur 8.8% skattur að nema 176 millj. yfir heilt ár. Komi þetta frv. ekki til framkvæmda sem lög fyrr en um næstu mánaðamót eða standi í 9 mánuði, verða tekjur ríkissjóðs af þessum 8.8% söluskatti samkv. þessu um 132 milljónir. Þetta eru nýjar álögur, sem kunna að mæta í hæsta lagi eins mánaðar skekkju á fyrri áætlun hæstv. ríkisstjórnar. Ég get því ekki séð, hvernig það fær staðizt hjá hæstv. ráðherra, að hér sé ekki um nýjar álögur að ræða. Það virðist mér með öllu útilokað.

En hvað verður nú söluskatturinn á Íslandi orðinn mikil] á heilu ári samkv. þessu frv: og gildandi lögum? Sé það rétt áætlun hjá hæstv. ríkisstjórn sjálfri í febrúarbyrjun, að 3% söluskattur nemi 280 millj. á 10 mánuðum, að núverandi 7.7% söluskatturinn nemi 154 millj. og að 8.8% nýr söluskattur nemi 176 millj. á heilu ári, er söluskattur alls orðinn 666 millj. á heilu ári, og er gott að muna þá tölu. Aftur á móti verður hann það ekki á þessu ári, því að frá dragast, eins og áður er sagt, þrír mánuðir af þessu ári í 3% söluskattinum og 3 mánuðir væntanlega í 8.8% söluskattinum. En ég get ekki betur séð en samt verði tekjurnar af þessum söluskatti alls yfir 500 millj., svo framarlega sem áætlanir og fullyrðingar hæstv. ríkisstj. sjálfrar eru réttar, og kemur þetta nokkuð heim við það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e.

(BjörnJ) sagði hér áðan. Það má að vísu segja, að frá þessari upphæð megi draga þann hluta af núverandi 9% söluskatti, sem rennur í ríkissjóð og mun nema 35 millj. Það má ekki draga hinn hluta þess söluskatts frá, sem runnið hefur í útflutningssjóð, því að gengislækkunin sjálf á að mæta þeim gjöldum.

Þegar á það er litið, að þetta bætist ofan á það, sem áður var komið, gengislækkun, sem mun hafa í för með sér allt að 600 millj. kr. verðhækkun á innfluttum vörum alls yfir eitt ár, hækkun fjárlaganna, vaxtaokrið, lánsfjárkreppuna o.s.frv., þá verður manni líkt að orði og karlinum, að lengi getur Brúnka borið byrðarnar hans Dala-Jóns. En þetta atriði, sem hæstv. fjmrh. skýrir nú frá, að ríkisstj. hafi orðið að hverfa frá sínum fyrri yfirlýsingum, það tel ég öllu alvarlegra. Hví segir hún skýrum stöfum í grg. með fjárlagafrv., að ekki verði haggað við núverandi söluskatti af innflutningi, en kemur svo með hækkun, sem nemur meira en 100%. Það gefur manni til kynna, hvort ekki megi búast við því, að eitthvað fleira kunni að bregðast af því, sem hæstv. ríkisstj. hefur sagt. Verður nú engu breytt jafnvel um sjálfar fjölskyldubæturnar, sem nú eru til. umræðu í hv. Nd.? Verður nú engu breytt um hið boðaða tekjuskattsfrv.? Við hvað verður staðið af því, sem búið er að lýsa yfir, og við hvað ekki?

Ég hef hér í fáum orðum gert grein fyrir því, hvað ég tel að þetta séu miklar álögur á þjóðina, og reikna ég þá út frá þeirri áætlun, sem hæstv. ríkisstjórn gerði sjálf og birt er í fjárlagafrv. En til þess að taka af allan vafa vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af þessum söluskatti, þeim 3% söluskatti, sem hér er lagt til? Hann mun hafa sagt áðan, að ríkisstj. geri ráð fyrir, að söluskatturinn til samans nemi þeirri upphæð, sem stendur í fjárlagafrv., 280 millj., m.ö.o., að sú upphæð er nú allt í einu orðin 132 millj. kr. lægri en hún var áætluð fyrir rúmum mánuði. En ég vil undirstrika það, að ég tei óhjákvæmilegt, að hv. þm. fái um það upplýsingar hjá hæstv. ríkisstj., hvað er áætlað að þessi 3% söluskattur nemi miklu á heilu ári eða, ef hann vili heldur, á 9 mánuðum. Á að skilja það svo, að það séu 280 millj. mínus 132, eða hvað er það? Það er það minnsta, að hv. þm. fái að vita annað eins og þetta, ef það er rétt, að óviðkomandi mönnum utan þings hafi verið sent þetta frv., áður en alþm. fengu að sjá það.

Í grg. með efnahagsmálafrv. hæstv. ríkisstj. er svo sagt á bls. 20, með leyfi hæstv. forseta, þegar verið er að gera grein fyrir væntanlegum verðhækkunum: „Séu teknar þær innfluttu vörur, sem í vísitölu eru, verður meðalhækkun þeirra sennilega 25%.“ Ég efaðist mjög um það, að þetta mundi vera rétt, þegar það mál var hér til umræðu. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Eru 8.8% reiknuð þar með, sem nú er verið að leggja á innfluttar vörur? Væntanlega ekki. Þá hefur sennilega ekki verið búið að upphugsa þau. Hvað hækkar þá innflutt vara, þegar þessum 8.8% er bætt við?

Þessi skattur leggst á tollverð vörunnar, þ.e. fob-verðið, flutningsgjaldið, vátrygginguna og alla tollana, m.ö.o. svo að segja allt nema álagninguna. Mér virðist, að sú hækkun geti orðið á nauðsynjavöru t.d. allt upp í 8%, og ég sé ekki betur en þetta verði alveg viðbót við þessi 25%, sem hæstv. ríkisstj. sagði að innfluttar vörur mundu sennilega hækka um, þegar efnahagsmálafrv. var til umræðu. Í grg. þess frv. var þá líka sagt: „Innlendar landbúnaðarafurðir munu væntanlega hækka um 12%.“ Nú á að fara að leggja söluskatt á kjöt, kartöflur, rófur, allt grænmeti, smjör, osta, skyr. Hækka þá þessi 12%, sem verið var að tala um um daginn, ekki eitthvað? Í grg. þessa sama frv., efnahagsmálafrv., var líka sagt á bls. 21: „Hins vegar verður hækkun vísitölunnar allrar líklega ekki meiri en 13%.“ Breytist ekki þessi tala við þessi bjargráð? M.ö.o. lítur út fyrir, að allir útreikningar, sem hæstv. ríkisstj. var með fyrir rúmum mánuði, standist nú ekki lengur, þegar þetta frv. er komið til. Og loks vil ég minna á það, sem stendur í grg. efnahagsmálafrv. á bls. 22: „Með þessum ráðstöfunum er það tryggt, að kjör fjölskyldna, sem hafa um 60 þús. kr. tekjur og í eru þrjú eða fleiri börn, verði ekki skert.“ Var búið að reikna með þessum „bjargráðum“ þá? Verða lífskjörin ekki skert nú? Ég held, að það sé enginn vafi á því, að þau verða enn skert með þessum ráðstöfunum, sem hér eru á ferðinni.

Þá eru boðaðar hér tekjuskattslækkanir. Stundum eru það 110 millj., stundum eru það 70 millj. En látum það vera, þó að ekki séu sömu tölur alls staðar. En hverjir njóta þessarar tekjuskattslækkunar, sem í vændum er? Eru það láglaunamennirnir, sem njóta þeirrar lækkunar fyrst og fremst? Eru það þeir, sem nú fá meiri skerðingu á lífskjörum sínum en 13%, sem fá meiri hækkun á innfluttum vörum en 25%, sem fá meiri hækkun á landbúnaðarvörum en 12%? Eða eru það hátekjumenn? Hví lætur hæstv. ríkisstj. ekki tekjuskattsfrv. sitt fylgja þessu frv., svo að maður geti borið þetta saman? Ég gæti trúað, að það hefði orðið skemmtilegur lestur. Mig grunar, að það frv. eigi ekki að lækka neitt gífurlega gjöldin á lágtekjumönnum, heldur á hátekjumönnum, svo að þetta er óneitanlega snillibragð fyrir viss sjónarmið, að afnema tekjuskatt á láglaunamönnum og setja á söluskatt í staðinn, ekki bara 3%, heldur hækka 7.7% upp í 16 1/2 %. Þetta held ég að séu aumu skiptin. En tölulega verður þetta ekki borið saman, fyrr en tekjuskattsfrv. kemur fram. Og mér dettur í hug að spyrja, þó að það sé kannske ekki nærgætnislegt: Datt hæstv. ríkisstj. ekki í hug að hætta heldur við tekjuskattslækkunina sína en skella á þessum söluskatti?

Ég skal ekki fara út í einstakar greinar þessa frv. við þessa umr., en aðeins drepa á örfátt.

Í 3. gr. frv. er sagt frá, hvaða vara er skattfrjáls og hvað ekki, og lögmálið, sem byggt er á í þessu frv., kvað heita „síðastastigslögmál“ eða eitthvað svoleiðis. Og í grg. frv. er sagt, að söluskatt eigi ekki að greiða af vöru eða þjónustu fyrr en á síðasta stigi, þ.e. þegar varan er að lokum seld neytanda. Þó segir hér í 3. gr., að ákvæði 2. mgr. taki ekki til umbúða, hjálparefna eða óvaranlegra rekstrarvara, m.ö.o.: á umbúðir má leggja þennan söluskatt aftur og aftur. Nú stendur svo á, að ég er kunnugur verksmiðju, sem framleiðir umbúðir og ekkert nema umbúðir, og þær umbúðir eru undir neyzluvörur, bæði til neyzlu innanlands og til útflutnings. M.ö.o.: við verðum þá að innheimta söluskatt af kaupendum þessara umbúða, þegar við seljum þeim, þó að þeir kaupendur séu niðursuðuverksmiðjur, málningarverksmiðjur eða hvað sem er. Síðan selur niðursuðuverksmiðjan matvælin í þessum umbúðum og verður aftur að innheimta söluskattinn. Ég hef ekki á takteinum nú, hvað umbúðirnar geta numið miklum hluta af verði vörunnar, þegar hún endanlega er seld, en það nemur þó nokkuð miklum hluta af henni. Fyrir stuttu eða fáum árum man ég, að þetta nam milli 10 og 20% af endanlegu verði vörunnar eftir því, hver hún var. Þarna á þó síðasta stigs söluskattur ekki að njóta sín, heldur á hann að koma hvað eftir annað. Um hjálparefnin hygg ég að megi segja eitthvað svipað, þó er ég ókunnugri því. Og „óvaranlegra rekstrarvara“, ég vildi ekki eiga að skera úr um það, hvað eru óvaranlegar rekstrarvörur og hvað ekki.

Í 4. gr. frv. er talið upp, hvað er skattskyld sala og þjónusta. Það er m.a. lausaverzlun. Mér er ekki ljóst, hvað er meint með því. Þá er sala við frjáls uppboð. Eru til ófrjáls uppboð? Ég átta mig ekki á þessu. (Gripið fram í.) Það eru þau ófrjálsu uppboðin, er það ekki? Og þau sleppa við nauðina af þessu frv. Í þessari 4. gr. segir, að sala á raforku og heitu vatni frá rafmagnsveitum og hitaveitum sé skattskyld. ójá, það er nú svo. Ekki er það nú fagnaðarefni fyrir fjölskyldurnar hér í Reykjavík, a.m.k. ef þær eru lágtekjufólk, að fá þennan boðskap. Ég þarf ekki að kvarta fyrir mig, þó að ég hafi bæði rafmagn og hitaveitu, en ég gæti trúað, að einhvern munaði um þetta. Ég var að reikna það út í gærkvöld að gamni, hvað þetta hefði munað miklu hjá þriggja barna fjölskyldu, sem býr í húsinu mínu, og fékk það út, að það mundi geta munað nokkrum hundruðum króna yfir árið, 400–500 kr. fékk ég út. M.ö.o.: það er eins og hækkun á fjölskyldubótum með hér um bil tveimur börnum, eftir að komin eru þrjú, þegar reiknað er með þriggja barna kerfinu, sem hæstv. ríkisstj. er að leiða í lög. Þar fór nú sú uppbótin.

Í 7. gr. segir frá því, hvað er undanþegið söluskatti. Þ. á m. er, eins og hæstv. ráðh. drap á, vinna við byggingar, en ekki önnur vinna en sú, sem unnin er á vinnustað, ekki sú, sem unnin er á verkstæðum. Og eins og ég sagði áðan, þá er auðvitað engin undanþága frá innflutningssöluskattinum, 16 1/2%. Undanþegin söluskatti er útfararþjónusta. Líkkistan er þó ekki undanþegin, því að efnið í hana á að bera 161/2 % söluskatt, þegar það er flutt inn. (Gripið fram í: Það er síðasta stigs skattur.) Það er líklega síðasta stigs söluskattur, þegar hann kemur á líkkistuna. Svo kemur þetta með neyzluvatnið, sala neyzluvatns er undanþegin söluskatti. Ég hef aldrei heyrt talað um neyzluvatn annað en það, sem er drukkið. Hvað þá um vatn, sem á að nota í þvotta eða bað? Er það neyzluvatn? Eða þegar maður vökvar blóm í garðinum sínum eða eitthvað þess háttar?

Loks skal ég aðeins drepa hér á eitt atriði, það er í 25. gr., og er rétt fyrir menn að leggja hana sér á minni. Það eru viðurlögin, ef menn hlýða ekki. Hún hljóðar þannig:

„Nú skýrir skattskyldur aðili af ásetningi eða stórfelldu gáleysi rangt frá því, er máli skiptir um söluskatt hans, og skal hann þá greiða sekt, er skal eftir málavöxtum ákveðin allt að tífaldri þeirri söluskattsupphæð, sem tapazt hefur við vanrækslu hans eða rangfærslu, og auk þess greiði hann hinn vangoldna söluskatt.“

Þetta mun ekki vera neitt nýmæli, og hef ég ekkert út á þetta í sjálfu sér að setja, sem sé viðurlög, ef menn brjóta lög. En niðurlagið: „Fjármálaráðherra ákveður sektina, nema hann eða sá, sem í hlut á, óski eftir, að málinu sé vísað til dómstólanna. “

Má ég spyrja hæstv. fjmrh., sem væntanlega fær nú að ákveða einhverjar sektir hér eftir: Er þetta í lögum áður, eða er þetta nýmæli? Vægast sagt, verð ég að segja, lízt mér ekki á það, þegar pólitískir ráðh. eiga að fara að ákveða sektir á mönnum — (Gripið fram í.) Jú, enda þótt það .standi þarna, að maðurinn hafi ekki óskað eftir að vísa því til dómstólanna. Ætli menn uppgötvi það, að þeir geti gert það eða hafi efni á að gera það eða telji borga sig að gera það og láti ekki heldur dóm hæstv. fjmrh. standa, þó að þetta ákvæði sé þarna? Ég vissi, að það fylgdi þarna með, að maðurinn hefur möguleika til að vísa því til dómstólanna. En væri ekki réttara að láta málið ganga beint til dómstólanna í stað fjármálaráðuneytisins?

Að sjálfsögðu er margt í þessu frv., sem þörf væri að tala nánar um. En ég vil endurtaka það, að hér er tvímælalaust um stórkostlegar álögur að ræða. Og í öðru lagi er hér um ákaflega ranglátan skatt að ræða, ekki sízt þegar hann á að koma í staðinn fyrir lækkun á tekjuskatti. M.ö.o.: það er lagður á skattur, sem menn hafa mikla möguleika til þess að telja ekki samvizkusamlega fram, enda þótt þeir hafi innheimt hann. Hins vegar er hann lagður á fólk, sem engan veginn kemst undan því að greiða hann, hvort sem það eru hálaunamenn eða láglaunamenn.

Ég vænti þess svo, að hæstv. ráðh. leitist við að svara þeirri spurningu, sem ég lagði fram áðan, ef hann hefur möguleika til þess nú eða þá siðar: Hvað er áætlað, að þessi 3% söluskattur muni gefa ríkissjóði miklar tekjur á árinu 1960, annaðhvort miðað við 9 mánuði eða annað tímabil?