18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2580)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á þskj. 23 er þáltill. varðandi hagnýtingu íslenzka farskipaflotans, og hefur till. um alllangt skeið verið til meðferðar hjá allshn. Efni till. er í aðalatriðum að álykta að skora á ríkisstj. að láta í samráði við skipafélögin fram fara nákvæma athugun á hagnýtingu íslenzka farskipaflotans og ef í ljós komi, að bæta megi þessa hagnýtingu, þá sé skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir því að koma á fastari skipan þeirra mála, enda beri skipafélögin kostnað af slíkri starfsemi. Þessi till. hefur verið rökstudd á þann hátt, að ýmsar upplýsingar bendi mjög til þess, að hægt sé að hagnýta íslenzk farskip betur en oft er gert og spara þannig leigu erlendra skipa.

Það hafa verið tilfærð ýmis dæmi, sem eru almenningi meira eða minna kunn, í þessu sambandi. Sjómenn hafa sagt frá því, að þeir hafi verið á skipum, sem sigldu til útlendrar hafnar með íslenzkt grjót í lestinni og mætt íslenzkum skipum, sem komu frá sömu höfn og voru á heimleið með grjót í lestinni. Slíkt eru vafalaust undantekningar, en í þessum efnum getur hvert tilfelli kostað allmikið fé á okkar mælikvarða.

Allshn. hefur leitað um þessa till. álits allmargra aðila, og eru þar í fyrsta lagi þeir aðilar, sem gera út kaupskip á Íslandi, og í öðru lagi nokkur þau samtök eða fyrirtæki, sem mest nota kaupskip okkar. Þessir aðilar hafa haft ýmislegt um málið að segja. Allmargir þeirra hafa ekki talið ástæðu til að láta slíka rannsókn fara fram, sumir þó talið, að hún mætti gjarnan fara fram. Nú er að vísu ekki fyrir fram líklegt, að skipafélögin samþykki beinlínis, að það fari fram einhvers konar athugun á því, hvernig kaupskipin eru hagnýtt. Þau eru því flest andvíg því, að rannsóknin fari fram. En ég hygg, að við megum ekki dæma málið eingöngu eftir því, heldur sé ástæða til þess að skoða betur sumar upplýsingar, sem þessir aðilar gefa.

Mér fannst sérstaklega athyglisvert að sum skipafélögin skýra frá því, að þau hafi alltaf nægan flutning til landsins, en nefna ekki siglinguna frá landinu. Önnur skýra hins vegar frá því, að þau hafi ávallt nægan flutning frá landinu, en nefna ekki flutningana til landsins. Þetta stafar af því, eins og alkunnugt er, að sum skip eru byggð til sérstakra flutninga og virðist oft og tíðum ástæða til að ætla, að lítið sé hugsað um annað. Þetta geta t.d. verið flutningar á frystivöru frá landinu. Önnur skip hafa ekki útbúnað til slíks flutnings frá landinu á sérstökum vörutegundum, en hugsa því meira um innflutning á ýmiss konar vörum til landsins.

Þetta finnst mér gefa ríka ástæðu til þess, að hagnýting skipa sé könnuð og reynt að hafa á það áhrif, að þau séu notuð eins og hægt er, bæði í siglingum til landsins og frá því.

Þá kom fram í einu álitinu, frá Skipaútgerð ríkisins, að það mundi verða hægt að breyta verulega til batnaðar flutningum við landið, ef ákveðnar væru umskipunarhafnir og reynt að skapa þar nokkra aðstöðu til að umskipa vörum skipulega. Ýmislegt annað kom fram, t.d. það, að í einu af þeim löndum, sem kaupa íslenzkar afurðir, er löggjöf á þá lund, að sérstök gjöld eru lögð á skip þeirra ríkja, sem ekki hafa gert formlega viðskiptasamninga við þetta land, sem er Portúgal. Afleiðingin af því, að íslenzk yfirvöld hafa ekki gert slíka samninga, er sú, að okkar skip geta ekki siglt til þessa lands nema greiða þetta gjald. Með því að borga gjaldið geta þau ekki komizt nálægt því að keppa við erlend leiguskip. Árangurinn er sá, að íslenzk skip sigla ekki til þessa lands, heldur eru þar einvörðungu notuð erlend leiguskip.

Ýmis fleiri dæmi af þessu tagi koma fram í þeim álitsgerðum. sem allshn. hafa borizt. Meiri hluti nefndarinnar hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þessar upplýsingar gefi tilefni til þess að samþykkja till. og láta fram fara athugun á þessu máli.

Það hefur einnig verið upplýst, að um skeið hafi verið haldið uppi nokkurri starfsemi í þessa átt hér á landi, og mun þá einn maður, sem hafði aðsetur í ríkisstofnun, sem hafði með viðskipti að gera, hafa annazt þetta mál. Mun það vera álit flestra, sem til þekktu, að hann hafi unnið mikið gagn með því að samræma þessa flutninga.

Hins vegar er það alls ekki álit meiri hluta allshn., að till. sé til þess ætluð að fara að stofna til nýrra eða beinna ríkisafskipta, heldur er hugmyndin sú, að með því að láta slíka rannsókn fara fram geti ríkið haft frumkvæði um, að hugsað verði meira um þetta atriði. Ef rannsóknin hefur þau áhrif, að það virðist vera ástæða til að skipuleggja siglingarnar betur, þá yrði það til þess, að skipafélögin sjálf gerðu ráðstafanir til þess að auka sitt samstarf og koma á nauðsynlegri skipulagningu. Það er ekki hugmynd flutningsmanns, að ég hygg, og alls ekki hugmynd meiri hluta allshn., að hér sé verið að stofna til beinna, nýrra ríkisafskipta. Þó virðist fullkomin ástæða til þess, að Alþingi með samþykkt þessarar tillögu um athugun á hagnýtingu farskipaflotans bendi á þetta mál og ýti við þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli. Það, sem í veði er, eru allmikil verðmæti, því að leiga á erlendum skipum, sem er meiri eða minni á hverju ári og verður alltaf einhver, kostar stórfé í erlendum gjaldeyri. Þótt ekki væri hægt að spara nema einhvern hluta af því með betri nýtingu íslenzku skipanna, þá munar gjaldeyrislega fljótlega um það, auk þess sem betri hagnýting ætti að verða til þess, að íslenzku skipafélögin hefðu betri afkomu. Það er því skoðun meiri hluta allshn., að till. þessa beri að samþykkja óbreytta.