18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2581)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að rifja upp efni þeirrar till. til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 23. Till. er um það í fyrsta lagi að skora á ríkisstj. að láta í samráði við skipafélögin fara fram nákvæma athugun á hagnýtingu íslenzka farskipaflotans í millilanda- og strandsiglingum með það fyrir augum, að komizt verði hjá, eins og frekast er unnt, að leigja erlend skip til vöruflutninga og að lestarrúm hinna íslenzku skipa sé notað á sem beztan hátt, og í öðru lagi um það, að ef rannsókn þessi leiði í ljós, að bæta megi til muna hagnýtingu íslenzka farskipaflotans, þá skori Alþingi enn fremur á ríkisstj. að beita sér fyrir, að komið verði á fastri skipan þeirra mála, enda beri skipafélögin kostnað af slíkri starfsemi.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, sendi allshn. þessa till. til umsagnar fyrst og fremst skipafélögum þeim, sem einkum annast vöruflutninga, og í öðru lagi stofnunum, sem einkum þurfa á þessari þjónustu að halda vegna starfsemi sinnar, og n. barst allmikið af slíkum umsögnum.

Okkur, sem stöndum að áliti minni hl., mér og hv. 5. þm. Norðurl. v., virtust. þessar umsagnir frá skipafélögunum og reyndar frá öðrum aðilum líka bera þess vott, að þessir aðilar teldu ekki, að þeim væri þörf á aðstoð í þessu efni til þess að skipuleggja þessa flutninga, og í þeim komu svo fram ýmsar skýringar á því fyrirbrigði, sem hv. frsm. meiri hl. nefndi áðan, að skip sigla stundum með lítinn flutning milli landa.

Það kom einnig fram í þessum umsögnum og upplýsingum, sem við fengum um málið, að á vegum innflutningsskrifstofunnar hefur í sambandi við leyfisveitingar, þegar sótt hefur verið um gjaldeyrisleyfi til þess að leigja vöruflutningaskip, verið haft nokkurt eftirlit í þessum málum, og áður en slík leyfi til þess að taka skip á leigu voru veitt, hefur af hálfu þessarar stofnunar verið grennslazt eftir því, hvort ekki væri rúm í íslenzkum skipum á hæfilegum tíma fyrir þessar vörur og um alllangt skeið hefur sérstakur maður, einn af starfsmönnum innflutningsskrifstofunnar, haft þetta með höndum. Þess vegna virðist svo, að hér hafi í raun og veru verið til staðar nokkur viðleitni í þessa átt: að koma skipulagi á flutningana, að því leyti sem það er framkvæmanlegt.

Hins vegar er það svo, að nú er að verða breyting á skipan þessara mála. Það er verið að leggja innflutningsskrifstofuna niður og þá starfsemi, sem hún hefur haft. En ástæða gæti verið til þess að bíða átekta og sjá til, hvernig þeirri starfsemi verður fyrir komið hjá þeim stofnunum, sem nú eftirleiðis eiga að hafa hana með höndum, og þá m.a. hvort þær hafa þetta eftirlit og þá hvernig því verður hagað. Það er m.a. ástæðan til þess, að við höfum ekki staðið að því að mæla með afgreiðslu till. sem þál. að þessu sinni.

Ég vil svo geta þess, að það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að Skipaútgerð ríkisins vakti máls á því í umsögn sinni, að ástæða væri til að ætla, að betur mætti skipuleggja afnot af strandferðaskipunum. En það er í raun og veru alveg sérstakt mál, sem ég held að þurfi sérstaka athugun og sé ekki ástæða til þess að blanda saman við vöruflutningana á milli landa og leiguskipanotkunina.

Ég skal ekki vera margorður um þetta, enda ekki ástæða til þess, en aðeins sem sýnishorn af þeim umsögnum, sem n. hafa borizt, vil ég lesa upp stutta kafla úr þremur umsögnum til þess að sýna blæinn á þessum umsögnum.

Hér er þá fyrst umsögn frá Eimskipafélagi Íslands. Þar segir í lokin:

„Samkvæmt þáltill. er farið fram á, að Alþingi skori á ríkisstj. að beita sér fyrir, að komið verði á fastri skipan þessara mála. Vér teljum oss,“ segir Eimskipafélag Íslands, „hafa sýnt fram á hér að framan, að mjög erfitt er að koma fastri skipan á þessi mál umfram það, sem skipafélögin sjálf gera til þess að hagnýta sem bezt skipastól sinn. Teljum vér mikið vafamál, að skipulagning af hálfu hins opinbera muni neitt bæta úr í því efni, og viljum vér jafnframt eindregið mótmæla þeim ummælum flm. till. í lok grg., að algert hirðuleysi ríki um nýtingu skipastólsins. Slík ummæli eiga a.m.k. ekki við félag vort, með því að það er eitt vort mesta kappsmál, að jafnframt því sem siglingum skipa vorra sé komið fyrir á sem hagfelldastan hátt fyrir félagið, en eins og fyrr er sagt, veltur afkoma þess hvað mest á því, að skiprúmið sé hagnýtt til hins ýtrasta á hverjum tíma. þá komi siglingar skipanna að sem beztum notum fyrir viðskiptavini vora og þar með alla landsmenn.“ Þetta segir Eimskipafélag Íslands.

Skipadeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga segir í lok sinnar umsagnar:

„Skip vor hafa á undanförnum árum jafnaðarlega komið með fullfermi til landsins í hverri ferð. Frá landinu hafa þau haft mikinn og stöðugt vaxandi flutning. Vér látum þessa stuttu umsögn duga til þess að rökstyðja þá skoðun vora, að vér teljum rannsókn þá, sem þáltill. gerir ráð fyrir, ástæðulausa með öllu.“

Hér er að lokum umsögn frá Jöklum h/f, sem eins og kunnugt er eiga og reka þrjú frystiskip, að ég ætla, sem annast allmikið af flutningi á hraðfrystum fiski frá landi. Þar segir m.a., og það má vera til skýringar nokkurrar á því, hvers vegna öll skip eru ekki alltaf með fullfermi frá landinu og að:

„Eins og að framan greinir, eru skip vor,“ þ.e.a.s. frystiskipin, Jöklarnir, „eingöngu frystiskip og byggð sérstaklega til þess að veita frystihúsunum sem bezta þjónustu. Sölur á frystum fiski eru í flestum tilfellum cif og afgreiðslu lofað á hverjum tíma á ákveðnum dögum. Verður það því að vera matsatriði hverju sinni, hvort hægt sé að láta skipin fara krókaleiðir til lestunar á vörum heim.“

Þarna virðist vera fyrir hendi a.m.k. skýring á sumum tilfellum, þegar skip sigla heim án þess að hafa flutning, að það er gert, eftir því sem þetta skipafélag segir, til þess að geta staðið áætlun um útflutninginn og rekstrinum hagað fyrst og fremst með tilliti til þess, að útflutningurinn geti gengið sem greiðast. Þess vegna segir þetta félag, að ekki sé hægt í mörgum tilfellum eða sé a.m.k. matsatriði, hvort þessi skip megi leggja krók á leið sína til þess að taka vörur til landsins.

Með hliðsjón af þessum umsögnum og fleiri. sem n. hafa borizt, og þeim rökum, sem virðast þar vera fyrir hendi, og með hliðsjón af því, sem ég nefndi áðan varðandi athuganir í sambandi við veitingu gjaldeyris til leiguskipa, hefur okkur í minni hl. a.m.k. að svo stöddu ekki sýnzt ástæða til þess að afgreiða þessa till. sem þál., og leggjum við til, að hún verði afgreidd með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem skipafélög þau, er aðallega annast vöruflutninga milli landa, telja, eins og sakir standa, ekki þörf á ríkisaðstoð við skipulagningu flutninganna. en hins vegar enn óvíst, hvernig veitingu gjaldeyrisleyfa vegna skipaleigu verður hagað framvegis, telur d. ekki að svo stöddu ástæðu til þeirrar athugunar, sem gert er ráð fyrir í till., og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“