18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2584)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. En áður en ég geri það, vildi ég aðeins víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 4. landsk.

Ég var satt að segja farinn að vona, að mér og öðrum mundi veitast sú ánægja að heyra hv. 4. landsk. vera kominn á rétta leið í afstöðu sinni gagnvart frelsi einstaklingsins. Satt að segja þótti mér ekki seinna vænna um það, að hann færi að taka ákveðna stefnu í því máli eftir hugsjónaflakk sitt á vegum stjórnmálanna undanfarin ár. En því miður brást mér sú ánægja eins og öðrum þm., eins og heyra mátti í niðurlagi ræðu hans.

En hvað viðvíkur þessari þáltill., þá tel ég hana eiga fyllilega rétt á sér og þykist hafa nokkra heimild til þess að dæma svo um hana. Ég er nú búinn að fást við þann starfa að sigla á þessum skipum undanfarinn áratug og rúmlega það, og það fer ekki hjá því, að maður fái nokkra nasasjón af rekstri skipanna á þeim tíma. Ég vil taka það skýrt fram, líka út af orðum hv. 4. landsk., að afstaða mín í þessu máli er ekki sú, að það eigi að fara að höfuðsetja frelsi þeirra einstaklinga, sem reka þessa útgerð. Langt frá því. Það er einmitt þveröfugt. Það á að gera allt, og það hefur einmitt komið fram á nefndarfundum allshn., að það er hægt að gera ýmislegt til þess að létta af hömlum og skapa þessum félögum betri aðstöðu til þess að nýta sinn flota betur en gert er nú með smávægum afskiptum ríkisvaldsins, og mun ekkert koma inn á þá braut að hamla frelsi einstaklinganna eða neitt þess háttar, eins og hv. 4. landsk. var að ræða um. En í till. segir, að það eigi að fara fram nákvæm rannsókn á hagnýtingu íslenzka farskipaflotans í millilanda- og strandferðasiglingum.

Mér finnst satt að segja, að það sé full ástæða fyrir Alþ. að gefa ríkisstj. heimild með slíkri till. til þess að athuga um hagnýtingu strandferðaflotans okkar eða Skipaútgerðar ríkisins, enda kom það fram í áliti frá forráðamönnum hennar, að þeir mæla sjálfir eindregið með því, að þessi athugun fari fram. Ég minnist þess í umr. um fjárlögin nú í vetur, að það er áætlaður um 15 millj. kr. halli á þessari einu útgerð á þessu ári. Mér fyndist vera full ástæða, þótt ekki væri nema vegna þessa atriðis, að fram færi rækileg athugun á rekstri þessarar útgerðar.

Annars fæ ég ekki séð, að í þessari till. felist það, sem hv. 4. landsk. var að tala um, nefndarskipun, sem mundi kosta nokkra tugi þúsunda kr., og að ríkiseftirlit ætti að taka við rekstri farskipaflotans. Þetta er alger misskilningur hjá manninum. Og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá hlýtur hann að hafa verið að tala um einhverja allt aðra þáltill. oft og tíðum í sínu máli.

En það er eitt atriði, sem er athyglisvert í sambandi við þetta og fær mig eiginlega til þess að vera enn eindregnari stuðningsmaður þess, að till. verði samþ., og það er frv., sem var lagt fyrir Ed. Alþ. í gær um tollvörugeymslur. Ég er sannfærður um, að þegar þessi athugun kemst í gang og ef það frv. verður samþ., sem ég efa ekki að verði, þá sé vegna þessa mikil von um, að það megi hagnýta farskipaflotann enn betur en nú er gert.

Ég þykist ekki hafa ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. En eins og hefur komið fram í alltaf meiri hl., þá höfum við sjálfstæðismenn í allshn. skrifað undir það álit, og þó að hv. 4. landsk. haldi, að við séum þar með að fara inn á þá braut að hefta framtak einstaklingsins eða frelsi, þá er það, eins og ég hef þegar sagt, hinn mesti misskilningur. Það er til hins gagnstæða.