05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2598)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Við þrír af þingmönnum Vestf. höfum leyft okkur að flytja á þskj. 145 till. til þál. um síldariðnað á Vestfjörðum. Er þar lagt til, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvernig stuðla megi að starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík í framtíðinni. Enn fremur verði athugað, hvar heppilegast sé að koma upp síldarverksmiðjum og feitfisksbræðslum annars staðar á Vestfjörðum.

Fyrstu síldarverksmiðjurnar, sem reknar voru af innlendum félögum hér á landi, voru starfræktar á Vestfjörðum. Það voru síldarverksmiðja Kveldúlfs h/f, sem byggð var upp úr gamalli hvalveiðiverksmiðju á Hesteyri í Jökulfjörðum, og verksmiðja félagsins Andvara að Sólbakka við Önundarfjörð. Þessar verksmiðjur voru reknar nokkuð á annan áratug eða fram undir árið 1940.

Enn fremur voru í norðurhluta Strandasýslu byggðar tvær verksmiðjur. Síldarverksmiðja Ingólfs h/f á Ingólfsfirði er byggð á árunum 1943–45. Afköst hennar voru talin 5000 mál á sólarhring. Árið 1957 var helmingur véla verksmiðjunnar seldur til Seyðisfjarðar. Hinn helmingur vélanna stendur á Ingólfsfirði vel við haldið. Allar byggingar á Ingólfsfirði eru steyptar og því ekki flytjanlegar. Mjölhús er þó timburhús klætt asbesti. Þróarrými verksmiðjunnar er um 20 þús. mál. Sjálfvirk löndunartæki eru við verksmiðjuna til löndunar 24–30 þús. málum á sólarhring. Lýsisgeymir þessarar verksmiðju er steinsteyptur og tekur um 2000 tonn af lýsi. Vegna þess að verksmiðjan hefur ekki verið rekin undanfarin ár. eru nauðsynlegar á henni og húsum hennar ýmiss konar lagfæringar. Samkv. áætlun sérfróðra manna má gera ráð fyrir, að slík 2500 mála síldarverksmiðja muni samkv. verðlagi í dag kosta ný ekki minna en 25 millj. kr. Af þessu má marka, hversu geysileg verðmæti liggja ónotuð í verksmiðjunum á Ströndum.

Verksmiðja Djúpuvíkur h/f á Djúpuvík í Reykjarfirði er byggð árið 1935 og stækkuð árið 1937. Afköst hennar eru talin 5000 mál. Allar byggingar hennar eru einnig steyptar. Á staðnum eru ágæt steypt íbúðarhús og verzlunarhús. En segja má, að þorpið, sem myndazt hafði í kringum þessa verksmiðju, sé nú raunverulega komið í eyði. Þar eru aðeins örfáir íbúar, sem búa við mjög léleg atvinnuskilyrði. Þróarrými þessarar verkamiðju er 15–20 þús. mál. Þar eru tvö sjálfvirk löndunartæki fyrir 15–20 þús. mál á sólarhring. Lýsisgeymar eru þar fyrir 3000 tonn. Með nokkrum lagfæringum gæti þessi verksmiðja unnið úr 5000 málum á sólarhring.

En báðar þessar verksmiðjur hafa nú í um það bil áratug staðið óstarfræktar. Hefur það að sjálfsögðu haft í för með sér stórkostlegt tjón fyrir íbúa þeirra byggðarlaga, sem sóttu atvinnu sína til þeirra. Ástæða þess, að verksmiðjurnar hafa ekki verið reknar, hefur að sjálfsögðu verið sú, að aflabrestur hefur verið á síldveiðum fyrir Norðurlandi s.l. 15 ár. Íbúum Árneshrepps, þar sem þessar verksmiðjur standa, fækkar nú með ári hverju, og margvíslegir erfiðleikar steðja að byggðarlaginu, eftir því sem fámennið verður þar meira.

Það er ekki einungis skoðun fólksins, sem býr í nyrztu byggðum Strandasýslu, að við það sé ekki unandi, að haldið verði áfram að rífa verksmiðjurnar þarna niður. Það er skoðun allra Vestfirðinga. Útgerðin á Vestfjörðum á að sjálfsögðu mikilla hagsmuna að gæta í því, að verksmiðjur séu einhverjar til þess að taka á móti síld og vinna hana í þessum landshluta, þar sem gerður er út stór bátafloti á síldveiðar.

Ég býst við því, að hv. þm. muni spyrja, hvað við flm. ætlumst þá til að gert sé í þessu máli. Við teljum, að með þessar verksmiðjur verði að fara svipað og gert hefur verið annars staðar, þ.e.a.s. að hið opinbera og þá helzt ríkið annaðhvort veiti einstaklingum þeim, sem eiga þessar verksmiðjur, stuðning til þess að koma þeim í rekstrarhæft ástand á næsta sumri eða láti síldarverksmiðjur ríkisins annaðhvort kaupa þær eða leigja.

Til rökstuðnings því, að rétt sé að undirbúa slíkar aðgerðir, má benda á það, að nokkur undanfarin ár hefur sumarsíldveiði fyrir Norðurlandi hafizt norður af Vestfjörðum. Enn fremur hefur síldveiði farið mjög vaxandi á haustin úti fyrir Vestfjörðum og síldarsöltun af þeirri ástæðu farið mjög vaxandi í ýmsum hinna vestfirzku sjávarþorpa og kaupstaða. Það er því fyllilega tímabært, að nú sé hafizt handa um að gera þessar verksmiðjur rekstrarhæfar, og það er skoðun okkar flm., að aðra hvora þeirra tveggja leiða, sem ég nefndi. beri að fara, annaðhvort að síldarverksmiðjur ríkisins taki verksmiðjurnar að sér eða þá að ríkið veiti einstaklingum þeim, sem verksmiðjurnar eiga, aðstoð til þess að gera þær rekstrarhæfar. Í þessu sambandi vil ég aðeins minnast á það, að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið síðustu árin með síldveiðar í flotvörpu, hafa gefið góða raun og raunar betri raun með hverju árinu, sem þær eru reyndar. Það er skoðun þeirra manna, sem fyrir þessum tilraunum hafa staðið, að af þeim megi vænta mjög mikils árangurs á næstu árum. Vænti ég, að allir hv. þm. skilji, hversu gífurlega þýðingu það hefði, ekki aðeins fyrir síldarútveginn, heldur fyrir atvinnulíf þjóðarinnar í heild, ef síldveiðar gætu orðið árviss atvinnugrein í þessu landi. Mér er næst að halda, að um leið og slíkt gæti gerzt, væri í raun og veru um að ræða atvinnubyltingu í þessu landi. Undanfarinn einn og hálfan áratug og raunar miklu lengur hefur síldveiði í þessu landi verið hið mesta happdrætti. S.l. 15 ár hefur síldveiðin að verulegu leyti brugðizt fyrir Norðurlandi. Ef þetta breytist þannig með tilstyrk flotvörpunnar og annarra nýrra veiðarfæra. sem farið er að nota við síldveiðar, að síldveiðin verður árviss atvinnugrein í staðinn fyrir að vera það happdrætti, sem hún hefur verið, þá geta Íslendingar reiknað með stórkostlega aukinni björg í bú. Á það verður að leggja megináherzlu nú, um leið og verið er að gera víðtækar tilraunir til þess að koma bjargræðisvegum þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll, að auka framleiðsluna og hagnýta hvern þann möguleika, sem fyrir hendi kann að vera til þess að auka útflutningsverðmæti og leggja þar með traustari grundvöll að afkomu þjóðarinnar í nútíð og framtíð.

En um leið og síldarútgerðin verður að árvissri atvinnugrein, skapast enn auknir möguleikar á því, að síldarverksmiðjurnar séu dreifðar um landið, þannig að vélbátaútvegurinn og önnur þau skip, sem síldarútveg stunda, þurfi ekki að sækja mjög langt til þess að losna við afla sinn. Rennur þá enn ein stoð undir það, að skynsamlegt sé og raunar nauðsynlegt að koma þessum tveimur verksmiðjum á vesturkanti síldveiðisvæðisins fyrir Norðurlandi í rekstrarhæft ástand.

Í þessari till. er jafnframt lagt til, að athugun verði látin fram fara á því, hvar heppilegast sé að koma upp síldarverksmiðjum og feitfisksbræðslum annars staðar á Vestfjörðum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þennan hluta till. Ég leyfi mér að vitna til þess, að síðasta fiskiþing samþykkti tillögur um þessi efni og benti á það, að nauðsynlegt mundi vera og skynsamlegt að koma upp síldarverksmiðjum víðar á Vestfjörðum og þá einnig feitfisksbræðslum.

Um það þarf heldur ekki að fjölyrða, að síldargöngur hafa ekki verið ótíðari að Vestfjörðum en öðrum landshlutum, nema síður sé, á þessari öld. Það er engin tilviljun, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að fyrstu síldarverksmiðjurnar í eigu innlendra félaga eru byggðar á Vestfjörðum og eru reknar þar um langt skeið með góðum árangri. Í þessu sambandi vil ég einnig benda á, að það er áreiðanlega þýðingarmikið atriði, að að því verði undinn bráður bugur að hagnýta síldina á fleiri vegu en gert hefur verið á undanförnum árum. Á ég þar við fyrst og fremst, að horfið verði að niðursuðu síldar í vaxandi mæli. Á það hefur verið bent réttilega, að síldin er í raun og veru dýrara hráefni en svo, að það sé verjanlegt fyrir þessa miklu síldveiðiþjóð að hagnýta hana fyrst og fremst til mjölvinnslu, ekki sízt þegar sú staðreynd blasir nú við, að stórkostlegt verðfall hefur orðið á þessari vöru. Ég geri ráð fyrir, að við flm. þessarar till. séum allir sammála um það, að snúa beri sér að því í vaxandi mæli að sjóða síldina niður og gera hana þar með að verðmætari vöru en hún er eftir bræðslu og mjölvinnslu í síldarverksmiðjum okkar, þó að sú meðferð á síld eigi sér að sjálfsögðu einnig mikla framtíð. Enn fremur má benda á það, að útflutningur fersksíldar frystrar er þegar hafinn og allgóður markaður fyrir hana fenginn. Raunar má segja, að útflutningur niðursoðinnar síldar sé einnig hafinn og hafi markaðurinn fyrir hana farið batnandi með ári hverju síðustu árin og að töluvert miklir möguleikar séu fyrir hendi einmitt um útflutning frystrar síldar. Hér verður það sem sagt að haldast í hendur, að leitað sé nýrra úrræða um markaði fyrir íslenzkar síldarafurðir og framleiðsla þeirra jafnframt gerð fjölbreyttari með aukinni niðursuðu og frystingu til útflutnings.

Ég vil svo að lokum segja það, að hér er um mikið hagsmunamál vestfirzkrar útgerðar og sjómanna að ræða. Það er illt til þess að vita, að þessi stórvirku framleiðslutæki, sem þegar eru fyrir hendi í þessum landshluta á sviði síldariðnaðarins, skuli í mörg ár hafa verið ónotuð og það hefur ekki einungis verið til mikils tjóns fyrir þau byggðarlög, sem verksmiðjurnar eru staðsettar í, heldur og fyrir þjóðina í heild. Ég leyfi mér því að vænta þess, að þessari till. verði vel tekið, ekki sízt vegna þess, að hv. Alþ. hefur á undanförnum árum og nú á yfirstandandi þingi sýnt glöggan skilning á þörfum annarra landshluta fyrir uppbyggingu síldariðnaðarins og fyrir það, að þessi tæki séu sem fullkomnust og arðgæfust. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.