05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2599)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. (SB) sagði í sinni skörulegu og réttu framsöguræðu fyrir þessu máli, að það væri aðeins um tvennt að gera til þess að halda uppi síldariðnaði á Vestfjörðum. Annað væri, að ríkið styddi atvinnurekendur til þess að geta haldið þar uppi verksmiðjum og gert þær vel úr garði. Hitt væri, að ríkið tæki að sér þessar verksmiðjur. Og ég er honum fyllilega sammála. M.ö.o.: það eina, sem hv. þm. álítur, að ekki komi til mála, það er að framfylgja stefnu hæstv. ríkisstj. Það er stefna hæstv. ríkisstj., að atvinnurekstur eigi að standa á eigin fótum, og undireins og hv. þm., sem fylgja ríkisstj., fara að athuga þetta mál, hvernig atvinnulífið er byggt upp og haldið uppi úti um allt land með því móti, þá komast þeir að þeirri niðurstöðu, að einmitt þessi leið hæstv. ríkisstj. sé ófær, enda hér undirstrikað í þessari till. til þál. Reynslan sýnir að hið opinbera eitt hefur bolmagn til þess að eiga og reka síldarverksmiðjur í öllum landshlutum.

Það er ákaflega fróðlegt fyrir okkur þm. og ekki sízt þá þm., sem nýir eru hér á Alþ. núna, sem eru allmargir, að fá staðfestingu á því, hvera konar ófæru sé verið að fara út í með þeirri pólitík, sem núv. hæstv. ríkisstj. rekur. Undireins og menn eins og hv. 1. þm. Vestf. og aðrir meðflm. hans að þessari till. fara að athuga aðstöðuna heima hjá sér, fara að athuga, hvernig fólkið eigi að lifa þar, hvernig atvinnurekstri skuli halda þar uppi, þá komast þeir að þeirri niðurstöðu, að það sé engin önnur leið en að annaðhvort verði ríkið að styðja að atvinnurekstrinum á þessum stöðum. styrkja hann og halda honum uppi, eða ríkið verði að reka þennan atvinnurekstur. Þriðja leiðin sé ekki til, leið hæstv. ríkisstj., að atvinnurekendur eigi að standa á eigin fótum. — það, sem búið er að boða nú gagnvart okkur í nokkra mánuði, síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og það, sem búið er að segja við okkur, að þjóðin eigi nú að fórna fyrir, það eigi að lækka gengið, það eigi að afnema vísitöluuppbæturnar, það eigi að gera hverjar ráðstafanirnar á fætur öðrum, söluskatt og annað slíkt, — allt til þess, að sá frjálsi atvinnurekstur í landinu geti fengið að bera sig. Og svo þegar nokkrum hv. þm. ríkisstj. dettur í hug að fara að hugsa um sína eigin fjórðunga, hugsa um að byggja upp atvinnulífið á sínum eigin stað, þá er eina viðkvæðið þetta: Reynslan sýnir, að hið opinbera eitt getur séð um þetta. — Og þetta er alveg hárrétt, og er því nauðsynlegra að undirstrika þetta, þar sem einmitt sjálfir fulltrúar beggja stjórnarflokkanna standa að þessari tillögu.

Ég vildi leyfa mér að vekja athygli á þessu, vegna þess að því fyrr sem verður hætt við það ævintýri, sem lagt hefur verið inn á af hæstv. ríkisstj. að reyna að fara að láta atvinnurekendur hér á Íslandi ráða um atvinnureksturinn á Íslandi, því betur.

Hv. 1. þm. Vestf. var að ræða um það hér áðan, að það mundi líta sæmilega út með síldariðnað, síldarniðursuðu og annað slíkt. Það hefur litið það undanfarin ár. En það lítur ekki sæmilega út núna, vegna þess að undireins og tauminum er sleppt af þessum atvinnurekendum, þá eru þeir farnir að eyðileggja allt, sem búið er að byggja upp á þessu sviði. Um leið og ríkisstj. lítur ekki á það sem sitt verkefni að passa upp á þessa atvinnurekendur, þá eru þeir búnir að mölva niður það, sem byggt hefur verið upp undanfarið. Síldarniðursuðan og annað slíkt er að fara í rúst. Síldarvertíðin hér syðra fer að eyðileggjast, svo framarlega sem ekki verður tekið fram fyrir hendurnar á þessum atvinnurekendum. Það mun sýna sig, að það er ekki aðeins á Vestfjörðum, eins og þessir hv. þm. segja alveg réttilega, að ríkið þarf að skipta sér af þessum hlutum, það þarf líka að gera það hérna við Faxaflóa.