05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2603)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var mjög ánægjulegt að heyra þær yfirlýsingar. sem hæstv. ráðherrar tveir gáfu hér áðan. Þeir lýstu því yfir, fyrst hæstv. sjútvmrh., að það væri stefna ríkisstj. að styrkja síldarverksmiðjur, ekki aðeins á Vestfjörðum, heldur líka á Austurlandi, og það væri ekki meiningin að láta þá þarna á Vestfjörðum verða að neinu leyti að víkja þar til hliðar, það hefði þegar verið tekin upp sú stefna að styðja verksmiðjurnar á Austurlandi, — þetta væri allt í samræmi við stefnu ríkisstj. En undir hvaða yfirlýsingum var þessi hæstv. ríkisstj. mynduð? Hún var mynduð undir þeim yfirlýsingum. að nú ætti ríkið að hætta að hafa afskipti af atvinnurekstrinum í landinu, hann ætti að fá að standa á eigin fótum, það ætti að hætta styrkjapólitíkinni, styrkja og uppbótapólitíkinni. En hvað er svo það, sem hæstv. ríkisstj. rekur sig á undireins og alveg sérstaklega hæstv. sjútvmrh., sem er þessum málum mjög vel kunnugur? Það er, að auðvitað verður að halda þessu áfram. Auðvitað verður hér á þessu Alþingi núna í sambandi við fjárlögin og aðra afgreiðslu mála að samþykkja fjöldann allan af tillögum og ákvörðunum, sem fara fram á það að styrkja atvinnureksturinn í landinu, sem sé þveröfugt við þá stefnu, sem ríkisstj. upphaflega lýsti yfir að hún ætlaði að fara eftir. Því var alveg sérstaklega lýst yfir með miklum fjálgleik, ekki sízt af mörgum af helztu fulltrúum auðmannastéttarinnar hér í Reykjavík, jafnvel þeim, sem nú eiga sæti á þingi, að nú skyldi atvinnureksturinn standa á eigin fótum, ég býst við kannske sérstaklega atvinnureksturinn á Austfjörðum. En hver er svo reynslan, þegar allt kemur til alls?

Jú, reynslan er sú, að þessi atvinnurekstur sé alls ekki fær um slíkt. Og undireins og farið er að styrkja atvinnureksturinn á Austfjörðum, jafnvel þó að milljónamæringar Sjálfstfl. séu þingmenn fyrir Austfirði. þá koma þeir af Vestfjörðum og segja: Ja, þetta gengur ekki, það verður að styðja okkur líka.

Mér þykir ákaflega vænt um, að þetta skuli vera orðið í beinu samræmi við stefnu ríkisstj. Ég held, að ríkisstj. sé þá að hverfa frá þeirri stefnu, sem hún lýsti yfir upphaflega, að hún sé farin að sjá nokkuð mikið, að sú stefna mundi hvorki vera raunhæf né heppileg fyrir Ísland.

Svo kom hæstv. forsrh. og lýsti því nú yfir, að stefnan, sem núv. hæstv. ríkisstj. væri að reka, væri ákaflega góð stefna, þetta væri gömul stefna, eitthvað skyld nýsköpunarstefnunni, þeirri víðsýnu og frjálslyndu stefnu, sem hæstv. forsrh. talaði réttilega um. En á hverju byggðist nýsköpunarstjórnin og sú stefna, sem hún fylgdi? Hún byggðist á því að búa til áætlun um þróun okkar þjóðfélags, um þróun atvinnulífsins. ákveðna fimm ára áætlun, sem ákveðið var með lögum frá Alþingi, að sérstakt ráð, sem skipað var, skyldi gera. Þessi áætlun var gerð, og þar var gerð sú áætlun að koma helzt togaraflotanum upp í alls 75 togara, og það voru þegar gerðar ráðstafanir til þess að kaupa 32 togara þá af þeim 50, sem rætt var um. Þetta var gert af hálfu ríkisins. Það var ríkið, sem keypti alla þessa togara inn og deildi þeim síðan út til bæjanna á Íslandi. Jafnhliða þessu var búin til áætlun um þróun flutningaskipastólsins á Íslandi, stórhuga áætlun, og framkvæmd í samræmi við þau einkafélög, samvinnufélög og ríkisfélög, sem starfandi eru á þessum sviðum á Íslandi. M.ö.o.: það var ákveðið að taka upp að nokkru leyti á Íslandi áætlunarbúskap, sem allur sá atvinnurekstur, sem á Íslandi væri rekinn, hvort heldur væri einstaklingsatvinnurekstur, samvinnuatvinnurekstur eða ríkis- og bæjaatvinnurekstur, skyldi verða þáttur í. Og þessi hugmynd um að fella þetta allt saman var það, sem bar nýsköpunarstjórnina og nýsköpunarstefnuna uppi. Það var það, sem gerði þá stjórn og þá stefnu, eins og hæstv. forsrh. sagði. að víðsýnni, frjálslyndri stefnu.

En hver er sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. lýsti yfir, þegar hún kom til valda, að hún mundi halda, og hún mér til mikillar ánægju nú virðist meir og meir vera að hörfa frá, því meira sem hún áttar sig á lífinu í kringum sig? Sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. lýsti yfir að hún mundi halda við, var að reyna að fara að taka hér upp aftur einstaklingsreksturinn í landinu, láta þá einstöku atvinnurekendur reyna að fara að standa á eigin fótum. Hún er víst búin að uppgötva að nokkru leyti, að það eru blessaðir brauðfætur, sem þeir standa á, þegar þeir njóta ekki aðstoðar ríkisins. Og það var þetta, einmitt þessi yfirlýsing, það átti að reyna að hverfa frá öllu því, sem kynni að vera eftir af áætlunarbúskap, hverfa frá stórhuga áætlunum um þróunina á Íslandi og láta þetta verða svo að segja verkefni auðmannanna í þjóðfélaginu, — það var þetta, sem var það hættulega við stefnu hæstv. núv. ríkisstj. Það var þetta, sem mundi gera þessa hæstv. ríkisstj., ef hún sæti lengi að völdum og ef hún héldi þeirri stefnu áfram, en hopaði ekki frá henni, eins og mér virðist hún vera að byrja að gera núna, að þröngsýnni afturhaldsstjórn. Þess vegna er mjög ánægjulegt, að þegar fulltrúarnir fyrir byggðirnar úti á landi, eins og Vestfirði í þetta skipti, koma hér fram, koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, með þær áhyggjur, sem þeir hafa út af þróun atvinnulífsins í þeirra kjördæmi, og hugsa um velferð fólksins í þessu kjördæmi. þá komast þeir að þeirri niðurstöðu, að það sé ríkið, það sé hið opinbera, sem þarna verði að fara að hafa afskipti af. Og það er rétt niðurstaða, sem þeir komast að, alveg rétt. Hún á ekki við aðeins um þessa fjórðunga, sem eru að berjast fyrir lífi sínu, hún á líka við um Faxaflóa, líka við það svæði, sem fjærst hefur verið því að þurfa að óttast atvinnuleysið á undanförnum árum. Svo framarlega sem ekki er horfið alls staðar á Íslandi fullkomlega að þeirri stefnu að skipuleggja og hugsa fram í tímann um, hvernig atvinnulífið skuli byggt upp með aðstoð ríkisins og með afskiptum ríkisins og yfirstjórn ríkisins, þá mun illa fara. Það er ekki aðeins á Vestfjörðum og slíkum stöðum, sem þetta er brýnt lífshagsmunamál fólksins, sem þar býr. Fyrir allt Ísland er það lífshagsmunamál. að þessi stefna verði aftur tekin upp.