05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það tæki mig, herra forseti, áreiðanlega allt of langan tíma, ef ég ætti að fara að kenna þessum hv. síðasta ræðumanni meira en hann kann í pólitík. Hann kann mikið, en hann lét ekkert bera á því, að hann kynni neitt, þegar hann var að tala hér áðan. Honum fannst einhver ógurleg goðgá, að nú ætti það að koma fyrir undir forustu ríkisstj., sem vildi, að einstaklingurinn fyndi bæði mátt sinn og möguleika til þess að berjast áfram sinni baráttu í þjóðfélaginu, þá skyldi þó vera orðuð sú hugsun, að ríkið héldi áfram að leika sitt hlutverk, það að leysa af höndum þau verkefni, sem einstaklingurinn er ekki fær um að leysa af höndum. Og þegar maður er að tala við svona reyndan stjórnmálamann og hann fæst ekki til þess að skilja, þá þarf betri kennara en mig til þess að bæta úr því.

Mikils misskilnings gætti í orðum hans um yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Ríkisstj. lýsti yfir, að umfram allt vildi hún reyna að lyfta þjóðinni upp úr því feni og burt frá því öngþveiti, sem þjóðin var lent í. Hún vildi reyna að vekja til nýs lífs og nýrra dáða þann kraft, sem með þjóðinni býr, reyna að kenna mönnum, að meira varðar, að þeir standi á eigin fótum, en að þeir styðji sig við brauðfætur ríkisvaldsins, því að án eigin fóta þegnsins verður ríkisvaldið aldrei annað en brauðfætur. Það veit enginn betur en þessi reyndi stjórnmálamaður. Það eru ekki yfirlýsingarnar. sem við gáfum í þessum efnum, sem hægt er í einu né neinu að mótmæla því með, sem við erum að gera núna. Ég segi svo ekkert um, undir hvaða yfirlýsingum þessi stjórn var mynduð, en hún var mynduð undir happastjörnu. og því mun vel fara fyrir henni að lokum.

Þessi hv. þm. var, eins og vant er, mér nákvæmlega sammála, þegar minnzt er á þetta happabarn okkar, nýsköpunarstjórnina. þá lyftist hann allur, — ja, eins og ég stundum líka, í háaloft af aðdáun fyrir þessum króga okkar, og sannarlega skal ég ekki draga úr þeirri hrifningu. En þótt það að sönnu sé rétt, að nýsköpunarstjórnin hafði vissar hugmyndir um, að hún ætlaði að nota 300 millj. í þessu skyni og annað fé í öðru skyni o.s.frv., þá var hún ekki fyrst og fremst byggð á einhverjum áætlunarbúskap. Ef nýsköpunarstjórnin byggðist á öðru en hugsjónum og framsýni og djörfung, þá byggðist hún á mönnum eins og hæstv. félmrh., hv. þm., að ógleymdum garminum honum Katli. Og minn áætlunarbúskapur lá ekki í neinum skrifuðum skýrslum, hann lá einmitt í því að sameina þessa krafta, sem þarna voru að verki. Það tókst um skeið, og það fór vel, og ég held, að það fari nú jafnan bezt, sem er kannske stofnað til með minnstum og fæstum orðum, en beztum hugsunum. Og ég man vel eftir þessum hv. þm., þegar við vorum að tala um þessa nýsköpunarstjórn. Þá þurfti hann enga langa samninga, engan vaðal, ekkert endilega. sem væri skjalfest, heldur bara einhverja sameiginlega hugsjón. sem við ættum og skyldum reyna að færa út í lífið, og sú hugsjón var að lyfta þjóðinni hærra en hún stóð þá. Það er sama hugsjónin, sem nú vakir fyrir okkur; og ég held, að þessi hv. þm. skilji vel, hvað fyrir okkur vakir, þó að hann látist ekki skilja það. En sem sagt, það er ekki, á mínu færi að kenna honum miklu meira en hann kann í þessum efnum, svo að ég eyði ekki mínum tíma í það.