06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2607)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Í gær urðu hér í hv. d. athyglisverðar umr. um till. til þál. um síldariðnað á Vestfjörðum. Till. er flutt af hv. 1. þm. Vestf. (SB) og tveimur öðrum þm. Þessi till. felur í sér áskorun á hæstv. ríkisstj. um að láta fara fram athugun á því, hvernig stuðla megi að starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík í Árneshreppi Strandasýslu. Enn fremur er lagt til í þessari till., að athugað verði, hvar heppilegast muni verða að koma upp síldarverksmiðjum og feitfisksbræðslum annars staðar á Vestfjörðum.

Í framsöguræðu sinni túlkaði hv. 1. þm. Vestf. þá skoðun sína, að verksmiðjur þessar, þ.e.a.s. á Ingólfsfirði og Djúpuvík, mundu verða óstarfræktar áfram, eins og þær hafa verið í mörg ár, nema eigendurnir fengju aðstoð ríkisins til þess að gera þær rekstrarhæfar og hefja rekstur þeirra eða ríkið annað tveggja tæki verksmiðjurnar á leigu eða jafnvel keypti þær og ræki þær sem ríkisverksmiðjur. Það var ekkert um það að villast, að hér bað hv. þm. um ríkisaðstoð við atvinnurekstur einstaklinga, eða og þó öllu heldur var bænin um það, að einstaklingar yrðu leystir frá þeim vanda og þeirri skyldu að starfrækja sjálfir sín einkafyrirtæki og að þau yrðu þjóðnýtt, notkun þeirra þannig tryggð með ríkisrekstri. Mér fannst það næsta eðlilegt, þegar hv. 3. þm. Reykv. (EOl) benti strax á, að sér þætti nýstárlegt að sjá tvo hv. þm. stjórnarliðsins einmitt nú bera fram till. um ríkisaðstoð við atvinnurekstur einstaklinga, rétt í sama mund og ríkisstj. hefði gert víðtækar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem fyrst og fremst hefðu að sögn átt að tryggja það, að einstaklingsreksturinn í landinu gæti bjargað sér sjálfur og staðið á eigin fótum án styrkja, eins og það hét svo snoturlega í stefnuyfirlýsingum og kosningaloforðum á s.l. hausti. Og hv. 3. þm. Reykv. lét í ljós nokkra undrun sína yfir því að nú væri beðið um aðstoð ríkisins, raunar um styrki við þessa einstaklinga, eigendur umræddra atvinnufyrirtækja, til þess að geta komið þeim í rekstur, eða að ríkið, eins og ég áðan sagði, leigði þessar verksmiðjur eða keypti og tryggði þannig rekstur þeirra.

Hv. frsm. tjáði það sína skoðun, að þetta væru einustu úrræðin til að koma verksmiðjunum í Djúpuvík og á Ingólfsfirði í rekstur, og hv. 3. þm. Reykv. taldi sig alveg sammála því, að það væri vissulega ekki um aðrar leiðir að ræða en þær, sem frsm. benti á, annaðhvort að aðstoða einstaklingana, hlaupa undir bagga með þeim, til þess að þeir gætu rekið þær, eða að ríkið tæki þessar verksmiðjur á leigu eða keypti þær. Eigendur verksmiðjanna hafa um mörg ár ekki verið megnugir þess að halda þeim í rekstri, og allar líkur benda til þess, að þeir verði ekki megnugir þess á næstunni.

Hv. 3. þm. Reykv. fagnaði því, að stjórnarliðar. a.m.k. þessir tveir, sem eru flm. þessarar till., skyldu vera farnir að vitkast svona og hverfa frá villu síns vegar, sjá, hversu fánýtt prinsippið er, þetta að láta einstaklingsreksturinn eiga sig, hvað sem atvinnuþörf fólksins liði, og hafna þeim möguleikum, að ríkið þurfi og verði undir vissum kringumstæðum að koma hlaupandi til og aðstoða einstaklingana, sem leggja fram lið sitt í atvinnurekstrinum, eða leysa þá af hólmi og taka vandann á sig og reka a.m.k. meiri háttar atvinnufyrirtæki.

Þegar þessi orðaskipti höfðu farið fram í gær, létu tveir hæstv. ráðh. til sín heyra. Þótti nú nærri höggvið stefnu stjórnarinnar, nokkuð tæpt að henni og þeim borið á brýn, að þeir væru nú hvarflandi og væru farnir að bregðast sinni eigin stefnu. Hæstv. félmrh. andmælti því, að þessi till. færi að nokkru leyti í andstæða átt við stefnu ríkisstj., en hæstv. forsrh., sem talaði tvisvar, vísaði hróðugur til hveitibrauðsdaga sinna og hv. 3. þm. Reykv., þegar þeir sátu annar þátttakandi og hinn styðjandi nýsköpunarstjórnarinnar hér á árunum, og forsrh. benti á, að þá hefði verið hafinn í stórum stíl þjóðnýttur rekstur í þessu landi, togarareksturinn. þá hefði hinum nýja flota verið komið í bæjarrekstur, — vissulega er það þjóðnýtingarform, enginn getur um það deilt, — og gerðist þá m.a. Reykjavík undir stjórn sjálfstæðismanna útgerðaraðili að nokkrum togurum.

Mér skildist á forsrh., að hann viðurkenndi, að hér væri verið að biðja um þjóðnýtingu, en það hneykslaði hann ekkert, því að hann hefði áður fengizt við slíkt, og gæti hann fallizt á, að þetta væri eina úrræðið, undir vissum kringumstæðum a.m.k. Mér finnst þetta sýna, hvílíkur pólitískur fimleikameistari hæstv. forsrh. er oft og tíðum, því að það er sannarlega nokkuð vel af sér vikið að koma því heim og saman að vera formaður fyrir flokki, sem hefur hið frjálsa framtak einstaklingsins og samkeppnisstefnuna sem grundvöll, hyrningarstein, og geta einnig verið þjóðnýtingarpostuli, en þetta tekst hæstv. forsrh. mætavel og kannske einhverjum fleiri í hans liði.

Það var þegar þessar umr. höfðu farið hér fram, sem ég kvaddi mér hljóðs og hafði aðeins talað í nokkrar mínútur, þegar hæstv. forseti óskaði þess, að ég gerði hlé á ræðu minni sökum annríkis ríkisstj., og varð ég að sjálfsögðu við þeim tilmælum hæstv. forseta að fresta ræðu minni þar til síðar. En þetta er í annað sinn með stuttu millibili sem slíkum tilmælum hefur verið til mín beint í upphafi ræðu, og sannfærðist ég m.a. af því um, hversu ríkisstjórn vor standi í ströngu dags daglega, þegar hún hvað eftir annað getur ekki þyrmt þingfundartíma Alþingis, heldur tekur hann til eigin fundarhalda sinna. Ég játa það að vísu fúslega, að slíkt getur komið fyrir, en þó tel ég ekki heppilegt eða æskilegt að trufla störf þingsins daglega að kalla með fundastússi ríkisstj., hæstv. ríkisstj. ætti helzt að mínu viti að velja sínum fundum annan tíma en Alþingis.

Ég hóf mál mitt í gær með því að lýsa fullum stuðningi við till., og ég endurtek það. Ég tel þó að vísu, að hún hefði mátt vera nokkru ákveðnari, eða nánar tiltekið hefði ég óskað, að aðgerðir ríkisvaldsins, sem um er beðið, skyldu við það miðast, að þessar síldarverksmiðjur gætu orðið rekstrarhæfar fyrir næstu síldarvertíð, þó að tíminn sé naumur, og má vera, að það vaki fyrir tillögumönnum, þó að þeir tali um, að ráðstafanirnar eigi að miðast við það, að þessar verksmiðjur verði rekstrarhæfar og notaðar í framtíðinni. En sérstaklega fagnaði ég því að sjá hv. 1. þm. Vestf. í hópi þeirra manna, sem óskuðu ettir ríkisafskiptum og helzt ríkisrekstri meiri háttar atvinnutækja. Ég vitnaði í þeim orðum, sem ég hafði sagt, áður en ég frestaði máli mínu, til ummæla flm. í grg. till., þar sem segir: „Reynslan sýnir, að hið opinbera eitt hefur bolmagn til þess að eiga og reka síldarverksmiðjur í öllum landshlutum.“ Þetta er vissulega hárrétt. Það er þjóðarbúskapnum nauðsyn, að verksmiðjur, síldarverksmiðjur, séu í rekstrarhæfu standi í öllum landshlutum, því að með því einu móti getum við hagnýtt verðmæti þessarar duttlungaskepnu sem síldin er, hvar sem hún kann að stinga upp kollinum og fara að vaða við landið.

Undir þessum biðtíma eftir síldinni, sem stundum verður ærið langur, sbr. t.d. Faxaverksmiðjuna hérna úti í Örfirisey, rísa fæstir einstaklingar fjárhagslega og eru þá magnþrota, þegar til á að taka og þarf að hefjast handa, En venjulegast er, að byrði þessa langa biðtíma leggist á bankana og þar með í rauninni á almenning. Og fyrst svo er, virðist langsamlega eðlilegast, að ríkisrekstur taki við og beri þannig ekki aðeins töpin, gripi ekki inn í, þegar einhverjar ófarir hafa orðið í rekstri einstaklinganna, heldur hafi einnig möguleika til þess að hljóta gróðann, þegar hann verður og afli glæðist. Það virðist því vera langeðlilegast, að ríkisrekstur sé á slíkum fyrirtækjum og það sé ekki aðeins kallað á ríkið, þegar í nauðir rekur, þegar einstaklingana ber upp á sker.

Ég veit, að það er lífsreynsla hv. 1. þm. Vestf., sem hefur gert hann fylgjandi ríkisrekstri, eins og þessi till. hans sýnir, og ég met hann mann að meiri fyrir það að hafa tekið þessari kennslu frá hinni vísu móður, reynslunni. Hann vitnar einmitt til reynslunnar á Vestfjörðum í grg. till. Hann minnir m.a. á Hesteyrarverksmiðjuna. Hún var einkafyrirtæki, hlutafélagið Kveldúlfur var eigandinn, og í því fyrirtæki mun hæstv. núv. forsrh. hafa verið einna mestur ráðamaður, eins og ég minntist á í gær, áður en hann sópaði sínu liði héðan úr þingsalnum.

Það er rétt, sem í grg. stendur, að á meðan verksmiðjan var rekin, var að henni mikil atvinnubót í Sléttuhreppi, en Sléttuhreppur var í þá tíð einn fjölmennasti hreppur Norður-Ísafjarðarsýslu. Ég hygg, að það hafi verið á 7. hundrað íbúa í Sléttuhreppi, þegar hann stóð með blóma. Það mætti því raunar kveða fastar að orði en að verksmiðjan hafi verið góð atvinnubót, meðan hún var rekin, því að verksmiðjan var eini atvinnugrundvöllurinn, sem fólkið hafði þarna á að byggja ásamt smábúskap, sem flestir stunduðu jafnframt. Það er líka rétt, sem síðar stendur í grg., að það hafði örlagaríkar afleiðingar fyrir byggðarlagið, þegar rekstur verksmiðjunnar lagðist niður.

Hvers vegna lagðist rekstur verksmiðjunnar niður, og hverjar urðu afleiðingarnar af því, að rekstri þessarar verksmiðju var skyndilega hætt? Afleiðingarnar urðu þær, að kauptúnin Sæból, Látur og Hesteyri hurfu, eru ekki lengur til. Fólkið varð atvinnutækjalaust að flýja þaðan smám saman eftir allmiklar atvinnuleysisþjáningar um nokkurt skeið. Þessi þrjú þorp eru ekki lengur til, og það sem meira er, Sléttuhreppur allur er horfinn úr tölu byggðra sveitarfélaga á Íslandi, það er ekki einn einasti maður í Sléttuhreppi nú. Grundvöllur atvinnulífsins hrundi í rúst, þegar Hesteyrarverksmiðjan skyndilega hætti rekstri og svo að kalla engin atvinnutæki önnur voru í byggðarlaginu. Orsökin til þess, að verksmiðjan hætti rekstri, var sú, að þetta var einkafyrirtæki. Einstaklingar áttu atvinnutækið, verksmiðjuna, og atvinnutækið var stofnað vegna gróðavonar, ekki vegna fólksins, sem byggði Sléttuhrepp. Og nú kom í ljós, að það var að áliti eigendanna, og sjálfsagt hefur það verið rétt mat hjá þeim, talið gróðavænlegra að reka verksmiðju á þeim árum, sem í hönd fóru, miðsvæðis norðanlands, og þá var stofnað til síldarverksmiðju á Hjalteyri við Eyjafjörð, en Hesteyrarverksmiðjan lögð niður. Hún grotnaði svo niður þarna á nokkrum árum og ég hef það seinast til hennar frétt, að þegar stóreignaskatturinn var lagður á hið fyrra sinn, þá hafi ruslinu á Hesteyri verið á þann hátt varið að leggja það sem greiðslu upp í stóreignaskattinn til ríkisins.

Flm. þessarar till. víkja undir lok grg. sinnar að síldarverksmiðjunum á Ingólfsfirði og Djúpuvík, sem báðar eru, eins og fyrr er sagt, í einkarekstri og hafa ekki verið starfræktar í mörg ár, og tillögumennirnir komast auðvitað að þeirri niðurstöðu, að við svo búið megi ekki standa, að þessar verksmiðjur séu ónotaðar. Orðrétt segja þeir um þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir íbúa nyrztu byggðarlaganna í Strandasýslu hlýtur það að hafa mjög mikla þýðingu, að þessi atvinnutæki séu í gangi. Hefur Árneshreppur, sem verksmiðjurnar eru í, á undanförnum árum átt við mikla erfiðleika að stríða, vegna þess að þau hafa ekki verið rekin.“

Og þetta er vissulega hverju orði sannara. Árneshreppur hefur komizt í mikla erfiðleika, vegna þess að einstaklingsframtakið hefur átt þarna atvinnutæki, sem fólkið treysti á sem atvinnutæki fyrir sig og sínar þarfir, en hafa ekki árum saman verið rekin.

Ég tók eftir því, að í framsöguræðu sinni í gær rakti hv. 1. þm. Vestf. þessa harmsögu Árneshrepps, þessa harmsögu einkaframtaksins — vil ég segja — í Árneshreppi nokkru nánar, því að þá lýsti hann því allnákvæmlega, hvernig kauptúnið Djúpavík, sem hefði risið upp í kringum verksmiðjuna þar og verksmiðjureksturinn, væri nú að tærast upp og deyja, eins og Hesteyrar-, Sæbóls- og Látrakauptún áður, þegar Hesteyrarverksmiðjan hætti sínum rekstri. Ingólfsfjörður er nú líka ömurlegur eyðistaður móts við það, sem verið gæti, ef verksmiðjan þar væri í rekstri. Ingólfsfjörður stendur þannig nú og hefur staðið um nokkurt skeið í skugga einstaklingsframtaksins, en ekki í neinni sólardýrð frá því.

Í sambandi við þessa till. get ég ekki að því gert, að hugur minn hvarflar að því, hvernig einkaframtakið og einstaklingsreksturinn hafi yfirleitt gefizt vestfirzku atvinnulífi, vestfirzku alþýðufólki.

Í því, sem nú hefur verið sagt, hefur verið nokkuð minnzt á Sléttuhrepp og örlög hans, og till. sjálf er beint borin fram vegna þess, hvernig nú horfi fyrir öðru sveitarfélagi á Vestfjörðum, nefnilega Árneshreppi, þ.e.a.s. ef ríkisaðstoð eða helzt ríkisrekstur komi ekki til bjargar.

En rifjum upp nokkur atriði. Það getur aldrei orðið til tjóns, það getur aldrei orðið til annars en að minna menn á sögulegar staðreyndir, sem e.t.v. er hægt að læra nokkuð af, þegar menn eru nú að hugleiða um afstöðu sína til ýmissa rekstrarforma í atvinnulífinu, einkarekstrar, samvinnurekstrar, bæjarrekstrar, ríkisrekstrar o.s.frv.

Mig langar þá til að leiða hugann fyrst að litlu kauptúni vestur á fjörðum, sem heitir Bíldudalur. Þegar Milljónafélagið svokallaða hætti þar störfum, — ég held, að það hafi verið 1913 eða 1914, það byrjaði víst rekstur á Bíldudal 1907, tók þar við af miklum athafnamanni, Pétri heitnum Thorsteinsson, og það má segja, að þá var atvinnulíf með mjög miklum blóma um skeið á Bíldudal, meðan Pétur Thorsteinsson var þar með sinn atvinnurekstur, svo kom nokkur lægð, þegar hann hætti, Milljónafélagið tók við, það var þó ekki alvarlegt og ekki langvarandi, — en þegar Milljónafélagið gafst upp 1913, þá fór allt í kaldakol í þessu litla kauptúni, og það tímabil varð nokkuð erfitt fólkinu við Arnarfjörð. Það er mér í barnsminni, þá átti ég heima þar við fjörðinn. Þegar svo sá einkaatvinnurekandi. sem tók við eftir Milljónafélagið, Hannes heitinn Stephensen, aftur missti fótanna með sinn atvinnurekstur 1925 og allt stöðvaðist á Bíldudal, allt atvinnulíf um nokkurt skeið, þá var mjög skuggalegt þar um að litast og mjög dapurlegt að lifa fyrir alþýðufólkið, og var það þá annað áfallið, sem fólkið þar hafði fengið á fárra ára fresti af völdum fallvaltleika einstaklingsframtaksins.

Verkamaður á Bíldudal, Ingivaldur Nikulásson, hefur vikið að þessu nokkrum orðum í ritgerð, sem hann skrifaði fyrir löngu og sagði — með leyfi hæstv. forseta — um það ástand, sem þarna skapaðist, þetta, sem ég nú vil leyfa mér að lesa. Hann segir:

„Nú fór inneignamönnunum ekki að litast á blikuna, því að inneignir voru miklar eftir slíkt aflasumar, sem þá hafði verið. Verkafólk átti einnig allmiklar inneignir, því að þegar það ætlaði að taka lífsnauðsynjar sínar upp á veturinn, voru vörur þrotnar, og voru framtíðarhorfur því mjög ískyggilegar, engin vinna um veturinn, eins og nærri má geta með slíkri kyrrstöðu. Loks kom Einar M. Jónasson sýslumaður og lokaði. Það var í marzmánuði 1926. Töpuðu margir þar allmiklum inneignum, og verkafólk fékk varla meira en helming inneigna sinna einu eða tveimur árum seinna. Íslandsbanki fékk verzlunarstaðinn og aðrar fasteignir verzlunarinnar. Nú þótti allskuggalegt útlit, atvinnutíminn fór í hönd og ekki neitt til neins.

Þetta atvinnuleysistímabil Bílddælinga varð mjög alvarlegt. Nú keypti staðinn af Íslandsbanka maður, sem hafði verið í þjónustu fyrirtækja Hannesar Stephensens, Ágúst heitinn Sigurðsson, og hóf nú atvinnurekstur á ný. Jú, það batnaði nokkuð um atvinnurekstur og atvinnuástand þar um skeið, en svo lauk því tímabili, og þá kom langt hörmunga- og atvinnuleysis- og eymdartímabil yfir Bíldudal, þegar Ágústs Sigurðssonar-tímabilinu lauk, margra ára tímabil.

En það dagaði á ný svolítið, það mátti heita dagsbrún, því að þá kom Gísli Jónsson til skjalanna, — hinn raunverulegi hv. 1. þm. Vestf. nú, og þá hófst Gísla-tímabilið, en því lauk líka, og þegar því lauk, þá var líka enn sem fyrr dapurlegt um að litast á Bíldudal, dauft atvinnulíf, mikið atvinnuleysi, lágar tekjur hjá verkafólki, enginn blómi í búi. Enn þá einu sinni hafði einkaatvinnurekstur á Bíldudal brugðizt fólkinu þar. Og nú höfðu Bílddælingar fengið nóg af einstaklingsframtakinu. Nú réðust þeir í það af sinni fátækt að láta sveitarfélagið koma fótum undir hraðfrystihús og byggja það upp, og þeir hafa síðan keypt og endurbætt fiskimjölsverksmiðju, sem hafði verið órekin þarna í einstaklingseign í mörg ár, og síðan tóku þeir, einnig hreppsfélagið, að kaupa báta, nokkrir einstaklingar gerðu það líka, það skal ekki vanmetið, — og seinasta átakið hjá þeim var svo að kaupa togskipið Pétur Thorsteinsson, og nú þegar atvinnulífið er komið á hinn samfélagslega grundvöll, þá er þó a.m.k. nú þannig ástatt á Bíldudal, að þar er eins mikið vinnuerfiði á fólkið lagt og það þolir, og á s.l. vetri og í fyrra urðu Bílddælingar að fá fólk að til að afkasta þeirri vinnu, sem að barst á landi og sjó.

Mér finnst þessi saga Bíldudals vera táknræn um það, hvernig einstaklingsrekstur hefur gefizt einu litlu kauptúni á Vestfjörðum. Það er engin tilviljun, einkaframtakið er ekki búið að bila þarna einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur fjórum sinnum á einni mannsævi.

Svo mikið er víst um þau atvinnutæki, sem nú hvíla á félagsframtaki fólksins sjálfs, — það getur ekki flutt sig um set, þó að einhvers staðar kynni að ára betur fjárhagslega til þess að reka fyrirtækin, þau eru þó fest um varanlega framtíð á staðnum, og fjármagnið, sem fólkið leggur í þau, verður líka samfélagsins eign á staðnum.

Ég sagði það á fundum fyrir síðustu kosningar vestur á Flateyri, að þar væri að vísu blómlegt atvinnulíf og hefði verið á undanförnum árum, en ég skyldi segja það, þó að mig langaði ekki til að tala illa um fjarstaddan mann, Einar Sigurðsson, að ég óttaðist það þó einna helzt í atvinnulífinu á Vestfjörðum, að grundvöllurinn undir atvinnulífinu þar kynni að bila, líkt og blómlegur einstaklingsrekstur hefði brugðizt fólkinu m.a. á Bíldudal og víðar annars staðar á Vestfjörðum áður hvað eftir annað. Og nú, þegar ég hef hv. 3. þm. Austf. (EinS) hér innan þingsalanna, þá segi ég þetta hér, af því að ég er ekki gefinn fyrir að baktala menn. Ég óttast það, að harmsaga eigi eftir að gerast í atvinnulífinu á Flateyri, áþekk því, sem gerzt hefur hvað eftir annað á Bíldudal og ég hef verið að lýsa hér að undanförnu, ekki af því, að ég telji Einar Sigurðsson ólíklegan til þess að vera atorkumikinn atvinnurekanda, en það er af því, að atvinnureksturinn þarna er byggður á einstaklingsherðum. Öll önnur atvinnutæki svo að segja hafa vikið fyrir því, að þessi atvinnutæki Einars Sigurðssonar hafa þurft á öllum kröftum fólksins á staðnum að halda. Ef þetta brysti, væri þarna komið neyðarástand, engin önnur atvinnutæki til að grípa til, og þyrfti a.m.k. nokkuð langan tíma til þess að bæta þar úr. Það er ekki einstaklinganna sök, að svona fer. Þetta eru gallar skipulagsins, að einstaklingsreksturinn getur blómgazt um skeið, en hann getur líka brostið, þegar minnst vonum varir, og þá bitnar það ekki á einstaklingnum, sem atvinnureksturinn rak, heldur á fólkinu sjálfu. (Forseti: Ég vil biðja hv. alþm. að reyna að halda sér að því máli, sem hér er á dagskrá.) Ég þykist nú ekki kunna betur að halda mér að málinu en að ræða um opinberan rekstur. sem till. fjallar um. (Forseti: Það er meiningin að reyna að afgr. sem flest af þessum till., sem hér eru á dagskrá, og ef umr. eiga að ganga í þá átt, sem hv. ræðumaður leikur nú, þá er ég hræddur um, að þær verði fáar afgr. hér í kvöld. og þess vegna vil ég eindregið mælast til þess af hv. alþm., að hann haldi sér sem bezt að till. sjálfri.) Ég tek ekki þessum áminningum hæstv. forseta með góðu. Ég hef ekki eytt þingtímanum hér með miklum ofsalegum ræðuhöldum, og ég hef ekki talað langan tíma enn þá og hef ekki vikið frá efni till. Ég tel þetta tilefnislaust og vil spyrja hæstv. forseta að því, hvort hann vilji taka orðið af mér aftur eða mælast til þess. að ég hætti, eins og hann gerði í gær, — nema stjórnin gæti komið sér saman um að halda fund núna aftur, þegar þm. hafa verið kallaðir saman að kvöldi til til þess að ræða mál. Það væri þó alltaf úrræði.

Viðvíkjandi Flateyri vil ég nú láta í ljós þá von mína, að grundvöllurinn undir atvinnurekstri Einars Sigurðssonar sé ekki að bresta, það sé ekki verið að höggva upp togarana, a.m.k. ef svo er, þá sé verið að undirbúa það, að ný atvinnutæki komi þangað í staðinn, svo að a.m.k. nokkur aðdragandi verði að því, að þessi fyrirtæki stöðvist, og fólkið gæti þá haft svigrúm til að búa sig undir að byggja upp á eigin spýtur.

Ég held, að það sé ekkert ofmælt, að það, sem er verst við einstaklingsframtakið, er það litla öryggi, sem það skapar fólkinu í byggðarlögunum, það getur blómgazt um nokkur ár, en sagan hefur endurtekið sig þráfaldlega og birzt alltaf í þeirri sömu mynd, að þetta getur hrunið, þegar minnst varir, og þarf ekkert óæri eða illæri til, því að það þarf ekki annað en að gróðavonirnar teygi huga atvinnurekandans á einhverja aðra staði.

Ég veit, að ef ég minnist örlítið á einstaklingsframtakið viðvíkjandi þeim kaupstað, sem við hv. 1. þm. Vestf., 1. flm. þessarar till., þekkjum báðir vel, Ísafirði, þá kemur okkur saman um það áreiðanlega, að þar hafi líka tekizt sorglega til á stundum með einstaklingsframtakið. Ég hygg, að við munum báðir 1926, þegar nálega allur vélbátafloti Vestfjarða, fiskiflotinn, var seldur burt úr bænum á einu ári. Þá var ekki bjart um að litast á Ísafirði. Allir stóru bátarnir svokölluðu voru seldir burt á einu missiri. Þá greip fólkið til þess á neyðarinnar stund að stofna til útgerðarfélagsskapar — það var alveg nýtt í sögunni — á samvinnugrundvelli, og það var á stuttum tíma komið upp sjö vélbáta flota í stað flota einstaklingsframtaksins, sem hvarf. Og það er einmitt meðflm. þessarar till., sem er nú forstöðumaður þess fyrirtækis, sem þá um margra ára skeið var aðalbjargræði Ísfirðinga í atvinnulífi þeirra, eftir að einkaframtakið hafði hrunið í rúst, brugðizt.

Miklu síðar gerðist það ævintýri í sögu einkaframtaksins á Ísafirði, að skuldugur útgerðarmaður tók sig skyndilega og fyrirvaralaust upp og fluttist með fjögur vélskip sín, öll myndarleg, þrjá 60 tonna báta og eitt skip, sem var á annað hundrað tonn, ekki milli hafna á Íslandi, ekki af því að hann sæi hilla undir gróðavænlegri aðstöðu annars staðar á Íslandi til útgerðarinnar, nei, hann vippaði sér til Nýfundnalands með skipin. Og til Ísafjarðar komu þau ekki aftur sem atvinnutæki. Þetta hliðarhopp tók einstaklingsframtakið þarna. Og fólkið sat eftir fjórum fiskiskipum fátækara að því er snerti atvinnuöryggið. Þeirrar atvinnu, sem þessi skip höfðu skapað og gátu skapað, nutu bæjarbúar ekki framar.

Og nú get ég glatt hæstv. forseta með því, að mitt mál verður nú ekki mjög miklu lengra. Þetta verður engin Maraþonræða. ekki upp á marga klukkutíma, henni fer senn að ljúka. En ég má þó til með, af því að það er í svo nánu sambandi við efni þessarar till. og alveg nýtt af nálinni, að minnast á það, að ég sá núna í vetur í norðlenzku blaði frásögn af því, hvernig einstaklingsframtakið hefði eiginlega brugðizt vonum Akureyringa. Frá þessu var sagt í hinu norðlenzka blaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt eftir stríðið var stofnað til togaraútgerðar á Akureyri. Annan togarann, Jörund, átti einstaklingur, Guðmundur Jörundsson. Fyrir tveim árum seldi hann skipið til Stykkishólms.“ Sú saga er hæstv. forseta og mér báðum vel kunnug. „Nú er hann að kaupa að nýju helmingi stærri togara eða 1000 rúmlesta skip. Þegar hann fékk leyfi fyrir hinum nýja togara, ákvað hann að flytja suður til Reykjavíkur og gera út þaðan. Á sínum tíma studdi bærinn hann til að kaupa Jörund, og var það eðlileg.“ Ég get skotið því hér inn í, að það var líka ríkið, sem studdi að því, að skipið fluttist til Stykkishólms, í vændum þess, að þessi útgerðarmaður héldi áfram sínum rekstri og kæmi honum jafnvel í stórbrotnara og myndarlegra horf, og dugnaður Guðmundar Jörundssonar ætlaði virkilega ekki að bregðast í því. Síðan segir í blaðinu: „Útgerðin gekk vel, því að eigandinn var dugmikill, og allmiklir fjármunir söfnuðust í eins manns hönd vegna útgerðarinnar og hagkvæmrar sölu togarans.“ — sem var m.a. fyrir ríkisafskipti og ríkisaðstoð. „Þessir fjármunir flytjast nú til höfuðstaðarins. Í viðtali við Morgunblaðið nú nýlega hefur svo Guðmundur látið hafa þau ummæli eftir sér, sem mjög eru til þess fallin að vekja ótrú á togaraútgerð frá Akureyri. Þessi sami maður hefur verið frambjóðandi á lista Sjálfstfl. hér við Eyjafjörð,“ segir blaðið.

Síðan segir: „Að hinum togaranum, Kaldbak, stóð almenningur í bænum. Sú útgerð hefur að vísu orðið fyrir áföllum, sem þó verður fremur rakin til einstaklinga en til almenningssamtaka. Skipin eru þó orðin fjögur, og búið er að koma upp miklu hraðfrystihúsi. Þessi skip hafa skotið styrkum stoðum undir bæinn. Þau hafa skapað atvinnu handa fjölda manns, sennilega framfærslu beina eða óbeina fyrir 1500–2000 manns.

Dæmin, sem hér hafa verið tekin af útgerð einstaklinga og félaga, sýna, að almenningur á viðkomandi stöðum þarf að hafa hönd í bagga um útgerðina, því þó svo getur farið, jafnvel hjá hinum harðfengustu og ágætustu framkvæmdamönnum, sem vissulega eru virðingarverðir, að þeim segist svo hugur um einhvern daginn, að betra sé að flytja allt sitt á brott og byrja á öðrum stað.“ — ég vildi nú segja líka: eða öðru landi eða annarri heimsálfu, — „án tillits til þess, hverjum afleiðingum það veldur á brottfararstað, að öflug atvinnutæki hverfi þaðan. Viðkomandi staður verður þá að byrja á því á nýjan leik að byggja sér upp ný atvinnutæki, einstaklingar eða félög.“

Þetta stóð í hinu norðlenzka blaði, og er þetta eins og andsvar einmitt eða þáttur í því efni, sem felst í þeirri till., sem við erum hér að ræða um.

Þegar við lítum nú yfir það, sem ég hef sagt, þá sýnist mér ekki betur en reynslan beri einkaframtalinu í atvinnurekstri það vitni, að einkaframtakið hafi verið fólkinu brigðult oft og á mörgum stöðum, að ég ekki segi svikult. Oft hefur það brugðizt, þegar verst gegndi, leitt langvarandi skort og atvinnuleysi yfir byggðarlög og lagt nokkur þeirra í eyði.

Einmitt þegar ég lít yfir þennan val allan saman, þá skil ég vel, að hv. 1. þm. Vestf. ákalli ríkisvaldið og biðji um aðstoð þess til þess að afstýra þeim voða og því stórtjóni, sem orðið hefur, eins og sagan sannar, víða á Vestfjörðum og raunar auðvitað í öllum landshlutum, en kannske farið allra grálegast með vissa staði í hinu fyrrv. kjördæmi hv. 1. þm. Vestf.

Það er staðreynd, að þegar fýkur í öll skjól, þá leita jafnvel hörðustu samkeppnismenn til hins þjóðnýtta rekstrarforms í meiri háttar atvinnurekstri, þ.e.a.s. annaðhvort samvinnurekstrar, bæjarrekstrar eða ríkisrekstrar. En allt þetta er samfélagslegur rekstur, þjóðnýtt rekstrarform, og ég geri ekki mikið upp á milli þess, hvert formið er valið, eftir því sem það virðist henta bezt, Það er að koma atvinnurekstrinum, a.m.k. stórrekstrinum, á herðar og í hendur samfélagsins. Og það virðist vera svo, að slíkar sorgarsögur er ekki svo algengt að geta rakið, þar sem fólkið hefur byggt upp atvinnurekstur sinn á samfélagslegum grundvelli, og það er einmitt það, sem nú er verið að kalla á að gert verði í Árneshreppi að því er snertir tvö atvinnufyrirtæki einstaklinga, að þeim verði nú komið í samfélagslegan rekstur, svo að það sveitarfélag, sem þau eru staðsett í, þurfi ekki að horfast í augu við þá ógn að verða e.t.v. lagt í auðn.