06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2609)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að vera eins stuttorður og ég get.

Í framsöguræðu hv. 1. þm. Vestf. (SB) fyrir till. á þskj. 145 ræddi þm. um, að nauðsyn bæri til, að ríkisstj. yrði falið að rannsaka, á hvern hátt yrði heppilegast að hefja aftur starfrækslu á síldarverksmiðjum á Ingólfsfirði og Djúpuvík. Þá ræddi hv. þm. nokkuð nauðsyn þess, að komið yrði upp einhvers staðar á Vestfjörðum síldarverksmiðjum og feitfisksbræðslum. Frsm. taldi, að annaðhvort ættu ríkisverksmiðjurnar, þ.e.a.s. síldarverksmiðjur ríkisins, að kaupa eða leigja verksmiðjurnar eða það opinbera fengi einstaklinga eða félög, sem nú eiga þessar verksmiðjur, til þess að koma þeim í rekstrarhæft ástand. Rökin fyrir þessu taldi hv. þm. þau m.a., að nokkur undanfarin ár hefðu sumarsíldveiðarnar hafizt norður af Vestfjörðum og síldveiði að haustinu til hefði farið ört vaxandi úti fyrir Vestfjörðum.

Ég skal strax taka það fram, að ég er að miklu leyti sammála hv. þm. um nauðsyn þess, að verksmiðjur þær, sem nú eru til, svo sem á Ingólfsfirði og Djúpuvík, séu starfræktar þannig, að þær geti tekið á móti síld til vinnslu strax í vor, ef svo skyldi verða, að mikið magn síldar veiddist vestarlega á Húnaflóa eða út af Horni. En í þessu sambandi má benda á, að á Skagaströnd er síldarverksmiðja ríkisins, sem hefur getað brætt um 5 þús. mál síldar á sólarhring.

Nú hefur það heyrzt, að verið sé að flytja vélar úr þessari verksmiðju eitthvað austur á land, og minnkar þá vitanlega geta þeirrar verksmiðju, a.m.k. um helming. Ef þetta er rétt, bendir það ekki til þess, að forustumenn síldarverksmiðja ríkisins séu trúaðir á aukna síldveiði á vestursvæðinu. Annars er ég þeirrar skoðunar, að það sé hin mesta fjarstæða, ef það er rétt, sem sagt er, að farið sé að flytja vélar úr síldarverksmiðjunni á Skagaströnd. Það getur enginn neitt um það fullyrt, hvenær síldin fer að fiskast aftur fyrir alvöru á vestursvæðinu, og það er að miklu leyti rétt, sem fram kom í ræðu hjá hv. 1. þm, Vestf., að um vaxandi veiði hefur verið að ræða út af Húnaflóa og Horni.

Þó verður ekkert um það fullyrt, hvort hér sé að verða á veruleg breyting, til þess eru allar rannsóknir á göngu síldarinnar of stutt á veg komnar. Þrátt fyrir það tel ég þó alveg sjálfsagt, að þær síldarverksmiðjur, sem til eru á Húnaflóasvæðinu, séu hafðar tilbúnar til vinnslu í byrjun síldarvertíðarinnar. Jafnframt tel ég það mestu fjarstæðu að flytja vélar frá Skagaströnd, verksmiðjunni þar, og vil hér með leyfa mér að óska þess, að hæstv. sjútvmrh. komi í veg fyrir, að slíkt verði gert. Ég sé nú reyndar, að hann er ekki við hér, en ég mun reyna að koma þessari ósk minni til hans eftir öðrum leiðum.

Það má vel vera, að það sé nauðsynlegt að byggja nýjar síldarverksmiðjur á Vestfjörðum. Veiði síldar út af Vestfjörðum s.1. ár bendir því miður ekki til þess, að um mikið magn síldar hafi þar verið að ræða, en slíkt getur að sjálfsögðu breytzt til bóta hvenær sem er.

Á undanförnum árum hefur verið söltuð síld á Vestfjörðum lítillega, þ.e.a.s. á Ísafirði, Súgandafirði og Bolungavík. Eftirfarandi magn hefur verið saltað á þessum stöðum: 1956 voru þar saltaðar 9 þús. tunnur, 1957 5 þús., 1958 11 þús. og 1959 800 tunnur. Auk þess var svo allmikið magn síldar fryst til beitu. Það eru töluverðar líkur fyrir því, að hægt sé að stórauka veiðimagnið frá því, sem það hefur verið, með aukinni tækni, svo sem með flotvörpu og fleiri nýjum veiðiaðferðum, en allar eru þessar nýju veiðiaðferðir þó á byrjunarstigi, þó að vonir standi vissulega til þess, að þær beri mikinn og góðan árangur.

Nú eru til í landinu margar og góðar síldarverksmiðjur, sem undanfarin ár hefur stórlega vantað hráefni. Af þeim eru, eins og áður hefur verið bent á, þrjár verksmiðjur það vestarlega, að þær geta komið að miklum notum fyrir þau skip, sem veiða síld út af Húnaflóa og norðvestur af Vestfjörðum, ef þær væru allar í nothæfu standi, þannig að þær gætu hafið bræðslu, strax og síld fer að fiskast á vorin. Ég tel samt alveg sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. verði látin rannsaka, hvar heppilegt væri að dómi sérfróðra manna að byggja slíkar verksmiðjur á Vestfjörðum, og gerðar séu aðrar nauðsynlegar ráðstafanir og unnið að nauðsynlegum undirbúningi.

Ég get samt ekki stillt mig um að benda á það, sem kemur fram í grg. fyrir till., þar sem segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Reynslan sýnir, að hið opinbera hefur eitt bolmagn til þess að eiga og reka síldarverksmiðjur í öllum landshlutum.“

Hér er skýrt og ákveðið tekið til orða og stefnan mörkuð í þessum málum, enda í fullu samræmi við þá reynslu, sem Vestfirðingar hafa fengið af rekstri einstaklinga og hlutafélaga á þessu sviði. Það er ekki svo að skilja, að það eru fleiri en Vestfirðingarnir, sem hafa fengið að kenna á blessun einstaklingsframtaksins. Þau eru allmörg byggðarlögin á Íslandi, sem hafa orðið fyrir því, að þegar erfiðleikar hafa steðjað að atvinnurekstrinum, þá hafa margir þeir ágætu menn, sem rekið hafa þar atvinnufyrirtæki, lagt upp laupana, haft sig á brott og flutt sig til þeirra staða, þar sem gróðavonin hefur verið meiri, en eftir hafa svo setið atvinnulausir verkamenn tugum og hundruðum saman. Þannig er hægt að koma með fjölmörg dæmi frá öllum byggðarlögum á Íslandi. Þetta eru staðreyndir, sem allir vita um. Hitt er svo annað mál, að það, sem er talið rétt og sjálfsagt að gera í þessum málum og kemur mjög skýrt fram í grg. fyrir till., er í algerri mótsögn við stefnu núv. hæstv. ríkisstj., eins og rækilega hefur verið bent á af hv. 3. þm. Reykv. og 4. landsk.

Þá vil ég alveg sérstaklega undirstrika það, sem hv. frsm. sagði um nauðsyn þess, að okkar ágæta síld verði hagnýtt á fleiri vegu en hingað til hefur verið gert, sérstaklega að hafizt verði handa um niðursuðu á síld til útflutnings. Hér eru lög frá 1946 og 1947 um byggingu verksmiðju til niðursuðu og niðurlagningar á síld. Ekkert raunhæft hefur verið gert í því máli, og hafa því lögin um byggingu slíkrar verksmiðju, sem átti að verða á Siglufirði, verið eins og hver annar dauður bókstafur. Í fyrra flutti ég frv. til laga hér í þessari hv. deild um stofnun og rekstur verksmiðju til vinnslu sjávarafurða á Siglufirði. Málið var aldrei afgreitt frá þeirri nefnd, sem fékk það til meðferðar. Ekki bendir það til þess, að mikill áhugi eða skilningur hafi þá ríkt meðal hv. þm. um nauðsyn þess að koma á fót niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju fyrir síld til útflutnings á erlendan markað.

Nú á þessu þingi tók ég ásamt tveimur þingmönnum frá Norðurlandskjördæmi vestra og 9. landsk. málið upp á ný og flutti þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun á grundvelli laga frá 1947 og 1946 um byggingu og rekstur verksmiðju á Siglufirði til niðursuðu og niðurlagningar á síld og öðrum fiskafurðum. Áætluninni skal lokið fyrir 1. okt. 1960. Till. var vísað til fjvn. Nefndin hefur ekki enn þá afgreitt till. frá sér, en líklegt er þó, að það verði gert núna á næstunni.

Ég heyrði það á hv. 1. þm. Vestf., að hann hefur mikinn áhuga á, að teknar verði upp nýjar og raunhæfar aðgerðir í þá átt m.a., að hafin verði niðursuða og niðurlagning á síld í stórum stíl. Ég fagna því alveg sérstaklega, að þessi hv. þm. skuli vera mér sammála í þessu stórmáli, og hver mun þá að sjálfsögðu beita sér fyrir því í sínum flokki, að nú verði hafizt handa með nauðsynlegan undirbúning, svo að raunverulegar framkvæmdir geti hafizt. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að komið verði upp niðursuðuverksmiðju á síld og öðrum fiskafurðum einhvers staðar á Vestfjörðum. Það er litlum vafa undirorpið, að sú síld, sem vanalega fiskast úti fyrir Vestfjörðum og Ísafjarðardjúpi, er eitt ágætasta hráefni til niðursuðu. Niðursuða slíkrar síldar er máske eina leiðin til þess að gera úr þeirri síld góða útflutningsvöru.