06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (2622)

79. mál, hagnýting síldaraflans

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við höfum fjórir þm. leyft okkur að flytja þessa till. um hagnýtingu síldaraflans. Meðflm. mínir eru hv. 4. þm. Reykn., hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Vestf. Till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að athugaðir verði til hlítar möguleikar á að hagnýta síldarafla landsmanna betur en nú er gert og þá einkum með það fyrir augum, að sem mestur hluti síldarinnar verði fluttur út sem fullunnin neyzluvara.“

Till. samhljóða þessari lá fyrir síðasta Alþingi, flutt af mér og fleirum, en var ekki afgreidd. Allshn., sem falið var að athuga hana, skilaði aldrei áliti sínu. Hér getur þó varla verið um ágreiningsefni að ræða. Það er ekki umdeilanlegt, að Íslendingum er nauðsynlegt að gera allar gjaldeyrisvörur sínar sem verðmestar. Enn fremur er það staðreynd, að Íslendingar fara ekki búmannlega með síldarafla sinn. Hv. 1. þm. Vestf. minntist réttilega á þetta í ræðu hér í gær, og hv. 11. landsk. þm. minntist einnig á þetta áðan og tók undir um það, að hér væri mál, sem þyrfti að gefa gaum, það er betri hagnýtingu síldaraflans.

Að því leyti sem síldaraflinn er nú ekki bræddur, gerður að mjöli til skepnufóðurs og áburðar og lýsi til iðnaðar, er hann fluttur að mestu út sem saltsíld, sem aðrar þjóðir vinna svo úr ýmiss konar hnossgæti til sölu á matborðin hjá sér og enn fremur til að selja enn öðrum þjóðum sem sína vöru. Eru Norðmenn og Svíar þar fremstir í flokki.

Það er talið, að síld sé sú fisktegund, sem megi gera einna fjölbreytilegasta söluvöru úr til manneldis. Sérstaklega þykir síldin hæf til niðursuðu og niðurlagningar í dósir. Síldin, sem gengur undir nafninu Íslandssíld erlendis og veidd er aðallega úti fyrir Norður- og Austurlandi, hefur það orð á sér að vera allra síldartegunda bezt til matargerðar. Íslendingar gera það, sem þeir geta, til þess að veiða þessa síld. Ekki er hægt að deila á þá fyrir það að draga af sér við að reyna að ausa henni upp úr sjónum og koma henni á land. Og í landi er söltunarhæfa síldin af mikilli fimi sett í tunnur. Við það er vakað dag og nótt, þegar á liggur. Allir, sem vettlingi geta valdið, fara þá til vinnu, til þess að koma síldinni í tunnurnar, jafnvel Kata gamla í Vörinni kemur úr körinni, eins og Halldór Kiljan segir frá í sögunni af því, þegar síldin kom eftir 17 ára fjarveru til Austurlands einu sinni. Og menn eru glaðir, þegar síðasta síldartunnan fer um borð frá hverri höfn. En hvað tekur svo við? Oft og einatt verður þá margt fólk í verstöðvunum atvinnulítið langtímum saman. En saltsíldin, sem flutt var um borð, verður verkefni í verksmiðjum erlendis, þangað fer atvinnan við að breyta henni í ýmiss konar verðmikið lostæti. Þetta er léleg búmennska. Tækifærum til þess að breyta í erlendan gjaldeyri íslenzkri vinnu er þannig ár eftir ár glatað. Á þessu verður að ráða bót. Það er engu síður mikilsvert en að veiða meiri síld, þótt auðvitað sé sjálfsagt að leggja kapp á það að veiða sem mest,

Sigurður Pétursson gerlafræðingur hefur margt fróðlegt ritað og rætt um nauðsyn þess, að Íslendingar vinni matvælavörur úr hráefnaframleiðslu sinni. Ég leyfði mér að vitna í hann, þegar ég gerði grein fyrir till. þessari í fyrra. Síðan ég gerði það hefur hann skrifað mjög fróðlega áhugamannsgrein í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands, 4. hefti, 1959, um niðursuðuiðnað á Íslandi. Þar segir hann, að þegar sé talað um niðursuðuiðnað, sé átt við tvennt: í fyrsta lagi niðursuðu matvæla og í öðru lagi niðurlagningu matvæla. Niðursoðin eru þau matvæli, segir hann, sem sett eru í þétt ílát og síðan hituð til þess að koma í veg fyrir gerla- og sveppagróður. Niðurlögð eru þau matvæli, sem sett eru í smásöluumbúðir og rotvarin eru með salti, sykri, sýru eða öðrum rotvarnarefnum. Um síldina segir Sigurður Pétursson orðrétt í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Langsamlega bezti fiskurinn, sem við höfum hér til niðursuðu og niðurlagningar er síldin, bæði smá og stór, ný eða söltuð. Slík uppspretta fyrsta flokks matvæla sem síldin er hér við Ísland á hvergi sinn líka. Eggjahvítuefnin eru nauðsynlegustu næringarefni mannsins og ásamt feitinni þau dýrmætustu, en úr þeim fiski fást báðar þessar fæðutegundir í ríkum mæli. Meðal annars fiskmetis ber síldin af um næringargildi og bragðgæði, ef hún er vel verkuð og matreidd af kunnáttu, og síld veidd á Íslandsmiðum ber af annarri síld, enda heimsfræg. Má segja, að það nálgist að vera glæpur gagnvart mannkyninu að veiða Íslandssíld til bræðslu. Frá næringarfræðilegu sjónarmiði er það líka rangt að nota þennan ágæta fisk til fóðurs alldýra, því að afurðir þeirra dýra standa síldinni ekki framar sem mannafæða. Eggjahvíturíkt fóður handa alidýrum má vinna úr verðminni fiski og fiskúrgangi.“

Þetta, sem ég nú hef lesið, er tekið upp úr grein Sigurðar Péturssonar gerlafræðings í Tímariti Verkfræðingafélagsins. Og þetta styður mjög sterklega þessa till., sem hér liggur fyrir. Niðurstöður þessa sérfræðings í greininni eru þær, að hefja þurfi víðtæka könnun á erlendum mörkuðum fyrir íslenzkar afurðir niðursoðnar, fá hingað erlenda kunnáttumenn í niðursuðutækni og matreiðslu slíkrar vöru og senda íslenzka menn til útlanda til þess að vinna þar í niðursuðuverksmiðjum. Skipulag í þeim efnum fæst ekki nema fyrir forgöngu ríkisins. Till. á að ýta undir ríkisforgönguna í einhverju því formi, sem við athugun þætti bezt henta.

Árið 1955 flutti fjvn. till. til þál. um, að ríkisstj. þá kveddi til þess sérfróða menn að athuga gaumgæfilega, með hverjum hætti yrði komið upp hér á landi fullkominni niðursuðu á sjávarafurðum. Enn fremur skyldi rannsakað jafnframt, hvernig ríkið gæti greitt götu þeirra aðila, einstaklinga eða félaga, sem stofna vilja til slíks iðnaðar. Þáltill. var samþykkt. Þáv. stjórn skipaði nefndina. Þessir menn voru skipaðir í nefndina: dr. Jakob Sigurðsson, Gunnar Flóvents skrifstofustjóri síldarútvegsnefndar, Jóhann Guðmundsson skrifstofumaður og dr. Sigurður Pétursson gerlafræðingur.

Dr. Jakob Sigurðsson, sem var formaður nefndarinnar, hefur góðfúslega leyft mér að lesa samrit af áliti nefndarinnar og fylgiskjöl, sem með álitinu voru afgreidd, en n. skilaði áliti í desember 1955. Er þar mikinn fróðleik að finna, sem getur verið mikilsverð undirstaða fyrir athugun þá um hagnýtingu síldaraflans, sem þessi till., sem ég er að fylgja úr hlaði, ræðir sérstaklega um. Í nál. er tekið fram, að nefndin telji eðlilegt, að lögð verði sérstök áherzla á niðursoðna og niðurlagða síld, vegna þess að þar virðast vera langmestir möguleikar til þess að byggja upp þýðingarmikinn útflutning, sem unnið geti sér varanlega hylli í ýmsum löndum. Enn fremur vil ég taka upp úr álitinu orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, eftirfarandi:

„Það liggur fyrir samkvæmt ýmsum upplýsingum, sem fengizt hafa, að af þeim hráefnum, sem þegar hafa skapað grundvöll undir mikilvægan niðursuðuiðnað erlendis og fáanleg eru hér við land, er síldin hið eina, sem máli skiptir, og ber því fyrst og fremst að beina athyglinni að henni, þegar rætt er um möguleika til stóriðnaðar.“

Í nái. segir einnig, að Norðurlandssíldin sé bezta hráefni til síldariðnaðar, sem nokkurs staðar sé hægt að fá, og síldin við Suðvesturland einnig að ýmsu leyti æskilegt hráefni til niðursuðu. Tilraunir þær, sem þegar hafa verið gerðar, hafa sýnt, segir þar, að úr henni, þ.e. Suðvesturlandssíldinni, má framleiða ýmsar góðar vörutegundir með þeim aðferðum, sem reyndar hafa verið.

Það, sem gera þarf, er því að notfæra hinar ódýrustu framleiðsluaðferðir og afla vörum þessum mikilla og öruggra markaða. Það er menningarleysi á sinn hátt að flytja út hráefni eins og saltsíldina óunnið, svo að ekki sé talað um að fara þannig með mikinn hluta síldaraflans, að hann verði ekki mannamatur, úr því að heiminn skortir matvæli handa mönnum. Og strax eftir að aflatíminn er úti, hefur fólkið í ýmsum verstöðvum allt of lítið að gera, en gæti, ef rétt væri á þessum málum haldið, haft miklar tekjur af vinnu við að gera úr síldinni þær vörur, sem neytendur kjósa á matborð sín. Um leið hefði þjóðin meiri erlendan gjaldeyri upp úr síldaraflanum.

Dr. Jakob Sigurðsson, sem hefur fengið mesta reynslu allra Íslendinga í þessum efnum vegna niðursuðu Fiskiðjuvers ríkisins, sem hann stóð fyrir, segir, að hægt muni vera að hafa tvöfaldan til þrefaldan gjaldeyri upp úr síld, miðað við saltsíldarsölu, með því að vinna úr síldinni á þann hátt, sem einfaldastur er, og miklu meira, ef teknar séu upp dýrari aðferðir. En hver vill hefjast handa um þetta, svo að gagni verði? Ríkið verður að mínu áliti að hafa forgönguna eða a.m.k. stýra aðgerðum og taka á sig ábyrgð, til þess að þekking, kunnátta og fullkomin vandvirkni séu viðhafðar, Án þeirra er tilgangslaust fyrir Íslendinga að ætla sér að keppa við aðrar þjóðir á mörkuðum síldarvaranna, þó að hráefnið hér sé fyrsta flokks. Mikið er undir því komið, að ekki séu farin gönuskeið, er valdi sköðum, veki ótrú og spilli söluskilyrðum. Engin fljótfærni má eiga sér stað eða loftköst, sem Íslendingum hættir stundum við til að byrja með og fara kollhnísur fyrir. Hins vegar má ekki kyrrstaðan lengur eiga sér stað í þessum efnum. Alþingi þarf að láta þetta til sín taka og fela framkvæmdastjórn þjóðfélagsins aðgerðir og þá fyrst og fremst að fela henni að leita um þetta tillagna fróðustu manna á viðkomandi sviðum. Það er tilgangurinn með þessari þáltill. að koma því til leiðar.

Herra forseti. Ég legg til, að umræðunni verði frestað og till. verði vísað til athugunar og umsagnar hv. fjvn.