27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2652)

87. mál, símgjöld bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir þær undirtektir og þá afgreiðslu. sem till. sú, er ég flutti á þskj. 163 um samræmingu símtala og símgjalda í umdæmi bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, hefur fengið.

Ég get fyrir mitt leyti mjög vel fallizt á þá breytingu, sem n. leggur til að gerð verði á till., enda er það kjarni málsins, að sú skipan, sem till. gerir ráð fyrir, verði framkvæmd svo fljótt sem auðið er.

Ég gerði í framsögu minni grein fyrir þessum málum og tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér. En samþykkt till. gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu á fyrirkomulagi þessara mála, eins og þau eru í dag og eins og þeim er ætlað að verða, að í stað þess að Hafnfirðingar og nágrannar þeirra greiði miklu hærra gjald fyrir viðtöl til Reykjavíkur en innanbæjar, þá hefur Alþingi að samþykktri þessari till. lýst yfir þeim vilja sínum, að þessi mismunur verði leiðréttur, þannig að símtöl á milli þessara byggðarlaga, sem eru í umdæmi bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, verði eigi dýrari og með sama fyrirkomulagi og innanbæjarsímtöl, og sú skipan, sem ætlað var að kæmi til framkvæmda nú á næstunni, þ.e.a.s. símtöl greidd eftir tímalengd, sé þar með úr sögunni.

Framkvæmd þessarar till. heyrir undir hæstv. póst- og símamálaráðherra. Ég er fullviss af viðtölum við hæstv. ráðh., að hann skilur mjög nauðsyn þessarar breytingar, sem hér um ræðir, og hann muni láta hraða framkvæmdum þessa máls.