27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

100. mál, fiskileit á Breiðafirði

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi, sem flutt er af þingmönnum Vesturlandskjördæmis, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á humar-, rækju- og smásíldarmagni í Breiðafirði og við Snæfellsnes til að kanna grundvöll fyrir niðursuðuverksmiðju í Stykkishólmi.“

Höfuðástæða fyrir því, að þessi till. er fram komin, er sú, að undanfarin ár hefur mikinn hluta árs verið stopul atvinna í Stykkishólmi. Vélbátaútgerð hefur þar af ýmsum ástæðum farið heldur minnkandi, enda lengra að sækja á mið en frá verstöðvum vestar á Snæfellsnesi. Stykkishólmsbúar hafa að vísu gert mjög myndarlegt átak, þar sem þeir hafa sameinazt um útgerð togarans Þorsteins þorskabits, en ástæða er til þess að ætla, að rétt sé að gera, ef unnt reynist, ráðstafanir til þess, að atvinnulíf verði þarna að einhverju enn fjölbreyttara.

Mál þessi hafa verið rædd af hreppsnefnd Stykkishólms og við helztu atvinnurekendur staðarins, og er það sameiginleg hugmynd manna vestur þar, að æskilegt sé að fá leitað að humar-, rækju- og smásíldarmiðum á Breiðafirði í þeirri von, að hægt verði að hefja slíkar veiðar á Breiðafirði og auka atvinnu með vinnslu þess afla.

Það er viðurkennt, að við Íslendingar göngum hvergi nærri nógu langt í því að fullnýta það hráefni, sem við drögum úr sjó og mun vera eins gott og slíkt hráefni er fáanlegt nokkurs staðar í veröldinni. Það er því mikið talað um það að reyna að nýta sjávaraflann betur og m.a. mikið talað um að auka niðursuðu, og hafa ýmsar tillögur og hugmyndir komið fram hér á Alþingi í þá átt. Ef slík leit, sem hér er farið fram á, leiddi til þess, að það fyndust rækju- eða humarmið í Breiðafirði, mundi þó vera hægt að nýta þau, áður en niðursuðuverksmiðja rísi, því að slíkur afli hefur með ágætum árangri verið frystur á öðrum stöðum á landinu og vinna við hann verið allmikil.

Ég vil benda á, að fé hefur verið veitt í fjárl. til fiskileita, svo að ekki mun þurfa að gera sérstakar ráðstafanir á því sviði, ef Alþingi vildi fallast á að lýsa þeim vilja sínum, að rannsóknir á humar-, rækju- og smásíldarmagni í Breiðafirði færu fram:

Ég vil svo að lokum leggja til, að umræðu um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.