27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2676)

100. mál, fiskileit á Breiðafirði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Um till. á þskj. 221 er ekki nema gott eitt að segja, en í sambandi við hana vil ég minna á það, að þegar fjárl. voru til afgreiðslu í vetur, gerðum við framsóknarmenn till. um það, að fjárveiting til fiskimiðaleita væri aukin. Ég færði þá rök fyrir því, sem var rökstutt af álitsgerð Fiskifélagsins, að það væri ekki hægt að sinna þessum málum, nema fjárveiting væri verulega aukin frá því, sem lagt var til í fjárlagafrv.

Í fjvn. liggur fyrir hliðstæð till., sem er um rækjumiðaleit fyrir Austurlandi, og afgreiðslu hennar er ekki lokið frá nefndinni, eingöngu af því, að það er verið að athuga möguleika á fjármagni til þess að framkvæma hana.

Enda þótt svo fari nú, að fjármagn til þess að framkvæma þessa fiskileit, sem hér er gert ráð fyrir, verði ekki til staðar á þessu ári, treysti ég því, að samþykkt þessarar till. megi verða til þess, að hv. Alþ. eða ráðamenn hér á hv. Alþ. verði skilningsbetri á nauðsyn málsins en þeir voru við afgreiðslu síðustu fjárlaga.