24.05.1960
Sameinað þing: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2699)

147. mál, nauðungarvinna

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur staðið að ýmsum alþjóðlegum samþykktum til aukningar félagslegu öryggi og félagslegum umbótum aðildarríkja stofnunarinnar. Þessi alþjóðasamþykkt, sem hér er lagt til að verði fullgilt, er ein af þeim.

Á árunum 1951–53 starfaði nefnd, sem skipuð var af framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, að rannsókn á nauðungarvinnu. Komst n. að þeirri niðurstöðu, að nauðungarvinna ætti sér stað í ýmsum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, enda þótt vinnumálaþingið hefði þegar gert samþykktir, sem fælu í sér bönn við þessari vinnu, þ. á m. hina almennu samþykkt um þetta efni frá 1930, sem Ísland er aðili að.

Þetta mál var síðan rætt fyrst á þingi stofnunarinnar 1956, en ekki afgr. á annan hátt en þann, að þar var lagt til og samþ., að um þetta atriði skyldu fara fram, viðræður á milli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna, áður en gengið yrði frá uppkastinu. Mál þetta var síðan til síðari umr. á þinginu 1957, og það uppkast, sem þá lá fyrir þinginu, er einmitt þetta, sem hér liggur fyrir. Þar er gert ráð fyrir banni við nauðungarvinnu, eins og segir í 1. gr. samþykktarinnar, sem beitt er með pólitískri þvingun, fræðslu eða sem refsingu gegn mönnum fyrir að hafa látið eða láta í ljós stjórnmálaskoðun eða skoðanir hugsjónalega gagnstæðar hinu ríkjandi skipulagi, stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu, enn fremur vinnu, sem beitt er sem aðferð til þess að nota verkalýðinn til breytinga á efnahagskerfinu, í þriðja lagi nauðungarvinnu, sem beitt er til þess að aga verkalýðinn, í fjórða lagi nauðungarvinnu, sem beitt sé til refsingar fyrir þátttöku í verkföllum, og loks í fimmta lagi nauðungarvinnu, sem beitt er til mismununar sökum uppruna, félagslegrar aðstöðu, þjóðernis eða trúarbragða.

Þetta segir í 1. gr. samþykktarinnar og segir raunar allt, sem segja þarf um þessa samþykkt. Hinar greinarnar, frá 2.–10., eru svo um, hvernig þessi samþykkt taki gildi og hvernig má segja henni upp og um framkvæmd samþykktarinnar að öðru leyti, sem ég tel ekki þörf á að rekja hér.

Þessi samþykkt var afgr. við lokaatkvgr. á þinginu 1957, eins og ég sagði áðan, og greiddu þá 240 fulltrúar þingsins atkv. með henni, en enginn á móti. Einn sat hjá.

Alls hafa nú allmörg aðildarríki vinnumálastofnunarinnar fullgilt þessa samþykkt, þar á meðal Norðurlöndin, og hún gekk í gildi í janúarmánuði árið 1959.

Nauðungarvinna eins og þessi, sem ræðir um í samþykktinni, þekkist að vísu ekki hér á landi og er andstæð hugsunarhætti og réttlætiskennd íslenzku þjóðarinnar, en það virðist þó rétt og æskilegt, að Ísland sýni vilja sinn og afstöðu í þessu máli á alþjóðavettvangi með því að fullgilda samþykktina. Hún var borin fram til fullgildingar á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd, og mér var ekki, því miður, kunnugt um, að hún lá fyrir í rn., fyrr en fyrir stuttu, og þess vegna er hún svona seint fram komin nú. En ég vildi mjög leggja áherzlu á, að hún þyrfti ekki að koma hér fyrir í þriðja sinn, því að málið er svo sjálfsagt, að ég tel ekki, að um það sé neinn ágreiningur innan þingsins.

Eðlilegt finnst mér þó, að þessari einu umr. um fullgildinguna verði frestað og málinu vísað til n. í þeirri von, að sú nefnd, sem væntanlega verður allshn., geti skilað áliti það fljótt, að samþykktin nái fullgildingu.

Ég leyfi mér þess vegna, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.