27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

122. mál, tæknimenntun

Flm. (Einar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 291 um, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að láta hið bráðasta fara fram athugun á því, með hverjum hætti hægt væri að auka alls konar tæknikennslu í skólum landsins og að öðru leyti möguleika á því að auka tæknimenntun þjóðarinnar.

Við höfum vissulega mikla þörf fyrir fjölbreyttari atvinnuvegi. Við höfum lengst af flutt úr landi afurðir okkar lítt eða óunnar, og síðan hafa aðrar þjóðir notað þær sem hráefni.

Þegar um iðnaðarvöru eða útflutning á iðnaðarvöru er talað, má segja í venjulegri merkingu þess orðs, að ekki sé um neinn slíkan útflutning að ræða hjá Íslendingum: Það eina, sem við flytjum út af iðnaðarvörum, eru fiskiðnaðarvörur og nokkrar landbúnaðariðnaðarvörur, sem eru þó mjög lítt unnar enn sem komið er.

Mjög athyglisvert er, hversu fiskiðnaðurinn íslenzki hefur þróazt síðustu 20 árin, síðan stríðið skall á. Framleiðslan á frosnum fiski hefur átt- til tífaldazt síðan fyrir stríð, og er það geysilega ör þróun. En það, sem er kannske athyglisverðara, er, að við höfum náð því að geta framleitt fisk fyrir vandlátasta markað heims, svo að neytendur þar taka hann jafnvel fram yfir allan annan fisk. Þetta er mjög mikill sigur fyrir Íslendinga á þessu sviði, og er eitthvað annað en þegar við urðum lengst af öldum saman að senda sjávarafurðir okkar til Danmerkur, svo að Danir gætu selt þær.

Nú er meira að segja svo komið, þótt ólíklegt sé, að Danir biðja Íslendinga um að selja vörur sínar á heimsmarkaðnum. Það á sér t.d. stað með regnbogasilunginn danska. Íslendingar selja hann fyrir Dani í Bandaríkjunum.

En þrátt fyrir það að við erum dálítið á veg komnir í þessum efnum hvað frosna fiskinn snertir, stöndum við mjög aftarlega og eigum sjálfsagt eftir að komast mjög langt enn þá í því að framleiða frosinn fisk þannig, að hann verði eingöngu seldur í neytendaumbúðum, en ekki í umbúðum, sem eru í venjulegum skilningi ekki kallaðar neytendaumbúðir. Og það er eftirtektarvert í sambandi við frosna fiskinn, að sá fiskur, sem er pakkaður í neytendaumbúðir, er seldur við 50% hærra verði en sá fiskur, sem er ekki pakkaður í neytendaumbúðir, eða þessar stóru fiskblokkir, sem eru t.d. seldar til Rússlands. Vitaskuld er miklu meiri tilkostnaður bæði í sambandi við vinnu og umbúðir og nýtingu á þeim fiski, sem er þannig framleiddur í neytendaumbúðir, en vinnan og umbúðirnar er að mörgu leyti innlent og er þess vegna gjaldeyristekjur fyrir þjóðina. og ætti að vera til þess að bæta lífsafkomu almennings.

Þó að við séum kannske komnir einna lengst í því að flytja sjávarafurðirnar út fullunnar, erum við samt sem áður líklega miklu skemmra komnir í þeim efnum en t.d. ýmsir keppinautar okkar, eins og Norðmenn, í því að efla einmitt þá framleiðslu, sem gefur mestar gjaldeyristekjur og mestar tekjur fyrir þjóðina. Norðmenn hafa einmitt náð svo langt vegna þess, að þeir hafa tekið tæknimenntaða menn í þjónustu sína í miklu ríkari mæli en við Íslendingar. Í frystihúsi í Norður-Noregi, sem nefnt er Findus, hafa þeir eina fimm verkfræðinga í þjónustu sinni. Hérna þekkist það ekki, að verkfræðingur vinni í frystihúsi, eða ég veit ekki til þess. Þjóðverjar eru með marga verkfræðinga í frystihúsum sínum, t.d. í stærri frystihúsunum í hafnarborgunum í Vestur-Þýzkalandi eru í hverju 5–10 verkfræðingar og tæknimenntaðir menn, og það er áreiðanlegt, að þessir menn vinna fyrir sér. Að vísu hafa sölusamtökin, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, komið sér upp vísi að tæknideildum, þar sem eru starfandi tæknimenntaðir menn, sérstaklega verkfræðingar og fiskiðnfræðingar. Þetta er að vísu mjög mikilvægt fyrir þessa útflutningsgrein, en ég álít, að ekki sé vel séð fyrir þessum málum, nema tæknimenntaðir menn, verkfræðingar og tæknimenntaðir menn á öðrum sviðum, starfi í öllum stærri frystihúsum.

En það er ekki aðeins í sambandi við freðfiskinn, sem þyrfti að nást fram á leið, og þess væri helzt að vænta, einmitt ef við hefðum fleiri tæknimenntaða menn. Við þurfum að geta komið saltfiskinum í neytendaumbúðir. Við þurfum að geta komið kjötinu miklu meira í neytendaumbúðir. Það er raunasaga, að ekki skuli fyrir löngu vera farið að pakka kjötinu á sama hátt og fiskinum. Alveg sama er að segja um lýsið, og það mætti fara jafnvel út í fleiri útflutningsvörur þjóðarinnar. Og auðvitað eigum við að geta hugsað okkur það, Íslendingar, sem búum yfir jafnódýrri raforku, að flytja út almennar iðnaðarvörur eins og aðrar þjóðir. Til þess þurfum við auðvitað fyrst og fremst mikinn vélakost og að hafa völ á nægum tæknimenntuðum mönnum. Það er frumskilyrðið fyrir þessu. Þegar þetta væri komið áleiðis og eftir því sem þessu þokar áfram, mætti vænta þess, að lífsafkoma þjóðarinnar almennt batni, og fyrr ekki. Það er svo um þær þjóðir heims, sem standa fremst í iðnaði, að þær hafa yfirleitt bezta lífsafkomu. Þegar við berum saman t.d. fjölda sérfræðinga, sem vinna hér að rannsóknum og tilraunum á Íslandi og í Bandaríkjunum, eru Bandaríkin með eitthvað fimm sinnum fleiri menn í slíkum störfum en við Íslendingar. Það er áreiðanlega óhætt að fullyrða, að í framtíðinni bíða ótal verkefni landsmanna einmitt í þessum efnum, og það er vafasamt, að nokkuð sé mikilvægara en einmitt að sinna þessum málum til þess að bæta kjör almennings.

Ég hef fengið bréf um þessi mál frá skólastjóra vélstjóraskólans og á von á bréfi frá skólastjóra iðnskólans, þó að það væri ekki komið, sem ég ætla að leyfa mér að afhenda þeirri nefnd, sem ég vona að fái þetta mál til meðferðar. En mig langar til þess að lesa hér nokkra kafla upp úr bréfi skólastjóra vélstjóraskólans, af því að það er að mínu áliti mikilvægt, að hv. þingmenn heyri það, sem hann segir um þessi mál, ella mundi það fara fram hjá þeim, nema þeim, sem yrðu þá í þeirri nefnd, sem málinu yrði vísað til, — með leyfi hæstv. forseta:

„Þróun undanfarinna áratuga, einkum hinna síðustu, hefur opnað augu manna hvarvetna í heiminum fyrir þeirri staðreynd, að eitt frumskilyrði þess að ná og viðhalda góðri afkomu þjóðfélagsþegnanna er vélvæðing atvinnuveganna. Á þann hátt einan er hægt að auka framleiðni einstaklinganna verulega.

Vélvæðing krefst, að tiltækir séu tæknimenntaðir menn í nægilega ríkum mæli, svo að hún geti borið þann ávöxt, sem ætlazt er til. Allar menningarþjóðir leggja því mikið kapp á að sjá þessum málum eins vel borgið og frekast er unnt, Er til þess hvorki sparað fé né fyrirhöfn. Teknar eru upp nýjar kennsluaðferðir, skólar eru stækkaðir og endurbættir, nýir skólar eru byggðir og áróður viðhafður til að hvetja ungt fólk inn á þessa braut.

Ástandið hjá okkur hér á landi er nokkuð frábrugðið þessu. Að sumu leyti er það eðlilegt, því að við höfum orðið, eins og á mörgum öðrum sviðum, að byggja allt upp frá grunni á tiltölulega stuttum tíma, enda höfum við ekki haft aldagamla iðnmenningu og tækniþróun að styðjast við. Að ýmsu leyti hefur okkur þó ekki tekizt eins vel og æskilegt hefði verið og efni stóðu til.

Ekki skal hér farið nánar út í hugleiðingar um það, hvað valdið hafi, að þróunin á undanförnum árum hefur ekki verið stórstígari en raun ber vitni um. Þó get ég ekki stillt mig um að benda á, að úrslitavald og yfirstjórn tæknimennta hér á landi er í höndum manna, sem alls enga tæknimenntun hafa sjálfir. Þeir hafa því af eðlilegum ástæðum litla möguleika til að mynda sér sjálfstæða skoðun um þau tæknimál, sem þeir fjalla um, og því síður að eiga frumkvæði að framkvæmdum eða endurbótum, þótt þeir séu að öðru leyti mikilhæfir á sviði sinnar þekkingar, sanngjarnir og velviljaðir.

Mönnum hefur orðið alltíðrætt um efnahagsvandamál íslenzku þjóðarinnar undanfarin ár, en engan hef ég heyrt minnast á það atriði, sem ég hygg vera meginorsök meinanna, að atvinnuvegir okkar eru á flestum sviðum reknir með meiri dugnaði heldur en kunnáttu. Byggðar hafa verið verksmiðjur og keyptar vélar og tæki fyrir hundruð milljóna, en ráðstafanir til að kenna mönnum meðferð þessara tækja er ekki ráð á að gera, svo að í nokkru lagi sé.

Það er engu líkara en að sumir álíti, að sölutækni og bókhaldsvélakunnátta sé það, sem þjóðina vanhagi mest um. Án þess að ég vilji á nokkurn hátt kasta rýrð á mikilvægi þessara atriða, þá er ég þeirrar skoðunar, að sjálf framleiðslan verði fyrst og fremst að vera í lagi, en það verður hún ekki án kunnáttu. Það er allt of mikil áhætta að treysta á brjóstvitið eitt. Skortur á menntuðum vélstjórum og aðstoðarmönnum, verkstjórum, verksmiðjustjórum o.s.frv. er nú þegar orðinn tilfinnanlegur. Á næstu árum mun þessi skortur svo aukast mikið, ef ekki verður að gert.“

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn. Ég leyfi mér að vona, að hv. þm. veiti þessari till. sitt brautargengi, svo að hún verði samþ. Ég álít það mjög mikilvægt fyrir þjóðina.