11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

144. mál, flugsamgöngur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, hvernig hægt er að bæta úr samgöngum landsfjórðunga og landshluta í milli, eins og samgöngum hefur verið háttað hér og eins og strjálbýlið er mikið í þessu landi.

Það er rétt, sem hv. flm. sagði hér áðan, að flugmálastjóri hefur fengið skeyti, sem gefur vonir um, að sú flugvél, sem hér um ræðir, komi hingað 20.–25. þ. m., og hefur verið gefið í skyn, að hún gæti staðið hér við einn sólarhring. Það er vitanlega alls ekki nægilegur tími, til þess að íslenzkir flugmenn og sérfræðingar geti kynnt sér vélina. Hefur flugmálastjóri því talað um, að það þyrfti viku til hálfan mánuð a.m.k. svo að íslenzkir flugmenn gætu reynt þessa vél og flogið á hina ýmsu staði, reynt vélina til fullnustu við íslenzka staðhætti. Það má fullyrða, að þessi flugvél gefur miklar vonir, og það væri áreiðanlega mikils virði fyrir Íslendinga, ef ekki þyrfti lengur að byggja lengri flugbrautir en 300–500 m í staðinn fyrir 1000–1500 m. Flugvallagerð hér á landi er dýr, og nú er varið allverulegum fjárhæðum í þessu skyni. Ef við gætum tekið þessa flugvélategund í þjónustu okkar í stað hinna eldri gerða, mundu sparast stórar fjárhæðir í flugvallagerð. En sérfræðingar segja um þessa flugvél: Það er ekki nægilegt, að hún geti tekið sig upp og hún geti lent á stuttri flugbraut. Þar þarf vitanlega fleira að koma til. Vél þessi er dýr, m.a. vegna þess, að enn hefur hún ekki verið framleidd nema tiltölulega stuttan tíma og enn er ekki fengin sú langa og sú nauðsynleg reynsla af þessari vél, sem þarf að vera, áður en fátæk og fámenn þjóð ákveður að kaupa hana, vegna þess að hér er ekki um milljónafyrirtæki að ræða, heldur tugmilljónafyrirtæki. Eigi að síður er ákaflega mikils virði, að flugvélin komi og verði hér nokkra daga til reynslu, og sú reynsla, sem þegar er fengin af vélinni, gefur mikilsverð loforð, og eftir kannske fáa mánuði eða svo væri hugsanlegt, að vandaðir og sérfróðir menn mundu mæla með vélinni og telja, að hún væri eins traust og eins góð og hinar eldri gerðir, sem við höfum notað að undanförnu.

Það er eðlilegt, að menn hafi áhuga fyrir þessu. Ég get tekið undir það með hv. flm. þessarar till., að flugmálastjóri hefur mikinn áhuga á þessu máli eins og flugmálum yfirleitt, og það, að hann sá þessa flugvél á flugvellinum í Osló, hefur nú flýtt fyrir því, að honum datt í hug að fá vélina hingað heim. Nú er það rétt, að flugmálastjóri mun fara vestur og athuga málið nánar, hvort ekki er unnt að fá vélina hér staðsetta í viku, hálfan mánuð eða jafnvel þrjár vikur, án þess að leiði til of mikilla útgjalda fyrir okkur.

Ég er því að sjálfsögðu samþykkur, að þessi till. fari til nefndar. Ég tel málið mjög athyglisvert, og ef vélin reynist eins og vonir standa til, þá vitanlega verður farið að hugsa um það, hvernig við eigum að fá fjármagn til þess að eignast slíka vél eða vélar.