01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2729)

144. mál, flugsamgöngur

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till. sú, sem fyrir liggur og flutt var á þskj. 363, er þess efnis að skora á ríkisstj. að leitast við að fá fullnægjandi upplýsingar um Það Þegar á þessu ári, hvort De Havilland-Caribou-flugvélar, sem framleiddar hafa verið í Kanada á undanförnum árum, henti Íslendingum til innanlandsflugs betur en aðrar flugvélar, m.a. hvort þær geti orðið til almennari nota og sparað fjármagn við byggingu flugvalla.

Segja má, að flutningur þessarar till. sé framhald af ályktun, sem Alþ. gerði hinn 5. maí 1959, þar sem skorað var á ríkisstj. að láta fara fram athugun á nýjungum og framförum í smíði farþegaflugvéla, sérstaklega að því leyti er hentar innanlandsflugi á Íslandi og sparað getur fé við byggingu flugvalla. Munurinn er einkum sá, að nú er gert ráð fyrir í þeirri till., sem fyrir liggur, að athugunin beinist að ákveðinni flugvélategund, þ.e.a.s. þeim kanadísku flugvélum, sem hér eru nefndar og menn hafa haft nokkur kynni af í seinni tíð.

Nú bar svo til um það leyti, sem allshn. tók þessa till. til meðferðar, að hingað kom til Íslands flugvél af þessari tegund. Og um það leyti, sem n. tók málið til meðferðar, hafði þessi flugvél haft hér dvöl og farið í eina reynsluferð. Nokkrir nm. tóku sér far með flugvélinni til þess að sjá, hvernig hún reyndist í þeirri ferð. Og eins og segir hér í nál. á þskj. 536, sannfærðust nm. um það, þeir er vélina skoðuðu og sáu hana hefja sig til flugs og lenda á Sandskeiði, að ekki hefur verið ofsögum af henni sagt. Nefndin var sammála um að leggja til, að till. yrði samþ., eins og segir á þskj. 536, með þeirri breyt., að í henni væri rætt um De Havilland-flugvélar almennt. Þessar verksmiðjur, De Havilland-verksmiðjurnar kanadísku, hafa sem sé framleitt fleiri tegundir en þá, sem hér var á ferðinni. Þær hafa framleitt minni vélar. Og einnig er hugsanlegt, að þær í framtíðinni framleiði einnig aðrar gerðir. Það varð því niðurstaðan í n. að tengja till. við verksmiðjuna almennt og án nánari skilgreiningar.

Nú má segja það, að síðan allshn. ákvað að mæla með þessari till., hefur enn fengizt aukin reynsla af þessari Caribou-flugvél, sem hér var, en er nú farin héðan. Vélin fór þarna rétt á eftir reynsluför til Vestfjarða og kom við þar á tveimur stöðum, á Ísafirði og í Dýrafirði, og á báðum þessum stöðum lenti flugvélin á gömlum flugvöllum, sem þar hafa verið notaðir sem sjúkraflugvellir og eru ekki taldir eða hafa ekki verið taldir hæfir til lendingar fyrir stærri flugvélar. Og það er víst ekki vafi á því, að það hefur vakið mikla athygli, hvað þessi stóra vél, sem rúmar um 30 farþega. gat lent á stuttum flugbrautum við þær aðstæður, sem þar eru. Ég held, að það, sem þarna gerðist, hafi í raun og veru verið umfram það, sem menn höfðu búizt við, sem hafa verið bjartsýnir á þessa hluti.

Ég hef núna fyrir umr. spurt flugmálastjóra um þetta mál, því að mér var forvitni á því að heyra hans álit, eftir að þessar tvær reynsluferðir höfðu verið farnar. Það var tvennt, sem flugmálastjórinn sagði við mig, sem mér þótti mjög athyglisvert og vil gjarnan nota tækifærið til þess að láta koma hér fram, enda hef ég leyfi til þess að hafa það eftir honum. Það er í fyrsta lagi það, að hann segir, að verð þessarar flugvélar, sem hér var á ferðinni, eða sams konar flugvéla sé ekki hærra en gerist á öðrum nýjum flugvélum af sömu stærð annarrar tegundar. En eins og eðlilegt er, hefur mikið verið að því hugað, hvernig verðið væri. Hann sagði í öðru lagi, að hann hygði, að það væri ekki ofmælt, að flugvél af þessari gerð, sem hér er um að ræða, geti komizt af með helmingi styttri flugbrautir í innanlandaflugi en þær vélar, sem í notkun hafa verið hingað til álíka stórar. Þetta þóttu mér merkilegar upplýsingar, og vildi ég nota tækifærið til að láta þær koma hér fram.

Í öðru lagi finnst mér ástæða til þess að vekja athygli á því að einn af þeim, sem fóru með flugvélinni til Vestfjarða, þegar hún lenti á Ísafirði og í Dýrafirði, á sjúkraflugvöllunum þar, var hinn þjóðkunni og góðkunni flugmaður, Björn Pálsson, sem allir þekkja. Björn Pálsson, sem eins og allir vita er mikill áhugamaður um þessa hluti og hefur unnið mikil afrek, hefur átt viðtal við eitt af dagblöðunum hér í bænum eftir Vestfjarðaförina, og þetta viðtal var ég að kynna mér. Hann segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Caribou-flugvélln er merkilegt fyrirbrigði. Ég var stórhrifinn af vélinni og hæfni hennar.“ Svo segir hann: „Við flugum inn í langan og þröngan dal og fannst mér með ólíkindum, hvað vélin gat tekið krappan sveig við að snúa við.“ Hann nefnir síðan, hvað lent hafi verið þarna á stuttri braut, og segir svo: „Ég hef lengi haft áhuga á að fá slíka vél hingað og þóttist vita margt um hæfni hennar, en samt varð ég furðu lostinn. þegar ég sá þetta með eigin augum.“

Þetta segir Björn Pálsson. Og um lendinguna á Þingeyri segir hann: „Við notuðum ekki nema 150 metra í lendingu og 100 metra við flugtak. Þó var vindur lítill og óhagstæður, þar sem hann var allur á hlið.“ í lok viðtalsins tekur hann það fram, að hann álíti, að þessi flugvél geti lent á 100 flugvöllum hér á landi. þ.e.a.s. öllum þeim flugvöllum, sem sjúkraflugvélin notar, og svo á hinum stærri flugvöllum.

Þetta er álit Björns Pálssonar. Mér finnst það næsta athyglisvert.

Um þetta skal ég svo ekki hafa fleiri orð, en mér sýnist, að þessar upplýsingar, sem fyrir liggja vegna þeirra kynna, sem menn hafa nú af dvöl flugvélarinnar hér, gefi enn aukna ástæðu til þess að athuga þetta mál gaumgæfilega og að full ástæða sé til að ætla, að hér geti verið um stórmál að ræða.