01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2744)

38. mál, samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta nál. minni hl. hv. 2. landsk. sagði, að það væru ekki deildar skoðanir um ágæti þessara n. Samt leggja hann og flokksbróðir hans til, að þessi till. verði felld. Hann sagði enn fremur, að það hefði staðið á samtökum atvinnu- eða vinnuveitenda. Ég las hér upp áðan álit frá nokkrum samtökum vinnuveitenda, sem hingað höfðu borizt, sem mæla með þessari samþykkt, svo að ekki virðist eiga að standa á þeim í dag. Hann talaði um, að samtök aðilanna ættu að eiga frumkvæði í þessu máli. Þessir aðilar hafa haft tækifæri til þess í hálfan annan áratug, og það hefur ekkert komið út úr frumkvæði þeirra á þessu sviði. Hann minntist enn fremur á það. að hvorki honum né hv. 4. landsk. (HV) væri ljóst, í hverju sú rannsókn væri fólgin, sem um er getið.

Ég get nú ekki annað sagt en það sé nokkuð skrýtið að heyra þessi ummæli og það ekki aðeins í nál, frá forseta Alþýðusambands Íslands. heldur einnig nú frá fyrrverandi varaforseta Alþýðusambands Íslands. Þeir hafa skilið, í hverju þessi rannsókn væri fólgin, forustumenn Landssambands ísl. verzlunarmanna og forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, því að þeir mæla með samþykktinni, og virðist ekki standa á því, að þeir hafi ekki skilið tillöguna.

Ég sé enga ástæðu til þess að vera að fara út í orðahnippingar út af þessu máli, en vil aðeins að lokum benda á orð hins danska verkalýðsforingja, sem á stöðulega samstöðu með forseta Alþýðusambandsins. Það er Ejler Jensen, sem er forseti danska verkalýðssambandsins. Hann sagði um þessar nefndir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta :

„Samningurinn um samstarfsnefndir er tvímælalaust stærsta framfaraspor, sem danska verkalýðshreyfingin hefur stigið til hagsbóta ekki aðeins fyrir danska launþega, heldur líka fyrir danska framleiðslustarfsemi og þar með hið danska þjóðfélag í heild.“

Þessi till., sem ég hef flutt, felur ekki annað í sér, ef hún verður samþykkt, en að með þessum afskiptum ríkisvaldsins ásamt félögum launþega og vinnuveitenda gæti það orðið til þess, að n. þessar kæmust á, og ég, eins og mér heyrist allir aðrir vera sannfærðir um, tel, að þær geti unnið gagn, ekki aðeins á milli þessara tveggja aðila, heldur fyrir þjóðfélagið í heild.