01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2750)

126. mál, rækjumið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þessa till. og sömuleiðis brtt., sem við hana var flutt varðandi leit að rækjumiðum fyrir Norðurlandi. Hefur n. leitað umsagna Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar Háskóla Íslands um málið, og hafa þeir sent n, samhljóða álit eftir að hafa haft samráð um það sín á milli. Er það skoðun þessara aðila, að mjög sé mikilvægt, að hafizt verði sem skjótast handa um leit að rækjumiðum. Hins vegar vill fiskideildin ekki eða þessir aðilar, að það verði eingöngu bundið við Austurland, heldur verði gerður út sérstakur leiðangur til þess að leita að þessum miðum fyrir Vestur-, Norður- og Austurlandi, eins og fiskideild atvinnudeildarinnar kemst að orði í sinni umsögn, og telja, að það muni taka um sex vikna skeið að fara þennan leiðangur og gera þar athuganir sínar og síðan þurfi að gera ýmsar athuganir og rannsóknir á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þar verði aflað.

Fjvn. mælir með því, að þessi till. verði samþ. með nokkuð breyttu orðalagi, þar sem leitin verði gerð víðtækari en upphaflega var í till., en hins vegar eru nefnd bæði þau svæði, sem aðaltill. og brtt. fjölluðu um, þannig að það fari ekki á milli mála, að ætlazt sé til þess, að þar verði leitað svo og á öðrum þeim hafsvæðum, þar sem fiskifræðingarnir telja að nauðsynlegt sé að leita að rækju.

Fiskideildin segir í sinni umsögn, að hún telji mjög nauðsynlegt, að þessu máli verði gaumur gefinn, þar sem telja megi víst, að arðvænlega rækjuveiði megi stunda á allmörgum stöðum við strendur landsins, og er af þeim sökum sjálfsagt og eðlilegt, að þessi leit fari fram.

Það er gert ráð fyrir því í áætlun fiskideildarinnar, að kostnaður við leit þessa muni nema um 300 þús. kr., og kemur þá til álita, að hve miklu leyti hægt er að nota þá fjárveitingu, sem varið er nú til fiskimiðaleitar, í þessu skyni. Það verður að sjálfsögðu athugað af hæstv. ríkisstj. eða þá, hvort aðrar leiðir þarf að fara í því efni. En það er skoðun n., að það sé sjálfsagt og eðlilegt að sinna þessu verkefni, og það er von hennar, að hv. alþm. geti fallizt á að samþykkja till. með þeirri orðalagsbreyt., sem n. hefur á henni gert.