06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

83. mál, virkjun Smyrlabjargaár

Flm:

(Páll Þorsteinsson): Herra forseti. Með l. nr. 22 1952, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, var ríkisstj. heimilað að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja Smyrlabjargaá í Austur-Skaftafellssýslu til raforkuvinnslu í allt að 1000 hestafla orkuveri og leggja frá því aðalorkuveitur til Hafnarkauptúns og um nálægar byggðir. Samkv. tíu ára áætluninni átti að framkvæma þessi verk á árunum 1958–60. Frá þessu hafði oft verið skýrt í héraðinu, mikið um þessar framkvæmdir rætt og héraðsbúar bundið við þær bjartar vonir. Hér kemur þó fleira til en áætlanir einar á stjórnartíma vinstri stjórnarinnar, þegar Hermann Jónasson fór með stjórn raforkumála, var ákveðið að kaupa efni í orkuver við Smyrlabjargaá. Var það greinilegur vottur þess, að vinstri stjórnin hafði ákveðið að standa við tíu ára áætlunina og láta virkja Smyrlabjargaá og leggja aðalorkuveitu til Hafnarkauptúns á tilsettum tíma, og hefðu þá aðalframkvæmdir við virkjunina orðið á árinu 1959.

Í ágústmánuði 1958 var haldinn á Höfn í Hornafirði aðalfundur Sambands íslenzkra rafveitna, og komu á þann fund margir helztu sérfræðingar landsins í raforkumálum ásamt fulltrúum frá rafveitum, sem í sambandinu eru. Þessi hópur manna fór þá á virkjunarstað við Smyrlabjargaá. Í samræmi við ákvörðun og aðgerðir stjórnar Hermanns Jónassonar í þessu máli skýrðu ýmsir málsmetandi menn, sem í senn eru sérfræðingar og áhrifamenn á sviði raforkumála, frá því við mannfagnað, er haldinn var í héraðinu af þessu tilefni, að á árinu 1959 yrði hafizt handa um að virkja Smyrlabjargaá. Frá þessu er skýrt og þetta staðfest í ársskýrslu Sambands ísl. rafveitna fyrir árið 1958, þar sem birtur er útdráttur úr þessum ræðum. Á bls. 80 í þeirri bók segir, að Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri í Reykjavík hafi m.a. komizt þannig að orði:

„Við skoðuðum í dag Smyrlabjargaána, sem byrjað verður að virkja á næsta ári. Hvort virkjuninni verður lokið á því ári, upplýsir væntanlega Jakob Gíslason, en einnig er eftir að leiða rafmagnið heim á bæina.“

Og hér segir enn fremur í þessari bók, sem vitanlega er gefin út með vitund þeirra, sem hér eiga hlut að máli, með leyfi hæstv. forseta:

„Jakob Gíslason tók næstur til máls, og fórust honum orð á þessa leið: Mér er ánægja að því að koma hér. Hingað kom ég fyrst árið 1941 og þá í fylgd með Halldóri heitnum Einarssyni, einstaklega ötulum starfsmanni, sem hjá okkur vann. Við athuguðum hér virkjunarskilyrði, fyrst á eina í Nesjum, er reyndist ófullnægjandi, en síðan var tekið að athuga Smyrlabjargaána. Nú hefur verið ákveðið að hefja virkjun hennar á næsta sumri. en framkvæmdin tekur meira en eitt ár, og því er ekki hægt að fá rafmagn frá virkjuninni á næsta ári. Hér hafa um langan tíma verið smávirkjanir, en nú er að því komið að virkja hér eina á til sameiginlegra afnota. Höfn í Hornafirði er þar stærsti notandinn, og megináherzlan verður á það lögð að koma rafmagninu til sem flestra. En þó er það svo hér eins og víðar á landinu, að býlin hér falla ekki öll innan tíu ára áætlunarinnar.“

Ég legg áherzlu á það, að þetta er sagt í ágústmánuði 1958, og þegar talað er um næsta ár, er átt við árið 1959.

Ákvörðun vinstri stjórnarinnar um virkjun Smyrlabjargaár og yfirlýsingar sérfræðinganna voru staðfestar í verki með því, að 1958 var efni keypt í orkuverið og pípurnar fluttar að virkjunarstað veturinn 1958–59. Þær liggja þar síðan, en vélarnar eru geymdar í Reykjavík. Þessi efniskaup nema svo miklu, að samkv. ársreikningi raforkumálaskrifstofunnar fyrir árið 1959 var um síðustu áramót búið að verja til Smyrlabjargavirkjunarinnar kr. 4 936 670.89.

Ríkisstj. Emils Jónssonar settist að völdum á degi heilags Þorláks 1958. Fyrst eftir valdatöku hennar var hljótt um raforkumálin, eins og ekkert hefði í skorizt. En í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1959 komst það upp hér á hv. Alþ.,ríkisstj. Emils Jónssonar hafði ákveðið að gera stórvægilegar breyt. á tíu ára raforkuáætluninni án þess að ræða það mál á Alþ. Ein breyt. var sú, að horfið skyldi frá því að sinni að virkja Smyrlabjargaá, en í þess stað stækkuð nokkuð dísilrafstöð á Höfn og rafmagn leitt þaðan fyrst á þá sveitabæi, sem næstir eru þorpinu, en síðan skyldi rafmagn leitt frá þeirri stöð víðar um héraðið.

Jafnskjótt og kunnugt varð um þessar ráðagerðir, var því harðlega mótmælt af mér og fleiri þm. hér á hv. Alþ., að horfið yrði frá því að virkja Smyrlabjargaá á árinu 1959, og í því sambandi skírskotað til aðgerða vinstri stjórnarinnar í málinu, en núverandi stjórnarflokkar tóku þau mótmæli og aðvaranir ekki til greina. Þegar fréttir af þessum breyt. á tíu ára áætluninni og brigðmælum fyrrv. ríkisstj. á gefnum fyrirheitum um virkjun Smyrlabjargaár bárust heim í hérað, brugðust hreppsnefndir fjögurra hreppa, sem hið fyrirhugaða orkuveitusvæði frá Smyrlabjargaárvirkjun nær yfir, þannig við, að þær héldu fund sameiginlega og gerðu svofellda ályktun um málið og sendu til Alþingis:

„Samkvæmt tíu ára rafmagnsáætlun ríkisins var ákveðið að virkja Smyrlabjargaá í Suðursveit til rafmagnsnota fyrir a.m.k. 4 hreppa Austur-Skaftafellssýslu. Höfðu loforð verið gefin um, að framkvæmdir við virkjunina skyldu hefjast á þessu ári (þ.e. á árinu 1959). Hefur í því sambandi verið flutt í vetur nokkuð af efni á virkjunarstaðinn og hafin vegarlagning þangað. Nú höfum við frétt, að umræddar framkvæmdir munu ekki verða hafnar í sumar og dráttur muni um óvissan tíma kunna að verða á, að byrjað verði á virkjuninni. Leyfum við undirritaðir hreppsnefndarmenn okkur að mótmæla í nafni héraðsbúa slíkum drætti, þar sem með honum er gengið á bak gefinna loforða og það án þess að hafa um það nokkur samráð við forsvars. menn héraðsins. Teljum við slíkar vanefndir geta ekki til greina komið, enda beri íbúum þessa héraðs sami réttur og öðrum landsmönnum í framkvæmdum á rafvæðingaráætlunum landsins. Af framansögðu krefjumst við þess, að haldið verði áfram framkvæmdum á þessu ári og virkjuninni lokið á tilsettum tíma árið 1960.“

Nokkru áður en Alþingi var slitið s.l. vor, fluttu fimm þm. Framsfl. þáltill. um að fela ríkisstj. að framkvæma 10 ára raforkuáætlunina eins og til var ætlazt, þegar hún var gerð. Sú till. hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.

Skömmu eftir þinglausnir s.l. vor gerði raforkumálastjóri ferð sína til Hornafjarðar. Hann kallaði þá saman á fund hreppsnefndir þær sem sent höfðu Alþ. áskorun út af þessu máli, og skýrði þær breyt. á rafmagnsmálum héraðsins, sem þá var ákveðið að gera. Vegna þeirra skýringa og annars, sem fram hefur komið í málinu, gera Austur-Skaftfellingar sér fulla grein fyrir því, hvað hér er um að tefla. En skoðun þeirra um nauðsyn þess að virkja Smyrlabjargaá hið allra fyrsta er alveg óbreytt. Viðhorf þeirra til málsins kemur skýrt fram í ályktun. sem samþ. var í einu hljóði á fulltrúafundi bænda í Austur-Skaftafellssýslu í nóv. s.l. og er sú ályktun svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúafundur bænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn að Hrollaugsstöðum í Suðursveit dagana 14.–15. nóv. 1959, harmar það, að frestað var framkvæmdum við virkjun Smyrlabjargaár frá því, sem fyrirhugað var samkv. raforkuáætluninni frá 1953. Jafnframt beinir fundurinn þeirri áskorun til stjórnar raforkumála, að hún hlutist til um, að hafizt verði handa um virkjun Smyrlabjargaár hið allra fyrsta og enn fremur að línulagningu verði flýtt svo sem unnt er.“

Í framhaldi af þessu og í samræmi við þessa ályktun bændafundar í Austur-Skaftafellssýslu flytjum við fjórir þm. Austurlandskjördæmis till. þessa til þál., sem hér liggur fyrir og er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta hefja virkjun Smyrlabjargaár í Austur-Skaftafellssýslu á árinu 1960 og hraða svo framkvæmdum við virkjunina og línulagningu frá orkuverinu, að orkuverið verði fullgert og háspennulína lögð til Hafnar í Hornafirði fyrir árslok 1961.“

Með því að hverfa frá að virkja Smyrlabjargaá á árunum 1958–60 eru vanefnd þau fyrirheit, sem Austur-Skaftfellingum höfðu verið gefin í sambandi við framkvæmd tíu ára áætlunarinnar. Ákvörðun vinstri stjórnarinnar um virkjun Smyrlabjargaár var að vettugi virt af Alþýðuflokksstjórninni og þar með komið í veg fyrir, að framkvæmdir við virkjunina væru hafnar vorið 1959. Fyrirheit sérfræðinganna um virkjun Smyrlabjargaár 1959, sem getin voru á opinberum vettvangi heima í héraði, voru þar með gerð að markleysu. Slíkar stjórnarathafnir eru óvenjulegar, enda hefur verið álitið, að ráðherraloforð sé bindandi í ýmsum greinum. Og ekki er auðvelt að sjá, hvar skal staðar nema, ef fylgja ætti þeirri reglu, að ríkisstj., sem við tekur, ógildi stjórnarathafnir fráfarandi stjórnar.

hæstv. ráðh., sem nú fer með stjórn raforkumála, lét svo um mælt hér á hv. Alþ. fyrir nokkru, að framkvæmdir í raforkumálum hefðu ekki dregizt saman á árinu 1959, heldur hefðu þær orðið allmiklu meiri en mörg undanfarin ár og fjárþörfinni til þeirra framkvæmda hefði verið hér um bil fullnægt. Sé þetta rétt, hefur ekki orðið sparnaður að því í raforkumálum í heild, að horfið var frá virkjun Smyrlabjargaár á því ári. Því fé, sem þangað átti að renna samkv. tíu ára áætluninni, hefur þá verið varið til framkvæmda á öðrum stöðum. Þetta sýnir ásamt öðru, að með þessum breytingum hefur átt sér stað misrétti gagnvart Austur-Skaftfellingum.

Till. þessi er flutt í því skyni, að hv. Alþ. hlutist til um, að bætt verði úr misrétti á þessu sviði, svo sem kostur er, og hlutur Austur-Skaftfellinga verði réttur að þessu leyti. Ég tel eðlilegt, að umr. um þessa till. verði nú frestað og málinu vísað til hv. fjvn. til athugunar.