01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

83. mál, virkjun Smyrlabjargaár

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál, frá fjvn. um þetta mál ber með sér, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá. Þrír nm. vilja, að till. verði samþ., en einn nm. hefur ekki tekið afstöðu til málsins.

Till. er þess efnis að fela ríkisstj. að láta hefjast handa um virkjun Smyrlabjargaár í Austur-Skaftafellssýslu nú á þessu ári, og er í grg. með till. færð sú ástæða fyrir henni, að þar sem breytt hafi verið tíu ára áætluninni um rafvæðingu landsins á s.l. ári, vilji flm. fá staðfestingu Alþ. á því. að það sé andvígt þeirri breyt., m.a. varðandi virkjun Smyrlabjargaár, og verði því ákveðið að hefjast handa um þá framkvæmd nú í ár.

Fjvn. hefur leitað álits raforkumálastjóra um þetta mál, og kemur það glöggt fram í hans álitsgerð, að sú breyt., sem gerð var á tíu ára rafvæðingaráætluninni varðandi Austur-Skaftafellssýslu, muni tvímælalaust flýta fyrir rafvæðingu þess héraðs, sumar héraðsveitur verði þar lagðar fyrr en ella hefði orðið, og er þegar sú raun á orðin, og niðurstaðan verður hins vegar sú varðandi umrædda virkjun, að hún er enn inni á tíu ára áætluninni. Hins vegar er gert ráð fyrir, að virkjunin verði framkvæmd síðar á tímabilinu eða í lok tímabilsins, og virðist það vera eðlilegt og skynsamlegt sjónarmið, því að þá er reiknað með að verði búið að leggja flestar veitur út um héraðið, þannig að þegar geti komið til sölu á orku frá þessu orkuveri, sem annars hefði ekki verið nema mjög takmörkuð, ef ráðizt hefði verið í þessa framkvæmd strax og héraðsveiturnar látnar bíða.

Það virðist ekki geta skipt fólk í þessu héraði miklu máli, hvort virkjað er nú eða síðar, vegna þess að rafmagnsveitur ríkisins hafa yfirtekið dísilrafstöðina á Höfn í Hornafirði, og verður raforka frá þeirri dísilstöð seld jafnháu verði og frá vatnsaflsstöðvum. En það er einmitt ekki hvað sízt vegna hins dýra raforkuverðs frá dísilstöðvum, sem lagt hefur verið kapp á það þar sem dísilstöðvar hafa verið, að leggja þær niður og taka upp vatnsaflsstöðvar. Þetta er sem sagt ekki til staðar í þessu héraði nú, og eins og sakir standa upplýsir raforkumálastjóri, að fyrir rafmagnsþörfinni sé séð fullkomlega með þeirri díslistöð, sem nú er í Höfn, og muni verða tryggt, að eftir því sem rafmagnsþörfin vex með dreifingu orkunnar út um sveitirnar, þá muni verða aukið við þessa stöð, þannig að hún fullnægi öllum þörfum í þessu efni.

Með breyt. þeirri, sem gerð var á rafvæðingaráætluninni á s.l. ári eða um næstsíðustu áramót, var að því stefnt að gera framkvæmd þessa máls hagstæðari, og með þeirri breyt., sem þá var gerð, voru sparaðar mjög verulegar fjárhæðir og lagður grundvöllur að því, að rafmagnsveitur ríkisins gætu orðið reknar að verulegu leyti hallalaust, í stað þess að halli þeirra hefur farið vaxandi ár frá ári og hefði farið mjög vaxandi næstu ár, ef áætluninni hefði ekki verið breytt, þannig að öll rekstrarafkoma rafmagnsveitnanna er miklum mun hagstæðari eftir þessa breytingu. Hins vegar er í meginefnum ekki horfið frá rafvæðingu landsins, vegna þess að jafnmargir notendur fá rafmagn samkvæmt hinni endurskoðuðu áætlun og hefði verið eftir hinni fyrri tíu ára áætlun, enda þótt sparist með þessari breytingu yfir 100 millj. kr.

Það er einn þáttur þessarar skipulagsbreytingar. sem snertir þetta mál, sem till. þessi fjallar um og ég held, að þetta sé einhver ljósasti þáttur þess máls, hvernig hægt er að gera skipulagsbreytingu á þann veg, að það beinlínis verði til hagsbóta fyrir það fólk, sem á við þetta að búa. Það sýnist vera þar af leiðandi mjög einkennilegt að leggja á það jafnmikið kapp og var gert hér á s.l. þingi, þegar þetta mál var rætt, og er gert nú, að fá endilega ráðizt í þessa virkjun nú þegar, vegna þess að það getur ekki, nema síður sé, haft nokkur áhrif í þá átt, hvenær fólkið í þessu héraði fær raforku til sín leidda. Og þegar þess er gætt, að virkjun þessa á að framkvæma og hún verður framkvæmd á því stigi málsins, þegar hagstæðast verður hvað snertir rekstrarafkomu hennar, þá virðist augljóst mál, að með því að ráðast í þessa framkvæmd nú muni það beinlínis, eins og segir í hinni rökstuddu dagskrá, verða til þess að seinka dreifingu raforkunnar um Austur-Skaftafellssýslu, og það sé því tvímælalaust meira í hag íbúa þessa héraðs, að hinni endurskoðuðu rafmagnsáætlun sé fylgt. Það er á þeim grundvelli, sem meiri hl. fjvn. leggur til, að till. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem meiri hl. n. flytur á þskj. 427.