09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2801)

21. mál, jarðboranir í Krýsuvík og á Reykjanesi

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er út af ummælum hv. 7. landsk. (GeirG), sem ég ætlaði að segja hér örfá orð í sambandi við síðari hluta þessarar þáltill., sem við hv. 8. landsk. leyfum okkur hér með að flytja og er á þá lund, að Hafnarfjarðarkaupstað verði hið bráðasta veitt afnot af jarðbor ríkisins og Reykjavíkurbæjar.

Hv. þm. vildi láta í það skína, að þessi þáltill. væri vantraust okkar flm. á hæstv. núv. raforkumálaráðh., en ég vil segja honum það, að því fer víðs fjarri. Hitt er svo annað mál, að tilkoma þessarar þáltill. er raunverulega niðurstaða af framkvæmd hæstv. fyrrv. raforkumálaráðh., því að eins og honum er kunnugt, hv. þm., var því lofað, að jarðborinn kæmi til Hafnarfjarðarkaupstaðar í ágústmánuði s.l. Það má vel vera, að þá hafi verið frost í jörðu í Hafnarfirði, en ég man ekki eftir því. Síðan gerði ég fyrirspurn hér á Alþ. í sumar, og var mér þá svarað því, að borinn mundi koma í haust. Haustið er liðið líka. Það vildi svo til, að í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var gerð fsp. um komu jarðborsins þann 17. nóv. 1959, og hafði þá bæjarstjórinn engu til að svara, en eins og hv. alþm. upplýsti hér áðan, var ritað bréf í rn. Þann 13. nóv. Ríkisstj. fór síðan frá, eins og við vitum, einum eða tveimur dögum síðar, svo að það var ekki seinna vænna fyrir þann hæstv. ráðh. að gefa umrætt bréf sem fyrirheit um komu borsins til Krýsuvíkur. Mér er hins vegar kunnugt um velvilja hæstv. núv. raforkumálaráðh., en ég veit hins vegar, að hann mundi á engan hátt telja það málinu til skaða, þótt Alþ. lýsti yfir því, sem hér er farið fram á.