27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

21. mál, jarðboranir í Krýsuvík og á Reykjanesi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með till. þessari er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj, að láta fram fara, svo fljótt sem auðið er, ýtarlegar rannsóknir á jarðhitasvæðunum á Reykjanesi með það fyrir augum m.a., að þær orkulindir verði hagnýttar til hitaveitna fyrir nálægar byggðir, og í 2. lið till. er lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að hlutast til um, að Hafnarfjarðarkaupstað verði hið bráðasta veitt afnot af jarðbor ríkisins og Reykjavíkurbæjar til framhaldsrannsókna í Krýsuvík.

Brtt. hefur komið fram á þskj. 419 þess efnis, að sams konar athugun og um getur í 1. mgr. aðaltill. verði látin fara fram að Leirá í Borgarfirði með það í huga, að hitaveltu verði komið á fyrir Akraneskaupstað.

Fjvn. hefur athugað þessa till., og er niðurstaða n. sú að leggja til, svo sem segir í nál. á þskj. 479, að till. verði vísað til ríkisstj. Ástæðan fyrir þessari afgreiðslu er í stuttu máli þessi:

Eins og í nál. segir, er enginn ágreiningur um það innan n., að það sé mjög brýn nauðsyn að nýta heitt vatn til hitaveitu á þessum svæðum, sem um ræðir, bæði í aðaltill. og aukatill., enda er vitað, að það er ekki hægt að nýta heitt vatn. a.m.k. eftir þeim leiðum, sem enn er vitað um í því efni, hagstæðar en einmitt til hitaveitu, og það er engum efa bundið, að það hefur þess vegna mjög mikla þjóðhagslega þýðingu, auk þess sem það leiðir af sér stórfelld þægindi fyrir viðkomandi byggðarlög, sé hægt að koma þar upp hitaveitu.

Í umsögn frá jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar um aðaltill. er það tekið fram, að þegar sé vitað um helztu jarðhitasvæðin á Reykjanesi, en aftur á móti mun þannig vera ástatt um þau svæði, að það mun vera mjög kostnaðarsamt að leiða þaðan heitt vatn til t.d. Keflavíkur. Það gæti þó haft áhrif í þessu sambandi, ef það gæti komið til greina um sölu varma til Keflavíkurflugvallar, sem enn er ekki vitað um, og jarðhitadeildin telur, að í sambandi við athugun á þessu jarðhitasvæði skipti það miklu máli, hvort hugsanlegt væri að selja varma til Keflavíkurflugvallar. En jafnframt er á það bent í umsögn jarðhitadeildarinnar, að hugsanlegt væri að finna varma í jörðu nær Keflavík, þannig að það yrði miklum mun ódýrara, ef svo reyndist, að leiða hitaveitu til Keflavíkur. Um það atriði segir svo í umsögn jarðhitadeildarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfsagt er að taka til athugunar, hvort ekki séu möguleikar á því að vinna varma nær Keflavík. Um bein jarðhitasvæði er ekki að ræða, en brotlínan, sem tengd er Skálafelli, liggur næst í 9 km fjarlægð frá Keflavík. Ekki er með öllu útilokað, að þar megi vinna varma, og yrði aðveita til Keflavíkur þá verulega ódýrari. Deildin vill að svo stöddu ekki gera mikið úr þessum möguleika, en teldi ekki bráðlegt að kanna hann nánar. Til greina kæmi að gera 200–400 m djúpa borholu við brotlínuna til þess að mæla hita í jörðu og ganga úr skugga um það, hvort hefja ætti meiri háttar boranir. Kostnaður þessarar rannsóknarborholu ásamt tilheyrandi gæti orðið um 500 þús. kr.

Það virðist því vera sjálfsagt að kanna þessi jarðhitasvæði, því að það auðvitað hefur mikla þýðingu fyrir Keflavík, hvort hægt er að fá jarðhita þetta nálægt bænum.

Efnislega er því fjvn. alveg sammála hv. flm. um, að það sé mjög æskilegt að leita eftir þessum jarðhita, bæði á þessu svæði og einnig á Akranessvæðinu. En það, sem veldur því, að sú leið hefur þó þótt heppilegust að sinni að vísa till. til ríkisstj. án þess að gera beina ályktun, er sú, að hingað til hefur það verið venja varðandi hitaveituboranir, að þær hafa varið á frumkvæði viðkomandi sveitarfélaga, og samkvæmt lögum um jarðhita hefur ríkissjóði síðan verið ætlað að borga tiltekinn hluta af kostnaði við þessar boranir. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi forustu um að framkvæma þetta, og þá væntanlega haft í hyggju, að hún kosti þessar boranir. Með því er farið inn á alveg nýja braut, sem ekki skal á þessu stigi felldur neinn dómur um, hvort er rétt og eðlilegt í framtíðinni eða ekki, en mér sýnist það þó liggja í augum uppi, að áður en hægt er að slá slíku föstu í ályktun brá Alþ., verði að kanna til hlítar, hvaða reglur eigi að gilda almennt um leit að heftu vatni. Ríkið á nú jarðbor með Reykjavíkurbæ, og er gert ráð fyrir, að hvor aðili um sig greiði helming kostnaðar, og er það í samræmi við þær reglur, sem gilt hafa um leit að heitu vatni, skipting kostnaðar milli sveitarfélaga og ríkissjóðs. Ýmsum sveitarfélögum hafa verið greiddar allverulegar fjárhæðir, þó að á því hafi mjög staðið síðustu árin, að fé væri veitt til þess að aðstoða sveitarfélög í sambandi við leit að hitaorku eða varma. Nú er hins vegar ákveðið og endanlega hafa verið fest kaup á sérstökum jarðbor fyrir Norðurland, og kemur þá að sjálfsögðu til álita, eftir hvaða reglum eigi að greiða kostnað við framkvæmdir þess bors. Mér þykir þess vegna allt benda til þess, að óumflýjanlegt verði nú þegar á þessu ári, að ríkisstj. taki það mál til heildarathugunar, hvernig kostnaður skuli greiddur við jarðhitaleit í sambandi við hitaveitur til ákveðinna byggðarlaga, og fastar reglur settar um það efni.

Afstaða n. byggist sem sagt á þessum. aðstæðum, og enda þótt n. því leggi til að vísa málinu til ríkisstj., ber á engan hátt að skilja það sem neikvæða afstöðu til þess meginefnis, sem till. fjallar um. En ég vænti þess, að hv. flm. geti fallizt á það með n., að það sé brýn nauðsyn að setja um þetta fastar reglur og þá eðlilegast á þann hátt að fá lögfesta heildarlöggjöf um jarðhita, sem mun vera tilbúin að verulegu leyti, en ágreiningur hefur verið þar um viss atriði, og þessa löggjöf þurfi að undirbúa fyrir næsta þing og koma á hreint, að hve miklu leyti í framtíðinni ríkissjóður og ríkisstj. skuli hafa forgöngu um jarðhitarann sóknir og að hve miklu leyti það skuli vera á vegum sveitarfélaganna.

Um seinni lið till., gufubor ríkisins og Reykjavíkurbæjar, er það að segja, að það hefur verið upplýst fyrir fjvn., að ákveðið hafi verið, að gufuborinn fari til Krýsuvíkur nú í maímánuði, og það mun vera búið að taka hann niður eða kannske öllu heldur upp austur í Hveragerði og hann tilbúinn til flutnings þangað suður eftir eða jafnvel kominn þangað nú þegar, þannig að það sýnist sem þegar sé það orðið að veruleika, sem hv. flm. hafa óskað eftir í því efni.

Fjvn. væntir þess, eð hv. flm. og þm. í heild geti fallizt á að afgreiða málið á þennan hátt, með hliðsjón af þeim forsendum, sem ég hef hér getið um.