24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

12. mál, byggingarsjóðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal í fyrsta lagi láta í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga, sem fram kemur hjá þessum hv. þm. bæði við þetta tækifæri og áður, a.m.k. í orði, til þess að ráða bót á þessum málum, sem hér er um að ræða, því að hér er vissulega um mikið vandamál að ræða. Og þó að ég og aðrir höfum ekki verið sammála honum oft og tíðum um þær aðferðir, sem hann hefur viljað viðhafa til þess að afla húsnæðismálastjórn tekna, þá er hitt jafnvíst, að það hefði verið þörf á að afla húsnæðismálastjórn aukinna tekna frá því, sem nú er. En í sambandi við þær tölur, sem hv. þm. bar hér fram, og fullyrðingar í því sambandi þarfnast þessar tölur og þessar fullyrðingar nokkurra skýringa, ef maður ekki á að fá talsvert villandi hugmyndir um þessa hluti.

Hv. þm. sagði, að um 1550 umsóknir hefðu legið fyrir 1. des. s.l., og má vera, að það sé rétt. En þó að þessar 1550 umsóknir hafi legið fyrir, var þegar búið að veita allmikið fé út á margar þessar íbúðir, sem umsóknirnar lágu fyrir um, þannig að sumir höfðu fengið 30 þús., aðrir 40 og enn nokkrir 50. Þær 15 millj., sem fengnar voru til bráðabirgða um síðustu áramót, munu þess vegna nægja til þess að losa í heild um 500 umsóknir af þessum 1550, sem hann segir að legið hafi fyrir. Þetta gefur greinilega hugmynd um, að það, sem þessir menn áttu ófengið af væntanlegum lánum, var ekki full lánsupphæð, síður en svo. Það mátti losa verulegan hluta af þessum umsóknum með minni fjárveitingu en heildarfjárveitingu, af því að það var búið að veita nokkuð mikið fé til þeirra áður. Og við sérstaka athugun, sem gerð var í sambandi við þessa bráðabirgðafjárveitingu um s.l. áramót, sem fengin var hjá seðlabankanum, að upphæð 15 millj. kr., kom í ljós, — ég ætla, að ég fari rétt með þá tölu, hún er eftir minni aðeins, — að hafi verið hægt að leysa 500 af þeim umsóknum, sem þá hafi legið fyrir a.m.k., og ég ætla þó, að talan hafi verið eitthvað hærri. Þetta vildi ég nú aðeins taka fram til þess að sýna það, að umsóknafjöldinn einn gefur ekki fullkomlega rétta mynd af stöðu sjóðsins.

Þá sagði hv. þm., eins og hann hefur raunar sagt hér áður, að mjög hefði verið dregið úr lánveitingum úr sjóðnum 1959 og lítill áhugi hefði verið sýndur til þess að afla húsnæðismálasjóði tekna. Ég skýrði við þær umræður, sem fóru hér fram, — ég held, að það hafi verið fyrir viku, um þetta mál, frá því, að ástæðan til þess, að minna var úthlutað 1959 en árið áður, hafi verið sú, að það var búið að eyða verulegum hluta af tekjum sjóðsins, sem áttu að falla til 1959, áður en það ár byrjaði. M.ö.o., það var búið að úthluta fyrir fram nokkrum hluta teknanna frá árinu 1959, og þó að það sé á þann hátt hægt að fá töluna upp um lánveitingar á árunum 1958 og 1957 að meðaltali, sem hv. þm. var hér með, sannar það út af fyrir sig ekki neitt, og er ekki hægt að gera samanburð á milli áranna 1957 og 1958 annars vegar og 1959 og 1960 hins vegar, nema tekið sé tillit til þess, hve mikið var búið að éta fyrir sig fram á þessu tímabili af þeim tekjum, sem áttu að falla til eftir þetta tímabil. Mér er kunnugt um það, að á árinu 1959 var leitað eftir viðbótar lánum til þess að hækka útlánin, þó að það tækist ekki fyrr en rétt undir áramótin og þá sem bráðabirgðalán, en þá voru fengnar 15 millj. kr., eins og ég hef áður tekið fram, til þess að mæta hinum brýnustu þörfum, og nú fyrir stuttu hefur tekizt samkomulag við seðlabankann um 25 millj, kr. lán í þessu skyni, að því tilskildu, að samkomulag náist við stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs um, hvernig fé sjóðsins verður geymt. Þá hefur enn fremur verið ákveðið að leita samkomulags við bankana um, að þeir breyti 15 millj. af þeim bráðabirgðalánum, sem þeir hafa veitt til húsabygginga til stutts tíma, í lengri lán, sem náttúrlega koma þá þarna til viðbótar og má telja með, þannig að upphæðin, sem ríkisstj. hefur gengið út frá að fengin verði á þessu ári til að byrja með, er yfir 40 millj. kr. Með því er á engan hátt sagt, að sú upphæð geti ekki hækkað síðar, þó að ég geti ekkert fullyrt um það nú á þessu stigi, hvort svo verði eða ekki. En ég tel mig mega fullyrða, að ef þetta 40 millj. kr. uppbótarlán fæst til húsnæðismálasjóðsins og ef frá er reiknað það, sem fyrir fram hafði verið notað af tekjum ársins 1959, þá muni ekki verða minni hlutur húsbyggjenda á árinu 1959 og 1960 en hann var á árunum 1957 og 1958.