24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2832)

12. mál, byggingarsjóðir

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. vildi halda því fram, að ég hefði ekki að öllu leyti farið rétt með þær tölur, sem ég nefndi hér áðan, og sérstaklega var það í sambandi við þá tölu, sem ég nefndi. að 1. des. hefðu legið fyrir hjá húsnæðismálastjórn 1550 umsóknir og það hefði þurft 92 millj. kr.. til þess að hægt væri að fullnægja þessum umsóknum þannig, að hver umsækjandi fengi 80 þús. kr. lán. Þetta vildi hann telja, að ekki væri rétt, og byggði það á því, að það hefði verið búíð að veita nokkur lán út á sumar af þessum íbúðum. Ég sagði ekki neitt um, að það hefði ekki verið búið að gera og það er alveg rétt hjá ráðh., að það var búið að veita smálán út á sumar af þessum íbúðum, 10 þús., 20 þús., 25 þús. o.s.frv., og út á nokkrar af þessum íbúðum, eða 3 þeirra, var búið að veita 70 þús. En það er hins vegar eigi að síður staðreynd, sem liggur fyrir í útreikningum frá húsnæðismálastjórn, að til þess að hægt væri að koma lánunum á öllum þessum íbúðum upp í 80 þús. kr. á hverja íbúð, vantaði 92 millj. kr. Síðan hefur það gerzt, eins og hæstv. ráðh. tók fram og ég tók líka fram, að það hefur verið útvegað 15 millj. kr. bráðabirgðalán, og það lækkar þessa upphæð þá ofan í 77 millj. kr., eða m.ö.o., það þarf núna 77 millj. kr., til þess að þessar 1550 íbúðir fái til jafnaðar 80 þús. kr. lán hver. En þar að auki er svo það, sem ég nefndi áðan, að það lágu 1. des. fyrir hjá húsnæðismálastjórn umsóknir vegna 240 íbúða, sem voru að verða fokheldar og hafa ekkert lánsfé fengið enn. Og ef á að veita 80 þús. kr. út á hverja þessara íbúða. þá er þar um að ræða 19–20 millj. kr. upphæð. Svo kemur það til viðbótar, sem verður að telja alveg sjálfsagt og er lágmarkskrafa eftir þær miklu verðhækkanir og vaxtahækkanir, sem hafa átt sér stað að undanförnu, að reynt sé að hækka þessi lán a.m.k. upp í 100 þús. kr., eða um 20 þús. kr. til jafnaðar á hverja íbúð, og þá koma þar 36 millj. kr. til viðbótar, þannig að það er ekki hægt að hrófla þeirri staðreynd, að ef á að veita út á þessar íbúðir, sem eru orðnar fokheldar og enn hafa ekki fengið fullnægjandi lán, þarf núna um 140 millj. kr., til þess að hægt sé að lána um 100 þús. kr. út á hverja íbúð. Það sjá þess vegna allir, að það leysir ekki nema mjög takmarkað úr þessari þörf, þó að hæstv. ríkisstj. útvegi nú 40 millj. kr. Það þarf að útvega miklu meira fé en það.

En þetta sýnir það jafnframt, sem ég benti á hér áðan, að ef hefði verið farið að till. okkar framsóknarmanna á seinasta þingi, hefði verið hægt að leysa úr þessari þörf alveg viðhlítandi á þessu ári. Við lögðum þá fram alveg ákveðnar till. um það, að byggingarsjóði yrðu útvegaðar 80 millj. kr. að láni eða sem framlag til viðbótar hinum föstu tekjum sjóðsins, og ef sjóðnum hefði verið svo útveguð svipuð upphæð á þessu ári, um 80 millj. kr. umfram hinar föstu tekjur, er alveg hægt að fullnægja þessum þörfum, sem hér liggja fyrir, og raunar nokkru meira. Og þessar till. okkar voru vissulega þannig lagaðar, að það var mjög auðvelt að framkvæma þær, ef það vantaði ekki vilja hjá stjórnarvöldunum, og þess vegna verður því ekki móti mælt, að það er fyrst og fremst viljaleysi fyrrv. og núv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna að kenna, að ekki hefur verið bætt úr þessum þörfum á s.l. ári og þessu ári, en það var mjög auðvelt samkvæmt þeim leiðum og till., sem við framsóknarmenn bentum á. Þess vegna má alveg hiklaust fullyrða, að það er sök stjórnarflokkanna, hversu hörmulega og illa er nú ástatt í þessum efnum, því að ef þeir hefðu aðeins farið að okkar till. á seinasta þingi og svo gert sams konar ráðstafanir á þessu ári, væri búið að leysa úr þeim vanda, sem hér liggur fyrir, með því að útvega til viðbótar 80 millj. kr. fé á seinasta ári og hinar föstu tekjur sjóðsins og sams konar upphæð á þessu ári.

Mér virtist. að það væri helzt þannig að skilja á hæstv. félmrh., að ríkisstj. ætlaði að láta við það sitja að útvega bara þessar 40 millj. kr. til viðbótar á þessu ári við hinar föstu tekjur sjóðsins og gera ekki neitt meira. En það sýnir bara, að það verður þarna alveg stórkostlegur halli, sem dregst fram á næsta ár og jafnvel lengur og fjöldi manna, sem fær ekki þær umbætur, sem hann þarf að fá, og þess vegna verður að treysta því, að hæstv. ríkisstj. endurskoði þessa stefnu sína og þessa ákvörðun sína og gangi til móts við stjórnarandstæðinga um það að útvega meira fjármagn til þessara hluta. Og ef það verður nú þannig, eins og hæstv. ríkisstj. spáir, að ráðstafanir hennar verði til þess, að sparifjáraukning aukist verulega í landinu og safnist t.d. fyrir fé hjá seðlabankanum, þá ætti að vera sæmilega auðvelt að leysa úr þessari þörf, og þess vegna verður að vænta þess, að það sé ekki nein endanleg stefna hjá hæstv. ríkisstj. að binda sig við það að útvega 40 millj. kr. í ár til viðbótar hinum föstu tekjum sjóðsins, heldur þarf hún ekki aðeins að tvöfalda þá upphæð, heldur margfalda hana, svo að það sé leyst úr hinni brýnustu þörf og þær íbúðir, sem eru orðnar fokheldar, verði gerðar þannig úr garði, að fólk geti flutt inn í þær.

Þá má benda á það í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. telur það eitt af sínum aðalverkefnum að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð í landinu, þó að hins vegar, því miður. hennar ráðstafanir hingað til á þessu þingi stefni í aðra átt. En í því sambandi má benda á það, að fátt er þýðingarmeira í þessum efnum til baráttu gegn dýrtíðinni og verðbólgunni en að draga úr húsnæðisskortinum og skapa sæmilegan jöfnuð í þeim efnum milli framboðs og eftirspurnar, og það verður náttúrulega ekki betur gert á annan hátt en þann að flýta fyrir því, að þær íbúðir, sem nú eru orðnar fokheldar, verði hæfar til notkunar sem allra fyrst, og að því er stefnt með þeirri till., sem hér liggur fyrir. En það verður hins vegar ekki gert, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að láta við það eitt sitja að útvega bara 40 millj. kr. til viðbótar á þessu ári. Þess vegna vænti ég þess eindregið, að hæstv. ríkisstj. láti ekki við þetta eitt sitja að útvega bara 40 millj., heldur margfaldi þá upphæð, vegna þess að það er brýn nauðsyn til þess, að það sé gert, og mæla allar ástæður með því, að ekki sé látið þar staðar numið með 40 milljónir króna, heldur fjárráð sjóðsins aukin margfalt frá því, sem þar er ráð fyrir gert.