15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

88. mál, söluskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn á sínum tíma lagði fram efnahagstill. sínar og áætlunina um þau mál, kvaðst hún gefa heildarmynd af því, sem ætti að gera, og einn dráttur í þeirri mynd var sú yfirlýsing núverandi hæstv. fjmrh., að söluskattur á innflutningi yrði ekki hækkaður. Honum yrði ekki breytt. Og allir útreikningar þeir, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Alþingi og þjóðina, voru byggðir á þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. Allir útreikningar um áhrif efnahagsráðstafananna á framfærslukostnað og yfir höfuð á þjóðarbúskapinn voru byggðir á þessari yfirlýsingu ráðh. En nú í dag leggur þessi sami hæstv. ráðh. fram frv. til laga um söluskatt, þar sem söluskattur á innflutningi er meira en tvöfaldaður frá því, sem hann hefur verið. Þetta er framkvæmdin á þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem var einn meginþátturinn í efnahagsáætluninni, sem uppi var látinn.

Nú skyldu menn halda, að hér væri um einhvern smáhégóma að ræða og það væri ekki ástæða til þess að gera veður út af þessu. Hér væri alls ekki um stórfellt mál að ræða. En íhugum þetta ofur lítið og sjáum, hvað hér er að gerast. Hvað mundi þessi meira en tvöföldun á söluskattinum af innflutningnum, sem nú er dembt yfir þvert ofan í fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðh., gefa mikið í tekjur á ári? Það er mál út af fyrir sig, að hv. Alþingi er ekki einu sinni sýnd sú virðing í þessu stjórnarfrv., að það sé getið um það í grg., hvernig tekjurnar verði af frv. Það er ekki í frv., svo að ég fái séð, eða grg. einu sinni haft fyrir því að leggja fram sundurliðaða áætlun um það, hver söluskatturinn muni verða, ekki einu sinni greint frá því í grg., hvað söluskatturinn af innflutningi sé áætlaður mikill og hvað söluskatturinn af umsetningunni innanlands muni verða áætlaður mikill.

Þetta er ofur lítið dæmi um vinnubrögðin af hendi hæstv. ríkisstj. og þá virðingu, sem hún ber fyrir Alþingi, að þetta skuli ekki vera í grg. En ef marka má áætlanir hæstv. ríkisstjórnar sjálfrar, sem eru í fjárlagafrv., þá er gert ráð fyrir því, að söluskattur sá af innflutningi, sem fyrir er, gefi milli 150 og 160 millj. kr. á ári. En hér er sá skattur meira en tvöfaldaður samkv. þessu frv., þannig að hér er um að ræða álögur upp á a.m.k. 180 millj. á ári, sem nú á að leggja á þvert ofan í fyrri yfirlýsingar hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum vikum hér á Alþingi, — 180 millj. á ári a.m.k. hlýtur þessi meir en tvöföldun á aðflutningssöluskattinum að gefa miðað við heilt ár.

Hér er þá ekki heldur um neitt smáræði að ræða. Það er hvorki meira né minna en 8% ofan á meginhlutann af öllum innflutningnum, ekki aðeins aðflutningsverðið sjálft, innkaupsverðið á vörunum, heldur ofan á aðflutningsverðið, flutningsgjöldin, kostnaðinn við vörurnar og alla tollana og öll innflutningsgjöldin, sem fyrir voru, eins og þetta var allt orðið eftir 50% gengislækkun. Ofan á þetta allt saman setur nú hæstv. ráðh. 8% nýtt gjald, þvert ofan í það, sem hann lagði fyrir fyrir nokkrum vikum. Ef hann hefði átt að gera sams konar till., sem hefðu átt að þýða álíka álögur, fyrir gengislækkunina, þá hefði það ekki orðið að vera 8%, heldur, — ja, ég hef ekki reiknað út, hvað það hefði þurft að vera hátt, en það hefði þurft að verða hátt á annan tug prósenta — nýja gjaldið — ofan á allan innflutninginn til þess að gefa þessar álögur.

Það er ekki að furða, þó að hæstv. ráðh, sé í nokkrum vanda með að útskýra, hvernig á þessi höggi stendur, hvernig á því stendur, að hann kemur svo aftan að hv. Alþingi og þjóðinni með þetta stórfellda mál, enda voru afsakanir hans eftir því. Hann segir, hæstv. ráðh., að menn verði að gæta þess, að það sé nokkuð liðið af árinu og það þurfi að bæta sér það upp. Það vissi hæstv. ráðh. mætavel, þegar hann gaf þessa yfirlýsingu, að það hlutu að verða liðnir 2–3 mánuðir af árinu, þegar til greina kæmi, að hann gæti komið í gegnum þingið sinum nýja söluskatti. Þetta eru því alveg marklausar afsakanir frá hendi hæstv. ráðherra.

Þá segir hæstv. ráðh., að hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að það hafi ekki verið hægt að leggja á svo gífurlega háa skattaprósentu á vöruumsetninguna innanlands, að hægt væri að ná eins miklu og hann þurfti með því móti. Ætlar hæstv. ráðherra að telja okkur trú um, að þegar hann gaf þessa yfirlýsingu um söluskattinn og þegar efnahagsáætlunin var gefin upp, þá hafi hann ekki verið búinn að gera sér grein fyrir því, hvaða skattaprósentu þurfti á umsetningu innanlands til þess að ná 280 milljónum? Vill hæstv. ráðh. láta trúa því á sig, að hann vinni þannig að þessum málum, að hann hafi ekki íhugað þetta og að hann hafi gefið Alþingi og þjóðinni yfirlýsingu um, að það yrði ekki hreyft við aðflutningssöluskattinum, án þess að hafa athugað það nokkurn skapaðan hlut, hvort hann treysti sér raunverulega til þess að taka af innanlandsumsetningunni þessar 280 millj., sem hann þóttist þurfa?

En það er þessi mynd, sem hæstv. ráðh. kýs nú í sínum vanda að mála af sjálfum sér fyrir hæstv. Alþingi, sem sé sú mynd, að hæstv. ríkisstj. með hæstv. ráðh. í broddi fylkingar hafi ekki gert sér neina heildarmynd af þessu máli, áður en hún lagði út í þessar stórfelldu efnahagsráðstafanir, heldur álpist áfram frá degi til dags og verði þannig að koma þvert ofan í sínar fyrir yfirlýsingar æ ofan í æ.

Ég skal ekkert segja, hvað það er, sem raunverulega liggur að baki þessum ósköpum, sem nú eru fram sett, hvort hér hafa orðið einhverjar stórfelldar reikningsskekkjur í því, sem lagt hefur verið fyrir hæstv. ráðh., eða hvort algert ráðleysi ríkir af hendi hans og hæstv. ríkisstj. um það eða hirðuleysi að kynna sér, hvernig hægt er að koma í framkvæmd þeim áætlunum, sem þeir hafa gert og hafa gefið hv. Alþingi yfirlýsingar um. Ég skal ekkert um það fullyrða. En það er bara augljóst á því, sem hér liggur fyrir, algerlega augljóst, að hér er gengið þvert á fyrri yfirlýsingar og það með svo stórfelldum hætti, að það raskar öllum grundvellinum fyrir þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstjórn hafði hugsað sér að gera.

Það er vitanlega ekkert annað en tylliástæða í þessu sambandi að segja okkur, að það þurfi 180 millj. á ári eða tvöföldun á aðflutningssöluskattinum til þess að brúa það bil, sem verður vegna þriggja mánaða, því að á heilu ári gefur aðflutningssöluskatturinn aldrei minna en 180 millj., sá sem nú á að bæta við, sá nýi, en fjórðungurinn af 280 er ekki nema 70 millj. Þannig er alveg sama, hvar á þetta er litið, alls staðar blasir við ráðleysið í þessu sambandi og rangar upplýsingar, sem hv. Alþingi hafa verið gefnar um fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað hann áætlar, að 3% söluskatturinn gefi yfir árið, og hvað hann áætlar, að innflutningssöluskatturinn gefi miðað við heilt ár. En hvorugt þetta hefur mér tekizt að sjá í grg. frv. Þó að það megi ráða af áætlun hæstv. ríkisstj. í fjárlögum, að innflutningssöluskatturinn nýi hljóti að gefa um 180 millj. minnst, þá er þetta hvergi tekið fram í frv., og ég vil óska þess, að hæstv. ráðh. gefi upplýsingar um þær tölur, sem hann hefur fyrir sér um þetta.

Annars vil ég segja um þessar áætlanir hæstv. ríkisstj. um þessar álögur, sem hún er að beita sér fyrir að leggja á þjóðina, að þær eru allar allt of lágar, alveg augljóslega allt of lágar. Það kemur glöggt fram af þeirri innflutningsáætlun, sem við höfum nú fengið aðgang að og höfðum lauslegar upplýsingar um áður, því að sú innflutningsáætlun er byggð á verulegri lækkun á innflutningnum, jafnvel frá því, sem innflutningurinn var 1958. Og þó að það sé vitanlegt, að stjórninni tekst að þrengja mjög að almenningi með þessum ráðstöfunum og minnka stórkostlega kaupgetuna, og þó að stjórninni takist vitanlega að koma í veg fyrir það, að menn geti lagt í mjög margt af því, sem þeir ætluðu sér að gera, og þó að stjórninni þannig takist að verulegu leyti að framkvæma sína kjaraskerðingu og sinn samdrátt, þá er óhugsandi, að stjórninni takist þetta svo, að niðurfærslan á innflutningnum verði eins mikil og ríkisstj. gerir ráð fyrir. Og þess vegna eru allar áætlanir hæstv. ríkisstj. sjálfrar um álögur hennar of lágar.

Það má skjóta því inn í, að hér er ekki um neinn smáböggul að ræða, sem hafði gleymzt, má t.d. benda á, að hann gefur meira en allur tekjuskatturinn hefur verið ráðgerður, eins og hann hefur verið undanfarið, allur tekjuskatturinn og eignarskatturinn, — bara þessi böggull, sem gleymdist, pinkillinn, sem gleymdist, hann einn nemur meira en allur tekjuskattur, sem lagður hefur verið á landsmenn undanfarið, bara þessi litli skjatti, sem gleymdist, nemur þessu. Hvað mundi þá vera um heildarálögurnar, sem nú eru ráðgerðar?

Hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann hafði lokið því að afsaka, að þetta hefði farið öðruvísi en gert var ráð fyrir, að menn skyldu engar áhyggjur hafa af þessu, því að þrátt fyrir þetta væru í þessu frv., — hann margendurtók: í þessu frv., ekki lagðar nýjar álögur á þjóðina. Það var mjög eftirtektarvert, hvernig hæstv. ráðh. komst að þessari niðurstöðu. Hann komst sem sé að þessari niðurstöðu þannig, að hann rakti fyrst þær álögur, sem væru fólgnar í þessu frv., en síðan fór hann að draga frá því skattalækkanir, sem væru í öðrum frumvörpum. Þannig var reikningsdæmið, sem hæstv. ráðh. brá upp fyrir hv. þingmönnum, og svona málflutningi er okkur ætlað að taka mark á og almenningi í landinu einnig. Hann dregur sem sé frá skattahækkuninni, sem er í þessu frv., væntanlega lækkun á tekjuskattinum, sem er í öðru frv., og þar við bætir hann svo, að hann dregur frá þessum skattahækkunum söluskattinn, sem rann til útflutningssjóðs, — dregur hann líka frá. Sem sagt, hann dregur frá því, sem í þessu frv. er, skattalækkanir, sem eiga að vera í öðrum frumvörpum, og einnig dregur hann frá niðurfellingu skatta, sem runnu til útflutningssjóðs, þó að á móti þeim sköttum hafi komið margfaldar álögur í formi gengislækkunarinnar.

En ætli það væri ekki ögn myndarlegra fyrir hæstv. ráðherra en að vera að bögglast við þessar blekkingar að reyna að gera mönnum grein fyrir því, hvað miklar álögur felast í öllum þeim frumvörpum samanlagt, sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar beitt sér fyrir og ætlar að beita sér fyrir eftir yfirlýsingum hennar, og gera sér þá einnig grein fyrir því, hvað kemur á móti af lækkunum í öllum frumvörpum og öllum tillágum, sem frá hæstv. ríkisstj. eiga að koma? Ætli það sé ekki það eina, sem þjóðina varðar um? Hvað ætli þjóðina varði um það út af fyrir sig, í hvaða frumvörpum þetta er, eitt eða annað atriði? Það, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, er það, hvað ríkisstj. er að leggja á þjóðina miklar álögur í heild og hvað hún er að létta miklum álögum af. Það er það dæmi, sem okkur varðar um, og það dæmi, sem þjóðina varðar um, en ekki þessi blekkingaleikur, sem hæstv. ráðh, var að leika og endaði með þessari yfirlýsingu, að með þessu frv. væru ekki lagðar nýjar álögur á þjóðina, sem út af fyrir sig er algerlega röng. Sú yfirlýsing er algerlega röng, því að hann dregur þar frá skattafvilnun, sem á að koma eftir öðrum frv. En svona málflutningur hefur alls enga þýðingu og hefur ekkert gildi. Það eina, sem hefur nokkurt gildi, er að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað verið er að gera, þegar á heildina er litið, og þá verður dæmið nokkuð öðruvísi en hæstv. ráðh. vildi láta menn halda með því að slíta einstaka þætti málsins út úr, eins og hann gerði hér áðan. En heildarmyndin er þessi eftir tölum þeim, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið upp, að hækkun á álögum er sú, sem hér greinir: Það er hækkun á verðtolli og fleiri sköttum vegna gengislækkunarinnar, sem áætluð er í fjárlagafrv. af ríkisstj. sjálfri, 146 millj. Þetta eru nýjar álögur til ríkissjóðs. Þá eru það 113 millj. nettó, sem eru teknar í ríkissjóð, en runnu áður í útflutningssjóð. Þetta eru líka nýjar álögur til ríkissjóðs, 113 millj., og samkv. áætlun ríkisstj. sjálfrar. Þetta gera 259 millj. Í þessu frv., sem við erum að ræða hér, eru a.m.k. 370 millj. kr. nýjar álögur eftir áætlunartölum ríkisstj. sjálfrar, miðað við heilt ár, en 20% af því eiga að renna til sveitarfélaganna, þannig að þá eru eftir 296 millj til ríkissjóðs, miðað við heilt ár. Þetta eru 555 millj., sem eru alveg óumdeilanlega nýjar álögur til ríkissjóðs, og þetta er byggt á áætlunum ríkisstjórnarinnar. Á móti kemur svo það, sem hæstv. ríkisstj. hefur tilkynnt að hún ætli að lækka tekjuskattinn, sem nemur 70 millj., miðað við áætlanir ársins 1959, og það er tala, sem ríkisstj. sjálf hefur sett um þetta efni í sitt fjárlagafrv., — það eru 70 millj. Og enn fremur ætlar hæstv. ríkisstj. að létta af söluskatti af iðnaðinum, sem rann til ríkissjóðs, um 35 millj., það er einnig hennar eigin áætlun. M.ö.o.: Samkv. þessu ætlar ríkisstj. að létta af álögum til ríkissjóðs, sem nema 105 millj., en vill fá lögleiddar í staðinn nýjar álögur, sem nema 555 millj., þannig að hrein aukning á álögum til ríkissjóðs, sem hæstv. ríkisstjórn beitir sér fyrir, er 450 millj. að minnsta kosti, ef miðað er við heilt ár. En þessar álögur eru raunverulega miklu meiri, vegna þess að þær eru miðaðar við innflutningsáætlun, sem er of lág. Það er óhugsandi, að stjórninni takist að berja þjóðina svo niður, að innflutningurinn verði ekki meiri en gert er ráð fyrir í innflutningsáætlun ríkisstj. Ef menn vildu á hinn bóginn gera hæstv. ráðh. það til geðs að reikna ekki söluskattinn fyrir heilt ár, heldur aðeins fyrir 9 mánuði, elns og hann vill fara fram á, þá eru þessar nýju álögur nettó a.m.k. 370 millj. eftir þeim tölum, sem hæstv. ríkisstj. notar sjálf. Þær leika sem sagt á 370–450 millj. eftir því, hvort menn vilja telja nýja söluskattinn fyrir 9 mánuði eða 12 mánuði.

Fram hjá þessum staðreyndum er alveg óhugsandi að komast, og það er alveg sama, hvernig hæstv. ráðh. reynir að reikna út frv. sín hvert fyrir sig og reynir að rugla þessum tölum fyrir mönnum. Þetta eru staðreyndir. Þetta eru álögurnar til ríkissjóðs. Eða hvernig ætlar hæstv. ráðh. að reyna að telja okkur trú um, að það séu ekki nýjar álögur til ríkissjóðs, þessir liðir, sem ég hef greint, og að hann geti mætt 430 millj., sem ríkisútgjöldin hækka samkv. fjárlagafrv. hans, án þess að afla ríkissjóði nýrra tekna? Ég spyr: Vill hæstv. fjmrh. leyfa sér að halda því fram, að hann hafi ekki till. um það að afla nýrra tekna til ríkissjóðs í sínum áætlunum og sínum frv., þegar litið er á þau í heild? Um það er ekkert að villast. Það eru ýmist beinar hækkanir vegna gengislækkunarinnar, sem eru nýjar álögur til ríkissjóðs, eða þá að fé er tekið inn í ríkissjóð nú, sem áður rann í útflutningssjóð, í staðinn fyrir að fella þá tekjuöflun niður á móti gengislækkuninni, og loks eru svo beinar nýjar álögur í söluskattsfrv. því, sem hér liggur fyrir. Á móti koma svo lækkanir, tekjuskattslækkunin og innanlandssöluskatturinn, sem rann til ríkissjóðs, sem á að draga frá þessu, þegar ríkissjóðsdæmið er gert upp.

Höldum svo áfram lengra, sem raunar er nauðsynlegt vegna málflutnings hæstv. ráðh., því að hann fór svo að reikna út meira og minna um það, hvernig þetta dæmi kæmi út fyrir einstaklinga, fyrir fjölskyldur í landinu, og notaði þá nákvæmlega sömu aðferðina. Í stað þess að reyna að gefa heildarmynd af málinu, sleit hann út úr einstaka þætti, sleit út úr söluskattsþáttinn, hvernig hann kæmi út fyrir tiltekna fjölskyldu, og blandaði þar svo inn í hæfilega mörgum öðrum þáttum til þess að gera útkomuna sæmilega hagstæða og að hún gæti farið laglega í munni. En hann hafði um þetta í raun og veru alveg nákvæmlega sömu aðferðina og þegar hann var að reyna að sýna fram á, að með þessu frv. væru ekki lagðar nýjar álögur á þjóðina.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í útreikninga hæstv. ráðh. um það, hvernig ráðstafanir ríkisstj. snerta einstaka fjölskyldu. Manni skildist helzt, að hæstv. ráðh. væri kominn svo langt, að hann væri búinn að fá dæmið þannig, að í raun og veru væri nettógróði, væri nettótekjuauki að ráðstöfunum ríkisstj. fyrir vísitölufjölskylduna. Manni skildist það helzt. En ég ætla ekki að fara út í þetta núna, heldur ætla ég að rifja upp heildarmyndina af efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj., eins og hún blasir við núna eftir þennan nýja viðauka, sem hæstv. ráðh. hefur komið með í dag, þennan nýja drátt, sem hann hefur bætt í myndina, sem sé þennan nýja innflutningssöluskatt.

Ég rakti það áðan, að nýjar álögur, ef miðað er við heilt ár, eru a.m.k. 450 millj. til ríkissjóðs. En þær eru, eins og ég hef margtekið fram, raunverulega miklu meiri. Við skulum bara nota þessa tölu, 450 millj. Það hefur verið reiknað út af hagstofunni, að innflutningsvörurnar til landsins muni hækka a.m.k. um 595 millj., þegar frá eru dregnar rekstrarvörur til útflutningsframleiðslunnar, sem ganga inn og út í dæminu, þá hækki sem sé neyzluvörur og aðrar rekstrarvörur en til útflutningsframleiðslunnar og framkvæmdavörur um 595 millj., og hækkun á duldum greiðslum og dreifingarkostnaði 152 millj., enn fremur áætlað af hagstofunni. Þetta verður samtals hvorki meira né minna en um 1197 millj. eða tæpar 1200 millj., álögurnar til ríkissjóðs, nýju álögurnar til ríkissjóðs og verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar, að fráskilinni verðhækkun á rekstrarvörum til útflutningsframleiðslunnar. Frá þessu þarf síðan að draga hækkun á fjárlögunum vegna gengisbreytingarinnar, sem búið er að telja í álögunum þar, og söluskattinn margumtalaða, sem hæstv. ráðh. er alltaf að tala um, iðnaðarsöluskattinn, sem felldur var niður og rann til útflutningssjóðs. Hann á að draga þarna frá, því að gengislækkunin kemur á móti honum. Það eru 119 millj. Þá eru eftir 1078 millj. eða tæpar 1100 millj., og þá er eftir að reikna verðhækkunaráhrifin af hinni gífurlegu vaxtahækkun ríkisstj., sem nema stórfelldum fjárhæðum til viðbótar þessu. Frá þessu verður svo að draga fjölskyldubæturnar, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir, og auknar niðurgreiðslur á verðlagi vara innanlands, sem nemur samtals um 190 millj.

Það er alveg sama, hvernig menn velta þessu dæmi fyrir sér fram og aftur, það er óhugsandi að fá lægri útkomu en svo, að það séu raunverulega um 1100 millj. nú, eftir að búið er að bæta þessum nýja skatti við, — 1100 millj., sem nýju álögurnar nema og verðhækkunaráhrif gengisbreytingarinnar.

Og þar sem það er yfirlýst stefna núverandi hæstv. ríkisstj., að kaupgjald í landinu skuli standa óbreytt í krónutölu og tekjur framleiðenda, a.m.k. bænda og sjómanna, skuli yfirleitt vera óbreyttar í krónutölu, þá er það alveg óvefengjanlegt, að meginhlutinn af þessum 1100 millj. eiga að verða eftir áætlun ríkisstj. hreinar álögur á almenning í landinu, tekjuskerðing hjá almenningi í landinu og lækkun á fjárfestingu, ýmist í formi raunverulega lækkaðra launa eða þá með því að atvinna dragist saman. Þetta er sú tilfærsla, — við getum orðað það þannig, — þetta er sú tilfærsla, sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta verða í þjóðarbúskapnum á einu ári. Auðvitað er þetta ekkert annað en vitleysa og hefur aldrei verið annað en endileysa og er óframkvæmanlegt. En samt eru þetta till. núv. hæstv. ríkisstj. Með þessu er auðvitað ekki verið að stofna til neinnar viðreisnar. Með þessu er verið að steypa út í stórfelldari vandkvæði en nokkru sinni fyrr, og það dylst engum, sem er kunnugur atvinnumálum og kjörum manna í landinu. En svo er okkur sagt hér á hæstv. Alþingi, að menn skuli vera alveg rólegir. Vísitölufjölskyldan muni að lokum ekkert finna fyrir þessu. Það sé hægt að færa til í landinu 1100 millj. á þennan hátt. Þetta komi allt aftur í gegnum fjölskyldubætur og lækkun á tekjuskatti til vísitölufjölskyldunnar.

Nú vitum við, að vísitölufjölskyldan, ef maður mætti viðhafa svo leiðinlegt orð, fær náttúrlega sáralitlar bætur við lækkun á tekjuskattinum, og það verða yfirleitt, ef fer eftir líkum, þeir, sem hafa hæstar tekjurnar, sem fá mesta tilslökun við breytingu tekjuskattsins. En þeir segja, að niðurstaðan af þessu öllu saman muni nánast verða sú, — eða það er ekki hægt að skilja öðruvísi þessar bollaleggingar, sem hér eru færðar fram, — að þetta verði í raun og veru engin kjaraskerðing, þessar 1100 millj., sem nema hvorki meira né minna en 20% af þjóðartekjunum, eins og þær hafa verið áætlaðar, — 20% af þjóðartekjunum.

En mætti ég kannske spyrja þessa hv. herra: Hvernig á þá þessi stórkostlegi samdráttur að koma, sem gert er ráð fyrir í innflutningsáætluninni? Þeir segja, að það eigi að vera frjáls innflutningur, það sé alveg óhætt að taka lán í bili, það borgi sig sjálft, því að þetta verði allt svo vel „kontrollerað“ innanlands með kaupgetunni. Hvernig ætla þeir að koma innflutningnum á neyzluvörunum niður fyrir það, sem sá innflutningur var 1958, ef vísitölufjölskyldan á að búa við sömu kjör og hún hefur búið við og býr við í dag? Ég spyr: Vill ekki hæstv. fjmrh. svara? Hvernig ætla þeir með frjálsri verzlun að koma neyzlu þjóðarinnar nú, 1960, á almennum neyzluvörum, eins og innflutningsáætlunin gerir ráð fyrir, niður fyrir það, sem neyzlan var 1958, ef það er rétt, sem hæstv. fjmrh. segir eða er að gefa í skyn, að almenningur í landinu bíði í raun og veru ekkert tjón af þessum gífurlegu álögum, sem nú er verið að lögleiða, og af öllum þessum ráðstöfunum? Ég held það væri sæmst fyrir þessa hæstv. ráðh. að hætta að reikna og gera sig ekki framar að slíku athlægi frammi fyrir alþjóð, eins og þegar er orðið með þessum málflutningi. Það vottaði þó aðeins fyrir því fyrst, þegar þeir komu fram með þessar áætlanir, að þeir viðurkenndu heiðarlega, að það, sem hér væri verið að gera, væri stórfelldur samdráttur og mikil kjaraskerðing, sem menn yrðu að taka á sig. En allt slíkt er horfið og ekkert eftir annað en blekkingarnar. Sem sé, að menn skuli vera alveg rólegir, jafnvel þó að bætt sé stórlega enn ofan á áætlanirnar, sem áður voru lagðar fram, menn hafi í raun og veru bara hag af, það verði nettóhagnaður af þessu öllu saman, þegar upp verður staðið. En ég spyr enn: Ef nokkur glóra er í þessum málflutningi hæstv. fjmrh. og annarra þeirra manna, sem hafa haldið þessu fram, hvernig ætla þeir þá að koma innflutningi neyzluvara, algengustu neyzluvara, eins og gert er ráð fyrir í innflutningsáætluninni, niður fyrir það, sem var 1958? Ef allt er með felldu, þá á auðvitað innflutningurinn að vaxa ár frá ári. Ef framkvæmdir haldast og lífskjör þjóðarinnar versna ekki, þá eykst innflutningurinn ár frá ári með aukinni framleiðslu og fólksfjölgun. En þeir ætla að lækka stórkostlega innflutninginn, ekki með höftum, heldur með því að minnka kaupgetuna, hreinlega með því, og það er yfirlýst. Og hvernig ætla þeir að minnka kaupgetuna, ef einhver glóra er í þessum málflutningi um, að það þrengi ekki að neinum? Er hægt að bjóða upp á slíkan málflutning?

Ef aftur á móti ber að skilja hæstv. ráðh. svo, að hann hafi með sínum málflutningi eingöngu átt við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og eitthvað 2–3 „valda“ þætti úr þessu öllu saman, þá er það náttúrlega annað mál. En þá hefur sá málflutningur bara alls enga þýðingu. Hann fellur algerlega dauður niður. Í þessu máli skiptir það eitt, hvaða áhrif verða af ráðstöfunum ríkisstj. í heild, ekki einstökum frv, eða einstökum liðum, hvaða áhrif verða af ráðstöfunum ríkisstj. í heild, til hækkunar á álögum og lækkunar á álögum. Það er það eina, sem máli skiptir. Hitt hefur enga þýðingu, að bisa við að slíta út úr einstaka liði.

Eins og ég sagði, þá hef ég ekki gögn núna til þess að slá upp mynd af því, hvernig þessar ráðstafanir í heild koma út fyrir eina eða aðra fjölskyldu. Það er til athugunar, hvort það gæti tekizt, áður en þessu þingi lýkur, að fá mynd af því. Um það bil, sem menn eru búnir að sjá allt, sem frá hæstv. ríkisstj. á að koma, þá er til athugunar, hvort slíkt væri hægt, að gefa slíka mynd. Og það er auðvitað mjög þýðingarmikið, ef það væri mögulegt að gefa sanna mynd af því. En auðvitað eru menn nú þegar búnir að sjá nógu mikið til þess, að það ætti að mega ætlast til þess af hæstv. ríkisstj., að hún viðurkenndi hreinlega, að hún stefnir að stórkostlegum samdrætti framkvæmda og þar með minnkandi atvinnutekjum í landinu, að hún stefnir einnig að stórkostlegri kjararýrnun almennings til þess, eins og hún segir, að geta tekið upp frjálsa verzlun, að hún stefnir að því að minnka kaupgetuna svo mjög í landinu, að það sé engin hætta á því, eins og þeir orða það, engin hætta á því, að það verði meiri eftirspurn eftir vörum innanlands, að menn geti keypt meira en gjaldeyririnn getur mætt, sem inn flýtur. Þetta finnst mér að hæstv. ríkisstjórn ætti hreinlega að viðurkenna.

Nú var okkur sagt, þegar efnahagsáætlanir ríkisstjórnarinnar voru lagðar fram, að áhrifin af gengislækkuninni einni eða dýrtíðaraukningin vegna gengislækkunarinnar einnar væri 13%. Og ég skal ekkert segja um þessa útreikninga annað en það, að af langri reynslu er mér kunnugt um, að fram að þessu hafa slíkir útreikningar alltaf reynzt of lágir, það hefur alltaf verið áætlað minni dýrtíðaraukning af því, sem gert hefur verið, heldur en fram hefur komið. Og mér þætti líklegt, að svo færi enn. En þess ber bara að gæta, að inn í þetta dæmi vantaði söluskattinn algerlega. Það var ekki einu sinni í þessu dæmi gert ráð fyrir 3% söluskatti, sem þó voru, að því er manni skildist, hvíslingar um í stjórnarherbúðunum að hlyti að koma, hann yrði aldrei undir 3%. Það var ekki einu sinni reiknað með því. Nú er þessu dæmi gersamlega raskað. Þar stendur ekki steinn yfir steini í þessu tilliti, því að til viðbótar við þessa 13% hækkun á dýrtíðinni koma svo áhrif vaxtahækkunarinnar, sem verða stórfelld fljótlega í öllum greinum þjóðarbúskaparins og öll vitanlega í hækkunarstefnu, og inn í dæmið vantar líka 3% söluskattinn, og það sem stærst er, að inn í dæmið vantar þetta nýja 8% innflutningsgjald, sem hæstv. fjmrh. beitir sér nú fyrir að lögleiða, 8%, sem leggjast ekki aðeins ofan á innflutningsverð vörunnar, — ég legg áherzlu á það, — þau leggjast ekki aðeins ofan á cif-verð vörunnar, þau leggjast ofan á cif-verð vörunnar að viðbættum öllum tollum og ofan á þessar tölur, eins og þær eru orðnar eftir 50% gengislækkun, en gengislækkunin verkar auðvitað bæði á sjálft innkaupsverð vörunnar og verðtollana, sem fyrir eru, og söluskattinn, sem fyrir er. Ofan á þetta allt saman á að leggja þessi 8%. Hér er um gífurlegan nýjan þátt að ræða í dýrtíðaraukningunni, eins og við sjáum á því, að það getur aldrei orðið minna en 180 millj. á ári, miðað við heilt ár, sem þessi skattur gefur. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. nú með þessum síðustu till., sem eru ræddar hér, kollvarpað öllum sínum áætlunum, og stendur ekki steinn yfir steini lengur í þeim útreikningum, sem hún hefur látið gera um áhrifin af efnahagsmálaráðstöfununum.

Þá vil ég í þessu sambandi aðeins minnast á það, hvernig þessi skattur, innanlandsskatturinn, er lagður á, sem er með nokkuð nýstárlegu móti.

Á undanförnum áratugum hafa Íslendingar þurft á talsverðri skattheimtu að halda, eins og kunnugt er, og margur skattur hefur verið reyndur og á lagður á þeim árum. Þó veit ég ekki til þess, að nokkrum hafi fyrr hugkvæmzt að skattleggja þann fisk, sem Íslendingar borða sjálfir, eða það kjöt, sem Íslendingar framleiða handa sjálfum sér. Það er alveg ný uppfinning, og það hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir stuttu, ef upp á því hefði verið stungið að lækka tekjuskatt stórkostlega, og mér leikur grunur á, að sú lækkun muni ekki verða minni á hátekjumönnum en á öðru fólki, ef upp á því snjallræði hefði verið stungið til þess að fullnægja réttlætinu að lækka stórkostlega skatt á hátekjum, en leggja í staðinn skatt á soðninguna, leggja í staðinn skatt á þann fisk, sem Íslendingar kaupa á sitt eigið borð svo að segja daglega, og það kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir, sem þjóðin framleiðir handa sjálfri sér. Og í þessu sambandi er verið að tala um réttlæti. Það er verið að tala um að færa skattálagninguna í réttlátara horf. Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi orðað það þannig. Þá hefur hann sennilega haft í huga að skattleggja fiskinn og kjötíð, sem er meginuppistaðan í fæði almennings í landinu og engum manni hefur fyrr dottið í hug að skattleggja, svo að menn viti til, og það á að gera til þess að geta fellt niður skatta á hátekjum. M.ö.o.: þessi söluskattur á að ná til miklu fleiri nauðsynja en nokkur annar söluskattur, sem lögleiddur hefur verið.

Það er verið að tala um það í þessu sambandi, að það þurfi að breyta sköttunum mjög í réttlætisátt og til þess að gera þá auðveldari í innheimtu. Og það hefur verið fundið að sumum sköttum með réttu, að þeir hafi verið mjög erfiðir í innheimtu, t.d. eins og þessi söluskattur, sem nú er verið að afnema, 9%, á iðnaðarvörum, sem er afar erfiður í innheimtu og gallaður. En ég held, að það megi segja um þetta, að með þessum úrræðum, sem hér er stungið upp á, sé nánast farið úr öskunni og í eldinn, því að svo erfitt sem það nú er að hafa eftirlít með og framkvæma tekjuskattslöggjöfina, þá held ég, að það hafi þó verið dómur allra þeirra, sem kynntust þeim málum, að það hafi verið enn erfiðara viðfangsefni að fást við innheimtu söluskattsins, þessa almenna söluskatts innanlands. Og geri ég fastlega ráð fyrir því, að þeir, sem fyrir þessu standa, eigi eftir að reka sig á. Og í þessu sambandi hefur stundum líka verið talað um, að það ætti að gera þetta allt saman miklu einfaldara í framkvæmdinni. Það er nú helzt, að það verði, eins og nú stefnir hjá hæstv. ríkisstj., því að vitanlega verður nú haldið einhverju verulegu af tekjuskattinum samkv. þeim yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið, og þar með öllu því kerfi. sem þurft hefur til þess að halda uppi tekjuskattsinnheimtunni og útsvarsinnheimtunni, sem er grundvölluð á framtölunum. Þessu verður öllu að halda uppi áfram, og síðan bætist allt það heljarbákn við, sem þarf að koma upp, ef á að verða nokkur glóra í söluskattsinnheimtunni, þessari nýju stórfelldu söluskattsinnheimtu. Hér verður um stórkostlega aukningu að ræða á ríkisstarfrækslunni og upp settar stórfelldari flækjur í skattheimtu en nokkru sinni hafa áður komið til greina. Og það liggur í því, hversu þessi söluskattur, sem nú er stungið upp á, er miklu víðtækari en nokkru sinni hefur áður átt sér stað. En gamli söluskatturinn, sem hér var lögleiddur um eitt skeið á umsetningu innanlands, var einmitt afnuminn fyrir það, hversu örðugur hann reyndist í innheimtunni, ekki sízt fyrir það, hversu örðugt reyndist að hafa gát á því, að honum væri skilað í ríkissjóðinn.

Hér er því öllu snúið við frá þeim yfirlýsingum, sem áður hafa verið gefnar. Skattinnheimtan verður ekki gerð einfaldari en áður eða dregið úr nokkrum kostnaði eða flækjum í því sambandi, heldur verður allt gert miklu umfangsmeira en nokkru sinni áður fyrr og flóknara og erfiðara í framkvæmd.

Í sambandi við það, sem nú er að gerast, langar mig til þess að benda á eitt atriði, og það sýnir, hversu nýstárlegar þessar ráðstafanir eru allar, sem nú eru á ferðinni. Ég man ekki betur en fram að þessu hafi það ætíð verið svo, þegar gengislækkun hefur átt sér stað, að þá hafi reynzt mögulegt að létta á einhverjum álögum í leiðinni, sem hafi þá komið á móti þeim hækkunaráhrifum, sem af gengislækkuninni hafa stafað. Þannig var það t.d. 1950. En það, sem einkennir þessar aðfarir, sem nú er stofnað til, er, að gengislækkuninni fylgja gífurlegar álögur til ríkissjóðs, en hvergi slakað á þeim álögum, sem fyrir voru, nema í einu einasta atriði. Ég held, að það sé ekki nema eitt atriði, sem slakað er á, og það er, að felldur er niður iðnaðarsöluskatturinn, sem rann til útflutningssjóðs. Ég held ég megi fullyrða, að allir aðrir skattar, sem runnu til útflutningssjóðs til þess að standa undir útflutningsuppbótunum, eru látnir standa eftir sem áður og látnir renna í ríkissjóð til þess að standa undir útgjaldahækkuninni á fjárlögum, sem er hvorki meira né minna en 430 millj. kr. samkv. því, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fyrir. Það er þess vegna ekki að furða, þó að áhrifin af þessu öllu verði geigvænleg.

Það er nú langt síðan þessar aðfarir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna fóru að vekja algera furðu þjóðarinnar, enda er það ekkert einkennilegt, þegar þess er gætt, að þeir, sem að þessu standa, voru kosnir á þing til þess að halda áfram stöðvunarstefnunni, halda áfram að halds niðri dýrtiðinni án nýrra skatta. Ég sé, að sumir brosa, það er von. En þetta var það, sem átti að gera. En í staðinn fyrir fá menn þetta, sem nú hefur verið lýst, og nú er enn bætt við 180 millj. skatti, sem hefur ekki áður verið nefndur og var búið að segja að kæmi ekki til greina. Og þá kemur spurningin: Hvernig stendur á þessum ósköpum? Hvers vegna eru þeir að gera þetta? Var ekki hæstv. forsh. að lýsa því yfir um áramótin, að það mundi vanta 250 millj., það mundi vera 250 millj. kr. halli í búskapnum, annars vegar ríkisbúskapnum og hins vegar útflutningsbúskapnum. Og það er von, að margur spyrji: var ekki hægt að finna einhverjar einfaldari aðferðir til þess að leysa þetta en að stofna til allra þessara ráðstafana, sem nú hefur verið komið fram með og þýða hvorki meira né minna en a.m.k. 1100 millj. kr. álögur á almenning eða tilfærslu, þar sem almenningur á að leggja til fjármunina, en einhverjir aðrir eiga að fá þá. Þeir, sem eiga að halda óbreyttu kaupi, og þeir, sem eiga að halda óbreyttum tekjum í búum sínum, þeir sem eiga að halda óbreyttu fiskverði, eins og hlutamennirnir, sjómennirnir, eiga að gera, þeir eiga að bera þetta bótalaust, því að ég er búinn að draga frá fjölskyldubæturnar og tekjuskattslækkunina. Er það raunverulega svo, að það hafi þurft að gera þetta til þess að jafna þann skakka, sem kann að hafa verið í þjóðarbúskapnum? Nei, auðvitað ekki, það var um tvær leiðir að velja til þess að jafna þennan skakka. Önnur leiðin var sú að halda uppbyggingunni í landinu áfram, halda áfram að auka framleiðsluna í öllum greinum, eins og gert hefur verið jafnt og þétt undanfarna áratugi, halda uppi fullri atvinnu, samþykkja nýjar álögur, sem undir engum kringumstæðum hefðu þurft að vera raunverulega meiri en sem svaraði þessum halla, sem sjálfsagt hefur verið fremur oftalinn en vantalinn hjá hæstv. forsrh. Og það mátti gera með ýmiss konar skattlagningu á eyðsluna í landinu, án þess að það hefði orðið stórkostlega tilfinnanlegt, og þessu gat fylgt það að fikra sig áfram við að draga úr uppbótakerfinu eða ósamræmi uppbótakerfisins með eitthvað hækkuðu yfirfærslugjaldi. Þetta var hægt að gera. Þetta hefði ekki orðið tilfinnanlegt fyrir neinn, og þetta hefði tryggt áframhaldandi uppbyggingu í landinu og aukna framleiðslu.

En það var líka önnur leið til, og þá leið hafa stjórnarflokkarnir valið, og það var leið samdráttarins. Það var sú leið að reyna að jafna þennan halla með því að draga saman. Og það er þess vegna, sem hæstv. ríkisstj. kemur nú með hvert frv. eftir annað, sem miðar að því að magna dýrtíðina í landinu, af ráðnum hug, sem er beinlínis vísindalega útreiknað til þess að magna dýrtíðina í landinu og draga þannig úr framkvæmdunum og draga þannig úr neyzlunni, draga þannig úr því, sem almenningur getur keypt. Hvert frv., sem kemur fram af öðru, er vísindalega „útspekúlerað“ til þess að hækka kostnaðinn við framkvæmdirnar í landinu og til þess að hækka verðið á neyzluvörunum og til þess þannig að draga úr framkvæmdunum og minnka neyzluna. Og markmiðið er að koma neyzlunni niður fyrir það, sem hún var 1958, eins og innflutningsáætlun ríkisstj. ber með sér, og draga stórkostlega úr framkvæmdunum, eins og þessi sama innflutningsáætlun ber glöggt vott um. Og jafnhliða þessu er svo látið fylgja, því að það á að gera meira í leiðinni en bara að draga saman, það á líka að breyta algerlega um stefnu og breyta algerlega uppbyggingu íslenzka þjóðfélagsins, og það á að gera það með því að draga úr í leiðinni öllum hugsanlegum stuðningi, sem þjóðfélagið hefur veitt til uppbyggingarinnar, þeim, sem höfðu ekki nægilega mikil peningaráð. Úr því á að draga. Það á að draga úr því með því, að íbúðirnar verði dýrari en áður, en stuðningurinn við að byggja íbúðir minnki. Það á að minnka það, sem á að fara í íbúðalán. Það á að hækka vextina. Þetta er gert til þess að draga úr uppbyggingu almennings í íbúðamálunum. Á sama hátt á að draga úr uppbyggingunni víðs vegar um landið með því að skera stórkostlega niður verklegar framkvæmdir á fjárlögum, en hækka um leið kostnaðinn við framkvæmdirnar, með öllum þessum till. og frv., sem hæstv. ríkisstj. er að reyna að berja í gegnum þingið. Og það á að draga úr stuðningi þjóðfélagsins við það að byggja upp úti um landið og alls staðar í landinu raunar, framleiðsluna bæði til sjávar og sveita. Það á að draga úr atvinnuaukningarfénu raunverulega, það á að draga úr öllum framlögum, sem hafa gengið í þessa átt, og öllum lánum, sem menn hafa átt kost á í þessu skyni, og hækka líka vextina af lánunum, allt til þess, að það sé alveg víst, að samdrátturinn verði nógu mikill. Og það er ekki nóg, að samdrátturinn verði nógu mikill, það verður líka að gæta þess, að það séu réttir aðilar, sem þurfa að draga saman. Það verður að vera almenningur í landinu, sem á að draga saman, ekki hinir. Síðan er hugmyndin, þegar búið er að koma þessum samdrætti og hæfilegri stöðvun á í þessa stefnu, að þá komi þeir, sem hafa peningaráðin í landinu, og þeir, sem hafa aðgang að bönkunum, þá komi þeir og segi: Ja, ég skal framkvæma hérna, ég skal jafnvel byggja hérna íbúðarhúsakassa, sem ég leigi út. Þið getið fengið leigt hjá mér eitt eða tvö herbergi, — kannske eldhús, ég veit það ekki, — þið getið fengið leigt hjá mér eitt eða tvö herbergi. Þetta á að verða þróunin: Þeir, sem hafa peningana í landinu og aðganginn að bönkunum í landinu, þeir eiga að fylla þetta skarð, sem verður fyrir skildi, þegar búið er að stöðva almannaframkvæmdirnar.

En hver er einmitt ástæðan til þess, að hér á Íslandi er fleira af efnalega sjálfstæðu fólki en í nokkru öðru landi jarðarinnar, sem við þekkjum til, hver er hún? Ástæðan er sú, að hér hefur verið meira um þjóðfélagslegan stuðning víð framkvæmdir almennings en víðast hvar annars staðar á byggðu bóli. Það hefur verið stutt í öllum hugsanlegum myndum, það hefur verið gert með landbúnaðar löggjöfinni, það hefur verið gert með atvinnuaukningarfénu, sem veitt hefur verið í sjávarpláss landsins, það hefur verið gert með lágum vöxtum og löngum lánum til uppbyggingar í sjávarútvegi og öðrum framleiðslugreinum, það hefur verið gert með stuðningi við íbúðalánasjóðinn, við það, að menn geti fengið tiltölulega hagstæð lán til þess að byggja yfir sig sjálfir. Með þessu móti hefur verið stuðlað að því, að hér á landi eru fleiri sjálfstæðir atvinnurekendur, fleira af efnalega sjálfstæðu fólki en í svo að segja nokkru öðru landi. En það er þá líka að sama skapi færra um raunveruleg auðfélög, sem taka að sér það hlutverk t.d. að byggja íbúðir fyrir fólk og leigja því, eins og er svo algengt í öðrum löndum, eða hafa með höndum atvinnureksturinn í stórfelldum mæli.

En þessi þróun, sem hér hefur orðið fyrir þessa stefnu, sem ég hef verið að lýsa og Framsfl. hefur mest allra flokka beitt sér fyrir og barizt fyrir, — þessi þróun hefur ætíð verið þyrnir í holdi Sjálfstfl., hún hefur ætíð verið þyrnir í holdi íhaldsins.

En íhaldið hefur raunverulega aldrei getað framkvæmt sína stefnu hér, eins og það hefur viljað hafa hana, síðan 1927, því að það hefur aldrei haft hreinan meiri hluta í landinu síðan 1927, og þess vegna hefur það orðið að taka tillit til annarra. Þess vegna hefur það líka rekið uppboðspólitík, sem við þekkjum. Það hefur þótzt vera með öllum þessum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til þess að koma uppbyggingunni í framkvæmd. Það hefur þótzt vera með því öllu saman. Þeir hafa hugsað sem svo hjá íhaldinu: Þetta verður gert hvort sem er, Framsókn sér um það. Þá er bezt að láta bara eins og við séum með því og viljum jafnvel meira. Fyrst við getum ekki komið okkar stefnu í framkvæmd hvort sem er, þá skulum við ekkert vera að flagga henni framan í fólk eins og hún þá er. Við skulum bara bíða, þangað til okkar tækifæri kemur, við skulum bara telja fólki trú um, að við séum með þessu öllu, sem Framsókn berst fyrir og stingur upp á, og viljum jafnvel gera meira.

Svona hefur þessi flokkur hagað sér síðan 1927. En baráttan hefur staðið fyrir því, hún hefur staðið innan veggja stjórnarráðsins og annars staðar, þar sem samstarf hefur verið við þessa menn. En opinberlega hefur þetta verið svona. Svo kemur bara að því núna eftir kjördæmabreytinguna, að þeir geta raunverulega framkvæmt sína stefnu, vegna þess að það er flokkur til í landinu, sem er svo umkomulaus, Alþfl., — svo umkomulaus, að hann er kominn inn á það að framkvæma núna í þjóðarbúskapnum sams konar stefnu og íhaldið hafði fyrir 1927, og það héfur ekki þorað að nefna síðan 1927, fyrr en nú, að það hefur fengið hreinan meiri hluta með þessum flokki. Þá er farið út í að framkvæma þessa stefnu á öllum sviðum, í trausti þess, að nú sé þeim óhætt að gera tilraunina með því að draga á öllum sviðum úr þeim stuðningi og þeirri uppbyggingu, sem hefur raunverulega mótað okkar þjóðfélag á þennan hátt, sem ég hef verið að lýsa, og hefur orðið til þess, að auðmagnið hefur aldrei náð sömu tökum hér hjá okkur og í flestum öðrum löndum.

Það var hér á árunum, að það voru Bogesenar og annað slíkt og smákóngar. Einn smákóngur, einn Bogesen svo að segja í hverju plássi þessa lands. Það voru hinir góðu, gömlu dagar, sem núv. hæstv. forsrh. var að tala um hér um daginn. Þá hefði verið munur að lifa, m.a. hefði þá verið meira frelsi, t.d. í viðskiptum. Af hverju var meira frelsi í viðskiptum þá? Það var það frelsi í viðskiptum, að menn höfðu ekki ráð á því að kaupa neitt, og þess vegna var engin hætta á því, að það yrði of mikið spurt eftir erlendum gjaldeyri. Og það er sams konar frelsi í viðskiptum, sem þeir vilja fá aftur, sem var svo ánægjulegt á þessum árum. Og á þessum árum þekktum við þetta. Uppbyggingin var þannig, að það voru þessir smákóngar, sem ríktu í plássunum, þessir Bogesenar, ýmist af því að þeir höfðu kannske grætt á einhverju, en þá alveg eins stundum af því, að þeir höfðu aðgang að bönkunum. En þegar farið var fyrir alvöru að styðja uppbyggingu almennings sjálfs og almannafélögin í landinu komu til, eins og verkalýðsfélögin og samvinnufélögin, þá hurfu þessir Bogesenar, vegna þess að það vantaði aðstöðu fyrir Sjálfstfl. til þess að halda þeim við. Sjálfstfl. hafði ekki aðstöðu til þess, eftir að hann var búinn að missa meiri hluta á Alþingi, og þá fór þeim smáfækkandi. En nú er hugsunin sú að reyna að snúa þessari þróun við. Og það er verið að stíga stórfellt skref í þá átt með þessu öllu saman, sem nú er verið að gera, með stuðningi flokks, sem kallar sig Alþýðuflokk, draga úr þeim almenna stuðningi, og síðan er það efnahagslega fjárfestingin, sem á að ráða í landinu, efnahagslega fjárfestingin. Þetta, sem ég hef verið að lýsa, þetta, sem unnið hefur verið í landinu af almenningi með stuðningi í félagsmálalöggjöfinni, ýmiss konar félagslegri löggjöf, það er allt kallað núna ósköp ljótu nafni, það heitir nefnilega pólitísk fjárfesting og er bara spilling, — það er bara spilling, það er bara nokkuð, sem er komið til vegna þess, að menn eru að keppa um kjörfylgi og annað slíkt, og úr þessu verður að draga alveg stórkostlega.

En hvað á að koma í staðinn? Jú, það heitir aftur á móti afar fallegu nafni. Það heitir efnahagsleg fjárfesting. En hvað er það? Það er það, sem þeir ríku vilja gera og geta gert. Það heitir efnahagsleg fjárfesting, það á að sitja alls staðar í fyrirrúmi. Hitt heitir pólitísk fjárfesting, það sem almenningur er að bisa við. Hvað á almenningur að vera að bisa við framkvæmdir, þurfa alltaf að vera að koma og biðja um lán, alltaf blankir, það verður að losa sig við slíkt með einu höggi, með því að gera framkvæmdirnar svo dýrar, að almenningur hætti að hugsa til þess að eignast íbúðir eða koma sér upp búum eða mótorbátum eða öðru slíku.

Hvað haldið þið, að það verði margir á næstunni, sem eignast mótorbát, t.d. 75 tonna mótorbát, þegar hann er kominn upp í 41/2 millj., þegar búið er að hækka vextina í fiskveiðasjóðnum um leið upp í 6% og stytta lánstímann? Hvað haldið þið, að það verði margir sjómenn á Íslandi, sem geta komið með hálfa aðra milljón í lófanum til þess að leggja út í útborgun á slíkum bát? Og hvernig haldið þið, að þeim gangi að standa undir vöxtum og afborgunum af þessum nýju fiskveiðasjóðslánum og því, sem þeir þurfa að fá til viðbótar með 12% vöxtum?

En hvernig hafa þessi mál þróazt á undanförnum árum? Þau hafa þróazt yfirleitt þannig, að þessir bátar hafa komið í sjávarplássin víðs vegar um landið, og það hafa ekki verið Bogesenarnir yfirleitt, sem hafa átt þessa báta, þó að þeir vilji nú taka við. Það hafa ekki verið þeir. Það hafa ekki verið Bogesenarnir, sem hafa átt þessa báta, það hefur verið yfirleitt almenningur í þessum plássum, sem hefur átt bátana, ýmist í gegnum félagsskap sinn eða einstakir sjómenn, sem hafa slegið sér saman um bátana. Það er þetta, sem á að slá niður. Þetta er bara pólitísk fjárfesting, sem engan rétt á á sér. En ef einhver Bogesen getur keypt bát, þá er það efnahagsleg fjárfesting. Ef hann getur farið inn í bankana og fengið nokkrar milljónir til þess að kaupa nokkra slíka báta og nokkur slík skip, þá er það allt í lagi, það er efnahagsleg fjárfesting. Og það er engin hætta á því, að Bogesenarnir geti ekki klofið þetta, þó að bátarnir séu hækkaðir á þennan hátt. Það verður séð fyrir því. Þeir bara fá það, sem þarf, úr bönkunum, á meðan þessir aðilar fara með þessi mál, sem núna fara með þau. Það verður ekki bætt við það, sem sjómennina vantar til þess að fá sér bát. Nei, það verður ekki gert. Og þetta eru menn, sem gera þetta, sem eru kosnir á þing undir framfaramerki, undir því merki jafnvel, að það hafi verið of hægar framfarir í landinu og þeir, sem hafi haft þessi mál með höndum, hafi verið dragbítir á þessi mál. — Og þessir menn leyfðu sér að segja, að nýr skriður kæmi á uppbygginguna, þegar þessi nýja samsteypa kæmi til valda. Svo fara þessir menn og styðja þá til valda, sem rétta hreinlega rothögg að þessari uppbyggingu, sem hefur verið framkvæmd á undanförnum áratugum, — hreinlega rothögg, þannig að menn sjá ekki sitt rjúkandi ráð um, hvernig eigi að halda henni áfram. Og nú þegar hefur þetta haft þau áhrif, að menn hafa orðið að leggja til hliðar langflest uppbyggingarplön, sem menn hafa haft með höndum í byggðarlögum landsins. Menn sjá enga leið til þess að koma þeim í framkvæmd.

Hver trúir því, að það hafi ekki verið hægt að ráða fram úr þeim vanda, sem var í efnahagsmálum landsins um s.l. áramót, án þess að gerbreyta stefnunni á þennan hátt? Dettur ykkur í hug, að það sé hægt að bjóða nokkrum upp á þá röksemd, að þetta allt saman þurfi að gera út af því, þó að það kunni að hafa vantað 200–250 millj. kr. til þess að ná saman endum hjá atvinnurekendum og ríki, hafi þurft að gera þetta allt, alveg gerbreyta öllu þjóðlífinu til þess að jafna þá skakka, sem kunna að hafa verið í þjóðarbúskapnum um s.l. áramót? Það er blátt áfram vansæmd að því, finnst mér, fyrir þá, sem fyrir þessu standa, að leyfa sér að tala um það, sem hér er verið að gera, sem einhvern óhjákvæmilegan hlut, sem hafi orðið að gera til þess að rétta efnahag landsins. Þetta á ekkert skylt við slíkt. Þetta er blátt áfram algerlega ný stefna í þessum málum, sem verið er að framkvæma. Og það hefur jaðrað við, að sumir af talsmönnum hæstv. ríkisstj. hafi viðurkennt þessa staðreynd. Það hefur jaðrað við það, og það verður þó að meta þeim heldur til innleggs, sem hafa flutt mál sitt þannig. En hitt er meiri hræsnin, að boða mönnum þetta allt, sem nú er verið að gera, á þeim grundvelli, að það hafi allt verið nauðsynlegt, til þess að rétta af þann halla, sem blasti við s.l. áramót.

Ef menn athuga þá heildarmynd, sem smátt og smátt er að skapast við þessar ráðstafanir ríkisstj. allar saman, þá er það ekkert ofmælt, sem einhverjir sögðu hér úr þeim herbúðum við byrjun þessara mála, þegar þau komu fyrst fyrir, að ætlunin væri sú að gerbreyta öllum þjóðarbúskapnum. Það er alveg rétt. Ætlunin er að gerbreyta öllum þjóðarbúskapnum og í þá stefnu, sem ég hef hér verið að lýsa. Svo verða menn að gera það upp við sig, hvort þeir vilja styðja að slíkri þróun eða ekki. Og þeir, sem hér að standa, þurfa ekki að halda, að allir þeir, sem hafa stutt þá til þingsetunnar, styðji þá í þessu, sem nú er verið að gera. Það kemur auðvitað ekki til mála. Þetta er svo gersamlega þveröfugt við það, sem margt af því fólki, sem þá hefur stutt, vill vera láta. Þetta skýrist smátt og smátt og tekur allt sinn tíma. En að það sé hægt að leyna því, sem raunverulega er verið að gera, með einhverjum fakírabrögðum, eins og hæstv. fjmrh. var að reyna að gera hér áðan, með því að bregða upp einhverjum útreikningum af því, að vísitölubúið tapi svona og svona mörgum krónum á einhverjum einstökum liði þessu og fái aftur svo og svo margar krónur í öðrum lið, allar svona fakírakúnstir falla bara dauðar fyrir þeim staðreyndum, sem smátt og smátt koma fram á heimilunum og eru að koma fram á heimilunum og hjá þeim, sem hafa framkvæmdir með höndum.

Hvaða gildi haldið þið, að svona lagaðir útreikningar t.d. hafi hjá ungu fólki, sem er að skoða það þessar vikurnar, hvernig aðstaða þess muni hafa breytzt til þess til að mynda að koma upp íbúðum fyrir sig, þaki yfir höfuðið, eða t.d. ungum mönnum, sem ætla sér að eignast báta eða koma sér áfram við búskap? Hvaða gildi haldið þið, að þessir útreikningar hæstv. fjmrh. hafi fyrir þetta fólk?

Ég er eiginlega alveg steinhissa á því, að svona lagað skuli vera borið fram. Það hefur ekkert gildi, vegna þess að þetta fólk sér það glöggt, að við þessar ráðstafanir, sem nú er verið að gera, gerbreytist viðhorfið í þessum efnum á sorglegan hátt fyrir það. Og það er ekki hægt að sjá annað en það verði raunverulega þannig, að þeirri kynslóð, sem nú er að byrja sitt starf, sé ætlað að lifa í þjóðfélagi, sem hefur í raun og veru verið fært 20–30 ár aftur á bak hvað varðar alla aðhlynningu af þjóðfélagsins hendi við uppbyggingu almennings og alveg sérstaklega unga fólksins í landinu. Það er svo gerbreytt í því sambandi öllum viðhorfum.

Ég skal nú ekki hafa fleiri orð við þessa 1. umr. um þetta mál. Ég vildi láta nokkur orð falla um málið almennt við þessa umr. og læt hér með máli mínu lokið.