17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á s.l. ári var úthlutað úr byggingarsjóði ríkisins rúmlega 30 millj. kr. til íbúðalána. Var það langtum minni úthlutun en gerzt hafði næstu árin þar á undan, og vil ég sem dæmi nefna, að á árinu 1956 úthlutaði hliðstæð stofnun tæpum 63 millj. kr. Fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Alþfl., hafði lofað, að hún skyldi vinna að því að auka útlán til húsabygginga, en hún stóð ekki betur við það loforð en þær upplýsingar, sem ég var nú að gefa, bera órækt vitni um.

Ég tel, að það geti ekki verið neitt vafamál, að af þeirri löggjöf, sem sett hefur verið um aðstoð við íbúðarhúsabyggjendur, en þær eru þrjár, í fyrsta lagi löggjöfin um lán til smáíbúða frá árinu 1952, löggjöfin frá 1955 um húsnæðismálastjórn og seinast löggjöf vinstri stjórnarinnar frá 1957 um byggingarsjóð ríkisins o.fl., — að af þessum löggjöfum sé sú síðasta langmerkust. Þá er í fyrsta skipti gerð tilraun til þess að stofna til verulegrar sjóðmyndunar, sem húsbyggjendur geti átt kost á að fá lán úr. Hv. 4. landsk. (HV) upplýsti hér áðan, að stofnfé húsnæðismálasjóðs hefði verið um 120 eða 130 millj. kr. Auk þess voru byggingarsjóðnum tryggðar tekjur, sem gáfu árlega um 40 millj. kr., og taldi hv. 4. landsk. upp tvo stærstu tekjuliði hans, sem eru tekjur af skyldusparnaði og gefa um helming af tekjum byggingarsjóðsins, eða 20 millj. kr. á ári, og svo tekjur af skatti á stóreignir, sem átti að gefa um ¼ hluta af tekjum byggingarsjóðsins, eða um 10 millj. kr. á ári. Nú vil ég vekja athygli hv. alþm. á því, að stóreignaskatturinn, sem upphaflega nam tæpum 140 millj. kr., er núna kominn niður í, að ég held, um 70 millj. kr., eða hefur lækkað um fast að því helming, og engan veginn er enn þá séð fyrir endann á því, hvort þarna verður um nokkurn tekjustofn að ræða fyrir byggingarsjóð ríkisins.

Það er því sýnt, að nú eru tvennir hlutir að gerast samtímis, í fyrsta lagi, að þeir tekjustofnar, sem byggingarsjóðurinn byggði upphaflega á og byggir á enn í dag, eru að bregðast að mjög verulegu leyti, og í öðru lagi er það að gerast, að byggingarkostnaður í landinu er vegna væntanlegra efnahagsráðstafana ríkisstj. að hækka verulega. Það er sagt í grg. fyrir efnahagsmálafrv., að byggingarkostnaður muni hækka um 11%. Ég hygg, að reynslan muni vera sú, að 15% væri nær lagi, og er þó reiknað með því, að vinnulaunakostnaðurinn við húsbyggingar standi óbreyttur og hreyfist ekkert. En hver þorir að ábyrgjast, að svo verði?

Það er svo um fólk, sem er að byggja yfir sig íbúðarhús, að það hefur verið miklu verr sett um lánamöguleika en nokkrir aðrir menn í landinu, sem ráðast í fjárfestingarframkvæmdir, bæði þeir, sem ráðast í fjárfestingu við sjávarútveginn, í landbúnaðinum og jafnvel í iðnaðinum. Þeir eiga aðgang að sínum stofnlánasjóðum, sem hafa veitt lán til nokkuð langs tíma með hagkvæmum vöxtum. Íbúðarhúsabyggjendur hafa ekki átt í annan stað að venda en til húsnæðismálastjórnar, og ef sá möguleiki lokast fyrir þeim, hafa þeir ekki í annað hús að venda en að leita til bankanna um víxillán til mjög stutts tíma, og nú liggur það í loftinu, að víxilvextir eigi að hækka a.m.k. upp í 12 eða 13%. Þá er spurningin þessi: Hvað hugsa hv. alþm. sér að gera til þess að koma á móti þessu fólki og létta því erfiðleikana, sem auðsjáanlega munu verða mörgum um megn? Það er fyllsta hætta á, að menn, sem standa núna í miðjum klíðum með byggingar yfir sig og sína, hreinlega missi hús sín, að maður tali ekki um fólk, sem á eftir að byggja. Það hlýtur að fresta því allflest að ráðast í byggingarframkvæmdir.

Ég tel því, að till, sú, sem hér er til umr., og eins till., sem við hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) höfum flutt, eigi hinn fyllsta rétt á sér og að á fáum sviðum sé brýnna verkefni en að útvega eitthvert fé í byggingarsjóð ríkisins. Hæstv. ríkisstj, hefur lofað að útvega fé í þessu augnamiði, og ekki er ástæða til þess að vefengja enn þá, að hún standi við það loforð. Menn eru dálítið kvíðafullir og treysta kannske þessu loforði varlega, miðað við, að svipað loforð, sem Alþýðuflokksstjórnin gaf á s.l. ári, var algerlega vanefnt, og skeði það þá í fyrsta skipti, sem ekki hefur gerzt í mörg ár, að á s.l. ári var aðeins ein úthlutun úr byggingarsjóði ríkisins í stað þess, að þær hafa alltaf verið tvær áður.