17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (2855)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, ætla ég ekki að hefja neinn eldhúsdag um frammistöðu vinstri stjórnarinnar eða annarra stjórna í húsnæðismálum á þessum vettvangi. En það sagði ég ekki síðast í minni ræðu, eins og fram kom hjá hv. 4. landsk. (HV), að ég væri sammála um, að hér væri mikilla aðgerða þörf, heldur sagði ég það bæði fyrst og síðast í ræðu minni og endurtek það. Hér þarf mikið að vinna til þess að ráða bót á margvíslegri vanrækslu og mistökum á undanförnum árum, en ekkert síður — nema þvert á móti — í tíð vinstri stjórnarinnar en annarra stjórna eða stjórnar Alþfl. á s.l. ári. Ég tók einmitt fram, að það hefði verið lítið að gert í þessum málum og ég teldi hér mikilla úrbóta þörf, þ. á m. heildarendurskoðunar á húsnæðismálalöggjöfinni frá 1955 og þeirri reynslu, sem fengizt hefði af þessu síðar.

Í meginatriðum höfum við, að því er sýnist vera, ólík viðhorf til þessa máls, hv. 4. landsk. og ég, að því leyti, að honum þykir ástæða til að tíunda einstök atriði, hvað hafi verið gert á þessum og þessum tíma til þess að afla byggingarsjóði ríkisins tekna, stundum til bráðabirgða og stundum sýndarlán, eins og hann talaði um sjálfur og hann tók um áramótin 1957 og 1958 og kallar nú skammarlán og þaðan af verra. En mín skoðun er sú, að þegar búið er einu sinni að leggja grundvöll að löggjöf eins og þessari, eigi að búa þannig um hnútana, að veðlánastofnun geti sjálf eflzt, ef ekki verður gerbreyting á efnahagskerfi og efnahagslífi þjóðfélagsins, sem kippir grundvellinum undan henni, eins og að verulegu leyti átti sér stað við þá minnkun á sparifjáraukningunni, þó að sparifjáraukning hafi nokkur verið, sem varð upp úr því, að vinstri stjórnin settist hér að völdum, og leiddi af því óstöðuga verðlagi eðlilega, sem alltaf mun leiða af óstöðugu verðlagi í þjóðfélaginu, eins og þá var og bæði greiðsluhalla og umbrotum á efnahagssviðinu. Þess vegna er það svo, þegar hv. 4. Þm. Reykn. (JSk) minnist hér á byggingarsjóð ríkisins eða almenna veðlánakerfið, og skal ég víkja svolítið nánar að skilgreiningunni á þessum tveimur hugtökum, þá segir hann, að árið 1956 hafi 63 millj. kr. verið veittar að láni úr hinu almenna veðlánakerfi. Veðlánakerfið tók til starfa í nóvembermánuði 1955, starfar tvo mánuði ársins 1955, 1956 er fyrsta heila árið, og vinstri stjórnin tekur við eftir mitt ár 1956 og leggur ekkert af mörkum til þeirra lánveitinga, sem fram fóru á því ári, nema það, sem fram kom. Hygg ég, að ég muni það rétt. Það er ekki fyrr en í lok ársins 1956 og 1957 og um áramótin 1957 og 1958, sem bráðabirgðalán eru tekin af hálfu stjórnarinnar og nokkrar tekjur koma af ráðstöfunum, sem gerðar voru með breyt. á löggjöfinni 1957. En þetta fyrsta heila ár er sem sagt úthlutað að láni 63 millj. kr. Hvernig stóð þá á því, að þetta minnkaði í tíð vinstri stjórnarinnar, sem bæði nú og endranær hefur hælzt af afrekum sínum í þessu efni, hún hafi útvegað svo og svo mikla sjóði? Það er rétt, það komu nýir tekjustofnar, eins og gjaldið af aðflutningnum og skyldusparnaðinum, sem var þó mjög umdeildur og þurfti sannarlega að endurskoðast mjög rækilega, — það komu nýir tekjustofnar, en það brugðust aðrir tekjustofnar á móti. Það brugðust, eins og ég sagði áðan, milljónir og tugmilljónir kr., sem bankarnir höfðu lagt í þetta kerfi, vegna þess að það var kippt fótunum undan hinni öru aukningu á sparifjármynduninni í landinu, og þessar millj. brugðust ekki vegna þess, að einhverjir vondir bankastjórar eða bankaráð, stjórnarandstæðingar, vildu ekki veita þessi lán. Þvert á móti, eins og ég benti á, var þessi geta ekki fyrir hendi. Hérna álít ég að séu höfuðmeinsemdirnar í því, að það var með óskynsamlegum fjármálaráðstöfunum og efnahagsstarfsemi í tíð vinstri stjórnarinnar kippt grundvellinum undan því, að ungt og nýbyrjað veðlánakerfi til íbúðabygginga gæti af sjálfu sér haldið áfram, eins og það eðli málsins samkv. ætti að gera, þar sem fjármálastarfsemin er heilbrigð í þjóðfélaginu, að vinda upp á sig og efla sig og styrkja sig, og þess vegna er að mínum dómi meginatriðið á hverjum tíma ekki það, hvort hægt sé með þáltill. að örva til einhverra framkvæmda eða með bráðabirgðabreytingum á lögum að fá núna einhverjar tekjur hér og nokkrar tekjur þar, heldur að lagður sé sá heilbrigði grundvöllur undir slíka veðlánastarfsemi, að henni séu tryggðar áframhaldandi tekjur, sem nauðsynlegar eru. Nú voru, eins og ég sagði áður, nokkrar nýjar tekjur tryggðar af vinstri stjórninni, en ekki nægilega miklar og ekki einu sinni til þess að vega á móti því, sem tapaðist á öðrum sviðum.

Ég skal ekki fara að deila eða munnhöggvast við hv. þm. um það, hvað hafi verið merkilegustu átökin á sviði húsnæðismálanna, en hv. 4. þm. Reykn. talaði um þrjá áfanga. Það voru smáíbúðalánin og það var húsnæðismálalöggjöfin 1955 og svo breyt. vinstri stjórnarinnar 1957, og sagði hann, að þá hefðu verið langmerkustu átökin gerð, af því að þá fyrst hefði verið stofnað til sjóðmyndunar. Sjóðmyndunin var sú, að í staðinn fyrir, að í löggjöfinni hét það hið almenna lánakerfi. var það látið heita byggingarsjóður ríkisins. Eignir almenna lánakerfisins urðu eignir byggingarsjóðs ríkisins. Öðruvísi var ekki þessi sjóður stofnaður. Það var ekki stofnfé, sem lagt var þarna af mörkum, þessar 120–130 millj. kr., af vinstri stjórninni, heldur voru það bara eignir almenna veðlánakerfisins, sem sagt var að skyldu verða eignir svokallaðs byggingarsjóðs ríkisins. Hvort mönnum finnst eðlilegra og skemmtilegra að kalla þetta byggingarsjóð ríkisins eða hið almenna veðlánakerfi, eins og það var orðað í löggjöfinni, er auðvitað algert formsatriði, og menn geta haft mismunandi skoðanir á því, en það skiptir í sjálfu sér engu máli í þessu sambandi. Og nú eru, sagði líka hv. 4. þm. Reykn., að bregðast tekjustofnar vinstri stjórnarinnar. Ja, þeir eru þá ekki haldbetri en það. En vegna hvers er stóreignaskatturinn sem tekjustofn að bregðast? Hver á sökina á því? Er það ekki vegna þess, að sú löggjöf hafi frá upphafi verið með þeim vanköntum, að hún standist ekki í framkvæmdinni nema allt öðruvísi en til var stofnað eða ráðgert var af þeim, sem stofnuðu til hennar? Það er þess vegna ágætt að telja sér til gildis 1957 eða 1958 að hafa útvegað byggingarsjóði svo og svo miklar tekjur af stóreignaskatti, en það kemur svo í ljós, að þessar tekjur eru ekki fyrir hendi, m.ö.o., svona er óvisst og illa til stofnað sumra þeirra tekna, sem til þessara mála hafa verið ætlaðar.

Ég vil svo aðeins víkja að einu atriði, sem skiptir í sjálfu sér ekki mjög miklu máli. Hv. 4. landsk. sagði, að ég hefði nefnt till., sem ég hefði flutt 1950 um að taka erlent lán, og aðstaðan hefði verið önnur þá, en hví ég hefði ekki nefnt till. mínar frá 1957. Ja, það var nú ekki af neinu sérstöku. Ég held, að ég hafi margoft á þessum árum frá 1950–57 flutt tillögur um þetta, og það má alveg eins miða við aðstöðuna 1957 að vissu leyti eins og 1950. Þegar ég flutti mína till., var mjög lítið farið að gæta hinna hvimleiðu áhrifa vinstri stjórnarinnar á efnahagslífið í landinu, og greiðslubyrðin á þessu ári, miðað við gjaldeyristekjur þjóðarinnar, mun hafa verið eitthvað 3–4%. sem engum blöskrar. En það, sem hefur skeð frá 1957 einmitt í sambandi við það, hversu eðlilegt eða auðvelt sé að taka slíkt lán, er það, að greiðslubyrðin hefur stöðugt vaxið, upp í 5% 1958 og upp í 9% 1959, á s.l. ári, og er enn þá vaxandi sem afleiðing, af þeim greiðsluhalla, sem vinstri stjórnin stofnaði til.

Ég sagði hvergi í minni fyrri ræðu, að ég væri algerlega á móti því, að tekið væri erlent lán til íbúðabygginga, eins og 4. landsk. vék svo að í sinni ræðu, það sagði ég hvergi. En ég vildi skilgreina, hver eðlismunur væri á að leggja til erlenda lántöku áður, þegar ég hefði gert það, og þeirri aðstöðu, sem væri til þess nú, og vék einnig að möguleikunum á því, sem kynnu að vera fyrir hendi, að hægt væri að fá það erlenda lán, sem ástæða var þó til að ætla áður að hægt væri að fá. Í þessu felst alls ekki neitt af minni hálfu um það, að ég sé því algerlega mótfallinn, ef takast megi að fá eitthvert erlent lán. Og ef málum okkar skipast eitthvað betur í framtíðinni en verið hefur að undanförnu, verður einhverju af því erlenda fé varið til byggingarsjóðs ríkisins, og vil ég taka þetta fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning.

Ég lýk svo máli mínu með því sama sem ég hef áður sagt, að mér er fyllilega ljóst, að hér þarf mikilla úrbóta við og gagngerra, og vissulega hefur núv. hæstv. ríkisstj. tekið á sig skuldbindingar í því efni, eins og vitnað hefur verið til, og verður að ætla, að hún láti það ekki undir höfuð leggjast, en beiti sér einmitt að endurskoðun þessara mála eins og svo margra annarra. En hitt er svo annað mál, að menn verða að gera sér grein fyrir því, að það verður ekki allt gert í einu og hæstv. ríkisstj. hefur haft nokkuð mörgum hnöppum að hneppa að undanförnu. Og það mætti einnig segja mér, að það, hvernig ræðst fram úr með efnahagsmálatillögur hennar, geti verið og sé í sjálfu sér undirstaðan og grundvöllurinn undir því, hvað hægt sé að gera til úrbóta á þessum sviðum eins og svo mörgum öðrum.