17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (2857)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi verið hv. 4. þm. Reykn. (JSk), sem vék hér að því áðan, hverjar væru helztu aðgerðirnar, sem gerðar hefðu verið að undanförnu í húsnæðismálum, og það var alveg rétt, sem hann sagði, það er setning laganna um smáíbúðir, það er setning laganna um veðlánakerfið, og það er setning laganna um byggingarsjóð ríkisins og húsnæðismálastofnunina.

Það má segja, að þarna sé vikizt við þörfum húsnæðismálanna stig af stigi í vaxandi mæli. Það er byrjað með smáíbúðalánum, og fjármagnið til þeirra er síðan látið renna áfram inn í veðlánakerfið og einnig inn í húsnæðismálastofnunina og byggingarsjóðinn. En það dugði ekki, og viðbótin, sem gerð er, þegar veðlánakerfið er sett á laggirnar, er sú, að Landsbankinn, seðlabankadeild hans, fékk þá fyrirmæli um að láta af hendi allmikla upphæð í eitt skipti fyrir öll, og það fé hafði verið tekið út í árslok 1955 og á árinu 1956 og því öllu saman úthlutað fyrir alþingiskosningarnar 1956, og þar með var kassinn tómur, — og þannig var ástandið í húsnæðismálunum, þegar vinstri stjórnin tók við. Það var búið að úthluta öllu þessu fé, sem seðlabankinn hafði þá samkvæmt löggjöf verið látinn láta af hendi til veðlánakerfisins, og á miðju árinu 1956, að afloknum kosningunum, var kassinn tómur. Það var því alveg augljóst mál, að þarna var ekki búið að byggja fyrir neina framtíð, ekki búið að tryggja húsnæðismálunum neitt fé til frambúðar.

Þá var farið að undirbúa löggjöfina um húsnæðismálastofnun ríkisins og byggingarsjóðinn, og í viðbót við það fé, sem fyrir hendi var, var aukið stofnfé til sjóðsins. Lán, sem ríkissjóður hafði áður veitt upp á 32 millj. kr., var t.d. látið falla inn í stofnfé byggingarsjóðsins og þeim megintekjuliðum bætt við, sem ég áðan nefndi, þannig að tekjur húsnæðismálastofnunarinnar hafa verið nálægt 40 millj. kr. á ári núna tvö undanfarin ár.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði áðan, vil ég aðeins minna á hans lokaorð. Þau voru þessi: Hann viðurkenndi, að lítið hefði verið gert að undanförnu í húsnæðismálunum og að mikilla aðgerða væri þörf. Þetta eru tvö meginatriði þessa máls, og ef við erum sammála um þau, sýnist mér ekki annað að gera en snúa sér að því verkefni að bæta þarna úr, og vil ég þá vænta þess, að hæstv. ríkisstj. snúi sér að því verkefni. Þar með væri orðið við efni þessarar till.

Þá fann hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) hvöt hjá sér til þess að fara að bera blak af seðlabankanum í þessum efnum. Það er hvorki á hans færi né nokkurs dauðlegs manns að gera það. Seðlabankinn hefur snúizt smánarlega við hinni brýnu þörf húsnæðisbyggjenda í landinu og að mjög litlu leyti bætt þar úr. Til hans hafa menn snúið sér, af því að það var alveg sjálfsögð leið, en þar hafa mál húsbyggjenda fengið daufar undirtektir, og því miður harma ég það, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur brugðizt vonum mínum í því efni sem einn af stjórnendum seðlabankans. En forustuna fyrir því að synja um þær málaleitanir, sem ríkisstj. hefur snúið sér til seðlabankans með, hefur óneitanlega aðalbankastjórinn, Vilhjálmur Þór, haft, bæði í tíð vinstri stjórnarinnar og nú. Hann á engar þakkir skildar í þessum efnum, heldur er það alveg rétt, að þegar seðlabankinn fer að veita þriggja mánaða lán til húsnæðismála, þá er það til smánar, og er furðulegt, að stjórnendum bankans skuli ekki vera þetta ljóst. Þetta er eins og að draga dár að því fólki, sem í nauðum er statt í húsnæðismálum, og ekkert annað.

Þá segir hv. 3. þm. Norðurl. v., að það sé ósatt mál, að seðlabankinn hafi lagt mikið fé í fjárfestingar, — ég sagði að vísu í miðbænum. Það má vel vera, að hann geti hangið í því, að það sé ekki alveg í miðbænum. En er það ósatt mál, að seðlabankinn standi í kaupum stóreigna hér í miðbænum upp á þau býti að „finansera“ aftur og borga með nýrri byggingu hér inn við Laugaveg?

Ég held, að seðlabankinn hefði fremur getað komizt af án nýbygginga og sóma hans verið miklu betur borgið að snúast betur við beiðnum um lánveitingar til bráðustu úrlausna í íbúðarhúsnæðismálum borgarbúa. Það er a.m.k. mín skoðun. Það getur vel verið, að skoðun hv. 3. þm. Norðurl. v. sé önnur. Ég álit, að seðlabankinn hefði getað sýnt meiri áhuga á þessum málum og snúizt betur þar við og veitt lán til lengri tíma en upp á tekjur stofnunarinnar á sama ári, því að það er sama sem neitun. Að þessu var lotið í minni ráðherratíð, meðan húsnæðismálastofnunin var ekki komin á laggir. Þá var sjóðurinn, eins og ég sagði, í árslok 1956 tekjulaus, enginn peningur til, þörfin aðkallandi. Þá voru þúsundir umsókna óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn, hátt á þriðja þúsund skráðar óafgreiddar umsóknir og neyðin mikil á allan hátt. En undirtektirnar, þegar beðið var um lán í seðlabankanum til lengri tíma, urðu svipaðar og nú, til nokkurra mánaða eða innan árs a.m.k. og upp á vonina í þeirri væntanlegu tekjuöflun, sem þá var verið að undirbúa að lögfesta fyrir húsnæðismálin.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerir allt aðrar og miklu minni kröfur til seðlabankans en ég í því efni, hvað hann geti og hvað honum sé skylt að gera til þess að bæta úr þessum málum. Það er allt og sumt. Ég geri til hans strangari kröfur, og ég held, að geta hans til þess, ef viljann vantar ekki, sé veruleg.

Mér er líka kunnugt um það, að það hefur verið ágreiningur um það milli stjórnenda seðlabankans. hvort hann gæti ekki betur vikizt við málum húsbyggjenda, sem borizt hafa bankanum oft með milligöngu ríkisstj., heldur en gert hefur verið. Og mér er nær að halda, að skoðun þeirra manna, sem þarna vildu betur gera, hafi verið allt eins vel rökstudd og hinna, sem vildu láta sér nægja að segja nei eða aðeins veita lán til húsnæðismála til nokkurra mánaða, eins og um bráðabirgðahengingarvíxil væri að ræða.