17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er vitanlega alveg rétt hjá hæstv. félmrh., að eftirspurnin eftir lánsfé hjá byggingarsjóði hefur verið það mikil, að það hefur verið erfitt að fullnægja öllum þeim óskum, sem þangað hafa borizt. En hitt er líka jafnmikil staðreynd, að ef meiri áhugi hefði verið sýndur í því að útvega honum fjárráð, hefði hann getað fullnægt beiðnum miklu fleiri manna en raun hefur orðið á til þessa, og hjá hæstv. ráðh. kom engin eðlileg skýring á því, að sjóðurinn skyldi ekki hafa fengið meira fé til umráða á s.l. ári en raun ber vitni um og var á þann veg, að útlán sjóðsins drógust stórkostlega saman á árinu. Hæstv. ráðh. færir engin eðlileg eða réttmæt rök fyrir því, að það hefði verið réttara t.d. að verja tekjuafgangi ríkisins í eyðslu en láta hann ganga til byggingarsjóðs, eins og framsóknarmenn gerðu till. um. Ég held einmitt, að þegar menn athuga þessi mál hlutlaust, muni þeir telja, að einmitt það væri betur og réttar farið að verja tekjuafgangi ríkisins yfirleitt til einhverra gagnlegra framkvæmda en setja hann í eyðslu, eins og fyrrv. ríkisstj. gerði, og sú till. framsóknarmanna um að ráðstafa tekjuafganginum á þann hátt var flutt svo snemma á þinginu, að það var vel hægt að fallast á hana, vegna þess að það var ekki búið að gera bindandi ákvarðanir um að láta tekjuafganginn fara í eyðslu, þegar till. þeirra kom fram, því að það var gert í sambandi við afgreiðslu fjárl. eða áður en frá þeim var endanlega gengið.

Hæstv. ráðh. minntist ekki neitt á þær leiðir, sem voru í till. minni í sumar um að afla sjóðnum fjár með útgáfu vísitölubréfa eða með því að láta bankana lána vissa upphæð af sparifjársöfnuninni til byggingarlánanna, sem er ekkert nema eðlileg ráðstöfun. Eins og ég benti á hér áðan, hefði mátt afla 10 millj. kr. lánsfjár á þann hátt, ef ríkisstj. hefði haft nokkurn áhuga fyrir því að auka fjárráð sjóðsins frá því, sem þau urðu. Þetta, sem ég hef nefnt núna, eins og t.d. útgáfa vísitölubréfanna, að bankarnir lánuðu vissan hluta af sparifjáraukningunni til byggingarsjóðsins og ráðstöfun á tekjuafgangi ríkisins, sýnir, að það voru bæði til þessar leiðir og margar fleiri til þess að afla byggingarsjóðnum aukinna fjárráða á s.l. ári. En það, sem á skorti, og það, sem réð því, að þetta var ekki gert, var það, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. hafa ekki haft áhuga fyrir því að hjálpa því fólki, sem hér á um sárast að binda og þarf á lánsfé frá byggingarsjóði að halda. Það er áhuginn, sem hefur vantað, en ekki möguleikarnir, því þótt það sé rétt hjá hæstv. félmrh., að það sé ekki hægt að fullnægja öllum alveg nú á stuttum tíma, Þá er hitt víst, að það er hægt að fullnægja miklu fleiri en gert hefur verið hingað til, ef nægilegur áhugi hefði verið og vilji til þess af hálfu stjórnarvaldanna að gera það. En það er það, sem hefur vantað.

Það er ákaflega gott að heyra loforð hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. um það, að nú ætli hún að fara að gera eitthvert nýtt átak í þessum málum. En það verður þá bara að vera eitthvað meira en sams konar loforð og þessi hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hefur áður gefið, því að hingað til hefur þetta aldrei komizt lengra hjá þessum háu herrum en að vera loforð. Það vantaði ekki, að ríkisstj., sem hann myndaði hér á s.l. ári, lofaði því, að hún skyldi auka fjárráð til byggingarsjóðs og hjálpa þeim, sem lentu í vandræðum vegna íbúðabygginga. En það varð bara ekkert úr þeim loforðum. Þau voru vanefnd. Og við skulum vænta, að það verði þá eitthvað meira úr þessum loforðum nú en nýjar vanefndir, eins og áður hafa átt sér stað hjá þessum herrum.