17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (2879)

20. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Áður en ég vík að þessari till., sem ég hef hér leyft mér að flytja um rannsókn á hafnarstæði við Héraðsflóa, langar mig aðeins til þess að víkja að ávarpi þm. hér í d., þegar þeir eru að tala um þm. Austurlands. Ég hef veitt því athygli, að ávarpið, sem hér er yfirleitt notað, er þm. Austfirðinga, en ég vænti, að hv. alþm. viti það, að kjördæmið heitir Austurlandskjördæmi, og þó að þetta sé kannske ekki mikið atriði, vildi ég gjarnan, að hér festist í máli á hv. Alþ. hið rétta nafn og þegar þm. eru ávarpaðir, þá yrðu þeir nefndir þm. Austurlands.

En hvað snertir þá þáltill., sem hér liggur fyrir, er hún þannig vaxin, að hún þarfnast ekki langrar framsögu. Eins og tekið er fram í hinni stuttu grg., liggur að Héraðsflóa eitt af stærri samfelldu byggðarlögum landsins. En við Héraðsflóann er nú engin höfn. Ekki er því að neita, að þar er líka mjög örðugt til hafnargerðar, og ég mun engan veginn leggja á það dóm, hvort sú rannsókn, sem hér er lagt til að gerð verði, muni leiða í ljós jákvæða niðurstöðu í því efni. En hitt virðist mér, að öll rök mæli með, að þessi rannsókn fari fram og það fáist úr því skorið, hvort möguleikar muni vera á slíkri hafnargerð.

Því verður ekki neitað, að það er eitt af því þýðingarmesta fyrir hvert byggðarlag að eiga sem greiðastan aðgang að höfn. Ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, þó að það sé kannske mál, sem ekki verður á dagskrá alveg nú á næstu árum, að þeir menn, sem trúa á skógrækt hér á landi, og þeir eru margir, telja, að eftir nokkra áratugi verðum við búnir að rækta upp hér það, sem kalla má nytjaskóg. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þessa trú, en ég vil benda á hitt, að ef hún á við rök að styðjast, munu hvergi á landinu vera jafngóð skilyrði til skógræktar og einmitt á Fljótsdalshéraði. En það er þá líka nokkurn veginn augljóst, að þar, sem nytjaskógur vex, sem er eitthvað verulegur að magni, þarf líka helzt að vera sæmilega greiður aðgangur að höfn. Ég vil aðeins minna á þetta til þess að sýna, að það er margt, sem mælir með því, að þessi rannsókn sé látin fara fram.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta. en það hefur verið ákveðin ein umr. um þessa till. Ég vil nú leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.