17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

20. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að víkja hér lítils háttar að því máli, sem hér er til umr., bæði vegna þess, að málið er út af fyrir sig merkilegt, ef til einhverrar úrlausnar kynni að horfa um hafnarbyggingu við Héraðsflóa, og hins vegar tel ég mig það kunnugan málum á þessu svæði, að ég tel mig geta lagt þar lítils háttar orð í belg í þessu efni.

Frá upphafi byggðar Fljótsdalshéraðs munu íbúar þess ætíð hafa fundið sárt til þess, við hve mikla hafnleysu þeir hafa orðið að búa, ekki einungis með tilliti til nauðsynlegra vöruaðdrátta og flutnings framleiðslu sinnar til útflutningshafna, heldur einnig í sambandi við að nota sér það bjargræði, sem sjórinn, Héraðsflóinn, geymir og a.m.k. sérstaklega geymdi, þ.e. fiskinn.

Aðdrættir á verzlunarvöru heimilanna á Fljótsdalshéraði urðu að fara fram á hestum yfir erfiða og torfæra fjallvegi og miklar vegalengdir innan víðlendrar byggðar og síðast, en ekki sízt, yfir fleiri eða færri ár og stórvötnin, ýmist bæði eða annaðhvort, Lagarfljót og Jökulsá í Dal.

Á fyrri öldum munu menn yfirleitt hafa reynt að draga fisk í bú þar um slóðir með því að róa til fiskjar á Héraðsflóa frá Unaósi og Múlahöfn og jafnvel eitthvað frá Keri. Hinir tveir síðastnefndu staðir eru undir fjöllunum vestanvert við Héraðsflóann, en Unaós við Austurfjöll. Þessi útræði munu þó sennilega hafa algerlega verið úr sögunni fyrir miðja s.l. öld, en þó veit ég til þess, að bóndi á Unaósi reri einstaka sinnum til fiskjar um eða eftir 1890. Aðdrættir á kaupstaðarvörum sjóleiðis munu aldrei hafa verið teljandi, enda ekki fýsilegir á litlum, opnum bátum frá hafnleysum og um langan veg opins hafs til verzlunarstaða, eins og t.d. til Vopnafjarðar eða suður á Firði.

Það er vitað, að Héraðsflóinn skarst á fyrri öldum mun lengra inn í landið en nú er. Framburður stórvatnanna. Lagarfljóts og þó einkum Jökulsár í Dal, er gífurlega mikill á hverju ári og hvað þá á öld og öldum. Með þessu móti hefur landið færzt út og sjórinn hörfað að sama skapi. Straumar og hafrót hafa svo tekið við þessum framburði og dreift honum með allri ströndinni, fyrst fyllt upp vík og voga og síðan hlaðið framburðinum nokkuð jafnt upp við ströndina, sem er orðin allbein lína milli fjalla.

Um síðastliðin aldamót eða upp úr þeim reyndu menn að stofna til vöruflutninga um þáverandi Lagarfljótsós, sem nú er ekki lengur til, þar sem fljótið hefur kastað sér út við sanda meira til vesturs og á nú sameiginlegan ós með Jökulsá. Þessi tilraun með vöruflutninga um Lagarfljótsós lagðist strax niður á byrjunarstigi, og bar margt til.

Um svipað leyti munu hafa hafizt vöruflutningar á Ker, sem er gamall lendingarstaður að vestanverðu við Héraðsflóa, og enn fremur við Unaós. sem er við flóann við Austurfjöllin, eins og ég tók fram áðan. Á Unaósi var skömmu eftir síðustu aldamót stofnuð verzlun og byggð verzlunarhús. Komu skip þar stundum við fram um 1910 eða jafnvel eitthvað lengur. En yfirleitt mun meira hafa verið gert af því að flytja vörur þangað á bátum, t.d. frá Seyðisfirði og Borgarfirði. Voru þessir vöruflutningar á Unaós á sínum tíma til mikils hagræðis fyrir Úthéraðsmenn, en til minni nytja vegna vegalengda fyrir Mið- og Upphérað. Vöruflutningar á Ker munu aldrei hafa verið eins þýðingarmiklir og á Unaós, enda ekki þar stofnað til verzlunarstaðar eða vörugeymslna, heldur mun meira hafa verið gert að flytja þangað vörur samkvæmt pöntun og þær svo afhentar í fjöru. Vegna hins mikla framburðar vatnanna til Héraðsflóa og sandkasts sitt á hvað með ströndinni hafa þessir lendingarstaðir, Ker og Unaós, stórspillzt í tíð núlifandi manna og næstu kynslóðar á undan. Hef ég sögn um það frá manni, sem var alllöngu eftir miðja s.l. öld vinnumaður á yzta bæ í Jökulsárhlíð, að áður og jafnvel í hans tíð hefði þar verið lögn fyrir selanætur, þar sem nú er gróið land. Og sjálfur þekki ég, að nú er sandur þar, sem milli 1910 og 1920 10–15 tonna vélbátar lögðust við klappir til affermingar á Unaósi. Fyrir 1930 var svo gerð tilraun með vöruupplag í vík rétt hjá Unaósi, en utar með fjallinu. Heitir sú vík Stapavík. Er hún alldjúp og hreint um hana að fara, en klettum girt, og þurfti að ná vörum úr bátum á víkinni eftir dráttarbraut upp á klettana. Gekk þetta sæmilega í byrjun, og kom t.d. gamli Lagarfoss þangað með vörur utanlands frá, lagðist utan við víkina, og upp úr honum var skipað á bátum og vörurnar svo fluttar upp á fyrrgreinda kletta með drætti. Þetta var erfitt og útbúnaður ekki nógu traustur eða fullkominn, og lagðist því þessi uppskipunaraðferð niður. En dálitlir vöruflutningar fóru fram um Ker fram undir 1940 og enn lengur um Unaós og hafa haldizt þangað, þar til bílvegur var kominn til Borgarfjarðar.

Nær engar athuganir hafa farið fram á hafnarstæði við Héraðsflóa, því þótt um þennan vanda Fljótsdalshéraðs hafi oft verið rætt, hefur öllum kunnugum mönnum þótt tvísýnt, að um reglulega hafnarbyggingu gæti verið þar að ræða. Hinar litlu athuganir, sem fram hafa farið, hafa nær eingöngu verið bundnar við það, hvort hægt væri að laga aðstöðuna við þá lendingarstaði, sem helzt hafa verið notaðir til upplags á vörum fluttum á bátum frá næstu höfnum eða skipað í land á bátum frá skipum, sem legið hafa úti fyrir, og í báðum tilfellunum er aðeins hægt að flytja vörur þar í land, ef sjór er kyrr og landátt.

Einu sinni mun þó hafa farið fram lausleg athugun á hafnaraðstöðu við Unaós. Einhvern tíma á árabilinu 1910–20 gerðu það erlendir menn, sem þá höfðu einhvern áhuga á að vinna járn úr járnauðugum sandi, sem þar er talinn vera í nokkrum mæli. Hef ég ekki haft neinar spurnir af því máli síðan.

Einn er sá staður við Héraðsflóa, sem ekki hefur komið við sögu nema sem svolítil verstöð á fyrri öldum, en það er vík sú, sem nefnd er í grg. með þessari till. og ber nafnið Múlahöfn. Vík þessi er við fjöllin vestan Héraðsflóa, nálægt miðri leið frá Keri, sem áður er nefnt, og Kollumúla, sem er fjallsendinn vestan flóans. Vík þessi gefur skjól í sumum áttum, en er allmikið opin fyrir sunnan- til austanáttar og þó mest fyrir suðaustanátt, því að þá velta sjóar Héraðsflóa mjög óhindraðir inn á víkina. Stærð víkurinnar mun vera nálægt 200 m á breidd og um 200 m á lengd, og er nóg sagt, að eitt lítið skip geti legið þar fyrir akkerum, en nokkrir minni bátar ættu að komast þar fyrir samtímis. En þegar búið væri með garði að loka fyrir ókyrrð frá sjónum í sunnan- til austanáttar og búið að byggja þar bryggjur, væri betri aðstaða fyrir báta og smærri skip þar inni, þar eð hið litla pláss þar mundi notast betur en nú er. Mesta dýpi er talið vera í miðri víkinni, um 5 m. Hvort innsigling er hrein þarna, veit ég ekki, en geri þó ráð fyrir, að hún sé sæmileg. Við víkina er ekkert undirlendi, og rísa fjöllin þar strax sæbrött upp í 500–600 m, en samt ætti að vera hægt að koma þar fyrir vörugeymsluhúsum og íbúðarhúsi fyrir mann, sem annaðist birgðavörzlu og afhendingu vara. Vegalengdin frá Múlahöfn og inn að Keri mun vera um eða yfir 3 km, og liggur leiðin um illfærar skriður með hamraflugum og klettarönum í sjó fram, en um þessa leið yrði að leggja veg frá Múlahöfn inn að flóabotni við Ker. Múlahöfn virðist ekki geta orðið viðkomustaður millilandaskipa. en aðeins báta og smærri strandferðaskipa, og um skilyrði til þorpsmyndunar þar virðist ekki að ræða. Má þakka fyrir, ef hægt er að fá eftirlitsmann til búsetu þar, og menn til afgreiðslu báta eða skipa yrði þá að fá af sveitabæjum langt frá.

Að sjálfsögðu veit ég ekki, hvað vegur frá Múlahöfn inn að Keri muni kosta, en ósennilegt er, að hann yrði ekki yfir 2 millj. kr., og umferð þar að vetrarlagi mundi ýmist eiga yfir höfði sér hættu af grjótflugi, svellalögum eða snjóflóðum. Frá flóabotni taka svo við vegleysur inn að yzta bæ í Jökulsárhlíð, og svo þaðan þarf uppbygging vega, sem eru nú að mestu ruddir sumarvegir. Er vegalengdin milli Kers og Jökulsárbrúar ekki minni en 40 km, og þykir mér ótrúlegt, a.ð ekki þurfi einar 5–6 millj. til að gera þar góða vetrarfæra bílvegi. Taka svo þar við enn 26 km frá Jökulsárbrú að Egilsstöðum, þar sem aðalverzlunarstaður héraðsins er nú og miðstöð þess í flestum greinum. Þennan vegarkafla mundi stórlega þurfa að byggja upp. Virðist mér því, að ef ætti að gera Múlahöfn nothæfa fyrir héraðið, eins langt og hún hrekkur, yrði jafnframt að gera vegi frá henni til Egilsstaða fyrir upphæð, sem mundi nálgast 10–12 millj. kr. Gæti þó þessi vegur aldrei að vetrarlagi gefið öruggt samband við höfnina sökum snjóþyngsla um Úthérað og af fleiri ástæðum. Auk þess yrði þessi höfn ákaflega illa staðsett til afnota fyrir héraðið í heild og mundi aldrei leysa neina þörf Mið- og Upphéraðs vegna vegalengda, ef miðað er hins vegar við Egilsstaði og Reyðarfjörð.

Auk vegalagninga kæmi svo strax til óhjákvæmileg brúargerð yfir ýmsar ár á leiðinni Múlahöfn Egilsstaðir og einnig endurbygging einhverra brúa, sem ekki mundu þola þungavöruflutninga frá Múlahöfn. Get ég vel hugsað mér, að nauðsynlegar brúargerðir mundu kosta nálægt 10 millj. kr. og þannig vegasambandið allt yfir 20 millj., og þar við bætast svo mannvirki í víkinni sjálfri.

Aðalsamband Fljótsdalshéraðs er nú eftir þremur leiðum til sjávar: Frá Borgarfirði, en vegurinn þaðan til Héraðs mun vera nálægt 20 km, og er þá komið til Héraðs nálægt botni flóans við Austurfjöll. Er hér um sumarveg að ræða, en oft snjóléttan fram á vetur. Annars vegar vegur frá Seyðisfirði, nálægt 26 km þaðan til Egilsstaða, og er hér um góða sumarleið að ræða. Í þriðja lagi vegur frá Reyðarfirði til Egilsstaða, nálægt 35 km. Hér er um ágætan sumarveg að ræða og nokkuð langt komið að byggja hann upp sem vetrarveg, enda mikil nauðsyn, þar sem um hann er fluttur mestur hluti alls þungaflutnings frá og til Fljótsdalshéraðs. Í Egilsstaðaþorpi eiga nú verzlanir orðið aðsetur og þar á meðal aðallega Kaupfélag Héraðsbúa, sem hefur þar nú umfangsmikið útibú ásamt frystihúsi og mjólkurbúi og í ráði er, að aðalstöðvar kaupfélagsins verði bráðlega fluttar þangað. Verður Reyðarfjörður þá nokkurs konar upplagsstaður eða hafnarbær fyrir Egilsstaðaþorp, sem liggur sérstaklega vel fyrir öllum viðskiptum um Hérað, bæði sökum þess, hve þorpið liggur miðleiðis í héraðinu, og þaðan liggur vegakerfi í allar áttir.

Ég tel, að staðreyndin sé sú, að við Héraðsflóa séu engin hafnarskilyrði, sem nýtileg eru eða vel eða viðunandi í sveit sett. Að byggja þar höfn fyrir opnu og úfnu hafi ráðum við ekki við, og þótt ekki fengist nema lítið brot árlega af því, sem ég tel, að til slíkra hafnargerða og mannvirkja þyrfti, í viðbót við það fé, sem árlega gengur til umbóta á samgöngukerfi innan héraðsins, þá væri því þannig betur varið að mínum dómi, a.m.k. um næstu framtíð. Og ég tel, að þegar öflug verzlunarmiðstöð með öllum nauðsynlegum mannvirkjum er upp risin í Egilsstaðaþorpi og góður vetrarvegur kominn þaðan til Reyðarfjarðar ásamt vegasambandi til verzlunarstaðanna Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar, þá sé a.m.k. um alllanga framtíð sæmilega séð fyrir þörfum Fljótsdalshéraðs í verzlun og viðskiptum. Og nú þegar er Egilsstaðaþorp orðið miðstöð flugsamgangna eystra, og verður sú samgöngubót að teljast mikilvæg og ekki annars staðar betur niður komin hvað varðar íbúa Fljótsdalshéraðs.

Þrátt fyrir þetta tel ég sjálfsagt, að þessi till.samþ., fyrst hún er fram komin. Rannsóknin er upplýsandi fyrir þá, sem lítt eru kunnir staðháttum við hinn mikla Héraðsflóa, og mun sýna, að við aðra staði verður að styðjast sem upplagshafnir fyrir Hérað og í samgöngumálum verður að hyggja upp og auka vegakerfi það, sem nú er til staðar um héraðið, og einnig til þeirra verzlunarstaða, sem Fljótsdalshéraði er nauðsyn að hafa samband við. Ef þeir, sem halda nú fram hafnargerð við Héraðsflóa, sannfærast um það við fyrirhugaða rannsókn á hafnarstæðum þar, að sú er ekki leiðin til aukinna hagkvæmra samgöngubóta fyrir héraðið, og ganga til liðs við þá, sem leggja áherzlu á sem mestar fjárveitingar til aukinna vegabóta um Fljótsdalshérað og þaðan niður til fjarða, þá tel ég vel.