24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

20. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Halldór Ásgrímsson:

Það eru aðeins örfá orð, herra forseti. Mér skilst á hv. 3. þm. Austf., að hann hafi kveinkað sér svolítið að óþörfu undan þeim upplýsingum, sem ég gaf um þetta mál. Hann vill láta í það skína í þeirri ræðu, sem hann hélt nú, að þær upplýsingar, sem ég gaf um Múlahöfn, stönguðust nokkuð á við þær heimildir, sem hann hefði um málið, og vitnaði þar í skrif Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi. Ég get ekki gert að því, þó að eitthvað stangist hér á. Ég held, að Benedikt hafi haft sínar heimildir frá Ólavíusi hinum íslenzka á 18. öld, og það er ekki hans sök, Benedikts, þó að þar sé nokkuð lauslega skýrt frá málum. Ég ætla að hugga hv. 3. þm. Austf. og hv. d. með því, að mínar heimildir eru frá vitamálastjórninni. Ég kastaði engum höndum að því, fyrst ég hafði ekki sjálfur nógan kunnugleika um Múlahöfn, að leita mér upplýsinga, og þær eru frá vitamálastjórninni, og verður hver einn að dæma, hvort líklegra sé að sé nærri staðreyndum, það, sem stendur í Þessari bók Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, eða umsögn vitamálaskrifstofunnar.

Að öðru leyti ætla ég ekki að svara hv. ræðumanni, það er ástæðulaust. Það er engin mótsögn í því, þó að það kæmi fram í ræðu minni óbeint, síðast þegar þetta mál var til meðferðar, þó að niðurstaða mín væri nokkur vantrú á, að þetta mál yrði raunhæft, en ég tók það fram, og það er rétt eftir haft, en slitið samt úr samhengi að ég taldi þrátt fyrir það, fyrst þessi till. er komin fram, sem ég dreg enga dul á að er mikið lituð af óraunhæfri óskhyggju og nokkuð fjarri þeim staðreyndum, sem vitað er að eru til staðar í málinu, þá tók ég það fram, að ég tel alveg sjálfsagt, að þáltill. verði samþ., svo að hv. 3. þm. Austf. fái að vita það eftir réttri boðleið, sem hann virðist ekki vita nú, þó að hann sé búinn að vera á Héraði í mörg ár, að þetta er ekki leiðin til þess að bæta samgöngur á Héraði. Í framsöguræðu sinni, þegar þetta mál var áður til umr., var hans rökstuðningur sá sérstaklega, að á Héraði væri að vaxa upp skógur, sem allir vita að er Hallormsstaðarskógur. Menn vonast eftir því, að sá skógur blómgist og þroskist og gefi á sínum tíma og sem fyrst af sér nytjavið, þar vaxi upp nytjaskógur. Og þá átti það að lýsa þörfinni á að koma upp höfn, t.d. í Múlahöfn eða annars staðar við Héraðsflóa, að koma þyrfti þeim nytjatrjám til sjávar. En það er nú að seilast nokkuð langt, ef það er atriði að flytja trén til sjávar úr Hallormsstaðarskógi miklu lengri leið og erfiðari en niður til Reyðarfjarðar. Ég aðeins minnist á þetta að gefnu tilefni, þar sem hv. 3. þm. Austf taldi ástæðu til þess að fara að fjölyrða um mína ræðu, sem ekki snerist neitt gegn framgangi þáltill., en gaf eftir atvikum sanna og samvizkusamlega lýsingu á staðháttum þarna.