15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

88. mál, söluskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var ákaflega ánægjulegt að hlusta hér áðan á hv. 3. þm. Austf. (EinS). Það er svo nýtt fyrir okkur hér í d. að hafa nokkurn mann, sem hefur trú á þessum ráðstöfunum ríkisstj. Það hefur gengið sú saga hér í þinginu, að utan tveggja ráðh. væri það einn einasti óbreyttur þm., sem hefði nokkra trú á þessum ráðstöfunum, það væri hv. 6. landsk. (BK), svo að nú virðast þó vera tveir þm. hér í deildinni hjá okkur, sem hafa trú á þessum ráðstöfunum. ( Gripið fram í: Það eru fleiri. ) En það var líka ákaflega gaman að fá allt í einu einn lifandi kapítalista hér inn með allan sinn boðskap, — þetta var eins og maður sæi risaeðlu frá fornöld allt í einu koma hér, — að heyra þennan boðskap fluttan af svona miklum krafti og trú á þetta allt saman. Hann virtist hins vegar vera alveg sammála okkur stjórnarandstæðingum um það, að söluskatturinn, sem hér væri til umræðu, væri gersamlega óverjandi, enda kom hv. 3. þm. Austf. ekki einu orði að söluskattinum, og það var mjög rétt af honum, því að það er ekki hægt að eyða einu orði að því að verja hann fyrir þá, sem neyðast nú annars til þess að standa með stjórninni.

Hv. 3. þm. Austf. byrjaði með því að tala um töluna 200, 200 millj. kr., og að við hefðum lifað um efni fram, af því að við hefðum safnað skuldum. Má ég nú spyrja hv. 3. þm. Austf.: Finnst honum það endilega þurfa að vera að lifa um efni fram að safna skuldum? Geta menn ekki vel safnað skuldum og orðið ríkir samt? Íslenzka þjóðin hefur undanfarið haft þann hátt á, að hún hefur safnað nokkrum skuldum. Meginið af þeim skuldum hefur hún sett í mjög gagnleg fyrirtæki og það sérstaklega fyrirtæki í sjávarútveginum. Það hefur að vísu verið sumt sett í ýmislegt annað. En það held ég, að hv. 3. þm. Austf. alveg sérstaklega kannist þó við, að geti maður slegið sér lán og setji lánið inn í sjávarútveginn, þá er það gott fyrir þann, sem það gerir. Og þegar íslenzk þjóð hefur slegið sér lán erlendis og sett það í skip og hraðfrystihús, þá hefur hún breytt mjög rétt, svo að ég held, að þegar hv. 3. þm. Austf. fer að athuga þetta niður í kjölinn, þá hljóti hann að vera okkur sammála um, að þegar við höfum tekið lán erlendis og sett það í sjávarútveginn, þá hefur það verið mjög skynsamleg ráðstöfun og öðruvísi mundi hann ekki hafa farið að sjálfur, ef hann hefði átt völ á því að taka lán erlendis og ekki getað fengið lán hér heima. Mundi honum nokkurn tíma detta í hug að halda því fram, að hann lifði um efni fram, þó að hann tæki lán hér hjá bönkunum og setti það í hraðfrystihús eða togara eða báta? Ekki mundi honum detta í hug að álíta, að það væri að lifa um efni fram, heldur þvert á móti. Hann mundi álíta, að hann væri að gera mjög skynsamlega ráðstöfun, ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur líka fyrir sína þjóð. Og ef hann álítur það, þá er hann alveg sammála okkur, stjórnarandstöðunni, og alveg á móti ríkisstjórninni.

Svo sagði hv. 3. þm. Austf., að það kæmi að því, að nú yrðu menn að fara að borga þessar skuldir. Ég segi nú ekki, að þær séu allar saman fallnar í gjalddaga. Og stendur hann ekki sjálfur í því stundum að eiga skuldir og ganga jafnvel út frá því að verða einhvern tíma að borga þær? En ef hann hefur sett lánin í hraðfrystihús og togara og skip, finnst honum hann þá ekki standa undir skuldunum og geta borgað þær, þegar þar að kemur? Og sama hefur þjóðin gert. Ég held, að það sé engu að kvíða, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það eina, sem hann hefur að kvíða og þjóðin, það er, að það kæmu einhver svo vitlaus stjórnarvöld, að þau færu að ganga að þeim mönnum, sem hefðu sett sina peninga í sjávarútveginn, þó að þeir ættu nægar eignir, eða svo vitlaus stjórnarvöld, sem stöðvuðu sjávarútveginn og hindruðu þróun hans og framfarir og gerðu þjóðinni þannig ómögulegt að afla þess fjár, sem hún þarf til þess að borga skuldir sínar.

Hv. 3. þm. Austf. var eitthvað argur út í Framsókn. Hún getur svarað fyrir sig hér. En hann var í sambandi við það að tala um, að hann hefði haft einhver hryggileg dæmi um, að Framsfl. hefði einhvern tíma í sinni sögu ætlað að leggja allt í rúst, leggja atvinnuvegi í rúst, og stundum hefði allt verið stöðvað í miðjum klíðum. Má ég spyrja: Hvað er það, sem verið er að gera núna? Mér fannst hann bara vera að gefa lýsingu á því, sem ríkisstjórnin væri að gera í dag. Ætli það séu ekki nokkuð margir atvinnurekendur, sem standa frammi fyrir því nú, að það eigi að stöðva hjá þeim í miðjum klíðum? Og hefur ekki jafnvel hv. 3. þm. Austf, fengið að kenna á því líka? Hvað skyldu þeir hugsa í Vestmannaeyjum núna, af því að það er góður afli, og hérna jafnvel við Faxaflóa líka eða norður á Snæfellsnesi? Ætli það sé ekki þannig með nokkuð marga útgerðarmennina núna, að þeir séu hræddir um, að allt verði stöðvað í miðjum klíðum, enda heyrðist mér á honum sjálfum, að hljóðið út í meirihlutastjórnina á Seðlabankanum að undirlagi ríkisstj. væri ekki rétt gott. Hann var að tala um einhverja menn, sem hefðu farið á hausinn fyrir 20–30 árum. En hvernig skyldi það vera, ef það yrði farið að praktísera að framkvæma þá pólitík, sem ríkisstj, hefur heimtað núna og er að láta Seðlabankann framkvæma gagnvart ýmsum fyrirtækjum á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum, í Reykjavík? Hvernig skyldi fara fyrir þeim — og það jafnvel fyrirtækjum, sem ýmsir af stjórnarstuðningsmönnunum hér í þessari deild þekkja? Er þessi stefna, sem ríkisstj. hefur tekið upp, ekki bara beinlínis að stöðva þetta allt saman í miðjum kliðum, setja þessi fyrirtæki á hausinn? Það þarf kannske ekki að leita langt aftur í tímann.

Hv. 3. þm. Austf. var að veitast að vinstri stjórninni eitthvað í sambandi við, hvort réttir menn hefðu aðgang að bönkunum. Hafa kapítalistarnir hér á Íslandi þurft að kvarta nokkuð sérstaklega yfir því á undanförnum árum, að þeir hafi ekki haft aðgang að bönkunum? Hefur það ekki yfirleitt verið þó stefnan á undanförnum árum, ekki bara hjá vinstri stjórninni, heldur líka þar áður, að láta þá menn, sem eitthvað vildu gera til þess að auka atvinnulíf þjóðarinnar, fá aðgang að bönkunum? Er það ekki ný stefna, sem er verið að taka upp núna, að banna öllum þeim mönnum, sem koma nærri atvinnurekstri, að hafa aðgang að bönkunum, að loka bönkunum fyrir þeim? Það er sú stefna, sem sú ríkisstjórn, sem hann styður, er að taka upp. Ég held, að það hafi bæði réttir og rangir menn haft aðgang að bönkunum undanfarið, þeir hafi látíð sína sól skína yfir réttláta og rangláta, eins og þar stendur.

Yfirleitt hefur það verið pólitík á Íslandi um langt, langt skeið, að menn reyndu að hjálpast að við það að efla atvinnutækin, auka atvinnulífið. Það hefur verið mismunandi mikið frjálslyndi, mismunandi þröngsýnt um það, en heildarstefnan hefur a.m.k. síðustu 20 árin verið sú. Það er fyrst núna, sem ný bankapólitík er tekin upp. Hún hefur aldrei þekkzt á Íslandi áður.

Þá talaði hv. 3. þm. Austf. um yfirbygginguna í þjóðfélaginu, hún væri svo voðaleg og þar þyrfti að spara. Það var gott, að hann skyldi koma inn á það, áður en fjárlögin eru afgreidd. Þar er nefnilega aldeilis tækifæri fyrir hann. Það hafa verið hér smátill., sem stundum hefur verið reynt að fá í gegn á undanförnum árum, eins og t.d. að sameina sendiráðin á Norðurlöndum, leggja þau niður í nokkrum höfuðborgum og hafa bara eitt sendiráð í París og annað þess háttar. Vonandi kemur hann nú vitinu fyrir ríkisstj., að þessi yfirbygging hjá henni á þessu öllu saman sé of mikil. Nú hefur hann tækifæri til þess að skera þessa yfirbyggingu niður. Nú hefur hann valdið. Þessi ríkisstjórn er ekkert sérstaklega sterk hér á Alþingi. Þetta er ekki svo mikill meiri hluti, að ef voldugir, duglegir, nýir menn, sem hér koma inn, segja við hana: Nú verður þú að fara að passa þig, annars snýst ég á móti þér, — þá er vissara fyrir svona ríkisstjórn að hafa sig hæga.

Ég sé hins vegar, að hann virðist hafa þá trú enn þá, að þetta, sem honum finnst svona bragðvont, eins og hann sagði, þetta, sem ríkisstj. væri að gefa honum inn sem sjúklingi, eins og atvinnurekendunum, það væru lyf, og sjúklingur verði oft að sætta sig við það, að lyfin séu bragðvond. Það er bara miklu verra en það. Þetta er ekkert lyf, sem verið er að gefa sjúklingi. Þetta er eitur, sem verið er að gefa heilbrigðum manni. Það er það, sem er að gerast. Og það er það, sem er það hættulega. Þess vegna er um að gera fyrir heilbrigða menn, sem vilja auka atvinnureksturinn á Íslandi, að láta ekki troða þessu eitri niður í sig undir því yfirskini, að þetta séu lyf, því að þeir mundu bara drepast af því. Og hann er sjálfur farinn að finna fyrir því nú þegar, að það liggur við, að það sé verið að kyrkja atvinnureksturinn, enda heyrði ég það á lokum hans kafla, að hann setti eiginlega alla trú sína á guð og gæfuna að forða sér frá þessari ríkisstjórn.

Svo kom hv. 3. þm. Austf. inn á það, að hann vildi burt með öll afskipti ríkisvaldsins. Er þetta nú ekki ofmælt? Mér skildist á öðrum kafla í ræðunni, að hv. 3. þm. Austf. væri nú á því, að Seðlabankinn og bankarnir ættu að lána atvinnurekstrinum, m.ö.o.: ríkið ætti að skipta sér af atvinnurekstrinum á þann hátt að lána honum fé. Það er alveg rétt. Þetta á ríkið að gera, fyrst og fremst vegna þess, að þó að til kunni að vera einstakir ríkir menn á Íslandi, þá er yfirleitt svo lítið einkafjármagn til á Íslandi, að það er ekki hægt að reka neinn atvinnurekstur á Íslandi, sem heitir, fyrir þetta. Við höfum þessa hálfa öld orðið að hafa þann hátt á að lána okkar ágætu kapítalistum allt það fé, svo að þeir gætu haft einhvern einstaklingsrekstur hér við hliðina á samvinnurekstri og ríkisrekstri og bæjarrekstri og öðru slíku, sem við höfum komið upp til að bjarga okkur. Þeir hafa farið misjafnlega með þetta, sumir hafa farið á hausinn, og aðrir hafa orðið ríkir. En ríkið hefur oft tapað á þessu. Ríkið hefur samt ekki hætt þessum afskiptum, og ég held það sé alls ekki meiningin, hvorki hjá honum né okkur, að við eigum að láta ríkið hætta þessum afskiptum. Ég held, að ríkið eigi að halda áfram að lána þeim, lána þeim ekki með 12%, heldur með lægri vöxtum, skera ekki niður lánin við þá, hvorki rekstrarlánin né stofnlánin. Og það er satt að segja ákaflega hart, að þessir menn, sem oft eru kallaðir ótætis kommúnistar, skuli þurfa að vera að slást fyrir því hér á Íslandi, að kapítalistunum sé lánað fé með sæmilegum kjörum. Það er sérstaklega hart, þegar hákapítalistískur flokkur er við völd, að þeir skuli ekki geta fengið hann til þess að breyta af nokkurn veginn skynsemi í venjulegum efnahagsmálum. Auðvitað er þetta ekkert nýtt. Við höfum áður orðið að berja það í gegn hér, — og ég veit, að hv. 3. þm. Austf. var því mikið fylgjandi þá, — við höfum áður orðið að berja það í gegn hér á þinginu að knýja bankavaldið til þess að lána bæði honum og fleiri góðum mönnum stofnlán með 21/2 % vöxtum. Og hann kvartaði yfir því, að sig vantaði slík stofnlán núna, minnist gamalla, góðra tíma, þegar hægt var að byggja skip fyrir slík stofnlán, sem búin eru að vera í rekstri ein 10 ár síðan og lengur. Ég held þess vegna, að hann eigi ekki að vera alveg svona prinsipfastur viðvíkjandi afskiptum ríkisvaldsins. Ég held þvert á móti, að hann mundi nú í hjarta sínu óska eftir heldur meiri afskiptum ríkisvaldsins til að hjálpa til við útveginn, að koma honum upp.

Það er engum efa bundið, að án þess að ríkisvaldið íslenzka hjálpi til, þá mundi verða ákaflega lítið úr þessu svokallaða einstaklingsframtaki. Það er alveg misskilningur hjá hv. 3. þm. Austf., að það væri eitthvað verið að smámurka úr atvinnurekendunum lífið. Það er ákaflega langt frá því, að það hafi verið stefnan á undanförnum árum. Ég hef jafnvel heyrt menn úr hans flokki kvarta yfir því, að það hefði ekki nokkur maður verið gerður gjaldþrota nú í háa herrans tíð. Menn hafa sem sé ekki verið að skera þá niður. Ég held jafnvel þvert á móti, að bankarnir hafi haft þá stefnu að lána mönnum og lána, þegar þeir sáu, að þeir voru að koma upp fyrirtækjum og reka þau sæmilega. Ég held, að ríkisvaldið hafi einmitt verið að setja fæturna undir atvinnurekendur hér á Íslandi. Ég hef sjálfur orðið að berjast fyrir því að tryggja atvinnurekendum 75% stofnlán, til þess að þeir gætu keypt sér togara, komið upp hraðfrystihúsum og öðru slíku, sem sé, ef þeir ættu 25% sjálfir, þá gætu þeir fengið hitt hjá ríkinu og það jafnvel til 15–20 ára með 21/2 % vöxtum.

Ég held, að það sé svo fjarri því, að lífið hafi verið murkað úr atvinnurekendunum, — ég held, þvert á móti, að þeim hafi verið haldið lifandi, að það hafi verið settir undir þá fæturnir, og ég er ákaflega hræddur um, að ef ríkið sleppir af þeim takinu, þá séu þeir komnir á hausinn um leið. Og mér sýnist, að einmitt núverandi pólitík, sem hæstv, ríkisstj. er að taka upp, stefni beinlínis að því. Mér er spurn: Hve lengi halda atvinnurekendur út þetta ástand, sem nú er að skapast hér á Íslandi? Menn geta verið ríkir, menn geta átt eignir, skuldlausar eignir, jafnvel upp á margar millj., en menn geta staðið uppi veltufjárlausir með því skipulagi, sem nú er verið að taka upp á Íslandi, geta ekki staðið í skilum með nokkurn skapaðan hlut, og ef hart er gengið að, er látið bjóða upp eignir, sem eru margra milljóna virði, en enginn maður getur keypt. Það er hægt með þeirri stefnu, sem nú er verið að koma á á Íslandi, að setja hvaða mann á hausinn sem vera skal. Og ríkisstj. getur ráðið sjálf, hverja hún vill láta setja á hausinn. Þá væri ekki lengur verið að murka lífið úr mönnum, en næstum því verið að höggva niður, líklega þannig helzt, að það væru mörg söx á sama hálsi, svo að það gengi fljótar. Það er pólitíkin, sem núv. ríkisstj. er að finna upp. Og ég skil ákaflega vel, að manni, sem er eins mikið inni í atvinnulífinu og þekkir þess þarfir eins og hv. 3. þm. Austf., lízt ekkert á.

Hann talaði um einkaframtak hér í gamla daga. Hvernig fór með þetta einkaframtak í gamla daga? Það fór, a.m.k. meginið af því, á hausinn hjálparlaust. Ég skal ekkert segja um einstök dæmi, sem hann nefnir. Það getur hann deilt um við Framsókn. En það, sem ég þekki til sérstaklega, þá áttu hin stærstu fyrirtæki, voldugustu fyrirtækin, fyrirtækin, sem voru ríkustu fyrirtækin, — við skulum bara taka fyrirtæki eins og Kveldúlf og Alliance 1929, þegar þau hafa milli 80 og 90% af öllum saltfiskútflutningnum á Íslandi, — hvar voru þessi fyrirtæki eftir 5 ár, eftir 3 ár, frá 1929? Voru það nokkuð aðgerðir ríkisins, sem voru að setja þau á hausinn? Það var þeirra eigið kapítalíska skipulag, það var þeirra eigin kreppa, þannig að það varð að hlaupa til og biðja um afskipti ríkisvaldsins, til þess að þau færu ekki á hausinn og til þess að þau settu ekki Landsbankann á hausinn og Landsbankinn þjóðfélagið. Nei, kapítalistarnir okkar hér á Íslandi hafa svei mér farið á hausinn hjálparlaust, ef ríkisvaldið hefur sleppt af þeim hendinni eitt augnablik. Og hvað er það, sem er að gerast núna? Mér liggur næstum því við að segja, að ríkisvaldið sé að hjálpa þeim til að fara á hausinn, ýta þeim á hausinn með þeim vitlausu ráðstöfunum, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að taka upp. Ég heyrði á hv. 3. þm. Austf., að þetta var það, sem honum fannst undir niðri. Þegar kom fram í ræðuna, var það ekki traustíð á ríkisstjórninni og hennar ráðstöfunum og efnahagsráðstöfunum, sem var ríkast hjá honum. Nei, það var hitt: gæftir og góður afli. Það var það, sem hann fór að vona sem sá fiskimaður, sem hann er. En gæftir og góður afli, — hvað mundu gæftir og góður afli þýða fyrir okkur núna? Jú, við skulum segja það, að við fáum gæftir og góðan afla og við fáum mikinn, mikinn fisk í land, við förum að verka þetta hér í hraðfrystihúsunum og við höfum mikinn, mikinn fisk. Hvernig verður svo, þegar við ætlum að fara að borga sjómönnunum og verkamönnunum og stúlkunum, sem vinna við þetta? Ef við fáum mikinn afla og góðar gæftir, þá þýðir það meiri fisk. Það þýðir, að við þurfum að borga meiri peninga í vinnulaun, meiri peninga til sjómannanna, meiri peninga til útgerðarmannanna, og hvað segir þá Seðlabankinn? Hann segir: Það má ekki auka útlánin, ekki um nokkurn eyri. Það má ekki láta útvegsmennina og hraðfrystihúseigendurna fá peninga til þess að borga fólkinu út. Ríkisstj. fyrirskipar, að það skuli draga úr lánunum. Ef guð gefur góðan afla, eins og hv. 3. þm. Austf. var að biðja um, þá ætlar ríkisstj. að stöðva það, að hægt sé að hagnýta hann. Þetta er pólitíkin, þetta eru efnahagsaðgerðirnar — með þessari ídiótísku bankapólitík, sem nú er verið að taka upp.

Það er eins og hver önnur vitleysa að ætla að láta lánsfjármagnið vera það, sem ræður í slíkum efnum, þegar við erum þar að auki að framleiða vöru, sem öll er útflutningsvara, sem öll er gjaldeyrir. Maður hefur svo sem heyrt þessa sérfræðinga ríkisstjórnarinnar vera að segja við útvegsmenn og hraðfrystihúsin undanfarið: Þó að við stöðvum þetta nú hér heima, þó að þið fáið ekki lán til þess að borga verkafólkinu, til að borga sjómönnunum, til að borga útgerðarmönnunum, þá skuluð þið bara reyna að slá það út í Ameríku, slá út vörulán út á fiskinn vestanhafs. — Það er efnahagspólitík að tarna. Og takist ekki að slá út lán þar, þá á líklega bara að stöðva reksturinn eða kannske að fara að reka atvinnureksturinn á Íslandi með því, sem einu sinni þekktist á vissum stöðum á landinu, að atvinnurekendurnir geti ekki borgað verkamönnum launin, reka hann með þeim lögbrotum að geta ekki borgað út í vikulokin. Og það ætti þá kannske að fara að telja það ósvinnu hjá verkalýðssamtökunum, að þau héldu við þau lög, sem hér var þó komið í gegn í lok 19. aldarinnar, að menn ættu að fá laun sín borguð í peningum, og að vegna vitlausrar pólitíkur hjá meiri hluta seðlabankastjórnarinnar að undirlagi ríkisstj, væri því velt yfir á verkalýðinn að eiga að fara að sjá auðmönnunum á Íslandi fyrir lánsfé, af því að seðlabankastjórnin og ríkisstjórnin vildi ekki láta eðlilegt lánsfé til handa útveginum á Íslandi. Með þessu er verið að reka svo vitlausa pólitík sem hægt er að hugsa sér.

Og hv. 3. þm. Austf. varð því gagnrýnni á ríkisstjórnina, því lengra sem hann komst í ræðu sinni, eins og skiljanlegt er. Hann sagði, að það væri engin stofnlán að fá. Það er alveg rétt. Það var eitthvað öðruvísi 1945. Það var stofnlán að fá þá, en það kostaði líka baráttu, baráttu við bankavaldið, að knýja það í gegn, langa töf í samningum við Sjálfstfl. að knýja það fram. Það er alveg jafnt hægt að knýja fram stofnlán nú eins og þá, ef menn láta ekki bara menn, sem ekkert þekkja inn á nauðsyn íslenzks atvinnulífs, ráða ferðinni.

Ég skal segja hv. 3. þm. Austf., hvert er verið að stefna með þessum aðgerðum. Hann skal ekki gera sér í hugarlund, að þetta sé nein lækningaaðferð. Það er verið að stefna að því að kyrkja útflutningsframleiðsluna íslenzku. Það er verið að stefna að því að draga úr eflingu sjávarútvegsins, stöðva eflingu sjávarútvegsins, vegna þess að sjávarútvegurinn er grundvöllurinn að efnahagslegu sjálfstæði Íslands. Og það passar ekki fyrir þá, sem vilja innlima Ísland í kreppukerfi kapítalismans í Vestur-Evrópu, að eiga sterkan sjávarútveg. Hins vegar tók ég eftir því, að hv. þm. hafði fyrst og fremst trú á þessu. Ég skildi það þannig, að honum virtist mjög erfitt að hafa nokkurn skilning á því. Það er ákaflega skiljanlegt, því að það er engin heil brú í þessum efnahagsráðstöfunum. Ef menn ætla að fylgja þeim, verða menn að trúa, en ekki skilja, það er ekki hægt. Ég er hræddur um, að ef hann á eftir að sitja dálítinn tíma hér í þinginu hjá okkur enn þá, þá fari þessi trú hans dagminnkandi, og af því að hann hefur til að bera nokkurn skilning á íslenzku atvinnulífi, þá gæti ég bezt trúað, að það endaði með því, að hann snerist á móti ríkisstjórninni, ef hann verður hér lengi áfram.