27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það, sem mér finnst einna lakast við afgreiðslu hv. fjvn. á þessari till. til þál. um öflun lánsfjár til Strákavegarins, er að Múlaveginum skuli hafa verið blandað hér saman við. Þeir, sem hafa sérstakan áhuga á Múlaveginum, sem er út af fyrir sig nauðsynleg vegarframkvæmd, hefðu fremur átt að flytja sérstaka þáltill, að mínum dómi en gera brtt. við till. um Strákaveginn. Hinn fyrirhugaði Strákavegur er um margt sérstæð vegarframkvæmd, sem ekki á sér hliðstæður. Í fyrsta lagi eru hin ráðgerðu jarðgöng mjög dýr áfangi, sem verður að vinna á einu ári. Er nauðsynlegt að taka lán í því skyni, þar sem hér er um margfalt dýrari framkvæmd að ræða en svo, að unnt sé að veita það framlag á fjárlögum eins árs. Í öðru lagi eru líkur til. að Siglufjarðarbær og e.t.v. sveitarfélög í Skagafjarðarsýslu vilji taka að sér greiðslu vaxta af láninu að mestu eða öllu leyti. Í þriðja lagi er sú hugmynd á döfinni, að fjár til greiðslu vaxtanna verði aflað með vegartolli.

Sá mikli skilsmunur, sem er á Strákaveginum með tilheyrandi jarðgöngum annars vegar og flestum öðrum vegaframkvæmdum hins vegar, er m.a. staðfestur með frv., sem fyrir nokkru var lagt fram í Ed., þar sem lagt var til, að kostnaður við gerð jarðganga lengri en 35 m yrði greiddur úr brúasjóði. Þetta sýnir aukinn skilning á því, að jarðgöng verða ekki kostuð af venjulegum fjárframlögum til vega, heldur þurfi þar sérstakrar tekjuöflunar við. Annað mál er svo það, hvort brúasjóður sé því hlutverki vaxinn að standa undir þeim kostnaði. Væri að líkindum bezt að stofna sérstakan sjóð til þess að kosta framkvæmdir við jarðgöng í líkingu við brúasjóð.

Ég get fallizt á það með hv. fjvn., að rétt sé að láta gera sem fyrst framkvæmdaáætlun um lagningu vegarins fyrir Stráka, enda þótt sú áætlun muni sennilega að mestu tilbúin hjá vegamálastjóra, svo sem komið hefur fram, þó að hins vegar séu menn misjafnlega ánægðir með þá áætlun. Þrátt fyrir þetta hefði þó ekki þurft að mínum dómi að fella niður úr till. ákvæðin um að athuga lánsfjármöguleika. Æskilegast hefði verið, að aftan við ákvæði till. um að skora á ríkisstj. að láta gera framkvæmdaáætlun um lagningu vegar fyrir Stráka með það fyrir augum að ljúka vegargerðinni svo fljótt sem auðið er hefði bætzt ákvæði um að athuga að því loknu möguleika á öflun nægilega mikils lánsfjár til að ljúka verkinu að fullu.

Þó að ég sé þannig ekki ánægður með till., eins og hún kemur frá hv. fjvn., mun ég samt greiða henni atkv., úr því sem komið er. Áherzluna ber að leggja á, að gerð framkvæmdaáætlunar verði hraðað. Þegar henni er lokið, kemur málið væntanlega aftur til kasta Alþ. Kæmi þá vel til greina að bera fram frv. um, að vegurinn yrði gerður í samræmi við áætlunina með ákvæðum um lántökuheimild og vegartoll.